Föstudagur 14.10.2011 - 11:59 - FB ummæli ()

Umboðsmaður Alþingis (75. gr.)

Í 75. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Alþingi kýs umboðsmann Alþingis til fimm ára. Hann skal vera sjálfstæður í störfum sínum. Hann gætir að rétti borgaranna og hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Hann gætir þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.

Ákveði ráðherra eða annað stjórnvald að hlíta ekki sérstökum tilmælum umboðsmanns skal tilkynna forseta Alþingis um ákvörðunina.

Um starfsemi umboðsmanns og hlutverk hans skal nánar mælt fyrir í lögum, þar á meðal um þingmeðferð fyrrgreindrar tilkynningar ráðherra eða annars stjórnvalds.

Í gildandi stjórnarskrá er ekkert fjallað um umboðsmann Alþingis – eins og t.a.m. í dönsku og sænsku stjórnarskránum – enda var embættið ekki stofnað fyrr en með lögum 1987.

Eins og í tilviki síðustu greinar, um ríkisendurskoðun, felur 1. mgr. 75. gr. frumvarpsins ekki í sér breytingar á því sem gildir í raun; breytingin felst í því að gefa embættinu að lögum sjtórnskipulega stöðu. Í því felst að embættið verður ekki lagt niður eða vængstýft með almennum lögum.

Þingið veitir aðhald ef stjórnvöld skirrast við

Meiri breyting – sem náðist loks niðurstaða um með aðstoð prófessors Róberts R. Spanó eftir miklar umræður og vangaveltur – felst í 2. mgr. 75. gr. þar sem gefin er í skyn sú meginregla að stjórnvöldum beri að hlíta álitum og einkum „sérstökum tilmælum“ umboðsmanns Alþingis; fylgi ráðherra eða „annað stjórnvald“ ekki slíkum tilmælum – í undantekningartilvikum – ber að tilkynna þá afstöðu til forseta Alþingis. Er gert ráð fyrir því í 3. mgr. 75. gr. að þá taki eitthvert ferli við sem veiti stjórnvaldinu aðhald og þingmönnum eða þingnefnd sérstök úrræði til þess að bregðast við. Með því ber umboðsmaður nafn sitt frekar með rentu, umboðsmaður Alþingis – en ekki bara almennings eins og mikið var ræt um að breyta nafninu í. Aðhaldsferlið skal skv. 3. mgr. útfært nánar í lögum. Um þetta er ítarlega fjallað í skýringum.

Á umboðsmaður að geta ákveðið gjafsókn?

Þar segir einnig:

Hins vegar var rætt töluvert um að auka við valdheimildir umboðsmanns Alþingis í sam­ bandi við gjafsókn í slíkum málum. Í lögum er umboðsmanni Alþingis aðeins falin heimild til þess að leggja til við ráðherra að gjafsókn sé veitt en í henni felst að ríkið ábyrgist og greiði kostnað við málsókn að mati dómara. Í ráðinu var rætt um að fela umboðsmanni Alþingis vald til þess að kveða á um gjafsókn ef hann teldi þess þurfa til að ná fram rétti einstaklings sem til hans hefði kvartað og fengið álit því til stuðnings. Ekki var mikil efnisleg andstaða við þetta í Stjórnlagaráði en slíkt ákvæði var þó ekki talið eiga heima í stjórnarskrá heldur fremur í lögum.

  • Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 140-142).
  • Hér er ensk þýðing stjórnarskrárfrumvarpsins; here is an English version of the Constitutional Bill.
  • Ensk þýðing Stjórnarskrárfélagsins á stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs; here is another English version of the Constitutional Bill.
  • Flokkar: Óflokkað
    Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

    «
    »

    Facebook ummæli

    Vinsamlegast athugið:
    Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
    Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

    Höfundur

    Gísli Tryggvason
    Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

    GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
    RSS straumur: RSS straumur