Miðvikudagur 30.11.2016 - 09:31 - FB ummæli ()

Náttúruhyggja

„Ég trúi á kristindóminn eins og ég trúi því að sólin hafi risið upp; ekki eingöngu vegna þess að ég sé hana heldur vegna þess að hennar vegna sé ég allt annað.“

Svo sagði trúvarnarmaðurinn C.S. Lewis.

Kristin trú er í eðli sínu heimssýn.

Hún dregur upp tiltekna mynd af veruleikanum, felur í sér ákveðið sjónarhorn á lífið og tilveruna.

Lewis bendir á að þegar horft er á lífið í ljósi kristinnar trúar fæst af því skýr mynd.

Við sjáum lífið í réttu ljósi.

Reynsla okkar og upplifun af lífinu verður skiljanleg.

Lífið verður skiljanlegt.

Náttúruhyggja er einnig heimssýn. Guðlaus heimssýn.

Hún grundvallast á þeirri staðhæfingu að hinn efnislegi veruleiki sé tæmandi lýsing á veruleikanum.

„Alheimurinn er það eina sem var, er eða mun verða“ eins og Carl Sagan sagði.

Með öðrum orðum er enginn Guð til, enginn yfirnáttúrulegur veruleiki af nokkru tagi.

Náttúran er það eina sem er til.

Sem heimssýn gerir náttúruhyggja tilkall til að vera sönn og gefa rétta og raunsanna mynd af lífinu og tilverunni.

Samkvæmt henni er veruleikinn líkur lokuðum kassa.

Allt sem gerist inní kassanum má skýra á grundvelli einhvers annars sem gerist inní kassanum. Ekkert utan kassans getur haft áhrif á nokkuð innan hans – enda er litið svo á að ekkert sé að finna utan hans.

Með öðrum orðum má gera grein fyrir öllu á náttúrulegum og efnislegum forsendum.

Tilvist kassans er sjálfgefin.

Allt á sér náttúrulegar og efnislegar orsakir. Allt er er skilyrt af náttúrunni og efninu þegar allt kemur til alls.

Maðurinn, hugsanir hans og gjörðir, eru ekki undanskilin.

Hvað merkir þetta?

Hvaða mynd gefur þetta af lífinu og eðli þess?

Hvað leiðir af náttúrulegri sýn á lífið?

Ef náttúruhyggja er sönn þá er erfitt að sjá að lífið sé annað en tilviljunarkennd aukaafurð blindrar þróunar.

Það er þá engin sérstök ástæða fyrir lífinu, engin eiginleg ástæða fyrir tilvist okkar, eða tilvistinni yfirhöfuð.

Það er engin hugsun á bak við lífið, ekkert hugvit.

Lífið stefnir ekki að neinu marki.

Það er enginn tilgangur á bak við lífið þegar allt kemur til alls.

Heldur engin merking með lífinu þegar öllu er á botninn hvolft.

Við verðum að beygja okkur fyrir fánýti og tilgangsleysi alls.

Við lifum til þess eins að deyja í alheimi sem kemur á endanum til með að deyja sjálfur.

„Allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi,“ eins og prédikarinn í Biblíunni segir.

Og hvað er rétt og rangt eða gott og illt, ef saga alheimsins er ekki fólgin í öðru en efni sem lýtur blindum lögmálum náttúrunnar?

Það er erfitt að sjá að nokkuð sé þá til sem heitir rétt og rangt eða gott og illt í eiginlegri merkingu.

Allt er náttúrulegt og hluti af náttúrunni.

Allt er einfaldlega eins og það er og hefur því ekkert að gera með það sem okkur finnst að það ætti að vera.

Við verðum að beygja okkur undir siðferðilega afstæðishyggju og sjálfshyggju.

Í guðlausum veruleika er algilt siðferði ekki til. Aðeins persónulegar skoðanir hvers og eins.

Þegar við segjum að eitthvað sé rétt eða rangt, gott eða illt, þá erum við bara að vísa til okkar eigin skoðana, sem hvorki eru betri né verri, réttari eða rangari, en aðrar skoðanir.

Ef náttúruhyggja er sönn þá búum við í raun ekki yfir frjálsum vilja.

Við erum efnislega skilyrt.

Það eina sem greinir okkur frá öðrum efnislegum hlutum er efnisleg samsetning okkar og virkni.

Gjörðir okkar eru ekki „okkar“ í eiginlegum skilningi.

Það er því til lítils að lofa fólk eða lasta fyrir breytni sína.

Gjörðir mínar, hugsanir mínar og langanir, ásetningur minn, tilfinningar mínar o.s.frv., er ekki annað en taugboð í heilanum á mér.

Það er í raun ekkert eiginlegt „ég“ þar að baki.

Að telja sér trú um annað er blekking.

En fellur slíkt viðhorf að sýn okkar á lífið og tilveruna?

Rímar það við upplifun okkar af sjálfum okkur og lífinu?

Og af hverju ættum við eiginlega að trúa öðru eins?

Af hverju ættum við að trúa því að náttúruhyggja sé sönn?

Þeirri spurningu má svara á fleiri en einn veg.

En hún verður áleitin í ljósi þess að samkvæmt náttúruhyggju er „trú“ (ámhvað sem er) bara taugboð í heila hvers og eins.

Trú vísar ekki út fyrir sjálfa sig.

En allir náttúruhyggjusinnar „trúa“ því að alheimurinn sé í eðli sínu skiljanlegur og þess vegna sé hægt að gera grein fyrir honum á skynsamlegan og rökrænan hátt.

En á hverju er slík trú reist?

Náttúruhyggja á ekki gott með að svara þeirri spurningu.

Samkvæmt náttúruhyggju er hugur manns og heili jú eitt og hið sama.

Samkvæmt henni er heilinn (og þar með hugsun okkar og skilningur) afleiðing blindrar þróunar án nokkurs markmiðs.

Það er engin hugsun á bak við hana.

Hún er hugsunarlaus.

Það er engin tilgangur á bak við hana.

Hún stefnir ekki að neinu marki.

Af hverju ættum við þá að trúa nokkru sem leiðir af henni?

En þeir sem aðhyllast náttúruhyggju trúa því samt að hún sé sönn og leitast við að sannfæra aðra um sannleiksgildi hennar.

En ef náttúruhyggja er sönn þá er augljóslega ekki til neitt sem heitir „að trúa því að eitthvað sé satt“ því það eru ekki til neinir hugrænir atburðir af neinum toga.

Á bak við þá sannfæringu að náttúruhyggja sé sönn er ekkert annað efnaboð í heila og rafeindir sem skjótast þar frá einum stað til annars.

Náttúruhyggja grefur því undan sjálfri sér.

Hún grefur undan þeirri skynsemi sem hún gerir tilkall til og byggir á.

Við gætum allt eins hugsað okkur mann sem sagar undan sjálfum sér greinina sem hann situr á.

Náttúruhyggja er mótsagnakennd.

Í bók sinni The God Delusion segir Richard Dawkins:

„Í ljósi þess að lífið er afleiðing tilviljunarkenndrar þróunar er ósennilegt að skilningur okkar á því sé réttur.“

Það er heiðarleg játning.

Ef litið er svo á að viðhorf okkar til lífsins, og skilningur okkar á því, er ekki fólgin í öðru en hugsunarlausum atómum á hreyfingu, af hverju ættum við þá trúa þeim?

Og lifir fólk öllu jafna lífi sínu líkt og náttúruhyggja sé sönn?

Eins og að lífið hafi engan tilgang, merkingu eða gildi þegar allt kemur til alls?

Eins og að það sem telst vera rétt eða rangt sé aðeins fólgið í persónulegum skoðunum hvers og eins?

Eins og að við berum ekki ábyrgð á gjörðum okkar?

Eins og að við séum bara viljalaust efni?

Náttúruhyggjusinnar sem ekki gera það neyðast til að ganga lengra en heimssýn þeirra leyfir.

Þeir eru í mótsögn við heimssýn sína og bera þannig vitni um brotalamir hennar.

Kristinn maður sem ekki gerir það er samkvæmur heimssýn sinni!

Hans viðhorf rúmast innan heimssýnar hans.

Samkvæmt kristinni trú og heimssýn er hugsun og hugvit á bak við lífið.

Á bak við lífið og tilveruna er skapari þess og höfundur.

Guð sem stefnir öllu að því marki sem hann hefur sett því.

Persónulegur Guð sem jafnframt er grundvöllur og mælikvarði þess sem er rétt og rangt.

Lífið og tilveran, maðurinn þar á meðal, er handaverk hans og ber skapara sínum vitni.

Flokkar: Guðleysi · Guðstrú · Heimspeki · Heimssýn · Náttúruhyggja

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur