Laugardagur 19.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Framsal ríkisvalds (111. gr.)

Í 111. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.

Í gildandi stjórnarskrá er ekkert slíkt ákvæði að finna – og er því um þarft nýmæli að ræða, hvort sem fólk aðhyllist frekara samstarf milli ríkja með yfirþjóðlegum stofnunum eður ei. Um það ritaði ég fyrir réttu ári í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings en þar er ítarlegri rök að finna en hér, svo og mína eigin uppskrift að framsalsákvæði – sem er frábrugðið frumvarpinu, bæði að formi og efni til.

Stjórnarskráin brotin með aðild að EES

Benda má á að hingað til hafa Íslendingar framselt hluta ríkisvalds síns án sérstakrar heimildar í stjórnarskrá – og í sumum tilvikum í bága við stjórnskipunarreglur að mínu mati – eins og margir lögfræðingar hafa talið en aðrir andmælt. Vegna takmörkunar í réttarfarsreglum og þar sem hér er enginn stjórnlagadómstóll var ekki unnt að láta á þetta reyna á sínum tíma.

Sem dæmi um slíkt valdframsal íslenska ríkisins án sérstakrar heimildar í stjórnarskrá má nefna eftirfarandi dæmi:

  • EES-samningurinn.
  • Bindandi gildi ákvarðana Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
  • Schengen-samkomulagið.

Brýnt er því að setja slíka heimild í stjórnarskrá – og þar með setja slíku framsali framvegis efnisleg mörk og formlega umgjörð.

Til viðbótar ítarlegar skýringum skal ekki fjölyrt um þetta fyrir utan að árétta þá réttarbót sem felst í niðurlagi 111. gr. frumvarpsins – eins og nú skal tekið raunhæft dæmi um.

Mikil réttarbót hvað varðar ESB-aðild, bæði fyrir andstæðinga og fylgismenn aðildar

Í dag getur utanríkisráðherra í samráði við Alþingi skrifað undir aðildarsamning við ESB í samræmi við samþykkt Alþingis 16. júlí 2009 og fengið hann samþykktan á Alþingi sem þyrfti svo að samþykkja sérstaka breytingu á stjórnarskránni til þess að heimila það framsal ríkisvalds sem í aðild fælist. Stjórnarskránni yrði þá breytt samkvæmt gildandi stjórnarskrárreglum, þ.e. með samþykktum tveggja þinga með þingkosningum á milli. Kjósendur fengju því ekki tækifæri til þess að taka sérstaklega eða eingöngu afstöðu til þess máls. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem ráðgerð er um væntanlegan aðildarsamning Íslands við ESB er lagalega aðeins ráðgefandi þar sem stjórnarskráin kveður ekki á um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu og segir þar með ekkert um gildi hennar – sem er aðeins pólitískt.

Réttarbót 111. gr. frumvarpsins felst í því að slík þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning Íslands að ESB yrði

  • bæði sérstaklega um það mál og
  • bindandi.

Þá má segja að þriðja réttarbótin sé að skýrt er að slíkt framsal ríkisvalds skuli ávallt vera afturkræft – eins og nánar er rakið í skýringum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur