Í 59. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Alþingi getur því aðeins gert samþykkt um mál að meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslu.
Lítið er um þeta að segja – annað en segir í gagnorðum skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með frumvarpsákvæðinu – og þó; þar segir:
Í greininni er ekki um efnisbreytingu að ræða heldur einungis breytingu á orðalagi til nútíma horfs.
Í gildandi stjórnarskrá er efnislega sama ákvæði að finna.
Hvað þýðir að „taka þátt“?
Í þessu felst að a.m.k. 32 þingmenn af 63 þurfa ávallt að vera viðstaddir – en er það nóg? Þeir þurfa einnig að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Hvað felst í því? Er nóg að horfa á eða ýta á takka um að maður stiji hjá?
Hlutleysi telst með!
Fyrirfram hefði ólöglærður maður e.t.v. haldið að það að „taka þátt í atkvæðagreiðslu“ fæli í sér að taka afstöðu með „já“ eða „nei“ – en að hlutleysi með því að sitja hjá teldist ekki með.
Þó að ég hafi ekki átt þess kost að þessu sinni að rannsaka ítarlega og í lögfræðilegu samhengi umfjöllun m.t.t. almennra fundarskapa virðist í þessu tilviki ljóst að slíkt hlutleysi á að teljast með.
Ástæður þeirrar lögskýringar eru væntanlega þrennar:
- Fyrir því er löng stjórnskipunarhefð – enda m.a. byggt á því í lögum og langri framkvæmd að þingmaður, sem sé á fundi en greiði ekki atkvæði „við nafnakall eða atkvæðagreiðslu með rafeindabúnaði“ teljist taka þát í atkvæðagreiðslunni.
- Skýringar – sem að vísu eru því marki brenndar að vera fullgerðar eftir að stjórnlagaráð lauk störfum (sjá hér) – gera enga athugasemd við framkvæmd; að því leyti sem slík lögskýringargögn samrýmast texta frumvarpsins eru þau til stuðnings og skýringarauka.
- Efnisrök virðast standa til þess að minnihluti þings geti ekki firrt Alþingi ályktunarhæfi (l. qourum) eins og það er yfirleitt nefnt í lögfræði; ella gæti minnihluti í stað þess að greiða atkvæði gegn máli – t.d. 22:10 (ef aðeins lágmarksfjöldinn, 32 þingmenn, væri viðstaddur) setið hjá og fellt það þannig – eins og dæmi eru um úr öðru samhengi.
- Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 125).
- Ensk þýðing Stjórnarskrárfélagsins á stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs; here is an English version of the Constitutional Bill.