Föstudagur 28.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Ráðherrar og Alþingi (89. gr.)

Í 89. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Ráðherrar mæla fyrir frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn, svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum á Alþingi eftir því sem þeir eru til kvaddir, en gæta verða þeir þingskapa.

Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.

Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.

Eins og fram kom í gær er víða í gildandi stjórnarskránni fjallað um ráðherra.

Ráðherrar sitji ekki sem þingmenn

Af ákvæðum 89. gr. frumvarpsins er þó aðeins ákvæði á borð við 2. mgr. að finna í stjórnarskránni nú, þ.e. reglu þess efnis að ráðherrar hafi vitaskuld ekki atkvæðisrétt á Alþingi – nema þeir séu jafnframt kjörnir alþingismenn, eins og oftast. Síðastgreindur fyrirvari hverfur nú vegna eins helsta nýmælis stjórnarskrárfrumvarps þessa, þ.e. að kjörnir alþingismenn víkja tímabundið sem þingmenn meðan þeir gegna ráðherraembætti og varamenn taka sæti þeirra á meðan.

Í þessu felst vitaskuld vísbending um að gjarnan megi oftar skipa utanþingsfólk í ráðherraembætti.

Helstu mótrökin gegn þessu voru eftirfarandi:

  1. Með þessu væri stjórnarmeirihlutinn aðeins styrktur þar sem allt að 10 ferskir varaþingmenn tækju sæti á Alþingi og gætu talað fyrir málum stjórnarinnar og unnið þeim fylgi innan þings og utan þó að styrkleikahlutföll í atkvæðamagni breytist ekki; þetta eru gild mótrök gegn þessari leið og þeirri leið að ganga lengra – þannig að ráðherrar segðu alveg af sér þingmennsku. Ég mat þó þyngri rökin um að greina persónulega á milli þingstarfa og starfa ráðherra.
  2. Ýmsir vildu ganga lengra og að ráðherrar segðu alveg af sér þingmennsku; ég taldi slíka breytingu of róttæka auk þess sem hún myndi draga úr líkum þess að ráðherrum væri skipt út – ef þeir hefðu í engin önnur hús (en þinghúsið) að venda.
  3. Sumir töldu þessa breytingu of formlegs eðlis og yfirborðskennda en ekki breyta neinu í raun. Ég er á öðru máli og tel að viðvera, staðsetning og forréttindi ráðherra innan þings sem utan veki ranga mynd þar sem kjörnir fulltrúar eigi frekar að vera í aðalhlutverki á löggjafarþinginu en ráðherrar sem þjónar þótt æðstu embættismenn innan framkvæmdarvaldsins séu. Aðalmótrökin gegn þessari röksemd eru þó þau að raunveruleg réttarstaða ráðherra á þingi er löguð að þessari formbreytingu með því að ráðherrar taki aðeins þátt í þingstörfum „eftir því sem þeir eru til kvaddir“ eins og fjallað er um  hér næst að neðan.

Ráðherrar aðeins á þingi ef „til kvaddir“

Enn róttækari breyting en þessi formlega breyting á tvöföldu hlutverki ráðherra-þingmanna felst í breyttu hlutverki ráðherra á þingi skv. 1. mgr. 89. gr. frumvarpsins; samkvæmt því munu ráðherrar aðeins

  • mæla fyrir frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn,
  • svara fyrirspurnum og
  • taka þátt í umræðum á Alþingi

eftir því sem þeir eru til kvaddir, […].

Í samræmi við þetta er ákvæðið vel skýrt í skýringum með þessu ákvæði þar sem m.a. segir:

Orðalagið „eftir því sem þeir eru til kvaddir“ á við um alla þá liði sem á undan standa og er ætlað að hnykkja á því að Alþingi hefur visst sjálfdæmi í því hvaða atbeina ráðherra óskar við að mæla fyrir frumvörpum, hvernig máls­ og tillögurétturinn skal útfærður o.s.frv. Um þetta setur þingið nánari reglur í þingsköpum. Það getur einnig falið forseta þingsins eða forsætis­ nefnd að meta hvort og hvenær óskað skuli þátttöku ráðherra eða látið þingmönnum eftir að óska slíks, eftir atvikum og að eigin vali. Þó ber að halda því til haga að ráðherrar hafa sjálfstæðan rétt til að gera grein fyrir málefnum sem undir þá heyra með skýrslu til Alþingis, sbr. 94. gr. um skýrslu ríkisstjórnar til þingsins, og þeir bera upplýsinga­ og sannleiksskyldu gagnvart Alþingi, sbr. 93. gr. sem er mikilvægur þáttur í eftirlitsvaldi þingsins gagnvart fram­ kvæmdarvaldinu.

Að þessu hef ég áður vikið – í pistli um 56. gr. frumvarpsins um flutning þingmála þar sem sagði um þetta:

Þá er mikilvæg – og ekki bara „symbolsk“, heldur skyld – breyting fólgin í frumvarpinu þar sem ráðherrar eiga aðeins skv. 1. mgr. 89. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins að mæla fyrir (stjórnar)frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn og taka þátt í umræðum á Alþingi

eftir því sem þeir eru til kvaddir

Þó að áfram sé gert ráð fyrir að flest frumvörp verði samin af sérfræðingum Stjórnarráðsins er dregið úr frumkvæði ráðuneytanna – og ákvörðunarvald fært til Alþingis – enda eru ráðherrar þjónar þings og þjóðar; eins og Ómar Ragnarsson benti oft á í stjórnlagaráði eru orðin ambátt og embætti samstofna.

Tilfærsla valds til Alþingis í því skyni að draga úr ráðherraræði er því ekki bundin við „symbolskar“ breytingar á borð við þá að ráðherrar víki af Alþingi meðan þeir gegna ráðherraembætti.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur