Þriðjudagur 18.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Kjörtímabil (forseta) (79. gr.)

Í 79. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Kjörtímabil forseta hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að fjórum árum liðnum. Forsetakjör fer fram í júní- eða júlímánuði það ár, þegar kjörtímabil endar. Forseti skal ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta orðrétt það sama og í tveimur fyrri málsliðunum nema hvað „er“ er skipt út fyrir „þegar“.

Á síðustu stundu kom raunar fram breytingartillaga um að kosið skyldi að vori í stað miðsumars – m.a. vegna þess að það hentaði betur vegna sumarleyfa – og til fimm ára í stað fjögurra – m.a. til þess að það skarist frekar við kosningar til þings og sveitarstjórna. Ýmsar ágætar félegslegar og stjórnmálafræðilegar ástæður komu fram en m.a. þar sem tillagan hafði ekki fengið neina umfjöllun í nefnd var hún felld með töluverðum meirihluta.

Forseti sitji ekki lengur en þrjú kjörtímabil

Eina nýmæli ákvæðisins – og eitt megin nýmæli stjórnarskrárfrumvarpsins í heild – felst í hámarki á fjölda kjörtímabila forseta Íslands – þrjú kjörtímabil eða 12 ár.

Rök fyrir takmörkun á setu forseta í 12 ár

Ástæða þessarar breytingar er ekki sú að stjórnlagaráð hafi ætlað sér að auka raunveruleg völd eða áhrifavald forseta; meira um það síðar.

Rök fyrir hámarkstíma forseta í embætti er að mínu mati annars vegar þau að þeir, sem hafa völd eða áhrifavald, eigi ekki að sitja (of)lengi í embætti. Í skýringum með tillögunum er bent á að með því sé stuðlað að endurnýjun. Má þá einnig horfa til þess að miðað við nær 70 ára sögu forsetaembættisins er

  • fremur óraunhæft að sterkur frambjóðandi bjóði sig fram gegn sitjandi forseta – en mótframboð hafa komið fram tvívegis (1988 og 2004) og
  • fremur ólíklegt að sá nái kjöri – en það hefur enn ekki gerst.

Enn fremur má til hliðsjónar líta til

  • ráðherra – sem stjórnlagaráð leggur til að sitji að hámarki í 8 ár í sama embætti (sbr. 86. gr. frumvarpsins) – og til
  • forseta annarra ríkja – sem vissulega hafa mun meiri völd en forseti Íslands; í Frakklandi (þar sem kjörtímabilið var 7 ár en er nú 5 ár) og Bandaríkjunum getur forseti t.a.m. aðeins setið tvö kjörtímabil eða í 10 (áður 14) og 8 ár.

Eins og fram kemur í skýringum er sömu reglu að finna í finnsku og þýsku stjórnarskránni en þar er hlutverk forseta líkara umboði forseta Íslands.

Aukið umboð forseta?

Að mínu mati veitir þessi breyting aðhald og er til þess fallin að dreifa völdum.

Miðað við það verklag að meta hvort einstök ákvæði um forseta feli í sér breytingu á stöðu forseta virðist skýrt að svo er ekki að lögum. Ekki er þó útilokað að á síðasta kjörtímabili forseta – þegar forseti hefur hvorki neinu að „tapa“ né nokkuð að „vinna“ geti hann annað hvort talist

  • í veikari stöðu (það sem í bandarískum stjórnmálum er kallað „lame duck“) eða
  • í sterkari stöðu – þar sem hann þarf ekki að leita endurkjörs.

Þar sem hérlendis er forseti – bæði að gildandi stjórnlögum og samkvæmt  frumvarpinu – mun valdaminni en t.d. í Bandaríkjum Norður-Ameríku er að mínum dómi líklegt að hið síðarnefnda eigi fremur við; m.ö.o. má rökstyðja að með þessari óbeinu breytingu geti áhrifavald forseta aukist sem nemur +1 stigi á skalanum -5 til +5 ef þess er freistað að setja tölugildi á breytingar á áhrifum forseta Íslands með stjórnarskrárfrumvarpinu miðað við rétta skýringu á gildandi stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur