Fimmtudagur 03.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Ráðherraábyrgð (95. gr.)

Í 95. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Ráðherrar bera lagalega ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Bóki ráðherra andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann þó ekki ábyrgð á henni. Ábyrgð vegna embættisbrota þeirra skal ákveðin með lögum.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákveður, að undangenginni könnun, hvort hefja skuli rannsókn á meintum embættisbrotum ráðherra. Nefndin skipar saksóknara sem annast rannsóknina. Hann metur hvort niðurstaða rannsóknarinnar sé nægileg eða líkleg til sakfellingar og gefur þá út ákæru og sækir málið fyrir dómstólum. Nánar skal kveðið á um rannsókn og meðferð slíkra mála í lögum.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum; svo segir:

Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstsur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.

Lesa ber tilvitnað stjórnarskráákvæði í samhengi við þau ákvæði stjórnarskrárinnar, sem kveða á um að forseti láti ráðherra framkvæma vald „sitt“ og um að gildi stjórnarathafna forseta eða löggjafarathafna sé háð meðundirritun ráðherra; að þeim er áður vikið í tengslum við ákvæði stjórnarskrárfrumvarpsins um ábyrgð hvers ráðherra á sínum málaflokki.

Ákvæðið fjallar aðeins um lagalega ráðherraábyrgð

Innskotið um að um sé að ræða „lagalega“ ábyrgð er aðeins til áréttingar en ekki efnislegt nýmæli – enda fjallar gildandi stjórnarskrárákvæði sömuleiðs einungis um lagalega ábyrgð; getur hún bæði falist  í refsiábyrgð og bótaábyrgð. Um hina pólitísku ábyrgð er áður fjallað, t.d. í tengslum við þingræði og vantraust. Í 1. og 3. málslið fyrri málsgreinar 95. gr. er því ekkert nýtt að efni til.

Í 2. málslið fyrri málsgreinar er hins vegar það nýmæli að ráðherra getur firrt sig hinni lagalegu ábyrgð með því að bóka „andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar“ – en væntanlega ekki hinni pólitísku ábyrgð sem hann ber væntanlega meðan hann situr í ríkisstjórn. Þetta ákvæði verður að lesa í samhengi við eitt stærsta nýmæli stjórnarskrárfrumvarpsins – sem áður er fjallað um – þ.e. að ríkisstjórn taki undantekningartilvikum sameiginlegar ákvarðanir, þ.e.

um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum.

Óréttlátt væri að til viðbótar við pólitíska ábyrgð ráðherra á slíkum ákvörðunum – sæti hann áfram sem ráðherra – gæti komið refsi- og bótaábyrgð ef ráðherra væri mótfallinn ákvörðun og léti þá afstöðu skýrlega í ljós. Verður hann því að hafa möguleika á því að firra sig lagalegu ábyrgðinni með bókun – sem svo getur vitaskuld leitt til afsagnar hans eða til annarrar (og að hans mati betri) ákvörðunar; eins og rakið er nánar í skýringum er ekki ætlast til þess að slíkar bókanir séu gerðar í pólitísku skyni.

Þá verður að skoða ábyrgð og ábyrgðarleysismöguleika ráðherra í ljósi gildandi stjórnarskrárákvæðis og sambærilegs frumvarpsákvæðis um skyldu til þess að halda fundi um mikilvæg málefni – sem er meðal þess sem Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, er ákærður fyrir Landsdómi fyrir að hafa látið farast fyrir. Að því er einnig vikið í skýringum.

Rétt er að taka fram að víða gætir þess misskilnings að algert nýmæli sé að ráðherra geti borið ábyrgð á málefni sem heyrir stjórnarfarslega undir annan ráðherra; svo er ekki því skv. 5. gr. laga nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð getur ráðherra – í samræmi við almennar reglur refsiréttar um svonefnda „hlutdeild“ – borið meðábyrgð ef um er að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ríkisstjórnarfundi því að þá

bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni.

Ný skipan mála um ráðherraábyrgð

Aðalnýmæli frumvarpsákvæðisins felst hins vegar í nýrri málsmeðferð og skipan mála til þess að koma fram hinni lagalegu ráðherraábyrgð – sem um þessar mundir reynir einmitt á í fyrsta skipti síðan íslenskur ráðherra fékkst í landið fyrir bráðum 108 árum. Í stuttu máli eru breytingarnar þessar

  1. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákveður í stað Alþingis sjálfs, að undangenginni könnun, hvort hefja skuli rannsókn á meintum embættisbrotum ráðherra.
  2. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skipar saksóknara Alþingis í stað Alþingis sjálfs. Ekki var fallist á hugmyndir um að ríkissaksóknari annaðist þessi mál í stað saksóknara sem valinn er sérstaklega (ad hoc) vegna máls um ráðherraábyrgð eins og nú; rök fyrir þeirri skipan má finna í skýringum.
  3. Saksóknari Alþingis annast rannsókn áður en ákveðið er að ákæra ráðherra vegna ráðherraábyrgðar en því hefur verið haldið fram að eiginleg sakamálarannsókn hafi ekki hafist fyrr en eftir slíka ákvörðun þingsins í tilvitnuðu Landsdómsmáli fyrrverandi forsætisráðherra.
  4. Saksóknari Alþingi metur hvort niðurstaða rannsóknarinnar sé nægileg eða líkleg til sakfellingar og gefur þá út ákæru – í stað þess að sú ákvörðun sé tekin af Alþingi samkvæmt núverandi skipan.
  5. Mál um ráðherraábyrgð er dæmt í Hæstarétti á endanum í stað þess að Landsdómur dæmi málið á einu stigi; löggjafinn hefur hins vegar í hendi sér hvort
  • slíkt mál sé rekið á einu dómstigi eins og nú – en þá fyrir Hæstarétti,
  • eða hvort það skuli rekið á fleiri dómstigum og þá hvort það skuli vera fyrir héraðsdómi og svo eftir atvikum á millidómstigi sem kann að verða komið á eða fyrir sérdómstóli um ráðherraábyrgð á fyrsta stigi.

Rök fyrir þessum nokkuð róttæku réttarbótum er að finna í skýringum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur