Þriðjudagur 11.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Eignir og skuldbindingar ríkisins (72. gr.)

Í 72. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Ekki má taka lán eða undirgangast ábyrgðir sem skuldbinda ríkið nema með lögum.

Stjórnvöldum er óheimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila. Með lögum má þó kveða á um slíka ríkisábyrgð vegna almannahagsmuna.

Ekki má selja eða láta með öðru móti af hendi fasteignir ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt heimild í lögum. Um ráðstöfun annarra eigna ríkisins fer að lögum.

Engin breyting á 1. og 3. mgr.

Í gildandi stjórnarskrá er sambærilegt ákvæði að finna og í 1. mgr. og fyrri málslið 3. mgr. – að því viðbættu að áréttað er að ábyrgðir (sem fela í sér hugsanlega greiðsluskyldu) falli undir sömu reglu og lán (sem er raunveruleg greiðsluskylda); þar er efnisbreytingin því lítil í orði – og engin í raun enda er samkvæmt óskráðri lögmætisreglu ríkisréttar óumdeilt að mínu mati að leita skuli lagaheimildar til þess að ríkið geti undirgengist gildar ábyrgðir.

Mikið efnisnýmæli um ábyrgðir gagnvart einkaaðilum

Megin nýmæli þessarar greinar felst í því að setja efnisreglu – sem er sjaldgæft í stjórnarskrá um fjárstjórnarmál. Í fyrri málslið 2. mgr. 72. gr. frumvarpsins segir að stjórnvöldum

óheimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila.

Strangt til tekið er þetta upphafsákvæði raunar óþarft þar sem hugtakið „stjórnvöld“ tekur í stjórnlagafræði til handhafa framkvæmdarvalds og þeir hafa samkvæmt framangreindu – hvort sem er samkvæmt áðurgreindri lögmætisreglu og gildandi stjórnarskrá eða samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 72. gr. frumvarpsins – engar heimildir til þess að samþykkja ábyrgð sem bindi ríkissjóð; nýmælið felst í síðari málslið 2. mgr. sem hljóðar svo:

Með lögum má þó kveða á um slíka ríkisábyrgð vegna almannahagsmuna.

Auðvitað geta lög ákveðið hvað sem er – nema stjórnarskráin takmarki svigrúm löggjafans (a.m.k. ef maður aðhyllist svonefndan vildarrétt eða „positivisma“ eins og ég geri). Hér er hins vegar sett inn ný regla um að almannahagsmunir þurfi að réttlæta ríkisábyrgð vegna fjárhagslegra skuldbindinga einkaaðila.

Þetta er að mínu mati nokkur réttarbót – og studdi ég því þessa tillögu – enda geta dómstólar þá að uppfylltum réttarfarsreglum á hverjum tíma endurmetið hvort almannahagsmunir hafi verið fyrir hendi en raunar hafa þeir verið afar varfærnir í því endurmati undanfarin a.m.k. 80 ár. Auk þess að setja lagalegar hömlur samkvæmt áðursögðu má ekki gleyma að slíkt efnisákvæði setur pólitískar og sálrænar hömlur á þingmenn sem íhuga slíka ríkisábyrgð á einkahagsmunum.

Skiptir þá ekki máli þó að ég hafi líka stutt breytingartillögu, sem gekk lengra, en samkvæmt henni skyldi við framangreint efnisskilyrði bæta formskilyrði um að aukinn meirihluta Alþingis þyrfti til slíkrar samþykktar; féll sú breytingartillaga, naumlega ef ég man rétt, m.a. með vísan til þess að slíkar reglur um aukinn meirihluta í einstökum tilvikum fælu í fyrsta lagi í sér stílbrot og takmörkuðu í öðru lagi meginvald Alþingis sem margir stjórnlagaráðsfulltrúar lögðu mikla áherslu á.

Greint á mili fasteigna og annarra eigna

Að síðustu er smávægilegur greinarmunur, sem ég taldi mikilvægan, sem lýtur að því að fasteignir ríkisins megi aðeins selja samkvæmt beinni lagaheimild, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 72. gr., en aðrar (minniháttar) eignir, t.d. bifreið, megi handhafi framkvæmdarvalds selja samkvæmt almennri lagaheimild, sbr. síðari málslið 3. mgr. 72. gr. Í þessum hárfína lagamun felst sá mikilvægi skilsmunur að Alþingi taki ákvörðun um ráðstöfun fasteigna en að ráðherrar – eða aðrir, lægra settir, handhafar framkvæmdarvalds – um aðrar veigaminni eignir eins og ótal dæmi eru um.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur