Föstudagur 07.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Frumvarp til fjárlaga (68. gr.)

Í ljósi þess að mikilvægur pistill birtist á morgun ætlaði ég nú að hafa þetta létt – svona á föstudegi – um 68. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs enda átti sú grein að vera eitt af fáum ákvæðum frumvarpsins sem við í stjórnlagaráði létum óhreyft (efnislega a.m.k.) frá ákvæðum gildandi stjórnarskrár; það gerðum við raunar að vísu – en því miður þarf hér frekari útskýringar við.

Villa slæðst inn í próförk

Svo virðist sem prófarkarlestrarpjakkurinn – sem er frændi prentvillupúkans (en báða þekki ég vel sem fyrrverandi blaðamaður og ritstjóri) – hafi fellt brott eitt orð; efnislega er það mikilvægt orð eins og ég vík að á eftir. Orðið „er“ virðist hafa fallið brott eftirá í ritstjórn stjórnarskrárfrumvarpsins í lokin án þess að efnisleg umfjöllun eða samþykki stjórnlagaráðs hafi komið til.

Samþykkt ákvæði um fjárlög…

Samþykkt ákvæði 68. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins á að hljóða svo – með hinu ranglega brottfellda orði feitletruðu og undirstrikuðu innan hornklofa:

Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar [er] það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer. Skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

… efnislega óbreytt frá gildandi stjórnarskrá

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta:

Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar er það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld.

Mikill merkingarmunur…

Merkingarmunurinn felst í því að orðið „er“ – sem fellur brott fyrir mistök – þýðir þarna „þegar.“ Orðið „þegar“ – sem réttilega er haldið í frumvarpsgreininni þýðir hins vegar „strax.“ Við brottfallið breytist merking „þegar“ úr „strax“ í „þegar.“ Merkingin er – eins og nú – m.ö.o. sú að fyrir hvert reglulegt Alþingi skuli leggja fjárlagafrumvarp strax þegar þingið er saman komið (þ.e. hingað til 1. október eða næsta dag sem ekki er helgidagur en samkvæmt frumvarpinu verður samkomudagurinn ekki stjórnarskrárbundinn heldur ákveðinn í lögum).

… og mikilvægur munur

Þetta er mikilvægur munur – sem á sér upphaf í dönsku stjórnarskránni frá 1849, sbr. nú gildandi stjórnarskrá Dana frá 1953 þar sem ákvæðið er raunar tímasett með 4ra mánuði fresti fyrir lok fjárlagaárs (þ.e. nú 1. september) í stað orðsins gamla orðsins fyrir strax: „þegar.“

Af sögulegum, stjórnskipulegum og pólitískum ástæðum hefur verið talið mjög mikilvægt að leggja fjárlagafrumvarp strax fyrir á fyrsta degi Alþingis, nú í byrjun október.

Skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með ákvæðinu eru í samræmi við þessa leiðréttingu mína en þar segir í upphafi:

Óbreytt ákvæði, 42. gr. núgildandi stjórnarskrár. Efnislega samhljóða tillögu stjórnlaga­nefndar.

Aðeins örlítill munur á framsetningu og viðbót um útfærslu samþykktur

Eini framsetningarmunurinn á þessu gildandi stjórnarskrárákvæði og því, sem við samþykktum í stjórnlagaráði, er sá að í frumvarpinu er reglunni skipt upp í tvo málsliði í stað þess að gildandi stjórnarskrá er um einn málslið að ræða með tengiorðinu „og“ á milli fyrri og síðari hluta. Þá er bætt við til útfærslu í samræmi við áralanga framkvæmd – að löggjafinn geti útfært form og efni fjárlaga nánar – orðunum

eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

Forsaga samþykktarinnar

Textinn, sem við í stjórnlagaráði samþykktum við tvær umræður á 17. og 18. ráðsfundi um frumvarpsdrög I og II er samhljóða leiðrétta ákvæðisins hér að ofan. Það var auk þess gert á grundvelli nákvæmlega sama orðalags í áfangaskjali sem að þessu var óbreytt vikum saman ráðsfund eftir ráðsfund eins og við í valdþáttanefnd (B) lögðum það til. Engar breytingartillögur komu fram á lokaráðsfundum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur