Í 73. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Forseti Íslands rýfur Alþingi að ályktun þess. Skal þá efnt til nýrra kosninga eigi fyrr en sex vikum og eigi síðar en níu vikum frá þingrofi. Alþingismenn halda umboði sínu til kjördags.
Hvað er þingrof og hvers vegna?
Í þingrofi felst að bundinn er endir á umboð þingmanna áður en kjörtímabil rennur út. Af þingrofi leiðir að boða á til nýrra kosninga; nýjar þingkosningar eru því óhjákvæmleg afleiðing þingrofs – þó að nokkurt svigrúm sé gjarnan um hvenær kosningar skuli haldnar.
Þingrofsheimildin er einkum til þess að endurnýja umboð þjóðþingsins þegar þörf er talin á og til þess að skjóta megi ágreiningi milli ríkisstjórnar og þings í dóm kjósenda, t.d. ef ríkisstjórn er ekki með skýran meirihluta og annað stjórnarmynstur blasir ekki við.
Í Noregi er þingrof ekki heimilt af sögulegum ástæðum; ef ríkisstjórn fellur þar er því nauðsynlegt að mynda nýja ríkisstjórn með óbreyttu þingi, hvað sem tautar og raular.
Óbreytt regla um að alþingismenn haldið umboði sínu til kjördags
Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að forseti geti rofið Alþingi og skuli þá boða til nýrra kosninga innan 45 daga frá tilkynningu um þingrofið. Skal Alþingi koma saman innan tíu vikna frá þingrofi.
Þá segir þar sömuleiðis að alþingismenn haldi umboði sínu til kjördags; það er breyting sem gerð var á stjórnarskránni 1991 – vegna óánægju með að forsætisráðherra hefði val um að binda strax endi á umboð þingmanna. Það gerði forsætisráðherra bæði 1931 og 1974 og olli það miklum deilum í bæði skiptin; í fyrra skiptið kom nærri til átaka og voru ásakanir um stjórnarskrárbrot en í síðara skiptið var forsætisráðherra sakaður um gerræði.
Breytingin 1991 var gerð þar sem ófært þótti að landið væri þingmannslaust frá þingrofi til kosninga.
Vald fært frá forsætisráðherra til Alþingis sjálfs
Sammæli er um það í stjórnskipunarrétti að skv. stjórnarskránni ákveði forsætisráðherra hvort þingrof skuli fara fram; er það í samræmi við flest önnur tilvik hvað varðar vald, sem formlega er fengið forseta; ráðherra tekur ákvörðun um þau mál, tekur ábyrgð á þeim og skrifar undir þau með forseta.
Þá eru fræðikenningar um hvenær forsætisráðherra geti beitt þingrofi – þannig að ekki er talið að hann geti gert það alveg að geðþótta sínum, svo sem þegar flokki hans hentar best eins og t.d. í Stóra-Bretlandi.
Meginbreytingin með 73. gr. frumvarpsins felst í þeim orðum að forseti Íslands rjúfi Alþingi
að ákvörðun þess.
Samkvæmt svonefndri gagnályktun leiðir af þessari viðbót að forsætisráðherra getur ekki lengur rofið Alþingi að eigin frumkvæði eða ákvörðun – um hvort og hvenær það skuli gert. Alþingi hefur samkvæmt 73. gr. frumvarpsinu forræði á því hvort og hvenær þingið skuli rofið og er forseta skylt að rjúfa þing ef Alþingi gerir samþykkt um það.
Hámarksfrestur lengdur og lágmarksfrestur settur
Annað nýmæli felst í að 45 daga hámarksfrestur til kosninga er lengdur í 9 vikur eða 63 daga og sömuleiðis er í fyrsta skipti sett inn nýr lágmarksfrestur sem nemur 6 vikum eða 42 dögum; er þetta gert í lýðræðisskyni þannig að öðrum stjórnmálaflokkum en forsætisráðherrans gefist færi á undirbúningi og ekki síst til þess að tækifæri sé til þess að stofna nýja stjórnmálaflokka sem er erfitt á mikið skemmri tíma.
Sem dæmi má nefna voru þingkosningar 15. september 2011 í Danmörku sem forsætisráðherra boðaði til með innan við 20 sólarhringa fyrirvara. Allir starfandi stjórnmálaflokkar voru raunar í starholunum þar sem almennt var talið að þingkosningar yrðu um það leyti en þær varð að halda í síðasta lagi í nóvember. Á hinn bóginn var líka talið að kosningar yrðu í vor svo að flokkarnir höfðu verið lengi í startholunum. Þá er ljóst að nær ómögulegt hefði verið að stofna til flokka á svo skömmum tíma ef ekki hefði verið búist við kosningum um þetta leyti.
Aðrar breytingar
Ákvæði um hvenær Alþingi skuli koma saman í kjölfar þingkosninga eftir þingrof er tekið út og gilda um það ákvæði 44. gr. sem áður er skrifað um.
Þá er í 92. gr. frumvarpsinu áréttað að í kjölfar þingrofs sitji ríkisstjórn áfram sem starfsstjórn eins og síðar verður rakið.
Forsetavald ekki samþykkt
Um aðkomu forseta segir í skýringum:
Þá kom einnig til umræðu hjá Stjórnlagaráði hvort forseti Íslands ætti að eiga aðkomu að þingrofi sem öryggisventill ef tiltekin efnisskilyrði væru fyrir hendi. Sú hugmynd naut ekki stuðnings.
Mótrök í valdþáttanefnd (B) stjórnlagaráðs, sem um þetta fjallaði, lutu að því að veita Alþingi mótvægi og aðhald við tilteknar, sérstakar aðstæður – þegar þing nyti ekki lengur trausts en vildi samt sitja áfram.