Þriðjudagur 22.3.2016 - 18:05 - FB ummæli ()

Fjármögnun heilbrigðisþjónustu – Frá hæstu útgjöldum á Norðurlöndum í lægstu!

Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir m.a. „Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.“

Síðan ríkisstjórnin tók við völdum hafa útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri Landsframleiðslu (VLF) ekki aukist, heldur staðið í stað m.v. síðasta ár ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er umhugsunarvert því staða ríkisfjármála eru betri í dag en á síðasta kjörtímabili, þökk sé góðs efnahagsbata undanfarin ár vegna fjölgunar ferðamanna og makrílveiða.

Ef útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF á Íslandi er borin saman við hin Norðurlöndin kemur í ljós að Ísland og Finnland leggja minna til heilbrigðismála en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Árið 2014 lögðu Íslendingar 8,8% af VLF til heilbrigðismála, Finnar 8,7%, Norðmenn 9,2%, Danir 10,4% og Svíar 11%. Ef Íslendingar ætluðu að leggja jafnmikið og Svíar til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF þurfa heilbrigðisútgjöld að aukast um rúmlega 40 milljarða króna á Íslandi eða um 20-25%.

Ef skoðuð eru útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF á Norðurlöndum frá árinu 2000 til ársins 2014 (sjá mynd) kemur í ljós að á tímabilinu 2000-2005 lögðu Íslendingar mest til heilbrigðismála miðað við hin Norðurlöndin. Athyglisvert er að árið 2003 lagði Ísland 10,1% til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF, langmest af öllum Norðurlöndum. Síðan árið 2005 hefur hlutfall útgjalda til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF lækkað og haldist nánast óbreytt frá árinu 2006 þegar það var 8,9%. Umhugsunarvert er að árið 2014 leggur Ísland (ásamt Finnlandi) minnst til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF af Norðurlöndum en tíu árum áður lagði Ísland mest til heilbrigðismála. Annað sem er ekki síður áhyggjuefni að sé myndin skoðuðvel kemur í ljós að öll Norðurlönd eru að auka verulega útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF frá árinu 2000 til 2014 nema Ísland.

NL

[1]

Sú staðreynd að ekki hefur verið lagt meira fé til heilbrigðsisþjónustu en raun ber vitni um hefur haft margvíslegar afleiðingar. Nær engin fjárfesting í nýjum spítölum hefur átt sér stað síðustu  árin, innleiðing á nýjum meðferðum og lyfjum hefur dregist úr hófi fram, fjárfesting í nýjum tækjum er leyst með sérstökum átaksverkefnum.  Rauntölur um helbrigðisútgjöld sýna að ekki hefur verið veitt meira til heilbrigðisþjónustu sem hlutfall af VLF á þessu kjörtímabili en á því síðasta, þrátt fyrir orðaflaum ráðherra um annað.  Við eigum langt í land með að ná sambærilegum aðstæðum í heilbrigðismálum eins og ríkir í Danmörku og Svíþjóð. Við viljum vera bjartsýnir og gefa eitt ráð: Í stað þess að tala um að hafa lagt svo og svo mikið í heilbrigðismál, sýnið það í verki og með tölum sem sýna  raunverulega aukningu á fjármagni til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF.

Að endingu viljum við taka fram við styðjum heilshugar áskorun Kára Stefánssonar til stjórnvalda um að þau tryggi að útgjöld til heilbrigðismála verði 11% af VLF.

[1] OECD Health Data

 

Meðhöfundur er Ólafur Ólafsson læknir og greinin birtist í Fréttablaðinu 22. mars 2016

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.2.2016 - 19:41 - FB ummæli ()

Áfengi í búðir – Góð hugmynd?

Fyrir alþingi liggur frumvarp Viljhjálms Árnasonar alþingismanns um að leyfa sölu áfengis, þ.e. bjór, létt og sterkt vín, í öllum matvöruverslunum. Áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Að neyta áfengis er ekki það sama og neyta gosdrykkjar eða mjólkur, því áfengi er vímugjafi. Til að sporna við slæmum félagslegum áhrifum áfengis hefur verið við lýði á Íslandi íhaldssöm og áhrifarík áfengisstefna sem leggur áherslu á öflugar forvarnir, háan áfengiskaupaaldur, háa áfengisskatta og takmarkað aðgengi að áfengi.  Á Íslandi náði áfengisneysla hámarki árið 2007 en það ár var neyslan 7,53 l á hvern einstakling 15 ára og eldri. Árið 2014 var áfengisneyslan um 7,18 l á hvern Íslending 15 ára og eldri.

Í röklítilli greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ef sala áfengis verður leyfð í venjulegum matvöruverslunum mun neyslan á áfengi aðeins aukast en svo jafnast út. Bak við þessa fullyrðingu eru engar tilvitnanir í rannsóknir sem styðja hana. Hins vegar er sagt í greinargerðinni að ekki hafi verið sýnt fram á að varanlegt orsakasamhengi sé á milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu. Þessi undarlega fullyrðing er í andstöðu við fjölda alþjóðlegra rannsókna[1] og slæma reynslu nágrannaþjóða okkar af auknu aðgengi að áfengi sem hefur leitt af sér meiri heilbrigðis- og félagsleg vandamál.

Í dag rekur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 48 vínbúðir um allt land, þar af 12 verslanir á höfuðborgarsvæðinu, sem tryggir nægilegt aðgengi að áfengi. Ef frumvarpið nær í gegn mun útsölustöðum áfengis fjölga að lágmarki um 550% á höfuðborgarsvæðinu m.v. óbreyttan fjölda matvöruverslana stærstu keðjanna. Varðandi aðgengi að áfengi má benda á að á vegum  ÁTVR eru fleiri áfengisverslanir en ríkisreknar heilsugæslustöðvar.

Í greinargerðinni er sagt frá upplifun manns sem fór í matvöruverslun í bænum Maribo í Danmörku sem er jafnstór og Akranes, þar sem íbúar geta valið úr úrvali að lágmarki 300 tegunda af áfengi í venjulegri matvöruverslun. Ég tel mjög óheppilegt að nefna Danmörku sem fyrirmynd í áfengismálum því þar er almenn áfengisneysla 50% meiri en á Íslandi. Að auki er vert að nefna að í nýlegri rannsókn sem Sveinsína Ósk Emilsdóttir gerði kom í ljós að í Danmörku hafa yfir 80% unglinga 15-16 ára í Danmörku neytt áfengis seinustu 30 daga en um 30% íslenskra unglinga á sama aldri.[2] Ein af skýringum af hverju áfengisneysla er miklu meiri í Danmörku en á Íslandi er að mati Sveinsínu Ósk annars vegar sú staðreynd að í Danmörku er máttlítil opinber áfengisvarnarstefna og hins vegar að hægt er að versla allar tegundir áfengis í venjulegri matvöruverslun eins og stefnt er að í frumvarpi Vilhjálms Árnasonar.

Í ljósi reynslu af sölu áfengis í matvöruverslunum í Danmörku tek ég undir með umboðsmanni barna sem segir í umsögn sinni um frumvarp Vilhjálms m.a.: „að fjölmargar rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi auki neyslu í samfélaginu, en slíkt hefur verulegar neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir börn, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt.“

Ef sala áfengis verður leyfð í almennum verslunum landsins bendir allt til þess að þróun verði svipuð hér og hjá öðrum þjóðum, þ.e. neyslan mun aukast sem leiðir til fleiri félagslegra vandamála, aukins ölvunaraksturs, fleiri heimilisofbeldismála, fleiri annarra ofbeldismála (eins og nauðgana), fleiri skilnaða, meiri vanlíðan hjá börnum, fleiri áfengistengdra dauðsfalla, fleiri tapaðra vinnustunda vegna áfengisneyslu og stofnanir samfélagsins (félagsþjónusta, heilbrigðiskerfið, lögregla o.s.frv.) munu þurfa að eyða meiri tilkostnaði (tíma, mannskap og fé) í að takast á við afleiðingarnar. Ef frumvarpið verður samþykkt verður meintur „ávinningur“ af því að leyfa sölu áfengis í verslunum hjóm eitt miðað við afleiðingar þess.

Mín skoðun er sú að við eigum að viðhalda okkar íhaldssömu stefnu í áfengisvörnum sem við höfum haft undanfarna áratugi og ekki leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum.

Við getum lært margt gott af nágrönnum okkar í Danaveldi, en áfengismenning þeirra er ekki eitt af því. Ég er  sannfærður um að ef Shakespeare hefði verið uppi nú á dögum hefði hann skrifað: There is something rotten in the state of Denmark and it is the alcohol consumption.

[1] Sjá umsögn Embættis Landlæknis.

[2] http://skemman.is/stream/get/1946/22531/48097/1/BA_verkefni-Sveins%C3%ADna-Lokaskil.pdf

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.1.2016 - 19:45 - FB ummæli ()

Kletturinn hverfur….

Nú hefur ríkisvaldið ákveðið að hefja söluferli á merku fyrirbæri sem heitir Leigufélagið Klettur, sem er dótturfélag Íbúðalánasjóðs. Leigufélagið hefur leigt út íbúðir um land allt og býður einstaklingum uppá langtímaleigu á húsnæði. Allt sniðið að þörfum leigjenda. Klettur hefur boðið leigjendum upp á öryggi á leigutíma sem finnst ekki á almennum markaði í dag. Ekki var hægt að segja upp leigusamningi nema vegna vanefnda eða skemmda eða m.ö.o. leigendur bjuggu við öryggi hjá Kletti sem þekkist ekki á leigumarkaði.

Leigufélagið var aðgerð Guðbjarts heitins Hannessonar þáverandi velferðarráðherra til að auka framboð á húsnæði til langtímaleigu og mæta óskum vaxandi hóps leigjenda. Ætíð hefur verið mikil eftirspurn eftir íbúðum félagsins. Úti er ævintýri því nú hefur verið ákveðið að selja fyrirtækið. Þessi félagslega tilraun til að skapa leigjendum öryggi til langs tíma er á enda komin. Leigufélagið hefur verið vel rekið og hefur notað hagnað til að fjölga íbúðum. En hvaða áhrif mun sala á fyrirtækinu hafa?

  1. Leiguverð mun hækka, því kaupendur þurfa að fá fjárfestingu sína til baka á ákveðnum tíma.
  2. Leigutími verður takmarkaður og óöryggi leigjenda eykst.
  3. Staða núverandi leigjenda mun veikjast ásamt því að gera nýjum leigjendum erfiðara fyrir að leigja hjá þeim.

Vegna framangreindra atriða er salan á fyrirtækinu óskiljanleg. Fyrirtækið er vel stætt og hefur skilað tekjum til Íbúðalánasjóðs. Tilurð þess hefur skapað öryggi hjá þúsundum einstaklinga sem hafa loks séð fram á öryggi í langtímaleigu.

Salan vekur einnig upp spurningar í ljósi þess að leigjendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár eða um 50% frá árinu 2004. Í dag er hlutfall leigjenda á húsnæðismarkaði um 22% en var 14% árið 2004. Í stað þess að auka þjónustu fyrirtækisins og gefa fleiri leigjendum kost á að njóta öryggis á leigumarkaði hafa yfirvöld félagsmála í landinu (Félagsmálaráðuneyti og Íbúðalánasjóður) ákveðið að auka óöryggi þessa hóps.

Í þessu sambandi vil ég nefna sögu fjölskyldu (hjón með tvö börn) sem kom heim úr námi 2008. Þau höfðu góðar tekjur en áttu ekkert eigið fé. Þau voru yfir tekjumörkum félagsmálayfirvalda þannig að þau gátu ekki leigt t.d. hjá Félagsbústöðum. Þau gátu staðið undir hárri leigu.

Fólkið fagnaði tilkomu Kletts og höfðu verið á biðlista eftir íbúð hjá þeim. Á þeim átta árum sem þau hafa verið á leigumarkaði hafa þau þurft að flytja fimm sinnum því þau hafa þurft að sæta því að leiguhúsnæðið hefur verið selt og þeim gert að rýma húsnæðið.

Það sem er átakanlegast við þeirra sögu er að tvö barna þeirra hafa verið í fimm mismunandi skólahverfum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi staða hefur valdið óþarfa kvíða og óþægindum hjá börnunum. Fjölskyldan er fórnarlömb aðstæðna og eina sem hún þráir er að komast í gott langtímaleigu húsnæði. Með sölu á Kletti er verið að slökkva á vonum þessa fólks.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Fimmtudagur 14.1.2016 - 21:01 - FB ummæli ()

Heimur batnandi fer?

Um þessar mundir sýnir RÚV þætti sem heita Deutschland ´83. Sögusviðið er Austur- og Vestur- Þýskaland á tímum kalda stríðstins. Á þessum tíma var vopnakapphlaup á milli stórveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í algleymi. Í þetta kapphlaup drógust bandalagsríki stórveldanna, annars vegar Atlantshafsbandalagið (Bandaríkin og bandalagsríki þeirra) og Varsjárbandalagið  (bandalag leppríkja Sovétríkjanna). Sovétríkin höfðu sett upp SS-20 kjarnorkueldflaugar í leppríkjum sínum og Bandaríkin og NATÓ svöruðu kjarnorkuógn í austri með uppsetningu á Pershing II kjarnorkueldflaugum.

Í þessu andrúmslofti ríkti sk. MAD stefna (Mutual assured descrution), þ.e ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi gætu þau tortímt hvort öðru nokkrum sinnum með kjarnorkuvopnabúri sínu. Á þesum tíma var ég unglingur og skildi vel hvað kjarnorkuvopn og kjarnorkustríð snérist um. Á þessum tíma sá ég bíómynd sem hét The day after og fjallaði um afleiðingar kjarnorkustyrjaldar. Þessi bíómynd hafði mikil áhrif á mig. Kalda stríðinu lauk kringum 1990 þegar kommúnisminn hrundi í A-Evrópu og Sovétríkin liðuðust í sundur. Við þau tímamót og síðar var samið um fækkun kjarnorkuvopna og eru ofangreind vopn, SS-20 og Pershing II kjarnorkuvopn ekki lengur staðsett í Evrópu. Við lok Kalda stríðsins blésu vindar friðar og minni ógn stóð af átökum.

Í dag er standa málin þannig að gömlu kjarnorkustórveldin, Bandaríkin og Rússland eiga enn nóg af kjarnorkuvopnum til að tortíma hvoru öðru. Að auki eiga Bretland, Frakkland, Kína, Indland, Pakistan, Ísrael og N-Kórea kjarnorkuvopn. Það má rökstyðja að meira öryggi ríkti í Kalda stríðinu því stórveldin gættu þess að hafa stjórn á ástandinu og ekki missa tök á því, þó að á ákveðnum tímapunktum hafi ástand mála verið ískyggilegt eins og við Kúbudeiluna 1962.

Í dag hafa aðstæður þróast þannig að í heiminum er eitt stórveldi, Bandaríkin, með gríðarlegan hernaðarmátt og sterkt efnahagskerfi. Í kalda stríðinu var annað stórveldi, Sovétríkin. Arftaki þess, Rússland, er ekki stórveldi og önnur ríki hafa eflst eins og Kína og Indland. Þessi ríki hafa mikinn hernaðarmátt og búa yfir kjarnorkuvopnum. Pakistan hefur líka kjarnorkuvopn og hefur það og Indland eldað grátt silfur lengi, m.a. átt í stríði tvisvar. Eina ríkið í mið-Austurlöndum sem hefur að ráða yfir kjarnorkuvopnum er Ísrael. Óútreiknalegasta ríkið til að hafa kjarnorkuvopn er N-Kórea. Leiðtogar þess hafa sýnt litla stjórnvisku og er landið á barmi efnahags- og stjórnmálalegrar kollsteypu, m.a. ríkir hungursneyð í landinu. Ástandið sem ríkir í N-Kóreu eykur ekki bjartsýni hjá manni að andi skynsemi og friðar vaxi í þeim heimshluta, því við og við heyrast hótanir frá stjórnvöldum í N-Kóreu að þau muni verjast með öllum tiltækum vopnum árásum grannríkja. Allir sem fyljgast með alþjóðamálum vita að þesar hótanir yfirvalda í N-Kóreu eru innantómar. Eina ríkið sem hefur getu til að halda N-Kóreu við skynsemismörk er Kína.

 

Þó að kjarnorkuvopnum hefur fækkað síðan kalda stríðinu lauk er enn of mikið til af þeim vopnum til í heiminum til að valda ójafnvægi og óstöðuleika. Maður fær ákveðna ónotatilfinningu yfir fréttum af kjarnorkubrölti N-Kóreu og þeim sem muna þá tíma vona að brjálæðið sem fylgdi kjarnorkukapphlaupinu komi aldrei aftur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur