Mánudagur 17.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Forsetakjör (78. gr.)

Í 78. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Forseti Íslands er kosinn í leynilegri atkvæðagreiðslu þeirra er kosningarétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst eins af hundraði kosningabærra manna og mest tveggja af hundraði. Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu. Að öðru leyti skal ákvarða með lögum um framboð og kosningu forseta Íslands.

Lítil breyting á formsatriðum…

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að

  1. forseti skuli kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim sem hafa kosningarrétt til Alþingis og að
  2. meðmæli frá kjósendum skulu vera á bilinu 1500-3000 talsins.

Í því fyrrnefnda felst engin breyting þó að orðinu „beinum“ sé sleppt enda er ljóst af textanum, samhenginu og skorti á útfærslu á öðru að um beina kosningu er að ræða en ekki val á kjörmönnum sem svo kjósi forseta eins og í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Orðalagsbreyting úr „kosningum“ í „atkvæðagreiðslu“ í 1. málslið 78. gr. er þýðingarlítil þó að ég telji það yfirsjón hjá sjálfum mér að hafa ekki gert athugasemd við breytinguna enda á að nota „kosningu“ eða „kjör“ um val kjósenda á milli einstaklinga en „atkvæðagreiðsla“ er rétta hugtakið um val á milli málefna, t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslu; rétta hugtakið – kosning – er jú notað í 6. máslið 78. gr.

Þá er lítil breyting fólgin í meðmælendafjölda sem nú er gerður að hlutfalli kjósenda – sem nú eru um 240.000 talsins; meðmælendafjöldi í væntanlegum forsetakosningum 2012 á því að vera u.þ.b. 2.400 (sem er nærri miðju á milli 1500 og 3000) að lágmarki og 4.800 að hámarki. Þykir það eðlilegt vegna mikillar fjölgunar kjósenda frá því að lýðveldisstjórnarskráin var sett með þessu ákvæði 1944.

… en mikil efnisbreyting á kosningareglum…

Þá segir í stjórnarskránni:

Sá, sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er rétt kjörinn forseti.

Samkvæmt gildandi stjórnarskrá getur forseti t.d. náð kjöri með um 1/3 atkvæða – svo fremi að hann fái fleiri atkvæði en aðrir frambjóðendur – þ.e.a.s „flest“; þetta gerðist 1980. Í skýringum segir um þetta:

Í Skýrslu stjórnlaganefndar er bent á að slík skipan sé einstæð í lýðveldisríkjum með þjóðkjörnum forseta, þar sem í öllum öðrum ríkjum er ávallt gert ráð fyrir því að meirihluti greiddra atkvæða sé að baki þeim forseta er nær kjöri.

… því meirihluti er nú áskilinn til að ná kjöri til forseta

Í 3. og 4. málslið 78. gr. frumvarpsins felst mikil breyting hvað varðar efnisreglur um kjör forseta. Hingað til hefur forseti, sem sagt – þegar fleiri eru í kjöri – getað náð kjöri með minna en 50% atkvæða – öfugt við reglur t.a.m. í Frakklandi þar sem forseti, sem að sönnu er valdameiri en hér, þarf að ná meira en 50% atkvæða; náist það ekki í fyrstu umferð skal kosið að nýju milli þeirra 2ja sem flest atkvæða fengu í frönsku forsetakjöri.

Ekki er bundið í stjórnarskrárfrumvarpið nákvæmlega hvernig ná skuli fram meirihlutavilja kjósenda en gefin er uppskrift að því hvernig megi ná honum fram án þess að kjósa í tveimur umferðum, þ.e. með einhvers konar forgangsröðun.

Um þetta segir m.a. í skýringum:

Í þessu ákvæði er kveðið á um að forgangsraða skuli frambjóðendum sem er nýmæli. Fjölmargar kosningaaðferðir eru þekktar sem samrýmast þessari lýsingu en ekki er mælt fyrir um sérstaka leið hvað þetta varðar. Þessi aðferð þykir gefa nákvæmari mynd af vilja kjósenda en að aðeins sá sem flest atkvæði hlýtur í fyrsta sæti nái kjöri. Jafnframt kemur sú leið betur til móts við það að atkvæði kjósenda nýtist sem best séu fleiri í kjöri en einn. Með þessu er jafnframt tryggt að sá sé kjörinn sem nýtur meirihlutavilja. Í nefndinni var fjallað um hvort kveða skyldi á um tvær umferðir til meirihluta í forsetakosningum líkt og gert er í sumum stjórnarskrám en heppilegra þótti að notast við forgangsröðun frambjóðenda sem heimilar sama markmið með einni umferð. Það er skilvirkari leið, hagkvæmari og skapar ákveðinn þrýsting á kjósendur til samstöðu um for­setaefni.

Forseti sjálfkjörinn áfram

Óbreytt er í 78. gr. frumvarpsins sú regla stjórnarskrárinnar að ef

aðeins einn maður er í kjöri, (þá) er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu.

Nánari útfærsla í lögum

Þá er hefðbundið ákvæði í stjórnarskránni um að útfæra skuli með lögum að öðru leyti reglur um framboð og kjör forseta; sérstaklega er tekið fram að í þeim lögum megi ákvða að tiltekinn hluti meðmælenda skuli vera úr hverjum landsfjórðungi í hlutfalli við fjölda kjósenda þar. Ekkert slíkt ákvæði eru í niðurlagi 78. gr. þar sem aðeins segir að með lögum skuli að öðru leyti ákvarða um framboð og kosningu forseta Íslands.

Engin breyting á stöðu forseta að lögum – en…

Ef fylgt er því verklagi að taka afstöðu til þess hvort einstök ákvæði um forseta feli í sér breytingu á hlutverki eða völdum er ljóst að þessi breyting gerir það ekki beinlínis, að lögum. Með því að forseti Íslands þurfi ávallt að hljóta hreinan meirihluta – 50% eða meira – til þess að ná kjöri er þó ekki loku fyrir það skotið að umboð forseta teljist meira, í raun. Með góðum vilja má gefa þessari óbeinu breytingu +1 stig á skalanum -5 til +5 ef þess er freistað að setja tölugildi á breytingar á völdum – eða öllu heldur áhrifavaldi – forseta Íslands með stjórnarskrárfrumvarpinu miðað við rétta skýringu á gildandi stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur