Þriðjudagur 27.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Meðferð þingsályktunartillagna og annarra þingmála (58. gr.)

Í 58. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Þingsályktunartillögur ríkisstjórnar eru teknar til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þær eru ræddar á Alþingi.

Tillögu til þingsályktunar má ekki samþykkja fyrr en eftir tvær umræður á Alþingi.

Tillögur til þingsályktana sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok löggjafarþings.

Tillögur um þingrof eða vantraust á ráðherra eru ræddar og afgreiddar við eina umræðu.

Að öðru leyti skal kveðið á um meðferð þingmála í lögum.

Um meðferð þingsályktunartillagna og annarra þingmála er ekkert fjallað í gildandi stjórnarskrá – heldur einungis um það, sem áður er komið fram, um frumkvæði að slíkum málum.

Framangreindar reglur eru að mestu í samræmi við gildandi þingskapalög en þar er fjöldi ákvæða um þingmál enda eðlilegt, eins og áður er fram komið að stjórnarskrá fjalli f.o.f. um meginreglur og markmið sem löggjafinn útfæri – sé hann á annað borð hæfur til þess.

Nýmæli í samræmi við aukið hlutverk Alþingis

Helsta nýmælið í ákvæðum 58. gr. er – eins og í tilviki lagafrumvarpa – að þessi algengu þingmál skuli fyrst tekin „til athugunar og meðferðar í þingnefndum“ – áður en Alþingi fjallar um þau í heild. Þetta á þó aðeins við um þingsályktunartillögur frá ríkisstjórn – en ekki frá þingmönnum.

Breytingin er þó ekki til þess gerð að draga úr gagnsæi og opnum umræðum enda er þeim þætti aðeins frestað. Tilgangur breytingarinnar er að umræða um þau þingmál, sem koma frá ríkisstjórn, sé upplýst og málefnaleg en ekki í upphrópunarstíl slagsmála; þessi breyting og greining á vandanum virðist vera í góðu samræmi við afstöðu margra – innan Alþingis sem utan. Samkvæmt þessu geta þingmenn kynnt sér þingmál (ríkisstjórnar) vel – og stjórnarandstaða jafnvel haft áhrif á þau í þingnefnd – áður en þau eru lögð fram og rædd á Alþingi.

Af þeirri ástæðu er minni þörf á slíkri reglu gagnvart þingsályktunartillögum frá þingmönnum en Alþingi er frjálst – eins og fram kemur í ágætum skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með 58. gr. frumvarpsins – að setja slíka reglu í þingskapalög.

Dropinn holar steininn

Þá er haldið þeirri reglu – öfugt við reglu frumvarpsins um lyktir lagafrumvarpa – að þingsályktunartillögur falli niður við lok löggjafarþings, þ.e. árlega í lok september áður en nýtt Alþingi er sett í byrjun október.

Ástæðan er skýr – og ekki í ósamræmi við regluna um að lagafrumvörp lifi út fjögurra ára kjörtímabil sem er, sem sagt, sett til þess að minnka möguleikann á að salta þingmannafrumvörp. Reglan um að þingsályktunartillögur þurfi að endurnýja árlega er einmitt sett í því skyni að þingmönnum – ekki síst í stjórnarandstöðu – sé unnt að endurnýja þær árlega og hola þar með steininn eins og stundum gerist með þarfar úrbætur sem fyrst í stað njóta ekki alltaf stuðnings stjórnarmeirihluta eða skilnings embættismanna sem semja, sem sagt, flest frumvörp sem verða að lögum.

Í þessu felst það sem kalla má minnihlutavernd – eins og gert er í skýringum starfsmanna með ákvæðinu – en tillagan er gerð eftir ábendingar frá stjórnmálafræðingi, Birgi Hermannssyni.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur