Í 65. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi, ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.
Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.
Ólíkt öðru úrræði, sem ég skrifa um á morgun, er þetta frumkvæði kjósenda einskorðað við
- sett lög,
- sem nýlega hafa verið samþykkt auk þess sem
- nokkur málefni eru undanskilin skv. 67. gr. frv. – eins og nánar verður fjallað um nk. fimmtudag, 6. október.
Algert nýmæli
Vonandi skýrir ákvæðið sig sjálft – en sjálfsagt er að árétta að um er að ræða algert nýmæli. Í gildandi stjórnarskrá er ekkert um slíkt þjóðaratkvæði – að frumkvæði kjósenda sjálfra; í aðeins þremur tilvikum fyrirskipar stjórnarskráin bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu – þ.e. ef
- Alþingi vill víkja forseta úr embætti – en þá úrskurðar þjóðin;
- forseti Íslands synjar lögum staðfestingar – en þá skera kjósendur einnig úr;
- Alþingi vill breyta kirkjuskipan ríkisins – en niðurstaðan ræðst einnig af þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þá stendur stjórnskipunarhefði til þess að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur séu heimilar eins og nokkrum sinnum gerðist á fyrri hluta síðustu aldar.
23.000 kjósendur
Rétt er að geta þess að 10% kjósenda nú eru um 23.000 talsins; kveðið er á um það (í 67. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins) að löggjafinn setji nánari reglur um útfærslu – m.a. um form við söfnun undirskrifta en ljóst er að óstaðfest netsöfnun mun ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar verða; af þeirri ástæðu valdi stjórnlagaráð eftir miklar umræður að hafa þröskuldinn í lægra lagi.
Í skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með ákvæðinu má sjá um frekari talnafróðleik og lesa um fyrirmyndir erlendis frá, svo og fræðast um rök með og á móti ólíkum þröskuldum.
Alþingi má „gefast upp“
Í niðurlagi 1. mgr. 65. gr. er lögfest sú regla að Alþingi getur að sjálft ákveðið að „gefast upp“ ef krafa kemur fram um þjóðaratkvæði um nýsett lög; er þar m.a. höfð hliðsjón af fordæmi frá 2004 þegar ríkisstjórnin valdi að leggja til – og fékk í gegn – að Alþingi samþykkti lög um afturköllun laga um fjölmiðla sem forseti hafði eftir miklar deilur og fjölda áskorana ákveðið að synja staðfestingar – í fyrsta skipti í 60 ára sögu lýðveldisins og forsetaembættisins. Sú „uppgjöf“ Alþingis gagnvart forseta leiddi til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla var óþörf lagalega og hefði aðeins haft pólitíska þýðingu; hef ég því ávallt talið það stjórnskipulega gilda – og í sjálfu sér ekki óskynsamlega – launs.
Sjálfur var ég mjög fylgjandi þessari leið enda tel ég að hún geti haft góð „leikjafræðileg“ áhrif til þess að tempra vald í þingræðisskipulagi og dreifa þar með völdum ef vel er farið með. Raunar má segja að þetta ákvæði um beint lýðræði sé eitt helsta merkið um valddreifingu þá sem stjórnarskrárfrumvarp þetta boðar.