Sunnudagur 02.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (63. gr.)

Í 63. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kannar hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráðherra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telur efni til. Nefndinni er skylt að hefja slíka könnun að kröfu þriðjungs þingmanna.

Í gildandi stjórnarskrá er ekkert um þetta að finna að frátöldu ákvæði sem fjallar þó fremur um athugun á málum utan stjórnkerfis.

Aukið og virkara aðhald Alþingis með ríkisstjórn

Hér er ein megin réttarúrbótin lögð til í því skyni að auka raunverulegt eftirlitsvald og aðhald Alþingis með handhöfum framkvæmdarvalds, ekki síst ráðherrum.

Kemur þessi nefnd m.a. í stað þeirrar nefndar, sem kennd hefur verið við Atla Gíslason – og var kosin eftir að rannsóknarefnið átti sér stað – en mikilvægt er almennt talið vegna réttaröryggis að þeir sem fjalla um mál séu ekki skipaðir vegna þess sérstaklega.

(Sjá nánar um það síðar er fjallað verður um 95. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs.)

Þá fjallar nefnd þessi um skýrslur ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis – sem eru sjálfstæðir eftirlits- og umboðsaðilar þjóðþingsins; virðist ekki vanþörf á því eins og nánar er rökstutt í skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með ákvæðum þessum. Þar kemur raunar fram að slík nefnd hafi einmitt um svipað leyti verið sett á fót og taki brátt til starfa; sú staðreynd breytir ekki þörf á því að stjórnarskrárbinda hlutverk hennar og stöðu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur