Mánudagur 26.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Meðferð lagafrumvarpa (57. gr.)

Í 57. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs, sem er ágætlega skýrð hér af hálfu skrifstofu stjórnlagaráðs, eru fólgin þrjú merkileg nýmæli; þau eru:

  • aukið sjálfstæði Alþingis;
  • mat á áhrifum lagasetningar áskilið;
  • ráðherraræði með „söltun“ mála gert erfiðara.

Í ákvæðinu segir:

Frumvörp alþingismanna og ríkisstjórnar eru tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi. Sama á við um þingmál að tillögu kjósenda.

Mat á áhrifum lagasetningar skal fylgja frumvörpum samkvæmt nánari ákvæðum í lögum.

Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi.

Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.

Sjálfstæði Alþingis aukið

Í gildandi stjórnarskrá segir að fjallað skuli um lagafrumvörp í þremur umræðum – og því vaknar e.t.v. spurningin hvort verið sé að draga úr gæðum lagasetningar með tillögum okkar í stjórnlagaráði – um aðeins tvær umræður. Nei; eins og áður er fram komið – m.a. í pistli mínum í gær – er með tillögum stjórnlagaráðs verið að auka hlut Alþingis í löggjafarstarfinu, eins og vera ber.

Auk þess sem áður er komið fram felst aukið hlutverk Alþingis – innan raunsærra marka án þess að tvöfalda sérfræðingateymi ríkisins eða valda óvissu um stefnumótun – m.a. í því að öll frumvörp til laga verða

tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi.

Þetta er lykilatriði; skiptir þá ekki máli hvort lagafrumvörpin koma frá

  • alþingismönnum (eins og lengi hefur verið möguleiki – en ekki mjög raunhæft til samþykktar sem lög),
  • ríkisstjórnar (sem hefur verið uppruni flestra samþykktra laga hingað til og verður e.t.v. áfram, með breytingum þó) eða
  • kjósendum (sem er eitt af mörgum nýmælum í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs, sjá 65. og einkum 66. gr.).

Með því var talið að umræðurnar yrðu frekar nær því að vera þrjár – heldur en 2  1/2 í raun; þetta atriði var þó umdeilt í stjórnlagaráði.

Hvað sem talningu líður er þessi breyting þó til þess fallin að auka efnislegar og málefnalegar umræður um lagafrumvarp – frekar en að stálin stinn mætist strax við kynningu frumvarps, án þess að aðrir en höfundar þess (í raun oftast starfmenn ráðuneytis) hafi náð að kynna sér það til hlítar.

Loks er breytingin í betra samræmi við svonefnt nefnda- eða starfsþing í stað málstofu- eða andstöðuþings.

Samráð við alla sjálfsagt – en ekki beinlínis áskilið!

Fyrir sjálfan mig er nýmælið í 2. mgr. enn mikilvægara (og merkilegra) þó að ég hafi því miður ekki náð í gegn einu af mínu stærstu stefnumálum – um að skylt væri að gæta jafnræðis þegar samráðs er leitað hjá hagsmunaaðilum; það voru vissulega vonbrigði að stjórnlagaráð skyldi ekki fallast á að stjórnarskráin skyldaði stjórnvöld og löggjafann við undirbúning löggjafar að hafa jafnvægi í samráði við t.d. fulltrúa stúdenta, launafólks og neytenda á við fulltrúa atvinnurekenda þegar nýjar reglur eru samdar. Þetta eru þeir þrír hópar sem ég hef staðið og unnið fyrir í um hálfan annan áratug og ég tel á hann hallað við þessar aðstæður.

Mótrök margra félaga minna voru vissulega að þetta væri svo sjálfsagt að gera – og er það vel ef svo er talið; löng og nýleg reynsla mín sýnir hins vegar annað – og það undir öllum tegundum af ríkisstjórnum!

Bót er þó í máli að afstaða fulltrúa þessara hópa, viðsemjenda hinna sterku, kemur væntanlega sterklega – ef ekki fortakslaust – til álita þegar þetta er metið, samkvæmt stjórnarskrá.

Í 2. mgr. 57. gr. er þó þetta mikilvæga nýmæli – sem getur tekið til hagsmuna, hagfræði, kynjafræði, lagalegra sjónarmiða, umhverfishagsmuna, fjárhags ríkissjóðs o.s.frv.:

Mat á áhrifum lagasetningar skal fylgja frumvörpum

Erfiðara að „salta“ lagafrumvörp

Þriðja og síðasta – að mínu mati merkilega – nýmælið í stjórnarskrárfrumvarpi okkar í stjórnlagaráði er þetta, í lokamálsgrein 57. gr.:

Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.

Í þessu látlausa ákvæði felst að sú meðferð þingmeirihluta í áratugi – ef ekki síðustu öld – að taka mál ekki (tímanlega) á dagskrá í hlutaðeigandi þingnefnd leiðir ekki lengur til þess samkvæmt þingskapalögum að þau falli niður að hausti; þingnefndarformaður (sem vonandi sýnir þó framvegis meira sjálfstæði gagnvart ráðherrum og ríkisstjórnarmeirihluta þó að þingræði ríki áfram) þarf að humma málið fram af sér og „salta“ það beinlínis í heil fjögur ár á venjulegu kjörtímabili ef það á að falla í gleymskunnar dá.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur