Í 110. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Ráðherra gerir þjóðréttarsamninga fyrir hönd Íslands. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi, innsævi, landhelgi, efnahagslögsögu eða landgrunni, eða kalla á breytingar á landslögum, eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum, nema samþykki Alþingis komi til.
Í gildandi stjórnarskrá er sambærilegt ákvæði þess efnis að forseti lýðveldisins – þ.e.a.s. að jafnaði utanríkisráðherra í raun – geri samninga við önnur ríki; svo segir:
Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.
Forseti skrifaður út úr utanríkismálum
Breytingin með 110. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs felst einkum í því að formlegs atbeina forseta Íslands verður ekki lengur þörf en um það segir í skýringum:
Hvað varðar aðkomu forseta Íslands vegna gerðar þjóðréttarsamninga er fyrirkomulagið í núgildandi stjórnarskrá að ráðherra framkvæmir vald forseta í þessum efnum. Samþykki Alþingis er veitt með þingsályktun. Þannig leggur utanríkisráðherra fram tillögu um að þingið veiti heimild til fullgildingar tiltekins samnings. Þegar lagabreytinga er þörf vegna aðildar að samningi leggur viðkomandi ráðherra sem málefnið heyrir undir einnig fram frumvarp sem mælir fyrir um hvernig beri að breyta eða bæta við íslenska löggjöf til þess að uppfylla þær þjóðréttarskyldur sem samningurinn hefur í för með sér. Með greininni er fallið frá form kröfunni um aðkomu forseta að þessu leyti og tilgreint að það sé ráðherra sem gerir umrædda samninga.
Varnarsamningurinn frá 1951 stjórnarskrárbrot
Um hugtökin „afsal eða kvaðir á landi, innsævi, landhelgi, efnahagslögsögu eða landgrunni, eða kalla á breytingar á landslögum“ segir í skýringum:
Með „afsali á landi“ er átt sem áður við að Ísland afsali sér yfirráðarétti á landi með samningi en orðalagið tekur hins vegar ekki til þess þótt yfirfærsla verði á eignarrétti, t.d. við sölu jarðar í eigu ríkisins. Þá verða orðin „kvaðir á landi“ eða „landhelgi“ skýrð svo að með þeim sé átt við takmörkuð og tímabundin yfirráð annars ríkis yfir landi eða landhelgi. Orðalagið „innsævi, efnahagslögsögu eða landgrunni“ er nýtt miðað við núgildandi orðalag 21. gr. Tekur það mið af þeirri þróun sem orðið hefur á sviði hafréttar á síðari hluta 20. aldar en um er að ræða þau hafsvæði þar sem ríki fer með fullveldi, fullveldisréttindi eða lögsögu. Verður að ætla að túlkun á því hvað teljist afsal eða kvaðir á slíkum svæðum túlkist með samsvarandi hætti og við hefur átt um orðalag 21. gr. um afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi. Það væri til að mynda talin kvöð að gera samning sem veitti erlendu ríki eða ríkjum réttindi til fisk veiða eða nýtingar annarra auðlinda í íslenskri efnahagslögsögu. Orðalagið „kalla á breytingar á landslögum“ kemur í stað orðalagsins „breytingar á stjórnarhögum“ í 21. gr. núgildandi stjórnarskrár og færir það í raun til þess sem talið hefur verið felast í því orðalagi, þ.e. að leita verður samþykkis þingsins þegar skuldbindingar samnings kalla á að breytingar verði gerðar á íslenskum lögum svo uppfylla megi þær kröfur sem felast í samningi. Breytt orðalag færir því ákvæðið til samræmis við þá túlkun sem viðgengist hefur á 21. gr.
Sem dæmi um slíkan milliríkjasamning má nefna varnarsamninginn við Bandaríki Norður-Ameríku 1951; þar sem samþykkis Alþingis var ekki aflað áður en hann var undirritaður og áður en hann tók gildi hefur verið talið að þar hafi stjórnarskráin verið brotin eins og prófessorar í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands hafa í raun tekið undir; um það skrifar núverandi prófessor, Björg Thorarensen, í ritgerðinni Stjórnarskráin og meðferð utanríkismála (neðanmálsgrein nr. 115) og vitnar í fyrri prófessor, Gunnar. G. Schram:
Miklar deilur spruttu upp um samningsgerðina við Bandaríkjamenn. Samningurinn var gerður á grundvelli samningsins um Norður-Atlantshafsbandalagið, undirritaður 5. maí 1951 af utanríkisráðherra íslands og sendiherra Bandaríkjanna á íslandi, staðfestur af handhöfum forsetavalds sama dag og gekk þegar í gildi. Hann var birtur með auglýsingu nr. 64/1951 þann 23. maí 1951 og degi síðar voru gefin út bráðabirgðalög um lagagildi hans. Þegar frumvarp var lagt fram til staðfestingar samningnum haustið eftir urðu harðar deilur um þennan aðdraganda að samningsaðild íslands og var ríkisstjórnin sökuð um stjórnarskrárbrot. Verður að taka undir gagnrýni um að réttilega hefði átt að leita samþykkis Alþingis samkvæmt 21. gr. stjórnarskrárinnar fyrir jafn viðurhlutamiklum þjóðréttarskuldbindingum og lagabreytingum og samningurinn fól í sér. Sjá nánar Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, bls. 382 og 383.