Sunnudagur 27.11.2016 - 20:57 - FB ummæli ()

Er hægt að sanna tilvist Guðs?

Svarið við þeirri spurningu veltur á því hvað átt er við með orðinu „sönnun“.

Margir segjast ekki geta trúað á Guð nema fá allt að því áþreifanlegar sannanir fyrir því að hann sé til.

Ef átt er við það, ef sönnun merkir „fullvissa“ eða „hafið yfir allan vafa“ eða „óvéfengjanlegt“ þá er að sjálfsögðu ekki hægt að sanna tilvist Guðs.

En það ætti ekki að koma neinum á óvart, enda er slíkur mælikvarði algjörlega óraunhæfur.

Við vitum svo til ekkert upp að því marki. Og við kæmumst seint í gegnum venjulegan dag ef við gerðum slíka kröfu til þekkingar.

Enda föllumst við líka á ýmislegt – og það vel innan skynsamlegra marka – án þess að hafa hundrað prósent vissu fyrir því. Næstum því allt sem við vitum eða teljum okkur vita er þess eðlis.

En þýðir það þá að við höfum enga ástæðu til að trúa því að Guð sé til.

Nei!

Þótt tilvist Guðs verði ekki sönnuð í einhvers konar stærfræðilegum og óvéfengjanlegum skilningi má engu að síður benda á ýmsar góðar og skynsamlegar ástæður til að trúa því að Guð sé til.

Við getum kallað það „vísbendingar“!

Ein slík vísbending væri sú staðreynd að eitthvað er til.

Eins og Pascal og fleiri mætir heimspekingar hafa bent á er sú spurning sem með réttu ætti að spyrja fyrst af öllum þessi: „Hvers vegna er eitthvað til fremur en ekkert?“

Með öðrum orðum: Hvernig útskýrum við veruleikann, alheiminn? Hvaðan kom hann? Af hverju er hann til? Af hverju er eitthvað til yfirleitt?

Það er góð spurning.

Kannski er alheimurinn einfaldlega blekking og ekki til í raun og veru? Gæti ekki verið að upplifun okkar sé bara ein stór tálsýn, svona í líkingu við það sem sjá má í bíómyndinni The Matrix?

Ef til vill skapaði alheimurinn sjálfan sig? Ýmsir hafa haldið því fram, að alheimurinn sé einfaldlega sjálfsprottin.

Svo getur líka verið að alheimurinn sé eilífur, að hann hafi bara alltaf verið til og hvíli einhvern vegin í sjálfum sér. Sú skoðun á sér langa sögu og hefur verið á kreiki allt frá dögum heimspekinganna forngrísku.

En kannski var alheimurinn skapaður af einhverju öðru, einhverju sem ekki er hluti af alheiminum sjálfum, einhverju sem alltaf hefur verið til og er orsök alls annars sem til er. Það er skoðun þeirra sem trúa á Guð.

Mér dettur ekki í hug aðrir möguleikar.

Við getum reynt að nota útilokunaraðferðina.

Hvað fyrsta möguleikann varðar, að veruleikinn eins og við upplifum hann sé blekking, tel ég að heimspekingurinn René Descartes hafi tekið af öll tvímæli.

Maður getur ekki efast um eigin tilvist án þess að sýna fram á hana um leið. Efi krefst þess að einhver efist, að einhver hugsi, að einhver sé til.

Cogito, ergo sum, eins og hann orðaði það.

Ef allt er blekking þá er að minnsta kosti til einhver eða eitthvað sem lætur blekkjast.

Í öllu falli finnst mér augljóst að hverskyns rök fyrir því að alheimurinn sé í raun og veru ekki til hljóti alltaf að byggja á forsendum sem eru langtum ósennilegri og veikari en okkar eigin reynsla af veruleikanum í kringum okkur.

Að alheimurinn hafi skapað sjálfan sig er líka of stór biti fyrir mig. Ef maður hugsar skynsamlega (sem ég öllu jafna reyni að gera en tekst þó ekki alltaf) verður ljóst, að mínu mati að minnsta kosti, að sjálfsköpun er einfaldlega rökleg mótsögn og þar af leiðandi óhugsandi.

Að eitthvað skapi sig sjálft þýðir að það hafi verið til áður en það varð til – að öðrum kosti hefði það ekki getað skapað sig.

Því hvað getur það sem ekki er til gert?

Og hvernig getur það sem þegar er til ekki enn verið til?

Þessari hugmynd er oft laumað að okkur með þeim orðum að alheimurinn hafi orðið til fyrir einhvers konar tilviljun (sem er gjarnan skilgreind með einhverju „vísindalegu“ hugtaki).

Það er ef til vill til þessa að forðast hugmyndina um skapara.

En hugsum málið.

Ef þú kastar krónu í loftið hverjar eru þá líkurnar á því að annaðhvort þorskurinn eða landvættirnar komi upp.

Helmingslíkur, að sjálfsögðu!

En hefur tilviljun einhver áhrif á það hvor hliðin kemur upp?

Ef krónunni væri nú kastað upp aftur og aftur, en alltaf við sömu skilyrði, segjum í lofttæmi, alltaf með sama hætti, frá sömu hlið, í nákvæmlega sömu hæð, af sama krafti, og hún lenti alltaf á sama stað, o.s.frv.

Hvaða hlið kæmi þá upp?

Já! Alltaf sú sama.

Og það er vegna þess að orsakasamhengi hluta stýrist ekki af einhverjum ímynduðum krafti eða orku sem heitir tilviljun.

Það eru tilteknir þættir sem hafa áhrif á það hvernig krónan snýr sér og lendir. Þyngd krónunnar, upphaflegur kraftur kastsins, loftmótsstaða, hvar hún lendir o.s.frv.

Tilviljun hefur ekkert með niðurstöðuna að gera enda er ekkert til sem heitir „tilviljun“.

Hið ólíklegasta getur auðvitað gerst. En það er allt annað mál. Og það er ekki tilviljun þegar það gerist. Það eru alltaf einhverjar ástæður á bak við það sem gerist, hversu óljósar sem þær kunna að vera.

Þegar orsakasamhengi einhvers tiltekins atburðar er rakið tilbaka verður ljóst að enginn hefði getað spáð fyrir um hann.

Tökum innrásina í Normandí sem dæmi. Þegar hugsað er til alls þess, allra þeirra atburða í sögu mannsins, sem urðu að eiga sér stað áður en sá atburður gat átt sér stað, áður en sú staða kom upp, þá er mjög freistandi að tala um tilviljun.

En að sjálfsögðu eru orsakirnar allar fyrir hendi og teygja sig tilbaka eins langt og saga mannsins nær.

Jafnvel þótt okkar útsýni sé afar takmarkað þá er ljóst að tilviljun kemur engu til leiðar.

Einfaldlega vegna þess að hún er ekki neitt og getur því ekkert gert eða haft áhrif á nokkuð.

Af engu kemur jú ekkert.

Það sem ekkert er getur ekki orsakað eitthvað. Það getur ekki komið nokkru í kring.

Meira að segja heimspekingurinn David Hume, konungur efahyggjunnar, var sammála því.

Þegar við segjum að eitthvað hafi orðið til af tilviljun þá erum við í raun bara að segja að það varð til af engu.

Sem er bara bull!

Það er í raun verra en að trúa á töfra. Þegar töframaðurinn dregur kanínuna upp úr hattinum þá er að minnsta kosti hatturinn til staðar. Að ógleymdum töframanninum.

Það sem við erum í raun að segja er að við höfum ekki hugmynd um hvernig það varð til.

Hvað með eilífan alheim? Er ekki alheimurinn bara eilífur.

Nú er það ekki óhugsandi að alheimurinn hafi alltaf verið til. Það er engin mótsögn fólgin í því og engin rökvilla.

Og þegar við hugsum um það hlýtur jú eitthvað að vera til sem alltaf hefur verið til, eitthvað eilíft.

Af hverju?

Jú, af því að ekkert verður til af engu.

Ef það var einhvern tíma svo að ekkert var til – enginn Guð, enginn alheimur, bókstaflega ekki neitt, enginn veruleiki af nokkru tagi – af hverju er þá eitthvað til núna? Hvernig má það vera?

Ef það var einhvern tíma ekkert til, þá væri jú enn til ekkert. Og það mundi alltaf vera svo að ekkert væri til. (Ekki svo að skilja að ekkert sé eitthvað sem gæti mögulega verið til eða ekki til. Ekkert er jú einfaldlega bara ekki neitt.)

Að ekkert verður til að engu, að allt sem verður til eigi sér orsök, samræmist allri okkar reynslu og þekkingu, hversdagslegri og vísindalegri.

En hvað er það þá sem er eilíft? Hvað hefur alltaf verið til?

Það hlýtur að vera alheimurinn sjálfur eða eitthvað annað utan hans.

Lengst af hefur hin ráðandi skoðun verið sú að alheimurinn sé eilífur og hafi alltaf verið til.

En sú skoðun er ekki lengur ráðandi.

Hin vísindalega heimsmynd breyttist með gagngerðum og óvæntum hætti í upphafi 20. aldarinnar. Og nú eru flestir á einu máli um að alheimurinn hafi orðið til og eigi sér því upphaf.

Ekki að það sé ný skoðun.

Ófáir guðfræðingar og heimspekingar höfðu komist að sömu niðurstöðu mörgum öldum og árþúsundum fyrir fyrir daga Einsteins, Hubbels, Penzias og annarra vísindamanna sem eiga hlut í kenningunni um upphaf alheimsins í Miklahvelli.

Fyrsta setning Biblíunnar staðhæfir jú að alheimurinn sé skapaður, þ.e.a.s. að hann eigi sér upphaf. Og sá texti er sennilega í kringum 3000 ára gamall.

En það má vel velta spurningunni fyrir sér heimspekilega, án tillits til þess sem stendur í Biblíunni og hvað nútímavísindi hafa að segja.

Getur verið að alheimurinn hafi alltaf verið til, að hann sé eilífur og hvíli einhvernvegin bara í sjálfum sér?

Ef svo er þá þýðir það að fortíðin er óendanlega löng, bókstaflega án upphafs. Fram að hverju augnabliki hefur liðið óendanlega langur tími.

Óendanlega margar mínútur liðu áður en röðin kom að þeirri mínútu sem nú stendur yfir. Óendanlega margir dagar liðu áður en dagurinn í dag rann upp.

Í raun skiptir ekki máli hvað við hugsum okkur, áður en það gerðist leið óendanlega langur tími. Áður en hvað sem er gerist hefur óendanlega langur tími liðið.

En hvernig getur þá eitthvað nokkurn tíma gerst?

Í stuttu máli getur þá ekkert gerst!

Eitt sinn var ég staddur í miðbænum. Það var um mitt sumar. Sólin var sterk og hitinn mikill. Ég keypti mér stóran ís með súkkulaðidýfu og lakkrískurli. Síðan settist ég í skuggann og naut lífsins.

Ég man ég þurfti að hafa svolítið fyrir ísnum. Röðin var svo löng að ég þurfti að bíða í tæpan hálftíma. En þótt svitinn bogaði af mér lét ég mig hafa það að bíða þangað til röðin kom að mér.

En ég velti fyrir mér hvenær röðin hefði komið að mér ef bókstaflega óendanlega margir þurftu að fá afgreiðslu á undan mér?

Eða hvenær dagurinn í dag hefði runnið upp ef óendanlega margir dagar þurftu fyrst að koma og líða.

Eða hvenær mínútan sem nú er að líða gat byrjað ef óendanlega margar mínútur urðu að líða á undan henni?

Aldrei! Aldrei!

Ég hefði aldrei fengið ísinn og væri löngu dáinn úr þorsta. Sú mínúta þegar röðin kom að mér hefði aldrei runnið upp.

Ekki að það hafi nokkuð að segja enda hefði þessi heiti sumardagur aldrei heldur runnið upp. Röðin hefði aldrei komið að honum.

Með öðrum orðum getur ekki verið að óendanlega margir dagar hafa liðið, eða mínútur, eða tími, fram til þessa augnabliks.

Einhvern tíma rann upp hinn fyrsti daguri, hin fyrsta mínúta.

Með oðrum orðum: Einhvern tíma byrjaði tíminn. Einhvern tíma í fyrndinni varð alheimurinn til.

Spurningin er auðvitað af hverju? Hvað orsakaði tilvist alheimsins, upphafs hans?

Ekki var það „ekkert“ og þaðan af síður „tilviljun“.

Skynsamlegasta ályktunin er sú að eitthvað utan alheimsins orsakaði tilvist hans.

Eitthvað sem er eilíft og hefur alltaf verið til.

Eitthvað sem er að finna utan tíma, rúms, efnis og orku.

Eitthvað sem er utan og ofan við hinn náttúrulega og efnislega veruleika.

Eitthvað sem er yfirnáttúrulegt.

Eitthvað óefnislegt, ótímalegt, ótrúlega máttugt og er orsök alls annars sem til er.

Þótt sá einstaklingur sem færði upphaf Biblíunnar fyrst í letur hafi hugsað með öðrum og ólíkum hætti en hér er lýst var niðurstaða hans og sannfæring sú sama.

Við stöndum eftir með aðeins einn möguleika.

„Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð.“

Flokkar: Heimsfræðirök · Heimspeki · Tilvist Guðs

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur