Í 60. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs eru nokkur nýmæli – þó ekki þau sem sumir hefðu e.t.v. búist við enda er ekki hreyft efnislega við málskotsrétti forseta Íslands varðandi samþykkt lagafrumvörp frá Alþingi:
Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp undirritar forseti Alþingis það og leggur innan tveggja vikna fyrir forseta Íslands til staðfestingar, og veitir undirskrift hans því lagagildi.
Forseti Íslands getur ákveðið innan viku frá móttöku frumvarps að synja því staðfestingar. Skal sú ákvörðun vera rökstudd og tilkynnt forseta Alþingis. Frumvarpið fær þá engu að síður lagagildi, en innan þriggja mánaða skal bera lögin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Einfaldur meirihluti ræður hvort lögin halda gildi sínu. Atkvæðagreiðsla fer þó ekki fram felli Alþingi lögin úr gildi innan fimm daga frá synjun forseta. Um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu skal að öðru leyti mælt fyrir í lögum.
Málskotsréttur forseta skýrður og útfærður – en ekki takmarkaður
Í gildandi stjórnarskrá segir um málskotsrétt forseta Íslands efnislega hið sama – en þessar formbreytingar eru gerðar af hálfu stjórnlagaráðs:
- Forseti Alþingis undirritar framvegis – í stað hlutaðeigandi ráðherra – samþykkt lagafrumvarp og leggur það fyrir forseta Íslands til staðfestingar; sú breyting byggist á því að þótt löggjafarvaldið sé hjá Alþingi og þó að Stjórnarráðið og einstakir ráðherar og embættismenn í ráðuneytum séu oft lykilaðilar í að koma löggjafarviljanum á blað (en einkum í framkvæmd) sé ráðherra ekki eðlilegur milliliður þegar lög eru sett eða formlega staðfest eins og nú er.
- Forseta Íslands er settur viku frestur til þess að ákveða hvort hann staðfestir samþykkt lagafrumvarp frá Alþingi og veitir því lagagildi eða skýtur framtíðargildi þess til þjóðaratkvæðagreiðslu og veitir því þar með gildi til bráðabirgða; þetta hefur ekki valdið verulegum vandkvæðum síðan málskotsréttur forseta Íslands var fyrst virkjaður 2004 og svo nýttur tvívegis 2010 og 2011. Nokkurra klukkustunda umhugsunarfrestur síðasta forseta, Vigdísar Finnbogadóttur, líklega 1985, í tengslum við lög sem sett voru til höfuðs yfirvofandi verkfalli flugfreyja, varð þó þáverandi samgönguráðherra, Matthíasi Bjarnasyni, áhyggjuefni – þó að kvennafrídagur væri! Því er eðlilegt að vikufrestur sé tiltekinn en hann er e.t.v. í rýmsta lagi miðað við aðstæður hérlendis, sögu, stjórnskipunarhefð og þá tillögu stjórnlagaráðs að afnema algerlega heimild til bráðabirgðalaga – sem hefur að mínu mati verið misnotuð.
- Það nýmæli er tekið upp í stjórnarskrá að synjun forseta Íslands skuli rökstudd – en forseti hefur raunar alveg frá því að málskotsréttinum var fyrst beitt 2004 rökstutt synjun sína á staðfestingu.
- Enn fremur er kveðið á um að lagasynjun forseta Íslands skuli tilkynnt forseta Alþingis; af minni hálfu (en ég sat í þeirri nefnd stjórnlagaráðs sem lagði þetta ákvæði til) er þetta öðrum þræði viðbragð við þeirri framkvæmd af hálfu sitjandi forseta Íslands að tilkynna synjanir (sem ég geri almennt ekki athugasemd við efnislega) á Bessastöðum gagnvart fjölmiðlum án þess að hafa tilkynnt Alþingi (frekar en þingræðislegri ríkisstjórn) um ákvörðun sína og röksemdir fyrir henni. Sjálfum hafa mér fundist sannfærandi röksemdir Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra m.m., í Fréttablaðinu fyrir því að lagasynjun ætti að eiga sér stað í ríkisráði (sem stjórnlagaráð leggur hins vegar til að verði aflagt); í staðinn kemur formleg tilkynning til forseta Alþingis.
- Loks er settur 3ja mánaða frestur til þess að halda þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem ræður örlögum hins samþykkta lagafrumvarps Alþingis; kemur sá frestur í stað reglu um að þjóðaratkvæði skuli haldið „svo fljótt sem kostur er“ en þrír mánuðir eru líklega í rýmra lagi þar sem lagafrumvarpið hefur þegar öðlast lagagildi til bráðabirgða, sem áður segir.
- Síðasta formbreytingin er staðfesting á þeirri útleið, sem ríkisstjórninn valdi við fyrstu lagasynjun forseta 2004 – að gefast upp – þ.e. að afturkalla lög, sem forseti Íslands hefur synjað staðfestingar, og afstýra þar með þjóðaratkvæðagreiðslu; í því felst e.t.v. f.o.f. möguleiki fyrir ríkisstjórn að komast hjá niðurlægingu hjá kjósendum ef ljóst er talið hver niðurstaðan yrði! Þó er áskilið að þetta gerist innan 5 daga frá synjun forseta enda ekki hægt að búa við óvissu um framhaldið í þessu efni.
Niðurstaða stjórnlagaráðs varð því – eftir miklar umræður og nokkur átök undir lokin – að halda málskotsrétti forseta Íslands til þjóðarinnar efnislega óbreyttum; m.a. var fallið frá tillögum um að skerða möguleika forseta á að synja lögum staðfestingar sem varða fjárstjórnarvald Alþingis o.fl. Rök með og á móti niðurstöðunni og gagnvart valkostum eru rædd og útskýrð í skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs ákvæðinu.