Í 94. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Árlega leggur ríkisstjórn fyrir Alþingi skýrslu um störf sín og framkvæmd ályktana þingsins.
Ráðherra getur gert grein fyrir málefni sem undir hann heyrir með skýrslu til Alþingis.
Í gildandi stjórnarskrá er ekkert sambærilegt ákvæði að finna. Ákvæðið er eitt af mörgum nýmælum í því skyni að dýpka þingræðið og styrkja eftirlitsvald þingsins.
Skyldubundin, árleg skýrslugjöf ríkisstjórnar til þings…
Í fyrri málsgrein er lögð skylda á ríkisstjórnina til þess að gera Alþingi árlega grein fyrir störfum sínum
og framkvæmd ályktana þingsins.
Í þessu felst réttarbót vilji menn styrkja Alþingi enda hafa fræðimenn í stjórnskipunarrétti yfirleitt talið að þingsályktanir séu ekki lagalega bindandi fyrir ríkisstjórn; með þessu nýmæli er ályktunum Alþingis gefið sterkara pólitískt gildi þar sem ríkisstjórn þarf að standa frammi fyrir þingheimi og viðurkenna ef þær hafa verið hunsaðar og útskýra ef þingsályktunum hefur ekki verið fylgt að öllu leyti. Gæti staða þingsályktana jafnvel styrkst lagalega í kjölfarið.
Um fyrri málsgrein segir svo í skýringum:
Ákvæðið er liður í að skerpa og efla eftirlitsvald þingsins.
Finna má áþekk ákvæði í finnsku stjórnarskránni, m.a. 44. gr., þar sem ríkisstjórn getur kynnt yfirlýsingu sína eða skýrslu í þinginu.
Þá hefur sambærilegt fyrirkomulag verið lögbundið með lögum nr. 84/2011 sem taka gildi 1. október nk., sbr. nýja málsgrein við 44. gr. þar sem segir að forsætisráðherra skuli í október á hverju ári leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem þingið samþykkti á næstliðnu ári og kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar.
Í 1. mgr. er kveðið á um að ríkisstjórn leggi árlega fyrir Alþingi skýrslu um störf sín og fram kvæmdir ályktana þingsins. Í ljósi þess að framkvæmdarvaldið situr í skjóli þingsins, hvílir rík eftirlitsskylda á Alþingi. Árlegar skýrslur ríkisstjórnarinnar eru ein leið löggjafarvaldsins til að átta sig á virkni ályktana og þeirra laga sem það sjálft hefur sett. Þeim er ætlað að varpa ljósi á hvort framkvæmdin skili þeim árangri sem stefnt var að og meta hvort úrbóta sé þörf. Þannig getur þingeftirlit tryggt betri og skilvirkari löggjöf og stuðlað að virkara lýðræði.
Ákævðið teku, sem sagt, einnig almennt til starfa ríkisstjórnar í samræmi við aukna áherslu á inntak þingræðisins og styrkingu stöðu Alþingis.
… og valfrjáls greinargerð ráðherra þegar hann óskar
Síðari málsgreinin gengur í sömu átt en er vægari þar sem ráðherra hefur þar val um að gera Alþingi grein fyrir málefni, sem undir hann heyrir, þegar og ef hann vill; má segja að staða ráðherra sé einnig styrkt með þessu þar sem hann hefur þar með sjálfstæðan rétt til þess að tjá sig við þingið.
Um nýmælið í síðari málsgrein segir í skýringum:
Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra hafi rétt til að gera Alþingi grein fyrir málefni sem undir hann heyrir með skýrslu, þ.e. um ákveðinn frumkvæðisrétt. Alla jafna tala ráðherrar aðeins á Alþingi ef þeir eru til þess kallaðir, sbr. grein um ráðherra og Alþingi. Með þessu ákvæði er ráðherrum á hinn bóginn fenginn sjálfstæður réttur til að flytja þinginu skýrslu og ber þinginu að verða við ósk um slíkt. Með þessu getur ráðherra m.a. gegnt upplýsingaskyldu gagnvart þinginu að eigin frumkvæði ef og þegar þörf krefur.