Mánudagur 03.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Rannsóknarnefndir (64. gr.)

Í 64. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Alþingi getur skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða.

Nánari reglur um hlutverk, rannsóknarheimildir og skipan rannsóknarnefnda skulu settar með lögum.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að Alþingi geti skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Þá segir að Alþingi geti veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur,  munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og „einstökum mönnum.“

Eini – og stóri – munurinn á þessum ákvæðum er því að gildandi stjórnarskrárakvæði takmarkar slíkar rannsóknarnefndir við að í þeim sitji alþingismenn; að öðru leyti er ákvæðið sambærilegt.

Ástæða þessarar breytingar eru væntanlega f.o.f. tvíþættar:

  • Slíkar nefndir alþingismanna hafa ekki starfað í meira en hálfa öld – eða frá því að svonefnd okurnefnd var skipuð 1955.
  • Þær rannsóknarnefndir, sem þó hafa verið skipaðar af þinginu (eða ráðherrum), hafa f.o.f. verið skipaðar sérfræðingum utan Alþingis.

Skýrasta og nýjasta dæmið er nefndin, sem einmitt er kennd við Alþingi – en það sýnir e.t.v. best hve fátítt úrræðið er – þ.e. svonefnd „rannsóknarnefnd Alþingis“ sem skipuð var samkvæmt lögum frá desember 2008 til að rannsóknar á

aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða

Sjálfur vonast ég til þess að þessi litla breyting leiði til þess að fleiri slíkar rannsóknarnefndir verði skipaðar enda felst í því sterk leið til þess að auka og dýpka eftirlit Alþingis með bæði handhöfum framkvæmdarvalds og lykilaðilum í atvinnu- og efnahagslífinu. Má gera það hvort sem er

  • með þingmönnum – eins og algengt er t.a.m. í Bandaríkjum Norður-Ameríku og mér finnst æskilegt en ýmsir telja auka hættu á lýðskrumi og pólitískum ofsóknum eða
  • með sérfræðingum utan þings eins og tíðkast t.d. í Danmörku þar sem rannsókn er gjarnan falin dómurum án þess að um sé að ræða dómsvald.

Ég hef áður fjallað um þingnefndir almennt og ólíkar tegundir þeirra samkvæmt frumvarpinu en þar sagði m.a.  um rannsóknarnefndir:

Aðrar nefndir eru t.d. sérstök rannsóknarnefnd samkvæmt 64. gr.stjórnarskrárfrumvarpsins – sem er áþekk þeirri vannýttu nefnd sem áður var getið sem þeirrar einu sem gildandi stjórnarskrá fjallar um; hún er þó ólík að því leyti að nú er ekki lengur áskilið að í henni sitji (eingöngu) alþingismenn. Eins og nánar verður fjallað um þegar þar að kemur er rannsóknarnefnd Alþingis í kjölfar bankahrunsins nefnd af þessu tagi – sem var þó aðeins byggð á sérstökum lögum en hafði ekki stjórnarskrárstoð eins og lagt er til hér.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur