Þriðjudagur 15.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Kosning sveitarstjórna og íbúalýðræði (107. gr.)

Í 107. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Sveitarfélögum er stjórnað af sveitarstjórnum sem starfa í umboði íbúa og eru kjörnar í almennum, leynilegum kosningum.

Rétti íbúa sveitarfélags til þess að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess skal skipað með lögum.

Nauðsynlegt að hafa í stjórnarskrá…

Í gildandi stjórnarskrá segir ekkert um þetta en um þetta eru ákvæði í lögum; sem endranær er þó ástæða til þess að meta hverju sinni

  • hvaða reglur er nægilegt að hafa í lögum (og eftir atvikum nauðsynlegt til útfærslu á stjórnarskrárákvæðum) annars vegar og
  • hvaða reglur er nauðsynlegt að kveða á um í stjórnarskránni – m.a. til þess að binda hendur löggjafans eins og áður er vikið að.

… en nægilegt að útfæra nánar í lögum

Þó að þessar reglur séu að nokkru leyti þegar komnar í lög – sem er jú unnt að breyta að ákvörðun Alþingis – taldi stjórnlagaráð þær eiga heima í stjórnarskrá sem meginreglur sem útfæra má frekar í lögum. Í skýringum segir um þetta:

Í tillögu stjórnlaganefndar var lagt til nýmæli um kosningu sveitarstjórna og íbúalýðræði, en ákvæðið byggist á tillögu nefndarinnar, að undanskilinni orðalagsbreytingu í 1. mgr.

Í 1. mgr. þótti rétt að kveða á um það sem lengi hefur gilt skv. lögum, að sveitarfélögum skuli stjórnað af sveitarstjórnum, þær sæki umboð sitt til íbúanna og séu kjörnar í almennum kosn­ ingum sem skuli vera leynilegar. Eðlilegt þykir að kveðið sé á um slík grundvallarréttindi, líkt og kosningu sveitarstjórnar, í stjórnarskrá.

Til umræðu kom hvort áskilja bæri persónukjör eða heimila beitingu þess, eins og gert er í frumvarpi þessu, sbr. 39. gr., en talið var nægilegt að löggjafinn ákvæði slíkt og útfærði – og þá með hliðsjón af reglum stjórnarskrár og lögum um alþingiskosningar. Um nánari fyrirmæli, m.a. um kjörgengi og kosningarétt, verður kveðið á í almennum lögum.

Þá er nýmæli fólgið í 2. mgr. sem kveður á um rétt íbúa sveitarfélags til þess að óska eftir at­ kvæðagreiðslu um málefni þess. Sveitarfélög gegna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki, enda eru þau það stjórnvald sem er næst fólkinu. Ákvæðið eitt og sér felur ekki í sér sérstakar skyld­ ur sveitarfélaga, heldur ráðagerð um að slíkar atkvæðagreiðslur skuli haldnar að ákveðum skilyrðum fullnægðum.

Réttinn til að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni sveitarfélaga er nú þegar að finna í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. 8. gr. laga nr. 74/2003, og er meginbreytingin því að sá réttur er nú stjórnarskrárvarinn. Útfærslan er þó eins og í fleiri tilvikum sett í hendur löggjafans.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur