Laugardagur 01.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Lögrétta (62. gr.)

Um 62. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs var mikið rætt – til og frá; þar segir:

Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.

Þingnefnd eða 1/5 hluti alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.

Um störf Lögréttu skal mælt fyrir í lögum.

Í gildandi stjórnarskrá er ekkert að finna um þetta; í stuttu máli er lagt til að lögfræðingaráð, Lögrétta, sem Alþingi kýs, geti gefið umbeðið – ráðgefandi –  álit á því hvort væntanleg lög standist stjórnarskrá.

Þetta er mjög til bóta – enda hefur verið mög algengt á Íslandi undanfarinn mannsaldur að lög séu af dómstólum ekki talin standast efnis- eða jafnvel formreglur stjórnarskrár.

Um frumvarpsgrein þessa segir m.a. í ítarlegum skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs – sem markast að vísu nokkuð af annarri hugmynd, sem snemma var samþykkt en síðar felld út, um bindandi hlutverk Hæstaréttar í þessu efni:

Ekki er tekin afstaða til þess hvernig Alþingi bregst við áliti Lögréttu í ákvæðinu sjálfu, enda er það ekki bindandi. Almennt má telja að ef Lögrétta telji frumvarp andstætt stjórnarskrá eða þjóðréttarlegum skuldbindingum hljóti þingið að bregðast við þeim athugasemdum með því að taka frumvarp til þinglegrar meðferðar á nýjan leik. Vægi álita Lögréttu yrði fyrst og fremst háð trúverðugleika hennar, málsmeðferð og efnislegum rökstuðningi en löggjafinn þyrfti að meta niðurstöðu í hverju tilviki fyrir sig og hvaða aðgerðir væru heppilegar í framhaldinu. Hið sama á í raun við um álit Lögréttu á þá leið að stjórnskipulegir annmarkar frumvarps væru ekki fyrir hendi, vísast til frekari skýringa í Skýrslu stjórnlaganefndar um þetta efni.

Ekki nógu langt gengið

Sjálfur vildi ég hins vegar ganga mun lengra og fela Hæstarétti bindandi úrlausnarvald um það hvort sett lög o.fl. stæðust stjórnarskrá.

Um það mun ég fjalla síðar – enda sér þess varla stað í skýringum með frumvarpinu að þegar i maí var slík tillaga samþykkt með miklum meirihluta í stjórnlagaráði; sú regla um hlutverk Hæstaréttar í þessu efni var óvænt felld brott á síðustu starfsdögum stjórnlagaráðs vegna óformlegra og síðbúinna athugasemda hins ágæta lagaprófessors, Eiríks Tómassonar, sem ég taldi þó að fyrirliggjandi tillaga hefði svarað vel. Felldi ég mig illa við það en lét þó ekki steita á steini vegna þess.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur