Mánudagur 19.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Hagsmunaskráning (alþingismanna) og vanhæfi (50. gr.)

Í 50. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er nýmæli sem varðar það sem í lögfræði er nefnt

  • sérstakt hæfi til þess að taka ákvörðun um mál og
  • almennt (neikvætt) hæfi til þess að gegna tilteknu hlutverki.

 

Fyrri málsgrein 50. gr. lýtur beint að sérstöku hæfi alþingismanns og síðari málsgreinin tengist almennu (neikvæðu) hæfi hans til þess að gegna þingmennsku en ákvæðið hljóðar svo:

Alþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. Um hæfi þingmanna skal mælt fyrir í lögum. Vanhæfi þingmanns hefur ekki áhrif á gildi settra laga.

Í lögum skal kveðið á um skyldu alþingismanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

Engar skráðar stjórnarskrárreglur um vanhæfi

Í gildandi stjórnarskrá eru engar hæfisreglur á stjórnskipunarstigi, þ.e.a.s. sem gilda um æðstu handhafa hinna ýmsu þátta ríkisvalds. Óskráðar reglur kunna að felast í skráðum og óskráðum reglum um jafnræði og málefnalegar forsendur þó að ekki hafi reynt að það svo vitað sé til. Þá geta fordæmi falið í sér vísbendingar um hæfi þingmanna til þess að taka þátt í meðferð máls eins og ég hef tjáð mig um hér.

Slíkar reglur má hins vegar í einstaka tilvikum finna í almennum lögum frá Alþingi.

Sérstakt hæfi þingmanna

Auk hæfisreglna réttarfarslaga, sem gilda vitaskuld um hæstaréttardómara sem aðra dómara, er í þingskaparlögum t.d. að finna eitt ákvæði sem fjallar um stjórnskipulegt vanhæfi þingmanns en þar segir:

Enginn þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs síns.

Í þessu lagaákvæði er ekki langt gengið að mínu mati og auk þess er væntanlega fátítt að á þetta reyni. Ekkert er – samkvæmt þessu – í settum lögum sem hindrar þingmann í að eiga þátt í – og jafnvel frumkvæði að – löggjöf sem varðar verulega og jafnvel sérstaka hagsmuni hans. Ég tel að finna megi dæmi um slíkt í nýrri stjórnskipunar- og stjórnmálasögu Íslands. Nýmælið í 1. mgr. 50. gr. frumvarpsins er því mikilvægt en þar er þingmanni bannað að „taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna.“ Um hæfisreglur stjórnsýsluréttar er til þykk og góð doktorsritgerð eftir Pál Hreinsson sem styðjast má við til hliðsjónar.

Löggjafanum er falið að útfæra þetta nánar.

Réttaráhrif vanhæfis

Í því skyni að skapa ekki stjórnskipuleg álitamál og til þess að réttarstaða borgaranna sé ljós í slíkum tilvikum er þó tekið fram að vanhæfi þingmanns – ef út af er brugðið – hafi ekki áhrif á gildi settra laga. Ekki er hins vegar útilokað að vanhæfi hafi áhrif á aðrar ákvarðanir Alþingis en lög, t.d. fjárveitingar eða annað sem Alþingi hefur ákvörðunarvald um – án þess að þær ákvarðanir eða samþykktir teljist til almennra laga.

Almennt vanhæfi

Ekki er gengið svo langt að kveða í stjórnarskrárfrumvarpinu á um almennar efnisreglur um hæfi þingmanna – hvorki jákvætt né neikvætt hæfi; jákvætt almennt hæfi lýtur að því hvaða kostum maður þarf að vera búinn til þess að gegna tilteknu hlutverki (t.d. að vera löglærður) eða hvaða atriði mega ekki eiga við um hann (t.d. að mega ekki hafa með höndum önnur fjárhagsleg störf). Talið er eðlilegt að kjósendur meti þetta sjálfir – enda fá þeir með frumvarpinu stóraukna möguleika til þess með svonefndu persónukjöri eins og áður er vikið að; til þess að kjósendur geti í raun lagt mat á þetta „almenna neikvæða“ hæfi þingmannsefnis er þó eðlilegt að þeir veiti

upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

Þessi formregla skal samkvæmt ákvæðinu útfærð nánar í lögum; þar tel ég eðlilegt að víkka út regluna þannig að hún gildi einnig um frambjóðendur til Alþingis.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur