Öfugt við ríkisstjórn – sem stjórnarskráin nefnir hvergi því nafni, eins og áður er vikið að – er víða í stjórnarskránni vikið að störfum, réttarstöðu og hlutverki ráðherra; 18 sinnum raunar.
Í 88. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er hins vegar nýmæli um skilyrði þess að þeir teljist hæfir ráðherrar – en þar segir:
Ráðherra er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf á meðan hann gegnir embætti. Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja og opinberra stofnana þótt ólaunuð séu.
Í lögum skal kveðið á um skyldu ráðherra til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.
Ráðherrar vinni aðeins í þágu þjóðarinnar
Í gildandi stjórnarskrá er sem sagt ekkert slíkt ákvæði um þetta – sem í stjórnsýslurétti er nefnt almennt, neikvætt hæfisskilyrði – þ.e. hvaða ókosti, tengsl eða hagsmuni maður má ekki hafa til þess að geta gegnt embætti. Auk þeirra pólitísku og væntanlega faglegu kosta, sem forsætisráðherra metur (eins og þingflokkar ásamt honum hingað til) að ráðherraefni eigi að hafa er hann velur ráðherraefni sín má ráðherra, sem sagt,
á meðan hann gegnir embætti
hvorki hafa með höndum
- önnur launuð störf né
- ólaunuð störf
- í þágu einkafyrirtækja eða
- í þágu opinberra stofnana.
Í skýringum með ákvæðinu segir m.a. um þetta:
Ákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt vanhæfi gilda um ráðherra þegar tekin er stjórnvalds ákvörðun í tilteknum málum. Líklegt verður einnig að telja að óskráðar reglur stjórnsýslu réttar um almennt, neikvætt hæfi gildi um ráðherra eins og aðra embættismenn þó að þeir njóti sérstöðu í þingræðisríki sem málsvarar meirihluta á Alþingi. Sé ráðherra vanhæfur til að fjalla um mál ber að setja staðgengil, þ.e. annan ráðherra, í hans stað. Regla um þetta er áréttuð í öðru ákvæði í frumvarpinu þar sem segir að þá feli forsætisráðherra öðrum ráðherra meðferð málsins.
Þetta er nákvæmlega sama skilyrðið og sett er um forseta Íslands, sem áður er fjallað um. Annað hæfisskilyrði er sett um alþingismenn og löggjafanum falið að útfæra það nánar.
Í skýringum er einnig þessi athyglisverði skýringarkostur:
Banni við öðrum launuðum störfum ráðherra og ólaunuðum störfum í þágu einkafyrirtækja og opinberra stofnana lýkur þegar látið er af ráðherraembætti. Eðlilegt er þó að skýra ákvæðið með hliðsjón af sjónarmiðum úr stjórnlagafræði og stjórnmálafræði erlendis um að ekki stæðist að ráðherra gerði samning um slíkt starf meðan hann sæti í embætti, þó að starfssamningur eða verksamningur tæki ekki gildi fyrr en að loknum ráðherradómi. Slíkir samningar og jafnvel áform fælu í sér misnotkun á aðstöðu og brot á stjórnarskrá, a.m.k. ef líta mætti svo á að samningur væri gerður vegna stöðu ráðherra.
Upplýsingaskylda um fjárhagslega hagsmuni
Auk efnisreglunnar um almennt, neikvætt hæfi ráðherra er formregla sem skyldar þá til þess að
veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.
Eins og gjarnan í þessu stjórnarskrárfrumvarpi er löggjafanum falið að útfæra þessa formreglu nánar.