Mánudagur 21.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Stjórnarskrárbreytingar (113. gr.)

Í 113. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er fjallað um hvernig breyta á stjórnarskránni framvegis, verði þetta frumvarp að stjórnarskrá; þess má geta að það var það eina sem síðasta stjórnarskrárnefnd þingmanna varð sammála um – þ.e. hvernig breyta ætti stjórnarskránni.

Tillaga stjórnlagaráðs í 113. gr. hljóðar svo:

Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytingar á stjórnarskrá skal það borið undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.

Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, megi bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi; þá segir:

Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.

Frumkvæðið áfram hjá Alþingi…

Stjórnlagaráð leggur þannig ekki til að frumkvæðið færist úr höndum Alþingis enda var ekki fallist á tillögu mína og fleiri félaga í ráðinu um að reglulegt stjórnlagaþing tæki ávallt afstöðu til stjórnarskrárbreytinga og þjóðin staðfesti síðan eða hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Rökin fyrir þeirri felldu tillögu voru að Alþingi hefði sýnt að það væri hvorki fært né hæft til að ráða þessu máli nánast eitt.

… en ákvörðunarvald fært frá einföldum meirihluta Alþingis

Stjórnlagaráð leggur hins vegar til að reglunni um hvernig breyta á stjórnarskránni – þ.e. með tveimur samhljóða samþykktum Alþingis og alþingiskosningum á milli – sé breytt; tillaga okkar er tvíþætt:

  1. Meiriháttar breytingar þurfi alltaf bindandi samþykki kjósenda í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu; það er réttarbót frá því sem nú gildir þegar alþingiskosningar snúast gjarnan um allt annað en stjórnarskrárbreytingar. Sem dæmi má nefna þegar mannréttindakafla stjórnarskrárinnar var breytt töluvert 1995; í þingkosningum eftir fyrri samþykktina og áður en Alþingi samþykkti hana að nýju var lítið fjallað um stjórnarskrárbreytingarnar sem þingmenn höfðu sammælst um. Í raun er möguleiki kjósenda til þess að hafna stjórnarskrárbreytingu í núverandi kerfi sáralítill.
  2. Minniháttar breytingar megi þó samþykkja með auknum meirihluta á Alþingi, þ.e. 5/6 sem er 53 af 63 þingmönnum; 11 þingmenn gætu því stöðvað notkun á minniháttar-reglunni. Bent hefur verið á hættu á að þetta ákvæði verði misnotað en meirihluti stjórnlagaráðs taldi hættuna á því litla og að æskilegt væri að tæknilegar breytingar, sem mikil samstaða væri um á Alþingi, gætu náð fram að ganga án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í skýringum segir um síðarnefndu regluna:

Sú undantekning er þó gerð að hafi frumvörp verið samþykkt af 5/6 hluta alþingismanna geti Alþingi ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá breytingarnar gildi án frekari meðferðar. Þessi möguleiki á einfaldri meðferð er settur inn með það í huga að hugsanlega þurfi af einhverjum ástæðum að gera smávægilegar breytingar á stjórnarskrá, t.d. vegna minni háttar þjóðréttarsamninga.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur