Sunnudagur 25.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Flutningur þingmála (56. gr.)

Í 56. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Alþingismenn hafa rétt til að flytja frumvörp til laga, tillögur til ályktana og önnur þingmál.

Ráðherrar geta lagt fyrir Alþingi frumvörp til laga og tillögur til ályktana sem ríkisstjórn hefur samþykkt.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að forseti lýðveldisins geti látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og „annarra samþykkta“ en í raun þýðir það ríkisstjórnarfrumvörp sem forseti skrifar upp á formsins vegna. Þá hafa þingmenn í stjórnarskrá haft heimild til þess að flytja frumvörp og „tillögur til ályktana“ en sá réttur er að því leyti ekki raunhæfur að flest lög eru samþykkt að undangengnu stjórnarfrumvarpi og fá „þingmannamál“ fá alvöru umfjöllun á Alþingi.

Þessi réttur alþingismanna er óskertur í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Ráðherrum bætt við 1991…

Fyrir réttum 20 árum var ráðherrum (sem ekki eru þingmenn) bætt við þannig að þeir fengu sjálfstæðan rétt til þess að „flytja“ lagafrumvörp og þingsályktunartillögur – þ.e. óháð samþykktum eða í sjálfu sér afstöðu ríkisstjórnar þó að pólitískt ætti það að vera fremur óraunhæft við venjulegar kringumstæður.

Hvort tveggja – að forsenda þess að Alþingi fjalli um mál sé frumkvæði alþingismanns eða ráðherra – er áréttað síðar í stjórnarskránni.

… en teknir út 2011

Þar sem stjórnarskrárfrumvarpið byggir á meiri samstöðu ríkisstjórnar (sjá einkum 1.-3. mgr. 87. gr. frumvarpsins) en gildandi reglur og framkvæmd er eðlilegt að mínu mati að afnema þessa sjálfstæðu – og, sem sagt, fremur óraunhæfu og óheppilegu – heimild einstakra ráðherra. Samkvæmt því hafa aðeins þingmenn og ríkisstjórn framvegis – verði frumvarpið að stjórnarskrá – frumkvæðisrétt á Alþingi þar sem réttur ráðherra að þessu leyti er í 2. mgr. 56. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins bundinn við þau lagafrumvörp og þingsályktunartillögur

sem ríkisstjórn hefur samþykkt.

Þá er slíkur frumkvæðisréttur að stjórnarfrumvörpum og tillögum ríkisstjórnar að þingsályktunartillögum aftur orðaður – eins og í gildandi stjórnarskrá – sem réttur til þess að geta „lagt fyrir“ Alþingi slík mál.

Löggjafarvaldið er hjá Alþingi

Þá er mikilvæg – og ekki bara „symbolsk“, heldur skyld – breyting fólgin í frumvarpinu þar sem ráðherrar eiga aðeins skv. 1. mgr. 89. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins að mæla fyrir (stjórnar)frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn og taka þátt í umræðum á Alþingi

eftir því sem þeir eru til kvaddir

Þó að áfram sé gert ráð fyrir að flest frumvörp verði samin af sérfræðingum Stjórnarráðsins er dregið úr frumkvæði ráðuneytanna – og ákvörðunarvald fært til Alþingis – enda eru ráðherrar þjónar þings og þjóðar; eins og Ómar Ragnarsson benti oft á í stjórnlagaráði eru orðin ambátt og embætti samstofna.

Tilfærsla valds til Alþingis í því skyni að draga úr ráðherraræði er því ekki bundin við „symbolskar“ breytingar á borð við þá að ráðherrar víki af Alþingi meðan þeir gegna ráðherraembætti.

* Tekið skal fram að skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs við þetta ákvæði eru að sumu leyti ekki í samræmi við texta stjórnlagafrumvarpsins og stangast einnig að mati höfundar á við afstöðu þeirrar nefndar, sem fjallaði um þetta ákvæði, en höfundur þessarar umfjöllunar sat í þeirri nefnd stjórnlagaráðs; stangast skýring starfsmanna stjórnlagaráðs því að nokkru leyti á við samþykkta afstöðu stjórnlagaráðs. Um þetta ósamræmi gilda vitaskuld viðteknar lögskýringarreglur stjórnlagafræðinnar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur