Mánudagur 27.3.2017 - 22:23 - FB ummæli ()

Ágústínus kirkjufaðir, tíminn og upphaf alheimsins

Ágústínus kirkjufaðir (354-430) var heillandi heimspekingur og guðfræðingur og tvímælalaust einn mesti og áhrifaríkasti hugsuður sögunnar.

Hann stóð á sínum tíma frammi fyrir djúpstæðum heimspekilegum og guðfræðilegum vanda:

Hvað var Guð að gera áður en hann skapaði alheiminn? Af hverju skapaði Guð ekki alheiminn fyrr en hann gerði?

Á undan deginum í dag var gærdagurinn. Á undan gærdeginum kom dagurinn þar á undan, og svo framvegis. Hvernig má það vera? Teygir röð daganna sig óendanlega langt aftur í fortíðina? Ef svo er, hvernig gat Guð skapað alheim sem alltaf hefur verið til? Ef svo er ekki, hlýtur að hafa verið upphaf. En hvað átti sér stað á undan upphafinu? Ef Guð skapaði alheiminn hvað hafðist hann við áður en hann skapaði alheiminn?

Í eyrum marga í dag hljómar spurningin vafalaust kjánalega. En hún er það vitanlega ekki.

Svar Ágústínusar, sem engum virðist hafa komið til hugar áður, var sannarlega undravert:

Guð skapaði tímann með alheiminum!

Með öðrum orðum var enginn tími „á undan“ alheiminum. Tilurð alheimsins, sagði Ágústínus, fól jafnframt í sér upphaf sjálfs tímans.

Alheimurinn er líkur röð augnablika sem teygir sig tilbaka til upphafs síns. Guð er hins vegar utan og ofan við þá röð. Hann er ekki hluti af sjálfri röðinni. Hann er hin eilífa orsök á bak við röðina.

Í Játningum sínum skrifar Ágústínus:

„Þú ert hinn sami og þín ár fá engan enda. Þín ár fara ekki né koma. Ár vor fara og koma og skila sér þannig öll. Árin þín standa saman öll í einu, því þau standa kyrr og þau, sem koma, rýma ekki frá þeim, sem fyrir eru, því engin þeirra líða að lokum. Og öll verða þau vor, þegar öllum árum líkur. Árin þín eru einn dagur og dagur þinn er ekki einhver ótiltekinn, heldur „í dag“, því sá dagur þinn, sem nú er, víkur ekki fyrir deginum á morgun og ekki kom hann á eftir deginum í gær. Þinn dagur „í dag“ er eilífðin.“

Það er hætt við því að fólk í dag átti sig ekki til fulls á innsæi Ágústínusar, og geri jafnvel lítið úr hugsun hans í ljósi þeirrar þekkingar sem við búum yfir nú.

En í ljósi alls þess sem við vitum í dag verður íhugun Ágústínusar um eðli tímans þeim mun merkilegri og aðdáunarverðari, í raun svo að hún á sér vart hliðstæðu í sögu hugsunar.

Hér er nefnilega ekki bara um loftkennda heimspeki eða guðfræði að ræða af hálfu Ágústínusar heldur róttæka staðhæfingu um eðli hins efnislega veruleika, sem gekk gegn öllu því sem um hans daga gat talist viðtekið.

Þótt svar Ágústínusar átti sér guðfræðilegar og heimspekilegar rætur vitum við nú að hann hafði rétt fyrir sér.

Vísindaleg þekking dagsins í dag hefur leitt í ljós að tíminn er eiginleiki alheimsins, og varð til samhliða alheiminum.

Hið vísindalega svar gengur undir nafninu „Miklihvellur“. Samkvæmt því á alheimurinn sér upphaf. Samkvæmt kenningunni um „Miklihvell“ er alheimurinn ekki eilífur heldur varð hann til á tilgreindu augnabliki í fortíðinni. Með öðrum orðum er hugtakið Miklihvellur notað um þann atburð sem markaði upphaf tímans og alls rúms, efnis og orku. Samkvæmt kenningunni var alheimurinn alls ekki til fyrir „Miklihvell“.

Aðrar kenningar um eðli og tilurð alheimsins hafa vissulega komið fram þar sem reynt hefur verið að komast undan upphafi alheimsins. En þær hafa ekki staðist tímans tönn og vísindalega rýni.

Miklahvellskenningin hefur hins vegar verið svo ríkulega staðfest að í „dag trúa nánast allir því að alheimurinn hafi orðið til í Miklahvelli,“ svo vísað sé til orða hins þekkta eðlisfræðings Stephen Hawking.

Og það að alheimurinn eigi sér upphaf merkir að hann á sér orsök, eins og allt sem verður til.

Sú orsök er eðli málsins samkvæmt utan og ofan við alheiminn sjálfan því hún orsakaði alheiminn. Hún er handan tíma, rúms, efnis og orku, og því utan og ofan við hinn náttúrulega veruleika sem alheimurinn er, og er því í réttum skilningi þess orðs yfirnáttúruleg. Sem orsök tíma, rúms og efnis er hún jafnframt óbundin af tíma, rúmi og efni, og þar af leiðandi í einhverjum skilningi eilíf, rýmislaus og óefnisleg.

Hvað svo sem slík orsök er kölluð er síður en svo óviðeigandi að kalla hana Guð. Í raun minnir hún mjög á það sem flestir eiga við með orðinu „Guð“.

Ummæli breska eðlisfræðingsins Arthur Eddingtons koma hér til hugar: „Upphaf alheimsins felur í sér slíka erfiðleika að þeir eru beinlínis óyfirstíganlegir nema við séum tilbúin til að líta á það sem hreint og beint yfirnáttúrulegt.“

Undir það hefði Ágústínus tekið.

Það er merkilegt og umhugsunarvert að fimmtánhundruð árum áður en kenningin um Miklahvell tók á sig mynd leiddi guðfræðileg og heimspekileg íhugun Ágústínusar kirkjuföðurs um eðli tímans hann til sömu niðurstöðu og vísindamenn á borð við Einstein komust að á fyrri hluta 20. aldarinnar.

 

 

Flokkar: Ágústínus · Guð · Miklihvellur · Tíminn

Fimmtudagur 2.3.2017 - 09:58 - FB ummæli ()

Sannleikur, sannfæring og þröngsýni

Fyrir ekki löngu síðan fékk ég ákúrur fyrir að vera ákaflega þröngsýnn og dómharður maður.

Ástæðan, að mati viðmælanda míns (sem var guðleysingi), var sú að ég lít svo á að kristin trú er sönn.

Með því felldi ég ómaklegan og óréttlátan dóm yfir öllum og öllu sem ekki er kristið.

Ekki tel ég mig þó vera sérstaklega þekktan fyrir dómhörku eða þröngsýni, þótt ég segi sjálfur frá.

Hitt viðurkenni ég að ég hef, eins og allir aðrir, átt slæma daga þar sem ég hef gerst sekur um sleggjudóma.

En ég uni öllum því að hafa sína skoðanir og vera frjálst að sannfæringu sinni – enda þótt ég áskilji mér þann rétt að vera öðrum ósammála, þegar svo ber undir, og láta það jafnvel í ljós, með málefnalegum hætti þó og með virðingu að leiðarljósi.

En fólk getur vissulega verið þröngsýnt og dómhart í orði og verki.

Það getur komið illa fram, litið niður á aðra og meitt annað fólk vegna skoðana sinna.

Og sú hætta er alltaf fyrir hendi að trú og sannfæring leiði til óbilgirni og óþols í garð þeirra sem eru annarrar skoðunar, og verði jafnvel að hatri sem snýst upp í ofsóknir og ofbeldi.

Við eigum því miður alltof mörg og sorgleg dæmi þess í sögunni.

En það eitt að búa yfir sannfæringu, sem gengur gegn sannfæringu annarra, og tala jafnvel fyrir eigin sannfæringu, eða gegn sannfæringu annarra, verður sem slíkt ekki lagt að jöfnu við þröngsýni – hversu mjög sem tíðarandinn reynir að sannfæra okkur um annað.

Þótt sannleikshugtakið sé víða hornreka í dag og njóti lítils sannmælis breytir það ekki því að eðli sínu samkvæmt er sannleikurinn útilokandi.

Því ef eitthvað er raunverulega satt, ef það lýsir og fellur að veruleikanum eins og hann er, þá er allt það sem gengur gegn því, eða er ekki í samræmi við það, einfaldlega ósatt.

Ef tveir plús tveir eru fjórir, þá eru öll svör önnur en fjórir einfaldlega röng svör og ósönn. Vissulega eru til svör sem nálgast það að vera hið rétta. En engu að síður er bara til eitt svar sem er hið rétta.

Það er eðli sannleikans.

Og í þeim skilningi er sannleikurinn vissulega þröngur.

En það gerir ekki sannleikann þröngsýnan í hefðbundnum skilningi þess orðs.

Sannleikurinn er einfaldlega bara sannleikur.

Og það eitt og sér að halda fram sannleikanum, eða því sem maður telur vera satt, gerir mann ekki sjálfkrafa þröngsýnan.

En ef það er raunverulega þröngsýni og dómharka fólgin í því að telja kristna trú sanna, eins og vimælandi minn staðfastlega hélt fram, þá hlýtur það einnig að eiga við þegar hinu gagnstæða er haldið fram, þ.e.a.s. að kristin trú sé ekki sönn.

Það felur því ekki í sér meiri þröngsýni, ef maður vill leggja málið fram með þeim hætti, að staðhæfa að ein trúarbrögð séu sönn, heldur en að staðhæfa að þín skoðun og skilningur (t.d. viðmælanda míns) á öllum trúarbrögðum sé réttur og sannur.

Burtséð frá því er raunin sú að trúarbrögð eru ekki öll hin sömu.

Öll trúarbrögð benda ekki til Guðs. Öll trúarbrögð segja ekki að öll trúarbrögð séu hin sömu eða jafngild. Og þau geta ekki öll verið sönn því þau innihalda mótsagnakenndar staðhæfingar og fela í sér mótsagnakenndan skilning á lífinu og tilverunni.

Í kjarna allra trúarbragða eða lífsskoðana (þar á meðal guðleysis) er fólgin skuldbinding sem ekki verður hvikað frá, skuldbinding gagnvart tiltekinni skilgreiningu á því hver Guð er, og með hliðsjón af því, hvert eðli og tilgangur lífsins er.

En þegar um er að ræða hverju kristið fólk trúir eða trúir ekki, eins og ég nefndi við viðmælanda minn, þá komst C.S. Lewis ágætlega að orði að mínu mati.

„Kristið fólk,“ sagði Lewis, „þarf ekki að líta svo á að öll önnur trúarbrögð séu einfaldlega röng frá upphafi til enda. En ef þú ert guðleysingi verður þú að líta svo á að öll trúarbrögð heimsins séu í grundvallaratriðum ein stór mistök. Ef þú ert kristinn þá ertu frjáls að því að líta svo á að öll þessi trúarbrögð, jafnvel hin skrýtnustu, geymi að minnsta kosti einhvern vott af sannleika. Þegar ég var guðleysingi varð ég að reyna að sannfæra sjálfan mig um að stærsti hluti mannkynsins hefði alltaf haft á röngu að standa varðandi þá spurningu sem skipti hann mestu máli. Þegar ég gerðist kristinn gat ég leyft mér öllu frjálslyndari skoðun. En það að vera kristinnar trúar felur samt vitanlega í sér að líta svo á, að þar sem skilur á milli kristinnar trúar og annarra trúarbragða, þá hafi kristin trú á réttu að standa. Rétt eins og í samlagningu, þar sem aðeins eitt svar er í boði og öll önnur svör eru röng, enda þótt sum hinna röngu svara eru nærri því að vera rétt en önnur.“

Ekki þótti viðmælanda mínum þó mikið vit í þessu.

Flokkar: C.S. Lewis · Sannleikur · Trúarbrögð

Fimmtudagur 9.2.2017 - 09:58 - FB ummæli ()

„Krónólógískt snobb“

Sem kunnugt er var C.S. Lewis guðleysingi fram að þrítugu.

Eftir að hafa vegið og metið kristna trú gaumgæfilega, ekki síst í ljósi skynemi og röklegrar hugunar, gerðist hann kristinn að nýju – og varð að lokum einn áhrifamesti boðandi hennar og talsmaður.

Ein af þeim fyrirstöðum sem C.S. Lewis rak sig á í sambandi við kristna trú var það sem hann síðar kallaði „krónólógískt snobb“.

Með því átti hann við gagnrýnilaust samsinni á stefnum og straumum samtíðarinnar og þá ályktun að allt sem komið er til ára sinna hljóti að vera ógilt og úrelt.

Í því ljósi spurði Lewis sig hvað kristin trú hefði að segja í dag.

Er hún eitthvað annað en arfur liðinnar tíða, úr sér genginn, gamaldags og úreltur?

Margir hugsa sem svo og ganga að því sem gefnu að þau viðhorf sem fyrirferðamest eru á hverjum tíma hljóti þar af leiðandi að vera sönn og rétt.

Lewis átti mörg samtöl við góðvin sinn Owen Barfield um trúarglímu sína.

Barfield opnaði augu Lewis fyrir því að spurningar hans vöktu upp aðrar spurningar sem yrði að svara áður dregin væri ályktun um kristna trú eða hvaða „forna“ hugsun sem var.

Nauðsynlegt væri að spyrja sig:

Hvers vegna leið viðkomandi hugsun undir lok?

Var hún einhvern tíma hrakin?

Ef svo er, af hverjum, og á hversu sannfærandi hátt?

Gæti verið að samtími okkar sjái hlutina í röngu ljósi?

Erum við alvitur?

Sumir telja til lítils að leita í speki og visku fyrri alda. Slíkt komi í veg fyrir framþróun og sé líkast því að snúa klukkunni við.

Í því sambandi segir Lewis:

„Varðandi það að snúa klukkunni við!

Mundir þú halda að ég væri að grínast ef ég segði að þú getur snúið klukku við; og líka, gangi hún vitlaust, að þá sé oft skynsamlegt að gera einmitt það?

En ég vil frekar sleppa þessari hugmynd um klukku.

Við viljum öll framþróun!

Og framþróun þýðir að þokast nær þeim stað sem þú stefnir á.

Ef þú tókst ranga beygju á leiðinni hjálpar ekki að fara áfram. Þú þokast ekkert nær fyrir vikið.

Ef þú ert á vitlausum vegi er framþróun fólgin í því að snúa við og koma þér aftur hinn á rétta veg.

Í öllu falli er sá maður sem fyrstur snýr við sá sem mest er í mun að komast áfram.

Við sjáum þetta þegar við reiknum.

Því fyrr sem ég viðurkenni að ég byrjaði vitlaust á reiknisdæmi og byrja að reikna upp á nýtt því fljótari er ég að ljúka við dæmið.

Það er engin framþróun fólgin í því að vera þrjóskur og neita að viðurkenna eigin mistök.

Og ég held að þegar þú horfir á heiminn eins og hann er verður nokkuð augljóst að mannkynið hefur gert býsna stór mistök.

Við erum á vitlausum vegi.

Og ef það er svo verðum við að snúa við.

Að snúa við er fljótfarnasta leiðin áfram.“

Svo skrifaði Lewis í bók sinni Mere Christianity.

Við gleymum því allt of auðveldlega að fátt nýtt er undir sólinni.

Sérhverri kynslóð er kennt af fyrri kynslóðum.

Viðhorf dagsins í dag, þau sem þykja nútímalegust, eru í raun arfur fyrri tíðar. Viðhorf og skoðanir ganga frá einni kynslóð til annarrar.

„Krónólógískt snobb“ hefur haft mikil áhrif á vestræna hugsun og menntun þar sem litið er niður á gildi fyrri tíma og allt sem hefðbundið getur talist.

En það út af fyrir sig gerir ekki eitt rétt og annað rangt.

Sannleiksgildi trúar, hugsunar, viðhorfa, hugmynda, veltur ekki á því hvenær hún kom fyrst fram.

Ef þú hefur sannleikann undir höndum þá skiptir engu máli hve gamall hann er.

Hvort sem sannindi eru tvöþúsund ára gömul eða tveggja ára gömul eru þau eftir sem áður sannindi.

Flokkar: C.S. Lewis · Þekking

Fimmtudagur 2.2.2017 - 15:23 - FB ummæli ()

Náttúrulögmál og The Theory of Everything

Fyrir stuttu horfði ég á myndina The Theory of Everything.

Myndin fjallar um eðlisfræðinginn Stephen Hawking og er einkar áhugaverð, enda er Hawking einn þekktasti vísindamaður heims og afar merkilegur maður á margan hátt.

Myndin minnti mig á nokkuð sem Hawking lét frá sér fara í bók sinni The Grand Design, sem kom út fyrir fáeinum árum.

Lengi vel lét Hawking vera að svara spurningunni um tilvist Guðs með beinum hætti, eins og sjá má í lok bókarinnar A Brief History of Time.

Í seinni tíð hefur hann þó talað nokkuð skýrt.

Í The Grand Design staðhæfir Hawking að þar sem til er lögmál á borð við þyngdarlögmálið þá bæði getur og mun alheimurinn skapa sjálfan sig úr engu.

Hvað svo sem þetta felur í sér þýðir það að Guð skapaði ekki heiminn.

Guð er í raun óþarfur.

Nú ristir mín vísindalega þekking heldur grunnt. En þrátt fyrir allar mínar takmarkanir í þeim efnum tel ég mig samt þekkja mótsögn þegar ég sé hana.

Og mótsögn er eftir sem áður mótsögn þótt henni sé haldið fram af miklum hugsuðum og gáfumennum.

Við getum látið það liggja á milli hluta að þyngdaraflið er sannarlega ekki ekkert. Það er í öllum skilningi þess orðs eitthvað.

Hinu er erfiðara að horfa framhjá að Hawking gengur út frá tilvist alheimsins til þess að útskýra hana.

Ef ég segi að x sé orsök y þá geri ég ráð fyrir því að x sé til og geti og hafi þar af leiðandi orsakað y. En ef ég segi að x orsaki x þá geng ég út frá tilvist x til þess að útskýra tilvist x.

Það er í eðli sínu mótsögn og getur ekki verið satt.

Ekki frekar en að piparsveinn geti verið giftur.

Í gegnum aldirnar hafa vísindamenn lagt fram kenningar sem fela í sér stærfræðileg lögmál til þess að útskýra náttúruleg fyrirbæri.

Og það með miklum árangri.

Fyrsta lögmál Newtons, svo dæmi sé tekið, kveður á um að sérhver hlutur heldur áfram að vera í kyrrstöðu, eða á jafnri hreyfingu eftir beinni línu, nema kraftar sem á hann verka þvingi hann til að breyta því ástandi.

En lögmálin sjálf koma engu í kring. Þau hafa ekki mátt til að skapa eitthvað.

Náttúrulögmál eru (stærfræðilegar) lýsingar á því sem gerist undir tilteknum kringumstæðum.

Þyngdarlögmál Newtons skapar ekki þyngdaraflið. Newton vissi sjálfur að það útskýrir ekki einu sinni af hverju þyngdaraflið er til.

Raunin er að lögmál Newtons um hreyfingu hafa aldrei hreyft við nokkrum hlut.

Þau hafa aldrei ýtt billjardkúlu af stað. Til þess þarf billjardspilara með kjuða, vit, vilja og getu.

Lögmálin gera okkur kleyft greina hreyfingu kúlunnar og stefnu (að því gefnu að ekkert annað komi við sögu).

En þau geta ekki með nokkru móti ýtt henni af stað, hvað þá orsakað tilvist hennar.

C.S. Lewis áttaði sig á þessu á sínum tíma í bók sinni Miracles:

„[Náttúrulögmálin] orsaka enga atburði. Þau kveða á um þá reglu sem allir atburðir – að svo miklu leyti sem þeim verður komið í kring – verða að laga sig að. Rétt eins og lögmál stærfræðinnar kveða á um þá reglu sem allar tilfærslur á peningum verða að laga sig að – að því gefnu að þú komist yfir einhverja peninga. Í vissum skilningi ná náttúrulögmálin því yfir gjörvallt tímarúmið. En í öðrum skilningi er það einmitt allur hin raunverulegi alheimur sem þau skilja eftir, það er að segja hinn óstöðvandi straum raunverulegra atburða sem sönn saga samanstendur af. Hún kemur annars staðar frá. Að ganga út frá því að lögmálin skapi hana er eins og halda að hægt sé að skapa raunverulega peninga með samlagningu. Þegar allt kemur til alls segir sérhvert lögmál aðeins eitt: ,Ef þú átt A þá færð þú B.‘ En vertu þér fyrst út um A-ið. Lögmálin gera það ekki fyrir þig.“

Flokkar: C.S. Lewis · Náttúrulögmál · Stephen Hawking

Þriðjudagur 31.1.2017 - 13:10 - FB ummæli ()

Æðri máttur eða persónulegur Guð?

Æðri máttur eða persónulegur Guð?

Hver eða hvað er Guð?

Þegar stórt er spurt getur verið fátt um svör.

Og hér er vafalaust um eina stærstu og mikilvægustu spurningu lífsins að ræða, því ef Guð er til þá vill maður vita hver eða hvað hann er.

Kristinn trú býður upp á svar: Guð er lifandi, persónulegur andi.

Þótt ekki sé um tæmandi lýsingu að ræða í kristnum skilningi þá er Guð það.

Sem lifandi vera er Guð virkur og gerir hluti. Guð er ekki ópersónulegt afl eða orka heldur persónulegur Guð sem býr yfir vissum eiginleikum og eðli. Sem andi er Guð til utan og ofan við alheiminn og óháð honum (enda þótt tilvist alheimsins sé algjörlega undir Guði komin).

Slík guðsmynd fellur þó ekki öllum alveg í geð.

Mörgum er í nöp við hugmyndina um persónulegan Guð og kjósa fremur svokallaðan „æðri mátt“ eða „óútskýranlegt eitthvað“.

Virkur Guð, Guð sem býr yfir vilja og hugsun, og hefur jafnvel markmið og tilgang með líf okkar, Guð sem ætlast til einhvers af okkur, fellur ekki auðveldlega að ýmsum þeim viðhorfum eru ráðandi víða í dag, ekki síst innan hins vestræna heims.

Hvort sem það er af þeim ástæðum eða öðrum kjósa margir ópersónulegan Guð, fjarlægan og óvirkan.

Eða engan Guð.

En höfum við ástæðu til að ætla að Guð, ef hann er til á annað borð, sé í eðli sínu persónulegur.

Að hann búi yfir hugsun og vilja og hafi ásetning og fyrirætlanir?

Já!

Samkvæmt heimsfræðirökunum – þar sem leitt er líkum að tilvist Guðs út frá tilkomu alheimsins – á alheimurinn sér orsök. Þá niðurstöðu leiðir óhjákvæmilega af forsetningum röksemdafærslunnar, að (1) allt sem verður til á sér orsök, og að (2) alheimurinn varð til. Án þess að ræða nánar forsendurnar hér tel ég óhætt að segja að við höfum mun betri og ríkari ástæður til að ætla að þær séu sannar en ósannar.

Og það sama gildir þá um niðurstöðuna.

En hvers konar orsök er um að ræða!

Í fyrsta lagi hlýtur orsökin sjálf að vera orsakalaus. Hún getur ekki átt sér orsök vegna þess að óendanlega löng röð orsaka er ómöguleg. Hún hlýtur að vera frumorsökin.

Í öðru lagi hlýtur þessi orsök að vera til óháð og utan við tíma og rúm því hún skapaði tíma og rúm. Auk þess að vera tímalaus og rýmislaus hlýtur hún að vera óbreytanleg í ljósi þess að óendanlegur fjöldi atburða er óhugsandi. Það þýðir að þessi orsök getur ekki verið efnisleg í eðli sínu því að allt sem er til í tíma og rúmi tekur stöðugt breytingu.

Í þriðja lagi hlýtur þessi orsök að vera gríðarlega máttug – ef ekki almáttug – í ljósi þess að hún leiddi fram sjálfan alheiminn, allan þann veruleika sem samanstendur af tíma, rúmi, efni og orku.

Eilíf, tímalaus, rýmislaus, óbreytanleg, óefnisleg og yfirmáta máttug vera sem leiddi fram alheiminn!

Það er það sem flestir eiga við þegar þeir nota orðið Guð.

En er um persónulega veru að ræða?

Má færa rök fyrir því?

Já!

Það er eina leiðin til að útskýra hvernig eilíf orsök (sem alltaf hefur verið til) gat leitt til einhvers sem á sér upphaf (hefur ekki alltaf verið til).

Ef orsökin ein og sér nægir til að koma afleiðingunni í kring þá hlýtur afleiðingin að vera til svo lengi sem orsökin er til, ekki satt. Væri það ekki svo þá er ljóst að orsökin var ekki nóg til að koma afleiðingunni í kring.

Orsök þess að vatn frýs er hitastig undir núll gráðum. Svo framarlega sem hitastigið er undir núll gráðum hlýtur allt vatn að vera frosið. Ef hitastigið er eilíflega undir núll gráðu þá hlýtur allt vatn í grennd að vera frosið um alla eilífð.

Með öðrum orðum er óhugsandi að vatnið hafi tekið upp á því að frjósa fyrir stuttu síðan, eða á eihverjum einum tímapunkti eða öðrum.

Nú er orsök alheimsins eilíf. Hún hefur alltaf verið til. Hún á sér ekki upphaf.

Hvernig stendur þá á því að alheimurinn, afleiðingin, er ekki eilífur og án upphafs?

Hvers vegna varð hann til fyrir tilteknum tíma síðan? Hvers vegna er tilvist hans ekki viðvarandi með sama hætti og tilvist orsakarinnar?

Það er býsna góð spurning.

Og eina leiðin til að svara henni með skynsamlegum hætti er að segja að frumorsökin er persónuleg vera en ekki ópersónuleg og blind skilyrði.

Með öðrum orðum hlýtur að vera um veru að ræða sem býr yfir frjálsum vilja. Sköpun alheimsins var frjáls ákvörðun, óháð og óbundin af öðrum og annars konar áhrifum og skilyrðum. Að skapa alheiminn var því eitthvað nýtt og ekki skilyrt af neinu öðru.

Það er eðli frjáls vilja.

Frjáls vilji getur leitt til þess sem á sér upphaf enda þótt orsökin sjálf er viðvarandi og hefur alltaf verið til.
Með öðrum er Guð ekki óútskýranlegt og ópersónulegt eitthvað. Hann er vera sem býr yfir vilja og hugsun og hefur fyrirætlanir.

Heimsfræðirökin benda því ekki bara til eilífrar og óbreytanlegrar orsakar alheimsins, heldur til persónulegs skapara hans.

Það er óneitanlega mikilfengleg niðurstaða á alla vegu.

Flokkar: Guð · Heimsfræðirök · Tilvist Guðs

Miðvikudagur 25.1.2017 - 07:39 - FB ummæli ()

Að vera eða ekki vera! Vangaveltur Anselms frá Aosta

Ein þekktasta – og að mínu mati frumlegasta – röksemdafærslan fyrir tilvist Guðs eru hin svokölluðu verufræðirök ítalska miðaldamunksins og heimspekingsins Anselms frá Aosta (1033–1109).

Anselm var munkur, kennari og ábóti í klaustrinu Bec í Normandí, og síðar erkibiskup í Kantaraborg.

Hann var samtímamaður fyrstu íslensku biskupana, Ísleifs, Gissurar og Jóns, og annarra nafntogaðra íslendinga á borð við Sæmund fróða, Ara fróða, Teit Ísleifsson og Hafliða Másson.

Anselm var einn mesti lærdómsmaður síns tíma og einn af fyrstu skólaspekingunum svokölluðu.

Skólaspeki var lærdómshreyfing eða stefna innan evrópskra háskóla á miðöldum þar sem leitast var við að gera grein fyrir kristinni trú og innihaldi hennar með röklega hugsun og skynsemi að leiðarljósi.

Verufræðirök Anselms litu dagsins ljós árið 1078 í ritinu Proslogion. Þau voru nýstárleg og djörf og hafa heillað heimspekinga allar götur síðan – og skipt þeim í andstæðar fylkingar.

Í klaustrinu í Bec bar Anselm ábyrgð á uppfræðslu munkanna. Að þeirra beiðni skrifaði hann Monologion, rit sem hefur að geyma íhuganir um tilvist og eðli Guðs, efni sem var Anselm afar hugleikið og hann ræddi oft við munkana í Bec.

Anselm sá það sem eitt megineinkenni kristinnar trúar að hún býður heim og hvetur til spurninga, hugsunar og lærdóms. Fides quaerens intellectum – trú í leit að skilningi.

Anselm þótti umfjöllun sín í Monologiun þó heldur of flókin og margþætt og vildi einfalda hana. Þess vegna ritaði hann Proslogion, sem var nokkurs konar framhaldsrit, þar sem Anselm dregur saman í eina samfellda röksemdafærslu – unum argumentum – fyrri umfjöllun sína um Guð, tilvist hans og eðli.

Lykillinn að hinni nýju röksemdarfærslu – sem nú er þekkt sem verufræðirökin – var skilgreining Anselms á Guði sem aliquid quo nihil maius cogitari possit eða það, sem ekkert æðra er hægt að hugsa sér.

Með öðrum orðum er Guð hin æðsta hugsanlega vera!

Ekkert er Guði æðra. Ekkert tekur Guði fram eða stendur honum ofar. Ef svo væri þá væri það Guð.

Hér er um að ræða nokkuð óumdeilda skilgreiningu á því hver Guð er, ef Guð á annað borð er til.

Og Anselm færir rök fyrir því að sá sem réttilega skilur hugtakið eða hugmyndina um hina æðstu hugsanlegu veru sér að slík vera hlýtur að vera til.

Af hverju?

Jú, væri hún ekki til þá væri hún ekki hin æðsta hugsanlega vera.

Raunveruleg tilvist tekur ímyndaðri tilvist fram.

Það er nefnilega æðra að vera til en ekki vera til.

Hin æðsta hugsanlega vera hlýtur því að vera til. Hún getur ekki ekki verið til!

Tilvist hennar er nauðsynleg.

Það er, eða ætti að vera, augljóst hverjum þeim, að mati Anselms, sem réttilega skilur guðshugtakið. Í því samhengi vitnar hann í Davíðssálm 14 þar sem segir: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: Enginn Guð.“

Slíkt gæti enginn sagt, að mati Anselms, sem raunverulega skilur merkingu hugtaksins um hina æðstu veru, eða áttar sig á því hver og hvers eðlis Guð er.

Í gegnum aldirnar hafa margir tekið röksemdafærslu Anselms upp á arma sína og lagt fram eigin útgáfu af henni, menn á borð við Dun Scotus, Descartes, Spinoza og Leibniz.

Sá sem hefur lagt fram þróuðustu útgáfu verufræðirakanna til þessa er Alvin Plantinga, einn fremsti trúarheimspekingur dagsins í dag.

Að hans mati eru verufræðirökin ekki aðeins góð og gild heldur veita þau jafn góða ástæðu til að gangast við tilvist Guðs og hvaða heimspekilegu rök sem eitthvað kveður að veita fyrir niðurstöðu sinni.

Í útgáfu sinni af rökunum bendir Plantinga á (eins og Leibniz hafði áður gert) að verufræðirökin gera ráð fyrir því að hugtakið Guð – þ.e. hin æðsta hugsanlega vera – er ekki ekki merkingarleysa eða mótsagnakennt.

Með öðrum orðum sé því ekki hægt að útiloka tilvist Guðs.

Tilvist Guðs er möguleg, hugsanleg.

Plantinga orðar þetta sem svo að sá heimur þar sem Guð er til er mögulegur.

Með mögulegum heimi á Plantinga einfaldlega við tæmandi lýsingu á veruleikanum, tiltekna útfærslu af honum, eða hvernig veruleikinn gæti mögulega verið.

Af öllum þeim myndum sem veruleikinn gæti mögulega og hugsanlega tekið á sig þá er ein slík mynd slík að Guð er til. Í þeirri útfærslu veruleikans er staðhæfingin „Guð er til“ sönn staðhæfing.

Væri hugtakið Guð hins vegar mótsagnakennt eða óhugsandi (eins og hugtakið „giftur piparsveinn“ eða „þríhyrndur hringur“) þá gæti það ekki vísað til neins veruleika og Guð því ómögulega verið til.

Í útgáfu sinni af rökunum skilur Plantinga Guð sem svo að hann sé vera sem búi yfir „fullkomnum yfirburðum“ (eiginleikum á borð við alvisku, almætti og siðferðilegri fullkomnun) í sérhverjum mögulegum heimi.

Sú vera sem býr yfir fullkomnum yfirburðum í sérhverjum mögulegum heimi býr yfir því sem Plantinga kallar „fullkomnum mikilfengleika“.

Og sá eiginleiki, fullkominn mikilfengleiki, er mögulegur, að mati Plantinga.

Hann sé ekki hægt að útiloka.

Það er því til mögulegur heimur, eða sú útfærsla af veruleikanum, þar sem sá eiginleiki svarar til einhvers.

Með öðrum orðum er sú vera sem býr yfir fullkomnum mikilfengleika mögulega til.

En þá, bætir Plantinga við, hlýtur slík vera að búa yfir fullkomnum yfirburðum í sérhverjum mögulegum heimi, og þar á meðal í raunheimi (veruleikanum eins og hann raunverulega er).

Þar af leiðandi er Guð til.

Röksemdarfærsla Plantinga stendur og fellur með upphafsforsendunni, að vera sem búi yfir fullkomnum yfirburðum sé mögulega til.

Höfum við einhverja ástæðu til að gangast við henni?

Já, segir Plantinga.

Til að hrekja röksemdafærsluna yrði að sýna fram á að hugtakið yfir slíka veru sé mótsagnakennt eða röklega út í hött (í sama skilningi hugtakið „giftur piparsveinn“ er út í hött) og sé þar af leiðandi óhugsandi og ómögulegt.

En það er ekki hlaupið að því, enda virðist hugtakið um slíka veru engan vegin vera mótsagnakennt í þeim skilningi.

Raunar er það fullkomlega skiljanlegt og laust við röklegar mótsagnir.

Í því ljósi má segja að tilvist slíkrar veru sé vissulega möguleg.

Ennfremur bendir Plantinga á að upphafsforsenduna megi styðja í ljósi „ytri“ þátta og á þá við aðrar röksemdafærslur fyrir tilvist Guðs (heimsfræðirök, markmiðsrök, siðferðisrök o.s.frv.) sem sýni að tilvist Guðs er í öllu falli möguleg.

Og ef svo er, ef tilvist Guðs er möguleg, þá er hún einnig, samkvæmt röksemdafærslu Anselms og Plantinga, röklega nauðsynleg.

Mörgum þykir röksemdafærsla Anselms lítið annað en skemmtilegur leikur að orðum. Glæsileg og áhugaverð heimspeki en ekki mikið meira en það.

Og ýmsir hafa andmælt rökunum í gegnum aldirnar.

En jafnvel þótt verufræðirökin ein og sér sannfæri ekki marga um tilvist Guðs í dag – kannski ekki í fyrstu atrennu – þá eru þau enn allrar athygli verð, rúmum 900 árum síðar, og eiga sér mikilsverða málsvara sem ekki er hægt að líta framhjá.

Og þau eiga sannarlega sitt pláss í umræðunni um tilvist Guðs.

En burtséð frá skoðunum einstaka fólks á verufræðirökunum þá sýna þau – eins og aðrar röksemdafærslur fyrir tilvist Guðs – að guðstrú verður ekki afskrifuð með hægu móti sem tóm og blind trúgirni þar sem skynsemi og heilbrigðri hugsun er varpað fyrir róða.

Flokkar: Anselm af Kantaraborg · Guð · Heimspeki · Tilvist Guðs · Verufræðirök

Fimmtudagur 19.1.2017 - 17:17 - FB ummæli ()

Þú ert guðleysingi

Eða svo sagði maður nokkur sem ég spjallaði við á dögunum.

Samtalið snérist reyndar að litlu leyti um trúmál, meira um dægurmál.

En viðmælandi minn, sem er guðleysingi, sá ástæðu til að benda mér á að ég væri í raun guðleysingi. Ég bara gerði mér ekki grein fyrir því.

„Eini munurinn á okkur“, „sagði hann brosandi, er að guðleysi mitt útilokar einum fleiri guð en þitt guðleysi“.

Þetta minnti mig á ummæli Richard Dawkins:

„Við erum öll guðleysingjar þegar kemur flestum þeim guðum sem mannkynið hefur trúað á, t.d. Seif, Þór, Appolló og co. Ég geng bara einu skrefi lengra en þú í guðleysinu.“

Slík röfræði kann að hljóma gáfulega – og hún er merkilega algeng. En í raun og veru er hún lítið annað en innantómur frasi sem lítið vit er í.

Hvað er guðleysi? Hvað er guðstrú?

Hvað greinir þann sem aðhyllist guðleysi frá þeim sem aðhyllist guðstrú?

Guðleysingi er jú sá sem fellst á staðhæfinguna: Guð er ekki til.

Með öðrum orðum er guðleysingi sá sem hafnar tilvist Guðs eða yfirnáttúrulegum veruleika af nokkru tagi. Alheimurinn er tæmandi lýsing á því sem er til. Það er ekki til annar veruleiki.

En því hafna ég því.

Ég er á meðal þeirra sem telja að staðhæfingin: Guð er til, sé sönn og lýsi veruleikanum eins og hann er.

Með öðrum orðum tel ég ekki að alheimurinn sé tæmandi lýsing á því sem er til, heldur að til sé veruleiki handan hans – vera sem í senn er eilíf, óefnisleg, rýmislaus, ótrúlega máttug og persónulegur skapari  alheimsins sem viðheldur tilvist hans og er verki innan hans.

Ég er því ekki guðleysingi.

Í raun get ég ekki talist guðleysingi í neinum hefðbundnum og eðlilegum skilningi orðsins. Það er himinn og haf á milli minnar heimsmyndar og heimsmyndar guðleysingjans.

Heimsmynd mín er í raun andstæða guðlausrar heimsmyndar.

Í lokin sagði viðmælandi minn:

„Og þegar þú skilur hvers vegna þú hafnar öllum öðrum guðum en þínum eigin Guði þá skilurðu hvers vegna ég hafna þínum Guði.“

Lengra varð samtalið ekki.

Hvers vegna trúi ég ekki á Seif, Óðinn og alla hina?

Það eru ólíkar ástæður fyrir því.

Ekki síst sú að það eru einfaldlega ekki góðar ástæður til að ætla að þessir svokölluðu guðir séu til – hvorki á toppi Ólympusfjalls eða annars staðar.

Þar fyrir utan væru þessir guðir skapaður veruleiki, takmarkaðir og ófullkomnir – eins og sagt er frá í goðsögunum – og ekki ekki verðugir þess að vera tilbeðnir.

Slíkur guðsskilningur jafnast á engan hátt við þann guðsskilning sem klassísk guðstrú (þeismi) felur í sér, sem hefur verið útskýrður og varinn af mörgum stærstu hugsuðum sögunnar, allt frá Plató til Plantinga.

Sá sem heldur því fram að Guð, eins og Guð er skilinn innan klassískrar guðstrúar, sé bara eitt af mörgum máttugum fyrirbærum sem maðurinn hefur tilbeðið í gegnum söguna – og hafnar tilvist Guðs á þeim forsendum – hefur ekki sagt margt sem mark er á takandi, og raunar farið á mis við það hver Guð er og hvernig hann er skilinn, meðal annars af kristnu fólki.

Nefnilega að Guð er ekki ein vera við hlið annarra.

Nei, Guð er sjálfur grundvöllur tilverunnar, orsök alls annars sem til er.

Tilvist Guðs er nauðsynleg.

Hann er fullkominn og ótakmarkaður og á ekki tilvist sína undir neinu öðru komið.

Allt annað sem er til er til hans vegna, vegna þess að hann skapaði það og viðheldur tilvist þess.

Að slíkur Guð sé til má færa sannfærandi rök fyrir, að mínu mati.

Að líkja Guði við Óðinn, Þór, Seif eða aðra slíka felur í ekki sér röksemdafærslu sem hafa þarf áhyggjur af – í öllu falli ekki fyrir þann sem hefur viðeigandi og ígrundaðan skilning á Guði.

Slíkur skilningur ber vitni um lítinn áhuga á raunverulegu samtali, þar sem byggt er á þekkingu og einlægum vilja til að skilja ólíkar skoðanir og komast að hinu sanna.

Flokkar: Guðleysi · Guðstrú

Laugardagur 17.12.2016 - 14:20 - Lokað fyrir ummæli

Kraftaverk jólanna

Jólin eru tími kraftaverks.

Í hugum kristins fólks, að minnsta kosti.

Barn fæddist sem ekki var getið með náttúrulegum hætti.

Það kemur þó ekki á óvart að í dag setja margir fyrirvara við meyfæðinguna (og kraftaverk yfirhöfuð).

Ýmsir hafa „vísindalega“ fyrirvara þegar spurningin um meint kraftaverk er annars vegar. Þeir halda því fram að reynsla okkar af og þekking okkar á náttúrulögmálum sýni að kraftaverk séu vísindalega óhugsandi.

Í því samhengi er oftar en ekki gengið fyrirfram út frá þeirri heimspekilegu forsendu að Guð sé ekki til. En um það geta vísindin vitanlega ekkert sagt.

Hitt er þó annað mál að ef Guð er til, sá sem skóp náttúruna og setti henni lögmál sín (sem af ýmsum ástæðum er skynsamlegt að ætla) eru kraftaverk vitanlega möguleg og alls ekki óhugsandi.

Og raunin er að þeir sem trúa á kraftaverk líta ekki framhjá þeirri reglufestu sem Guð hefur sett náttúrunni.

C.S. Lewis bendir réttilega á að sú skoðun að framþróun vísinda hafi með einhverjum hætti útilokað kraftaverk tengist þeirri hugmynd að fólk til forna hafi eingöngu trúað á kraftaverk vegna þess að það þekkti ekki lögmál náttúrunnar.

Að trú á kraftaverk geti ekki byggt á öðru en fáfræði um eðlilegan gang náttúrunnar.

En stundarhugsun sýnir að slíkt er vitleysa – og frásögnin af fæðingu Jesú er skínandi gott dæmi þar um.

Hvað gerði Jósef þegar hann komst að því að unnusta hans var barnshafandi?

Jú, hann ákvað hann að skilja við hana.

Af hverju?

Af því hann vissi jafnvel og nútímalæknar hvernig börn eru tilkomin. Hann vissi að samkvæmt hefðbundinni framvindu náttúrunnar eignast konur ekki börn án þess að karlmaður komi þar nærri.

Hann vissi jú lítið um smáatriðin og það sem á sér stað í líkama konunnar.

En hann vissi sannarlega að kona eignast ekki undir venjulegum kringumstæðum barn ein með sjálfri sér.

Slík fæðing væri með öðrum orðum óhugsandi nema hin reglubundna framvinda náttúrunnar hefði verið sett til hliðar eða eitthvað lagt við hana af einhverju utan við og ofar náttúrunni.

Þegar Jósef viðurkenndi fyrir sjálfum sér að ástand Maríu var ekki tilkomið vegna ótrúmennsku hennar heldur vegna kraftaverks þá viðurkenndi hann að kraftaverkið var eitthvað sem andstætt var reglu náttúrunnar – og þar af leiðandi vitnisburður um yfirnáttúrlegan mátt utan hennar.

Ekkert getur nefnilega verið óvenjulegt fyrr en maður hefur uppgötvað og komið auga á það sem er venjulegt.

Trú á kraftaverk veltur því ekki á vanþekkingu á lögmálum náttúrunnar.

Þvert á móti er trú á kraftaverk einungis möguleg ef við þekkjum lögmál náttúrunnar.

Forsendur fyrir trú eða vantrú á kraftaverkum eru því þær sömu í dag og þær voru fyrir tvö þúsund árum.

Ef Jósef hefði ekki átt sína trú og sitt taust til Guðs hefði hann getað afneitað yfirnáttúrlegum uppruna Jesú með eins hægu móti og hver annar í dag.

Með sama hætti getur sérhver nútímamaður sem trúir á Guð gengist við kraftaverki með eins hægu móti og Jósef.

Með fæðingu Jesú gekk sjálfur Guð inn á vettvang sögunnar.

Guð er ekki fjarlægur máttur, utan og ofan við þennan heim, sem lætur sig líf þitt engu varða.

Hann steig inn á svið þessa heims, inn í lífið þitt og mitt. Hann kom sem maður líkt og við til þess að finna okkur, sérhvern mann.

Koma hans inn í þennan heim áréttar umfram allt að þessi heimur skiptir máli.

Að þú skiptir máli!

Það eru sannarlega góðar fréttir nú á dögum, sannkallað fagnaðarerindi.

Að við erum ekki ein í blindum og skeytingarlausum alheimi.

Og „allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins: Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel, það þýðir: Guð með oss.“

Guð með okkur, þér og mér.

Hér og nú.

Þvílík frétt, hvernig sem á hana er litið.

Þvílíkur boðskapur. Hann er slíkur að maður getur varla meðtekið hann til fulls.

Jólin leiða okkur fyrir sjónir Guð sem er með okkur, Guð sem er hér og nú.

Og hann er kominn til þess að láta til sín taka.

Hann ætlar sér að umskapa þennan heim til þeirrar myndar sem honum var ætlað frá upphafi.

Til þeirrar myndar sem hefur svo herfilega bjagast.

Guð lítur ekki framhjá ranglæti og þjáningum þessa heims. Hann er ekki tilbúinn til þess, því þessi heimur er sköpun hans.

Guð vill leiða okkur fyrir sjónir það líf sem hann ætlar okkur – líf í fullri gnægð – og vísa okkur veginn þangað.

Með komu hans í heiminn hefur kærleikurinn, réttlætið og miskunnsemin rutt sér til rúms, holdi klætt, og kallar alla til sín.

Og öllum er frjálst að svara.

Það segja jólin okkur.

Guð er raunverulega kominn í heiminn.

Það þýðir að kristin trú er fagnaðarerindi ætlað öllum, erindi sem getur fyllt hjarta okkar allra, einmitt vegna þess að það snýst ekki bara um andlega og tímabundna uppfyllingu.

Jólin segja okkur að Guð ætlar sér ekki að sitja hljóður og aðgerðalaus hjá í hnignandi heimi sem þjakaður er af ranglæti, ófriði og ofbeldi.

Og þess vegna erum við kölluð að jötunni þessi jól sem önnur, til þess að opna fyrir Guði dyrnar að okkar lífi, til þess að taka höndum saman með honum, til þess að umskapa eða endurnýja þennan heim til sinnar upprunalegu myndar, og leiða fram sigur Krists yfir öllu sem stendur í veginum fyrir því.

Jólin eru ekki aðeins tími til að trúa, heldur og til að treysta Guði, rétt eins og Jósef gerði þegar hann tók engilinn á orðinu og gekkst við kraftaverkinu sem leiddi frelsara heimsins inn í þennan heim.

Flokkar: Jól · Kraftaverk

Miðvikudagur 7.12.2016 - 21:43 - FB ummæli ()

Trú – þekkingarskortur og óskhyggja

Þegar maður ræðir við ákveðinn og eindreginn guðleysingja um trú er ekki ólíklegt að heyra látið að því liggja að trú felist í litlu öðru en þekkingarskorti og óskhyggju.

Það er hvorki óalgengt né nýtt viðhorf.

Hvað skal segja við því?

Það fyrsta sem ég hugsa yfirleitt og spyr um er einfaldlega þetta:

„Og hvað ef svo er? Hvaða ályktanir dregur þú af því? Að Guð sé ekki til? Að það sé óhugsandi að Guð sé til?“

Ef það er niðurstaða guðleysingjans þá er einfaldlega ekkert röklegt samhengi á milli hennar og forsendanna sem hann gengur út frá (hvað sem um þær annars má segja, sem er jú eitt og annað).

Nú er ég kristinn maður og óska þess vitanlega að Guð sé til. Ég vona svo sannarlega að hann sé til. Guðleysinginn óskar þess líka að hann hafi rétt fyrir sér.

Ég er líka meðvitaður um það að mig skortir þekkingu á mörgum sviðum (nánast öllum, reyndar) og mundi seint teljast til stærstu hugsuða sögunnar. Þekkingarskortur er því sannarlega eitthvað sem ég glími við. Það viðurkenni ég fúslega.

En þegar horft er til allra þeirra sem í gegnum aldirnar og árþúsundin hafa trúað á Guð, og líka til þeirra sem trúa á Guð í dag, þá má finna í þeirra röðum einhverja stærstu og mestu hugsuði sögunnar, heimspekinga, guðfræðinga, vísindamenn og menntafólk af öllum stærðum og gerðum, fólk sem skorti sannarlega ekki þekkingu, vit og skynemi.

En í hópi trúaðra má að sjálfsgðu einnig að finna öllu venjulegra fólk, ef svo má segja, fólk eins og mig, sem ekki gat eða getur stært sig af mikilli og víðfemri þekkingu um alla mögulega hluti, fólk sem bjó og býr yfir heldur takmarkaðri þekkingu.

Og ég spyr aftur:

„Hvað með það? Hvað hefur það að segja?“

„Jú,“ segir guðleysinginn, „að fólk er tilbúið til að trúa nánast öllu til þess að sannfæra sig um og halda í þá sannfæringu að Guð sé til, og gerir það oftar en ekki þvert á það sem vísindi og þekking dagsins í dag leyfir eða gefur tilefni til.“

Látum liggja á milli hluta það sem vísindin segja eða eru talin segja. Það er umræða út af fyrir sig sem kemur því sem hér um ræðir ekki beint við.

Spyrjum heldur hvaða skilningur á Guði liggur á bak við þetta viðhorf, þ.e. að trú sé lítið annað en fáfræði og þekkingarskortur.

Hver sem hann er þá rímar hann að minnsta kosti ekki við kristna guðstrú.

Að líta svo á að Guð sé ekkert annað en uppfyllingarefni í takmarkaða þekkingu mannsins, að við bendum á Guð til þess að útskýra það sem við vitum ekki eða skiljum ekki, passar nefnilega engan veginn við þann skilning sem kristin trú hefur á Guði.

En margir halda þessu fram engu að síður.

Því er haldið fram að við finnum Guði stað þar sem vísindaleg útskýring er ekki fyrir hendi.

Og þá er nokkuð ljóst að eftir því sem vísindi útskýra meira verður minna pláss fyrir Guð.

Ekki kannast ég við þann Guð.

Enda ber slíkur skilningur ekki Guði kristinnar trúar vitni, eins og áður sagði, og á ekkert skylt við hann.

Guð kristinnar trúar er orsakavaldurinn, sá sem er á bak við tjöldin, ef svo má segja.

Hann er ástæða þess að vísindi eru möguleg yfirleitt.

Hann er á bak við það sem við vitum og það sem við vitum ekki. Hann er hinn persónulegi skapari sem skapaði alheiminn, setti honum lögmál sín og viðheldur tilvist hans.

Guð felur ekki í sér vísindalega útskýringu á því hvers vegna pláneturnar sem snúast í kringum sólina haldast á brautum sínum, eða hvers vegna kjarni atómins helst saman og á sínum stað.

En af hverju plánetur eru til sem snúast eftir föstum brautum, atóm, eða eitthvað yfirleitt sem unnt er að útskýra á vísindalegan hátt, það er allt önnur spurning, sem er handan sjálfra vísindanna.

Aðeins meira um óskhyggjuna.

Ýmsir líta svo á að guðstrú byggi ekki á öðru en yfirfærðri föðurímynd og sé ekkert annað en óskyggja til þess gerð að létta okkur lífið og hjálpa okkur að sættast við eigin hverfulleika.

Það var viðhorf Freuds, Feuerbachs, Marx og lærisveina þeirra.

En jafnvel þótt óskhyggja hefði eitthvað með það að gera hvers vegna fólk trúir á Guð (og ég neita alls ekki að óskhyggja hafi eitthvað að segja þegar kemur að trú og vantrú) þá segir það alls ekkert um sannleiksgildi guðstrúar.

Það er að segja hvort Guð sé í raun og veru til eða ekki.

Það segir í besta falli eitthvað um það hvernig fólk er sálfræðilega innstillt.

Fólk finnur trú (og vantrú) eftir margbreytilegum leiðum og þar getur margt spilað inn í og haft áhrif.

En þegar einhver telur sig geta ógilt guðstrú á þeirri forsendu að um óskhyggju sé að ræða þá verður hinn sami uppvís heldur bagalegri en algengri rökleysu.

Nefnilega þeirri að reyna að hrekja eða ógilda viðhorf á grundvelli þess hvernig það er tilkomið eða hvernig maður hefur tileinkað sér það.

Því annað hefur einfaldlega ekkert með hitt að gera í neinum röklegum skilningi.

Auðvitað má segja að ef Guð er ekki til þá útskýra Freud og co. ágætlega hvers vegna fólk trúir engu að síður á Guð.

En röksemdarfærsla sem byggir á óskyggju sem forsendu hefur ekkert að segja um það hvort Guð sé til eða ekki.

Til að svara þeirri spurningu þarf að horfa í aðrar áttir og spyrja annarra spurninga.

Þar að auki gengur röksemdafærslan sjálf í báðar áttir.

Á grundvelli hennar má með sama hætti halda því fram að guðleysi sé óskyggja, sem felst í einbeittum vilja að trúa ekki á Guð og vilja ekkert af honum vita.

Ef til vill er það hið raunverulega ópíum dagsins í dag.

En hvort heldur sem er þá snertir meint óskhyggja með engum hætti spurninguna um tilvist Guðs.

Flokkar: Guðleysi · Guðstrú

Þriðjudagur 6.12.2016 - 10:22 - FB ummæli ()

Hver skapaði Guð?

Það er ekki óalgengt að þessa spurningu beri á góma þegar rætt er um tilvist Guð. Og þá er það guðleysinginn eða efasemdarmaðurinn sem spyr.

Samhengið er yfirleitt í þessum dúr:

Ef allt á sér orsök, eins og þú segir, líka alheimurinn, hver eða hvað orsakaði þá Guð? Ef þú segir að Guð sé þessi frumorsök, og að ekkert hafi orsakað hann, getum við þá ekki allt eins sagt að alheimurinn sjálfur sé frumorsökin og eigi sér því ekki orsök? Það flækir bara málið að blanda Guði inn í það.

Já, það er það.

En bíðum aðeins við og hugsum okkur í gegnum þetta. Er ekki eitthvað loðið við spurninguna „Hver skapaði Guð?“

Jú, hún felur nefnilega í sér ákveðin grundvallarmistök, eða þá rökvillu að eigna einhverju eða einhverjum ranglega tiltekna eiginleika.

Hvernig mundir þú svara spurningum á borð við þessar:

„Hversu margir sentimetrar er lykt af rós?“

„Hvernig bragðast C moll nóta?“

„Hvenær á Jónas [sem er piparsveinn] aftur brúðkaupsdag?“

Allar þessar spurningar eru dæmu um áðurnefnda rökvillu.

Sá sem spyr slíkra spurninga eignar einhverju tiltekna eiginleika sem það ómögulega getur búið yfir.

Þetta minnir okkur á að spurninguna „Hvað orsakaði x?“ er bara hægt að spyrja um þesskonar hluti sem samkvæmt skilgreiningu eru orsakanlegir.

Það væri fullkomlega eðliegt og viðeigandi að spyrja: „Hvað orsakaði tilvist jarðarinnar?“ eða „Hver bjó til þetta borð?“ því þar er um að ræða hluti sem eðli sínu samkvæmt eiga sér orsök.

Með öðrum orðum er engin rökvilla fólgin í því að spyrja hvað orsakaði tilvist þessa eða hins, svo lengi sem þetta og hitt sem um er spurt er þess eðlis að það gæti hafa verið, eða var í raun, orsakað af einhverju(m).

En það á einfaldega ekki við um Guð!

Ég hef heldur aldrei haldið því fram að allt sem er til eigi sér orsök. En hitt þykir mér nokkuð skynsamleg ályktun að allt sem verður til, að allt sem á sér upphaf, eigi sér orsök.

Hvað með alheiminn!?

Getur hann verið frumorsökin?

Nei!

Af þeirri einföldu ástæðu að hann hefur ekki alltaf verið til. Alheimurinn varð til. Hann á sér upphaf. Og það útilokar hann sem frumorsök.

Alheimurinn er í raun eins og lánveitandi sem er sjálfur í skuld.

Veruleiki utan tíma, rúms og efnis er því mun sennilegri kandídat sem frumorsök. (Og við það má bæta að slík lýsing passar vel við Guð kristinnar trúar.)

Það eru því grundvallarmistök að spyrja „Hver orsakaði frumorsökina?“. Ef hún ætti sér orsök þá væri ekki um frumorsök að ræða.

Samkvæmt skilgreiningu felur hugtakið Guð í sér nauðsynlega veru (veru sem getur ekki ekki verið til), hinn óskapaða skapara alls annars. Ekkert sem er skapað gæti verið Guð í neinum skilningi.

Svo framarlega sem við höfum þennan almenna skilning á Guði í huga er ljóst að spurningin „Hver skapaði Guð“ á einfaldlega ekki við. Við værum í raun að spyrja „Hver eða hvað skapaði það sem samkvæmt skilgreiningu er eilíft og óskapanlegt?“.

Slík spurning felur í sér rövillu. Við gætum allt eins spurt „Hvernig bragðast C moll nóta?“.

Spurningin hefur enga merkingu!

Nú gæti einhver hugsað með sér:

„Nei, bíddu við! Þetta hljómar allt afskaplega skynsamlegt, en það er eitthvað gengur ekki upp. Þótt ég viti ekki alveg hvað það er þá virkar þetta of einfalt fyrir minn smekk.“

Allt í lagi!

Vera kann að þú teljir að svarið geri ráð fyrir því að Guð sé til!?

Svo er þó ekki!

Tilvist Guðs er einmitt það sem við erum að rökræða, ekki satt. Og til að svara spurningunni  „Hver skapaði Guð?“ er ekki hægt að gera fyrirfram ráð fyrir því að Guð sé til.

Þegar guðleysingi og guðstrúarmaður rökræða um tilvist Guðs þá eru þeir öllu jafna sammála um hver Guð er og hvers eðlis hann er, ef hann væri til. Að öðrum kosti hefði rökræðan litla merkingu.

Þeir eru ósammála um hvort til sé eitthvað, einhver veruleiki, sem hugtakið á við.

En það sem guðstrúarmaðurinn bendir hér á er einfaldlega það að í ljósi hins hefðbundna og sameiginlega skilnings á hugtakinu Guð – „Hinn óskapaði skapari alls annars“ – getur maður ekki spurt „Hver skapaði Guð?“.

Og það á við hvort sem Guð er til eða ekki.

En er ekki hægt að skilja Guð með margvíslegum hætti?

Jú, vissulega.

Má þá ekki líta svo á að merking hugtaksins – „Hinn óskapaði skapari alls annars“ – sé huglægt og valið af geðþótta.

Nei, alls ekki!

Hugtakið er langt í frá handahófskennt.

Segjum samt að svo sé, og að til séu önnur guðshugök og annar skilningur á Guði. Eina hugtakið sem kemur okkar umræðu við væri það hugtak sem lýsir Guði sem takmörkuðum veruleika sem eigi sér orsök.

Og sá skilningur á Guði er til, og þeir sem aðhyllast hann.

En hvað með það!? Þeir sem skilja Guð á þann hátt geta með réttu spurt (og ættu auðvitað að spyrja): „Hver eða hvað skapaði Guð?“.

En það er þeirra mál!

Ég lít ekki svo á að Guð sé þess eðlis og þarf því ekki að svara þeirri spurningu. Þegar ég tala um Guð þá er ég ekki að tala um slíkan Guð. Þessháttar Guð er einfaldlega ekki til að mínu mati.

Þegar hugsað er um Guð í ljósi kristinnar trúar (sem ég aðhyllist) felur spurningin þar af leiðandi í sér rökvillu og hefur því enga merkingu.

Þetta hefur auðvitað ekkert að gera með það hvort slíkur Guð sé raunverulega til eða rkki. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er einfaldlega til að undirstrika að kristið fólk þarf ekki að svara spurningunni því hún á ekki við þann Guð sem það trúir á og telur vera til.

(Burtséð frá því er svarið býsna augljóst, eins og hér hefur verið lýst.)

En þetta er eiginlega útúrdúr vegna þess að hið kristna guðshugtak er alls ekki handahófskennd eða valið af geðþótta.

Einfaldlega vegna þess að einhvers staðar verður að setja punktinn aftan við!

Af hverju?

Jú, segjum að ég skuldi þér pening. Þar sem ég á engan pening fæ ég lánaðan pening hjá Jóni til að borga þér skuldina. Illu heilli á Jón heldur engan pening og slær því Sigurð um lán svo hann geti lánað mér peninginn. Því miður gildir það sama um Sigurð og um Jón. Hann á engan pening og ákveður að spyrja Guðmund um lán svo hann geti lánað Jóni peninginn.

Þetta getur auðvitað ekki haldið svona áfram út í hið óendanlega. Þú mundir aldrei fá peninginn þinn tilbaka. Ástæðan er sú er Jón, Sigurður og Guðmundur eru skuldugir lánveitendur. Þeir geta ekki gefið það sem þeir eiga ekki. Ef röðin kemur aldrei að neinum sem raunverulega á pening er lítil hætta á að þú fáir peninginn þinn einhvern tíma tilbaka.

Í sama skilningi getur ekki eitthvað (köllum það A) verið frumorsök einhvers annars (köllum það B) ef það (A) þarf fyrst að verða til (þ.e. vera orsakað af einhverju öðru) áður en það getur orsakað eitthvað annað (B).

Maður verður að láta staðar numið við frumorsökina – það sem ekki á tilvist sína einhverju öðru að þakka.

Á endanum hljótum við að koma að einhverju sem er einfaldlega til í sjálfu sér – nauðsynlegri veru og eilífri, veru sem er ekki orsökuð af einhverju öðru, veru sem er hinn óskapaði skapari alls annars.

Slíkt hugtak er ekki handahófskennt heldur krafa skynseminnar.

Og það hefur alltaf verið skilningur kristinnar trúar að Guð sé slík vera:

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf

frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust

og jörðin og heimurinn urðu til,

frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

(Davíðsálmur 90)

Flokkar: Guð

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur