Fimmtudagur 1.12.2016 - 17:42 - FB ummæli ()

Listamaðurinn

Það er ekki óvanalegt að heyra guðleysingja eða efasemdarmann kvarta undan meintum skorti á sönnunum fyrir tilvist Guðs.

Ef Guð skapaði alheiminn þá færi tilvist hans varla á milli mála, segir hann. Við ættum að geta greint hann á jafn áþreifanlegan hátt og hvað annað.

En þegar við hugsum um þann Guð sem kristið fólk trúir á, og hvers eðlis hann er, verða slíkar væntingar óraunhæfar og raunar fráleitar.

Segjum að þú sért á listasafni og virðir fyrir þér fallegt málverk. Á meðan þú horfir á málverkið lætur þú ómeðvitað í ljós skoðanir þínar á listamanninum og hvað þú teljir hann hafa ætlast fyrir með málverkinu.

Maður nokkur sem stendur við hliðina á þér, og virðir fyrir sér sama málverk – segjum að hann sé efasemdarmaður – heyrir til þín og verður eitthvað pirraður:

Listamaður, segir hann önugur. Þvílíkt bull!

Það eru engar sannanir fyrir neinum listamanni. Ég er listfræðingur og ætti nú að vita það.

Ég er hérna tvisvar í viku og hef margoft skoðað þetta málverk í gegnum árin. Ég hef grandskoðað allt sem er á myndinni, hvern fermillimetra. Ég hef rannasakað náttúruna og umhverfið í smáatriðum, uppbyggingu alls myndefnisins, hlutföll þess og fjarlægðir, litavalið, í raun allt sem er á myndinni.

Ég hef komið auga á ýmislegt merkilegt og óvænt í málverkinu, en þennan listamann sem þú ert alltaf að tala um hef ég aldrei séð eða fundið, hversu vel og nákvæmlega ég skoða verkið.

Þú segir vafalaust að ég verði að leita betur. En í alvöru talað, hversu lengi þarf maður að leita þangað til þú viðurkennir að þessi listamaður er einfaldlega ekki til.

Hefur efasemdarmaðurinn ekki misskilið málið?

Jú, hann virðist ekki aðeins misskilja hvað það felur í sér þegar sagt er að til sé listamaður heldur einnig hvers vegna maður mundi halda slíku fram.

Misskilningur efasemdarmannsins er ekki síst fólgin í því að hann lítur svo á að listamaðurinn sé hluti af málverkinu. Hann virðist halda að spurningin um tilvist hans hafi eitthvað að gera með það sem er að finna á myndinni, hvernig hún er, lítur út, er byggð upp, o.s.frv.

Svo er að sjálfsögðu ekki.

Óháð því hversu einfalt eða flókið málverkið er, skiljanlegt eða óskiljanlegt, þá bendir það óhjákvæmilega á listamanninn og gerir ráð fyrir honum.

Og að sjálfsögðu er listamaðurinn ekki hluti af sjálfu málverkinu.

Við getum sagt að listamaðurinn tjái sig í gegnum málverkið, að það endurspegli og beri honum vitni, bendi á uppruna sinn, orsakavaldinn á bak við það.

En engu að síður er listamaðurinn ekki hluti af málverkinu í eiginlegum skilningi.

Og þess vegna hefur það lítið upp á sig að skoða málverkið í öllum sínum smæstu atriðum til að finna og koma auga á listamanninn, í þeim skilningi sem efasemdarmaðurinn hugsar sér.

Hvers vegna getum við ekki afsannað tilvist Guðs á grundvelli vísindalegra athugana og rannsókna?

Enda þótt vísindi bendi til tilvistar einhvers ótrúlega máttugs veruleika sem skapaði alheiminn þá getur maður ekki, þegar allt kemur til alls, komist undan frumspekilegum vangaveltum.

Spurningin er nefnilega ekki í eðli sínu vísindaleg.

Vegna þeirra aðferða sem skilgreina (og takmarka) vísindi geta þau leitt í ljós og útskýrt það sem er að finna innan alheimsins.

En þau geta ekki leitt okkur út fyrir hann.

Af þeim sökum er spurningin frumspekileg.

Og frumspeki er ekki takmörkuð af hinu náttúrulega.

Þess vegna er rétt að minna okkar ágæta efasemdarmann á að efasemdir hans eru grundvallaðar á frumspekilegum vangaveltum.

Þær byggja í öllu falli ekki á meintum vísindalegum staðreyndum eða skorti þar á.

En að lokum stendur hver og einn frammi fyrir persónulegu vali.

Fyrir flestum er málverkið eitt og sér nægjanlega góð vísbending um tilvist listamannsins.

Hvað sem öllu líður lætur enginn sannfærast gegn vilja sínum.

Flokkar: Efahyggja · Tilvist Guðs

Miðvikudagur 30.11.2016 - 09:31 - FB ummæli ()

Náttúruhyggja

„Ég trúi á kristindóminn eins og ég trúi því að sólin hafi risið upp; ekki eingöngu vegna þess að ég sé hana heldur vegna þess að hennar vegna sé ég allt annað.“

Svo sagði trúvarnarmaðurinn C.S. Lewis.

Kristin trú er í eðli sínu heimssýn.

Hún dregur upp tiltekna mynd af veruleikanum, felur í sér ákveðið sjónarhorn á lífið og tilveruna.

Lewis bendir á að þegar horft er á lífið í ljósi kristinnar trúar fæst af því skýr mynd.

Við sjáum lífið í réttu ljósi.

Reynsla okkar og upplifun af lífinu verður skiljanleg.

Lífið verður skiljanlegt.

Náttúruhyggja er einnig heimssýn. Guðlaus heimssýn.

Hún grundvallast á þeirri staðhæfingu að hinn efnislegi veruleiki sé tæmandi lýsing á veruleikanum.

„Alheimurinn er það eina sem var, er eða mun verða“ eins og Carl Sagan sagði.

Með öðrum orðum er enginn Guð til, enginn yfirnáttúrulegur veruleiki af nokkru tagi.

Náttúran er það eina sem er til.

Sem heimssýn gerir náttúruhyggja tilkall til að vera sönn og gefa rétta og raunsanna mynd af lífinu og tilverunni.

Samkvæmt henni er veruleikinn líkur lokuðum kassa.

Allt sem gerist inní kassanum má skýra á grundvelli einhvers annars sem gerist inní kassanum. Ekkert utan kassans getur haft áhrif á nokkuð innan hans – enda er litið svo á að ekkert sé að finna utan hans.

Með öðrum orðum má gera grein fyrir öllu á náttúrulegum og efnislegum forsendum.

Tilvist kassans er sjálfgefin.

Allt á sér náttúrulegar og efnislegar orsakir. Allt er er skilyrt af náttúrunni og efninu þegar allt kemur til alls.

Maðurinn, hugsanir hans og gjörðir, eru ekki undanskilin.

Hvað merkir þetta?

Hvaða mynd gefur þetta af lífinu og eðli þess?

Hvað leiðir af náttúrulegri sýn á lífið?

Ef náttúruhyggja er sönn þá er erfitt að sjá að lífið sé annað en tilviljunarkennd aukaafurð blindrar þróunar.

Það er þá engin sérstök ástæða fyrir lífinu, engin eiginleg ástæða fyrir tilvist okkar, eða tilvistinni yfirhöfuð.

Það er engin hugsun á bak við lífið, ekkert hugvit.

Lífið stefnir ekki að neinu marki.

Það er enginn tilgangur á bak við lífið þegar allt kemur til alls.

Heldur engin merking með lífinu þegar öllu er á botninn hvolft.

Við verðum að beygja okkur fyrir fánýti og tilgangsleysi alls.

Við lifum til þess eins að deyja í alheimi sem kemur á endanum til með að deyja sjálfur.

„Allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi,“ eins og prédikarinn í Biblíunni segir.

Og hvað er rétt og rangt eða gott og illt, ef saga alheimsins er ekki fólgin í öðru en efni sem lýtur blindum lögmálum náttúrunnar?

Það er erfitt að sjá að nokkuð sé þá til sem heitir rétt og rangt eða gott og illt í eiginlegri merkingu.

Allt er náttúrulegt og hluti af náttúrunni.

Allt er einfaldlega eins og það er og hefur því ekkert að gera með það sem okkur finnst að það ætti að vera.

Við verðum að beygja okkur undir siðferðilega afstæðishyggju og sjálfshyggju.

Í guðlausum veruleika er algilt siðferði ekki til. Aðeins persónulegar skoðanir hvers og eins.

Þegar við segjum að eitthvað sé rétt eða rangt, gott eða illt, þá erum við bara að vísa til okkar eigin skoðana, sem hvorki eru betri né verri, réttari eða rangari, en aðrar skoðanir.

Ef náttúruhyggja er sönn þá búum við í raun ekki yfir frjálsum vilja.

Við erum efnislega skilyrt.

Það eina sem greinir okkur frá öðrum efnislegum hlutum er efnisleg samsetning okkar og virkni.

Gjörðir okkar eru ekki „okkar“ í eiginlegum skilningi.

Það er því til lítils að lofa fólk eða lasta fyrir breytni sína.

Gjörðir mínar, hugsanir mínar og langanir, ásetningur minn, tilfinningar mínar o.s.frv., er ekki annað en taugboð í heilanum á mér.

Það er í raun ekkert eiginlegt „ég“ þar að baki.

Að telja sér trú um annað er blekking.

En fellur slíkt viðhorf að sýn okkar á lífið og tilveruna?

Rímar það við upplifun okkar af sjálfum okkur og lífinu?

Og af hverju ættum við eiginlega að trúa öðru eins?

Af hverju ættum við að trúa því að náttúruhyggja sé sönn?

Þeirri spurningu má svara á fleiri en einn veg.

En hún verður áleitin í ljósi þess að samkvæmt náttúruhyggju er „trú“ (ámhvað sem er) bara taugboð í heila hvers og eins.

Trú vísar ekki út fyrir sjálfa sig.

En allir náttúruhyggjusinnar „trúa“ því að alheimurinn sé í eðli sínu skiljanlegur og þess vegna sé hægt að gera grein fyrir honum á skynsamlegan og rökrænan hátt.

En á hverju er slík trú reist?

Náttúruhyggja á ekki gott með að svara þeirri spurningu.

Samkvæmt náttúruhyggju er hugur manns og heili jú eitt og hið sama.

Samkvæmt henni er heilinn (og þar með hugsun okkar og skilningur) afleiðing blindrar þróunar án nokkurs markmiðs.

Það er engin hugsun á bak við hana.

Hún er hugsunarlaus.

Það er engin tilgangur á bak við hana.

Hún stefnir ekki að neinu marki.

Af hverju ættum við þá að trúa nokkru sem leiðir af henni?

En þeir sem aðhyllast náttúruhyggju trúa því samt að hún sé sönn og leitast við að sannfæra aðra um sannleiksgildi hennar.

En ef náttúruhyggja er sönn þá er augljóslega ekki til neitt sem heitir „að trúa því að eitthvað sé satt“ því það eru ekki til neinir hugrænir atburðir af neinum toga.

Á bak við þá sannfæringu að náttúruhyggja sé sönn er ekkert annað efnaboð í heila og rafeindir sem skjótast þar frá einum stað til annars.

Náttúruhyggja grefur því undan sjálfri sér.

Hún grefur undan þeirri skynsemi sem hún gerir tilkall til og byggir á.

Við gætum allt eins hugsað okkur mann sem sagar undan sjálfum sér greinina sem hann situr á.

Náttúruhyggja er mótsagnakennd.

Í bók sinni The God Delusion segir Richard Dawkins:

„Í ljósi þess að lífið er afleiðing tilviljunarkenndrar þróunar er ósennilegt að skilningur okkar á því sé réttur.“

Það er heiðarleg játning.

Ef litið er svo á að viðhorf okkar til lífsins, og skilningur okkar á því, er ekki fólgin í öðru en hugsunarlausum atómum á hreyfingu, af hverju ættum við þá trúa þeim?

Og lifir fólk öllu jafna lífi sínu líkt og náttúruhyggja sé sönn?

Eins og að lífið hafi engan tilgang, merkingu eða gildi þegar allt kemur til alls?

Eins og að það sem telst vera rétt eða rangt sé aðeins fólgið í persónulegum skoðunum hvers og eins?

Eins og að við berum ekki ábyrgð á gjörðum okkar?

Eins og að við séum bara viljalaust efni?

Náttúruhyggjusinnar sem ekki gera það neyðast til að ganga lengra en heimssýn þeirra leyfir.

Þeir eru í mótsögn við heimssýn sína og bera þannig vitni um brotalamir hennar.

Kristinn maður sem ekki gerir það er samkvæmur heimssýn sinni!

Hans viðhorf rúmast innan heimssýnar hans.

Samkvæmt kristinni trú og heimssýn er hugsun og hugvit á bak við lífið.

Á bak við lífið og tilveruna er skapari þess og höfundur.

Guð sem stefnir öllu að því marki sem hann hefur sett því.

Persónulegur Guð sem jafnframt er grundvöllur og mælikvarði þess sem er rétt og rangt.

Lífið og tilveran, maðurinn þar á meðal, er handaverk hans og ber skapara sínum vitni.

Flokkar: Guðleysi · Guðstrú · Heimspeki · Heimssýn · Náttúruhyggja

Sunnudagur 27.11.2016 - 20:57 - FB ummæli ()

Er hægt að sanna tilvist Guðs?

Svarið við þeirri spurningu veltur á því hvað átt er við með orðinu „sönnun“.

Margir segjast ekki geta trúað á Guð nema fá allt að því áþreifanlegar sannanir fyrir því að hann sé til.

Ef átt er við það, ef sönnun merkir „fullvissa“ eða „hafið yfir allan vafa“ eða „óvéfengjanlegt“ þá er að sjálfsögðu ekki hægt að sanna tilvist Guðs.

En það ætti ekki að koma neinum á óvart, enda er slíkur mælikvarði algjörlega óraunhæfur.

Við vitum svo til ekkert upp að því marki. Og við kæmumst seint í gegnum venjulegan dag ef við gerðum slíka kröfu til þekkingar.

Enda föllumst við líka á ýmislegt – og það vel innan skynsamlegra marka – án þess að hafa hundrað prósent vissu fyrir því. Næstum því allt sem við vitum eða teljum okkur vita er þess eðlis.

En þýðir það þá að við höfum enga ástæðu til að trúa því að Guð sé til.

Nei!

Þótt tilvist Guðs verði ekki sönnuð í einhvers konar stærfræðilegum og óvéfengjanlegum skilningi má engu að síður benda á ýmsar góðar og skynsamlegar ástæður til að trúa því að Guð sé til.

Við getum kallað það „vísbendingar“!

Ein slík vísbending væri sú staðreynd að eitthvað er til.

Eins og Pascal og fleiri mætir heimspekingar hafa bent á er sú spurning sem með réttu ætti að spyrja fyrst af öllum þessi: „Hvers vegna er eitthvað til fremur en ekkert?“

Með öðrum orðum: Hvernig útskýrum við veruleikann, alheiminn? Hvaðan kom hann? Af hverju er hann til? Af hverju er eitthvað til yfirleitt?

Það er góð spurning.

Kannski er alheimurinn einfaldlega blekking og ekki til í raun og veru? Gæti ekki verið að upplifun okkar sé bara ein stór tálsýn, svona í líkingu við það sem sjá má í bíómyndinni The Matrix?

Ef til vill skapaði alheimurinn sjálfan sig? Ýmsir hafa haldið því fram, að alheimurinn sé einfaldlega sjálfsprottin.

Svo getur líka verið að alheimurinn sé eilífur, að hann hafi bara alltaf verið til og hvíli einhvern vegin í sjálfum sér. Sú skoðun á sér langa sögu og hefur verið á kreiki allt frá dögum heimspekinganna forngrísku.

En kannski var alheimurinn skapaður af einhverju öðru, einhverju sem ekki er hluti af alheiminum sjálfum, einhverju sem alltaf hefur verið til og er orsök alls annars sem til er. Það er skoðun þeirra sem trúa á Guð.

Mér dettur ekki í hug aðrir möguleikar.

Við getum reynt að nota útilokunaraðferðina.

Hvað fyrsta möguleikann varðar, að veruleikinn eins og við upplifum hann sé blekking, tel ég að heimspekingurinn René Descartes hafi tekið af öll tvímæli.

Maður getur ekki efast um eigin tilvist án þess að sýna fram á hana um leið. Efi krefst þess að einhver efist, að einhver hugsi, að einhver sé til.

Cogito, ergo sum, eins og hann orðaði það.

Ef allt er blekking þá er að minnsta kosti til einhver eða eitthvað sem lætur blekkjast.

Í öllu falli finnst mér augljóst að hverskyns rök fyrir því að alheimurinn sé í raun og veru ekki til hljóti alltaf að byggja á forsendum sem eru langtum ósennilegri og veikari en okkar eigin reynsla af veruleikanum í kringum okkur.

Að alheimurinn hafi skapað sjálfan sig er líka of stór biti fyrir mig. Ef maður hugsar skynsamlega (sem ég öllu jafna reyni að gera en tekst þó ekki alltaf) verður ljóst, að mínu mati að minnsta kosti, að sjálfsköpun er einfaldlega rökleg mótsögn og þar af leiðandi óhugsandi.

Að eitthvað skapi sig sjálft þýðir að það hafi verið til áður en það varð til – að öðrum kosti hefði það ekki getað skapað sig.

Því hvað getur það sem ekki er til gert?

Og hvernig getur það sem þegar er til ekki enn verið til?

Þessari hugmynd er oft laumað að okkur með þeim orðum að alheimurinn hafi orðið til fyrir einhvers konar tilviljun (sem er gjarnan skilgreind með einhverju „vísindalegu“ hugtaki).

Það er ef til vill til þessa að forðast hugmyndina um skapara.

En hugsum málið.

Ef þú kastar krónu í loftið hverjar eru þá líkurnar á því að annaðhvort þorskurinn eða landvættirnar komi upp.

Helmingslíkur, að sjálfsögðu!

En hefur tilviljun einhver áhrif á það hvor hliðin kemur upp?

Ef krónunni væri nú kastað upp aftur og aftur, en alltaf við sömu skilyrði, segjum í lofttæmi, alltaf með sama hætti, frá sömu hlið, í nákvæmlega sömu hæð, af sama krafti, og hún lenti alltaf á sama stað, o.s.frv.

Hvaða hlið kæmi þá upp?

Já! Alltaf sú sama.

Og það er vegna þess að orsakasamhengi hluta stýrist ekki af einhverjum ímynduðum krafti eða orku sem heitir tilviljun.

Það eru tilteknir þættir sem hafa áhrif á það hvernig krónan snýr sér og lendir. Þyngd krónunnar, upphaflegur kraftur kastsins, loftmótsstaða, hvar hún lendir o.s.frv.

Tilviljun hefur ekkert með niðurstöðuna að gera enda er ekkert til sem heitir „tilviljun“.

Hið ólíklegasta getur auðvitað gerst. En það er allt annað mál. Og það er ekki tilviljun þegar það gerist. Það eru alltaf einhverjar ástæður á bak við það sem gerist, hversu óljósar sem þær kunna að vera.

Þegar orsakasamhengi einhvers tiltekins atburðar er rakið tilbaka verður ljóst að enginn hefði getað spáð fyrir um hann.

Tökum innrásina í Normandí sem dæmi. Þegar hugsað er til alls þess, allra þeirra atburða í sögu mannsins, sem urðu að eiga sér stað áður en sá atburður gat átt sér stað, áður en sú staða kom upp, þá er mjög freistandi að tala um tilviljun.

En að sjálfsögðu eru orsakirnar allar fyrir hendi og teygja sig tilbaka eins langt og saga mannsins nær.

Jafnvel þótt okkar útsýni sé afar takmarkað þá er ljóst að tilviljun kemur engu til leiðar.

Einfaldlega vegna þess að hún er ekki neitt og getur því ekkert gert eða haft áhrif á nokkuð.

Af engu kemur jú ekkert.

Það sem ekkert er getur ekki orsakað eitthvað. Það getur ekki komið nokkru í kring.

Meira að segja heimspekingurinn David Hume, konungur efahyggjunnar, var sammála því.

Þegar við segjum að eitthvað hafi orðið til af tilviljun þá erum við í raun bara að segja að það varð til af engu.

Sem er bara bull!

Það er í raun verra en að trúa á töfra. Þegar töframaðurinn dregur kanínuna upp úr hattinum þá er að minnsta kosti hatturinn til staðar. Að ógleymdum töframanninum.

Það sem við erum í raun að segja er að við höfum ekki hugmynd um hvernig það varð til.

Hvað með eilífan alheim? Er ekki alheimurinn bara eilífur.

Nú er það ekki óhugsandi að alheimurinn hafi alltaf verið til. Það er engin mótsögn fólgin í því og engin rökvilla.

Og þegar við hugsum um það hlýtur jú eitthvað að vera til sem alltaf hefur verið til, eitthvað eilíft.

Af hverju?

Jú, af því að ekkert verður til af engu.

Ef það var einhvern tíma svo að ekkert var til – enginn Guð, enginn alheimur, bókstaflega ekki neitt, enginn veruleiki af nokkru tagi – af hverju er þá eitthvað til núna? Hvernig má það vera?

Ef það var einhvern tíma ekkert til, þá væri jú enn til ekkert. Og það mundi alltaf vera svo að ekkert væri til. (Ekki svo að skilja að ekkert sé eitthvað sem gæti mögulega verið til eða ekki til. Ekkert er jú einfaldlega bara ekki neitt.)

Að ekkert verður til að engu, að allt sem verður til eigi sér orsök, samræmist allri okkar reynslu og þekkingu, hversdagslegri og vísindalegri.

En hvað er það þá sem er eilíft? Hvað hefur alltaf verið til?

Það hlýtur að vera alheimurinn sjálfur eða eitthvað annað utan hans.

Lengst af hefur hin ráðandi skoðun verið sú að alheimurinn sé eilífur og hafi alltaf verið til.

En sú skoðun er ekki lengur ráðandi.

Hin vísindalega heimsmynd breyttist með gagngerðum og óvæntum hætti í upphafi 20. aldarinnar. Og nú eru flestir á einu máli um að alheimurinn hafi orðið til og eigi sér því upphaf.

Ekki að það sé ný skoðun.

Ófáir guðfræðingar og heimspekingar höfðu komist að sömu niðurstöðu mörgum öldum og árþúsundum fyrir fyrir daga Einsteins, Hubbels, Penzias og annarra vísindamanna sem eiga hlut í kenningunni um upphaf alheimsins í Miklahvelli.

Fyrsta setning Biblíunnar staðhæfir jú að alheimurinn sé skapaður, þ.e.a.s. að hann eigi sér upphaf. Og sá texti er sennilega í kringum 3000 ára gamall.

En það má vel velta spurningunni fyrir sér heimspekilega, án tillits til þess sem stendur í Biblíunni og hvað nútímavísindi hafa að segja.

Getur verið að alheimurinn hafi alltaf verið til, að hann sé eilífur og hvíli einhvernvegin bara í sjálfum sér?

Ef svo er þá þýðir það að fortíðin er óendanlega löng, bókstaflega án upphafs. Fram að hverju augnabliki hefur liðið óendanlega langur tími.

Óendanlega margar mínútur liðu áður en röðin kom að þeirri mínútu sem nú stendur yfir. Óendanlega margir dagar liðu áður en dagurinn í dag rann upp.

Í raun skiptir ekki máli hvað við hugsum okkur, áður en það gerðist leið óendanlega langur tími. Áður en hvað sem er gerist hefur óendanlega langur tími liðið.

En hvernig getur þá eitthvað nokkurn tíma gerst?

Í stuttu máli getur þá ekkert gerst!

Eitt sinn var ég staddur í miðbænum. Það var um mitt sumar. Sólin var sterk og hitinn mikill. Ég keypti mér stóran ís með súkkulaðidýfu og lakkrískurli. Síðan settist ég í skuggann og naut lífsins.

Ég man ég þurfti að hafa svolítið fyrir ísnum. Röðin var svo löng að ég þurfti að bíða í tæpan hálftíma. En þótt svitinn bogaði af mér lét ég mig hafa það að bíða þangað til röðin kom að mér.

En ég velti fyrir mér hvenær röðin hefði komið að mér ef bókstaflega óendanlega margir þurftu að fá afgreiðslu á undan mér?

Eða hvenær dagurinn í dag hefði runnið upp ef óendanlega margir dagar þurftu fyrst að koma og líða.

Eða hvenær mínútan sem nú er að líða gat byrjað ef óendanlega margar mínútur urðu að líða á undan henni?

Aldrei! Aldrei!

Ég hefði aldrei fengið ísinn og væri löngu dáinn úr þorsta. Sú mínúta þegar röðin kom að mér hefði aldrei runnið upp.

Ekki að það hafi nokkuð að segja enda hefði þessi heiti sumardagur aldrei heldur runnið upp. Röðin hefði aldrei komið að honum.

Með öðrum orðum getur ekki verið að óendanlega margir dagar hafa liðið, eða mínútur, eða tími, fram til þessa augnabliks.

Einhvern tíma rann upp hinn fyrsti daguri, hin fyrsta mínúta.

Með oðrum orðum: Einhvern tíma byrjaði tíminn. Einhvern tíma í fyrndinni varð alheimurinn til.

Spurningin er auðvitað af hverju? Hvað orsakaði tilvist alheimsins, upphafs hans?

Ekki var það „ekkert“ og þaðan af síður „tilviljun“.

Skynsamlegasta ályktunin er sú að eitthvað utan alheimsins orsakaði tilvist hans.

Eitthvað sem er eilíft og hefur alltaf verið til.

Eitthvað sem er að finna utan tíma, rúms, efnis og orku.

Eitthvað sem er utan og ofan við hinn náttúrulega og efnislega veruleika.

Eitthvað sem er yfirnáttúrulegt.

Eitthvað óefnislegt, ótímalegt, ótrúlega máttugt og er orsök alls annars sem til er.

Þótt sá einstaklingur sem færði upphaf Biblíunnar fyrst í letur hafi hugsað með öðrum og ólíkum hætti en hér er lýst var niðurstaða hans og sannfæring sú sama.

Við stöndum eftir með aðeins einn möguleika.

„Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð.“

Flokkar: Heimsfræðirök · Heimspeki · Tilvist Guðs

Föstudagur 25.11.2016 - 15:35 - FB ummæli ()

Trú, Guð og vísindi

Sú skoðun er algeng að trú og vísindi séu andstæður. Litið er svo á að með tilkomu og framþróun vísinda sé trú og trúarlegar skýringar á eðli lífsins og tilverunnar úreltar leifar frá liðnum tíma. Jafnvel er litið svo á að vísindi hafi afsannað tilvist Guðs.

Hitt er annað mál að vísindi geta ekki afsannað tilvist Guðs af þeirri ástæðu að þau fást við hinn náttúrulega og efnislega heim. Guð er handan hans. Guð er orsök alheimsins og ekki eitthvað sem vísindi geta afsannað í valdi eigin aðferða. Vísindamaður sem segist hafa afsannað tilvist Guðs er ekki lengur að fást við vísindi eða hinn náttúrulega heim í vísindalegum skilningi heldur heimspeki eða guðfræði.

Takmarkanir vísinda

Vísindi eru með öðrum orðum takmörkuð. Eins og eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Peter Medewar sagði er engin leið betri eða fljótlegri til að koma óorði á vísindi en að segja þau eiga svar við öllum spurningum og að þær spurningar sem vísindi svari ekki séu merkingarlausar. Að mati Medawar eru vísindi augljóslega takmörkuð enda geti þau ekki svarað barnslegum grundvallarspurningum varðandi uppruna tilverunnar, tilgang lífsins og örlög eða hvað sé gott, rétt og fallegt. Vísindi spyrja takmarkaðra spurninga og geta ekki náð utan um eða útskýrt allt sem leitar á huga mannsins eða er fólgið í reynslu hans.

Vitnisburður sögunnar

Það viðhorf að trú og vísindi fari ekki saman stenst ekki sögulega skoðun. Brautryðjendur nútíma vísinda voru kristnir menn á borð við Boyle, Galíleó, Newton, Kepler, Mendel, Maxwell o.fl. Þeir sáu enga mótsögn á milli vísinda og guðstrúar. Það sama á við um fjölmarga vísindamenn í nútímanum, þar á meðal Francis Collins, sem stýrði kortlagningunni á erfðamengi mannsins, svo dæmi sé tekið.

Það var heldur ekki tilviljun að vísindi komu til sögunnar í Evrópu 16. aldar sem um langan tíma hafði mótast af hinni kristnu lífsskoðun. Eins og C.S. Lewis komst að orði urðu menn vísindalegir í hugsun vegna þess að þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum; og þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum vegna þess að þeir trúðu á þann sem setti náttúrunni lögmál sín.

Röng guðsmynd

Þeir sem halda því fram að vísindi og trú séu í mótsögn ganga gjarnan út frá mjög bjagaðri guðsmynd. Þá er litið svo á að Guð sé ekkert annað en uppfyllingarefni í takmarkaða þekkingu mannsins. Með öðrum orðum finnum við Guði stað þar sem vísindaleg útskýring sé ekki fyrir hendi. Eftir því sem vísindi útskýra meira verður minna pláss fyrir Guð.

En slíkur skilningur ber ekki Guði kristinnar trúar vitni og á ekkert skylt við hann. Guð kristinnar trúar er sá sem er á bak við tjöldin. Hann er orsakavaldurinn. Hann er á bak við það sem við vitum og það sem við vitum ekki. Hann er hinn persónulegi skapari sem leiddi fram alheiminn og viðheldur tilvist hans.

Ólíkar útskýringar en ekki mótsagnakenndar

Vísindin rannsaka heiminn. Þau skoða úr hverju hann er gerður, hvers eðlis hann er og hvernig hann virkar. Þegar vísað er til Guðs annars vegar og vísinda hins vegar til að útskýra alheiminnn er um að ræða útskýringar af ólíkum toga – sem þó er gjarnan ruglað saman.

Að stilla fólki upp við vegg og biðja það að velja á milli vísinda og Guðs er líkast því að sýna manni Ford T bíl og biðja hann að velja á milli tveggja mögulegra útskýringa á honum. Önnur útskýringin eru náttúrulögmálin, lögmál eðlisfræðinnar, vélfræðinnar, aflfræðinnar o.s.frv. Hin útskýringin er Henry Ford sjálfur. Það sjá allir að slíkir afarkostir eru fráleitir því hér er um tvær jafngildar útskýringar að ræða enda þótt ólíkar séu. Báðar eru nauðsynlegar og réttar. Við þurfum hvort tveggja í senn vísindalega útskýringu á bílnum með tilliti til eðlisfræðilegra lögmála og persónulega útskýringu með tilliti til orsakavalds.

Það sama á við um alheiminn!

Þegar alheimurinn er útskýrður með vísan til Guðs sem orsakavalds er einfaldlega um að ræða úskýringu af öðrum toga en hina vísindalegu útskýringu. Þær eru hins vegar ekki í mótsögn eða rekast hvor á aðra. Henry Ford keppir ekki við lögmál eðlisfræðinnar sem útskýring á Ford T bíl frekar en Guð keppir við vísindi þegar kemur að því að útskýra alheiminn.

Það væri ennfremur fráleitt að halda því fram í ljósi þess að við getum útskýrt með vísindalegum hætti hvernig Ford T bíll virkar að af því megi draga þá ályktun að Henry Ford hafi aldrei verið til.

Í raun er það svo að eftir því sem við skiljum alheiminn betur verður auðveldara að dásama hugvitssemi Guðs sem á bak við hann er.

Þegar Newton uppgötvaði þyngdarlögmálið leit hann ekki svo á að hann þyrfti aldrei framar að leiða hugann að Guði. Þvert á móti. Í meistaraverki sínu Principia Mathematica lýsir hann þeirri von sinni að uppgötvun sín sannfæri hugsandi fólk um tilvist og mikilfengleika Guðs. Með öðrum orðum, eftir því sem hann skildi eðli alheimsins betur þeim mun meir dáðist hann að snilli og mikilfengleika Guðs.

Sá er einnig, og hefur alltaf verið, skilningur Biblíunnar: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ (Sálm. 19.1)

 

Flokkar: Skynsemi · Trú · Vísindi

Miðvikudagur 23.11.2016 - 15:36 - FB ummæli ()

Dánardægur C.S. Lewis og áreiðanleiki hugsunar

Í gær var dánardægur C.S. Lewis.

Lewis fæddist þann 29. nóvember 1898 í Belfast og lést þann 22. nóvember 1963 í Oxford.

Hann starfaði um 30 ára skeið sem prófessor í bókmenntafræði við Oxford háskóla.

Lewis var afkastamikill rithöfundur, skrifaði m.a. sögurnar um Narníu, og er enn víðlesinn.

Lewis er ekki síst þekktur fyrir skrif sín um kristna trú og var á sínum tíma einn þekktasti kristni rithöfundurinn. Hann er álitin vera einn áhrifamesti trúvarnarmaður kristninnar, og þeirra áhrifa gætir enn, rúmum 50 árum eftir dauða hans.

Lewis var guðleysingi framan af aldri en tók kristna trú um þrítugt. Bók hans Mere Christianity, sem byggir á þekktum útvarpserindum sem Lewis hélt í breska ríkisútvarpinu í seinni heimsstyrjöldinni miðri, hefur oftar en einu sinni verið valin besta og áhrifaríkasta bókin um kristna trú sem rituð var á 20. öldinni.

Hvort sem maður er guðleysingi eða guðstrúarmaður er það gefandi og lærdómsríkt að lesa verk C.S. Lewis.

Þessa umhugunarverðu „hugleiðingu“ er að finna í bók hans Miracles:

„Segjum sem svo að það finnist ekkert hugvit á bak við alheiminn, enginn skapandi hugsun! Það þýðir að enginn mótaði heilann í mér með hugsun að markmiði. Það er bara þegar svo vill til að atómin í höfðinu á mér, af eðlisfræðilegum og efnafræðilegum ástæðum, raða sér upp á ákveðin hátt, að ég að lokum skynja (sem aukaafurð) það sem ég kalla hugsun. En hvernig get ég þá treyst því að mín eigin hugsun sé sönn? Það væri eins og að hella niður mjólkurfernu í þeirri von að úr mjólkinni sem hellist niður verði til kort af London. En ef ég get ekki treyst eigin hugsun þá get ég vitanlega ekki treyst rökunum fyrir guðleysi, og þá hef ég enga ástæðu til að vera guðleysingi, eða nokkuð annað. Ef ég trúi ekki á Guð þá get ég ekki trúað á hugsun. Ég get þá heldur aldrei notað hugsun til að trúa ekki á Guð.“

[Ég leyfi mér að taka það fram að C.S. Lewis á ekki við að þeir sem ekki trúa á Guð geti ekki hugsað eða séu á einhvern hátt takmarkaðri í hugsun sinni en þeir sem trúa á Guð. Lewis orðar hér þekkt rök sem ganga út á það að ef Guð er ekki til (hvort sem við trúum á hann eða ekki), þ.e.a.s. ef alheimurinn er eini veruleikinn sem til er og lífið og tilveran því einungis tilviljunarkennd aukaafurð blindra náttúrulögmála, þá höfum við ekki forsendur eða grundvöll til að treysta á áreiðanleika hugsunar okkar og vitrænna eiginleika. Margir guleysingjar fallast á það. Eins og erfðafræðingurinn og lífefnafræðingurinn J.B.S. Haldane sagði eitt sinn: Ef vitrænir ferlar mínar eru með öllu skilyrtir af hreyfingu atóma í heilanum mínum, þá hef ég enga ástæðu til að trúa því að skoðanir mínar og viðhorf séu sönn … og þar af leiðandi hef ég enga ástæðu til að trúa því að heilinn í mér samanstandi af atómum.]

Flokkar: C.S. Lewis · Guðleysi · Guðstrú

Þriðjudagur 22.11.2016 - 20:11 - FB ummæli ()

Svör við athugasemdum við pistlinum „Er Guð til“

Hér er svarað í stuttu máli nokkrum athugasemdum við pistlinum „Er Guð til“

Nokkrar athugasemdir ganga út á það að við vitum ekkert með vissu um tilurð alheimins, að það sé í raun óútkljáð hvort alheimurinn sé eilífur eða ekki. Til séu rök með og á móti eilífum alheimi, jafnt heimspekileg og vísindaleg.

Við vitum núorðið býsna mikið um eðli alheimsins. Heimsfræðin, sú grein eðlisfræðinnar sem rannsakar uppruna alheimsins, hefur gjörbylt eldri hugmyndum um eðli og tilurð hans. Sú kenning sem gengið er út frá í dag – Miklahvellskenningin – er einfaldlega sú kenning að alheimurinn (allur hinn efnislegi veruleiki tíma, rúms og orku) er ekki eilífur heldur hafi orðið til fyrir um það bil 14 billjónum ára og eigi sér því upphaf. Sú kenning er viðurkennd af flestum og allar athuganir fram til þessa hafa staðfest hana. Vissulega hafa verið lagðar fram kenningar sem ekki gera ráð fyrir því að alheimurinn eigi sér upphaf, en þær hafa ekki notið hylli og verið hraktar á vísindalegum grunni.

Í þessu samhengi má benda á bókina Blackwell Companion to Natural Theology (Blackwell, 2009) þar sem þau heimsfræðilíkön sem gera ráð fyrir eilífum alheimi eru vegin og metin og útskýrt hvers vegna þau geta ekki teygt fortíð alheimsins óendanlega langt tilbaka.

Þá er vert að hafa í huga ummæli hins virta eðlisfræðiprófessors Alexanders Vilenkin. Hann flutti erindi  fyrir nokkrum árum á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af 70 ára afmælis Stephen Hawkings (sjá „Why Physicists Can’t Avoid a Creation Event,“ New Scientist [January 11, 2012]). Hans mat er að allt bendi til þess að alheimurinn eigi sér upphaf! („All the evidence we have says that the universe had a beginning.“) Þetta er umhugsunarvert. Vilenkin segir ekki að rökin fyrir upphafi alheimsins vegi þyngra en rökin með eilífum alheimi. Nei, öll rök, að hans mati, bendi til þess að alheimurinn eigi sér upphaf.

Hvað varðar heimspekileg rök fyrir upphafi alheimsins þá lagði ég fram ein slík í pistli mínum (og fleiri eru til). Þau eru að mínu mati góð og gild og nægilega sterk til að réttlæta það viðhorf að óendanleg röð orsaka/atburða er óhugsandi – sem felur í sér að alheimurinn er ekki eilífur heldur eigi sér upphaf. Sú niðurstaða er að minnsta kosti hugsanlegri/skynsamlegri en mótsögnin, að mínu mati.

(Það má nálgast þessa niðurstöðu úr ýmsum áttum. Víð getum spurt okkur: Hvers vegna er „núna“? Ef alheimurinn er sannarlega eilífur, ef fortíð hans teygir sig óendanlega langt tilbaka, hvers vegna er 22. nóvember í dag, af öllum öðrum augnablikum í tíma? Hvers vegna er ekki fyrri eða síðara augnablik „núna“?)

Nú er öllum frjálst að reyna að hrekja slík rök og leggja fram rök sem sýna fram á annað. Athugasemdin hafði ekkert slíkt að geyma og því þarf ekki að hafa lengri orð um þetta hér.

Hafa ber í huga að heimfræðirökin eru heimspekileg rök, ekki vísindaleg. Sú forsenda þeirra að alheimurinn hafi orðið til og eigi sér því upphaf er studd heimspekilegum rökum á borð við þau sem ég lagði fram. Kenningin um Miklahvell er öflug vísindaleg staðfesting á þeirri niðurstöðu.

En vissulega taka vísindalegar kenningar breytingum. Það sem er viðtekið í dag getur breyst á morgun. En óháð því er alltaf hægt að horfa framhjá því sem við höfum góðar og gildar ástæður til gangast við með því að segja að ekkert verði vitað með vissu, að ekkert sé eða verði útkljáð. Ef hér er átt við „fullvissu“ eða „hundrað prósent vissu“ þá er það rétt að við vitum næsta ekkert. En slíkur mælikvarði er með öllu óraunhæfur, að ekki sé sagt andvísindalegur. Við erum þá ofurseld efahyggju, sem er fráleitt viðhorf þegar allt kemur til alls.

Önnur athugsamend er á þá leið að samkvæmt skammtafræði geti víst eitthvað orðið til úr engu, eða án orskar. Hið vísindalega svar sé því að ekki þurfi alltaf að vera frumorsök fyrir hendi.

Þetta er algeng mótbára. Það er þó ekki rétt að skammtafræði sýni að eitthvað geti orðið til úr bókstaflega engu. Þær efnisagnir sem myndast í skammtarrúminu spretta alls ekki fram úr engu. Um er að ræða sveiflur eða flökt í orkunni sem skammtarúmið samanstendur af. Sjálft skammtarúmið er alls ekki „ekkert“. Það er efnislegur veruleiki, ólgusjór af orku, þar sem efniseindir verða til og hverfa jafnharðan. Þótt ekki sé hægt að spá fyrirfram um atburði þar er það alls ekki svo að þar verði sífellt til eitthvað úr bókstaflega engu.

Að ætla að eitthvað geti orðið til úr bókstaflega engu (Hvað er það eiginlega?) án nokkurrar orsakar er verra en að trúa á töfra. Hið frumspekilega innsæi að af engu komi ekkert er einn af hornsteinum vísinda. Öll okkar reynsla okkar og þekking, vísindaleg og hversdagsleg, staðfestir að allt sem verður til á sér orsök, og að ekkert komi af engu. Og raunar má spyrja sig, ef það væri í reynd svo að eitthvað geti orðið til úr engu, hvers vegna hvað sem er verði ekki sífellt til úr engu. Af hverju er það bara alheimurinn sem verður til úr engu? Hvað gerir „ekkert“ svo dyndótt að „það“ orsaki bara alheim?

Í þessu samhengi er jafnframt bent á að ef Guð geti skapað eitthvað úr engu opnist möguleikinn á að alheimurinn sé sjálfsprottinn. Geti Guð annað eins er þá ekki einfaldara að ímynda sér að slíkt gerist bara af sjálfsdáðum?

Því var ekki haldið fram að Guð skapaði eitthvað úr engu. Hin kristna skoðun er ekki sú að alheimurinn hafi orðið til úr engu eða án orsakar. Alheimurinn á sér orsök. Hann var skapaður af Guði. En með því er ekki átt við að Guð hafi tekið handfylli af „engu“ og skapað úr því alheiminn. Þegar sagt er að Guð hafi skapað alheiminn úr engu er átt við að hann notaði ekki fyrirliggjandi „efni“ sem hann mótaði alheiminn af. Guð er líkt og myndhöggvarinn nema hvað að hann þurfti ekki efnivið til að skapa listaverkið. Ef slíkt er álitið ómögulegt verður að færa rök fyrir þeirri niðurstöðu.

Það má ímynda sér eitt og annað. En að alheimurinn sé í einhverjum skilningi sjálfsprottin eða hafi með einhverjum hætti orðið til af sjálfsdáðum er einfaldlega rökleg mótsögn og þar af leiðandi óhugsandi. Heimspekingingurinn og guðleysinginn Daniel Dennet hefur haldið slíku fram. En sé alheimurinn er sjálfsprottin, orðin til af sjálfum sér, verður hann að hafa verið til áður en hann varð til eða spratt fram. Slíkt er einfaldlega fráleitt. Orsökin getur ekki komið á undan afleiðingu sinni í þeim skilningi.

Þá er sagt að það sé út í hött að líta svo á að vangaveltur um það hvort alheimurinn sé eilífur eða ekki hafi eitthvað með Guð að gera.

Nei, það er alls ekki út í hött. Alheimur sem varð til, á sér upphaf, kallar á orsök eða útskýringu. Heimsfræðirök eru af ýmsum toga. Hin eiginlega niðurstaða heimsfræðirakanna sem ég reifa í pistli mínum er sú að alheimurinn eigi sér orsök, ekki að Guð sé til. En þegar greint er hvers eðlis sú orsök hlýtur að vera og hvaða eiginleikum hún hljóti að búa yfir verður ljóst að niðurrstaðan hefur mikið með Guð að gera.

Bent á að ef tilurð alheimsins kalli á útskýringu þá verði með sama hætti að útskýra hver orsök Guðs sé og af hverju hann er til.

Hér er líka um algenga mótbáru að ræða. Hún byggir hins vegar á misskilningi. Röksemdafærslan gengur ekki út frá því að allt sem sé til eigi sér orsök og kalli þar af leiðandi á útskýringu. Eingöngu það sem verður til á sér orsök. Guð varð hins vegar aldrei til. Hann er ekki orsakaður af einhverju öðru og á sér því ekki upphaf. Hann er eilífur. Spurningin hver skapaði eða orsakaði Guð á því ekki við og er í raun merkingarlaus. Í ljósi þess að alheimurinn er ekki eilífur er hins vegar fyllilega eðlilegt og viðeigandi að spyrja hver orsakaði eða skapaði alheiminn. Sú spurning á hins vegar ekki við þegar Guð er annars vegar.

Við þetta má bæta að til þess að fallast á tiltekna útskýringu er alls ekki nauðsynlegt að geta útskýrt útskýringuna. Augnabliks íhugun leiðir það í ljós. Það er fyllilega eðlilegt og skynsamlegt að útskýra ævaforna leirmuni sem finnast í jörðu með því að vísa til einhvers hóps af fólki sem bjó þá til og notaði, enda þótt við vitum að öðru leyti ekkert um það fólk og getum með engu móti útskýrt veru þeirra og tilvist.

Sú fullkomnunarárátta að hafna útskýringu nema hægt sé að útskýra sjálfa útskýringuna mundi gera það að verkum að ekkert yrði nokkurn tíma útskýrt. Það mundi gera út um vísindi.

Ein athugsaemdin er svohljóðandi: Ef Guð hefur skapað alheiminn og Guð hefur alltaf verið til, þá hefði hann aldrei skapað alheminn skv. röksemdum pistlahöfundar um eilífan alheim.

Hér er sennilega átt við að óendanlegur og takmarkalaus Guð gæti aldrei komið sér að því að skapa alheiminn, í sama skilningi og óendanleg röð af dómínókubbum gæti aldrei náð að fella hvaða einstaka kubb í röðinni sem er.

Þessi mótbára er byggð á misskilningi. Í stærfræðilegum skilnigi er hugmyndin um raunverulegan óendanleika hugtak sem hefur með fjölda og magn að gera. Það hefur að gera með tiltekna og tilgreinda hluti í heild eða safni. En þegar talað er um Guð sem óendanlegan er sama hugtak notað í annarri merkingu og vísar þá til eiginleika, ekki til magns. Óendanleiki Guðs hefur því ekki neitt að gera með safn af óendanlega mörgum hlutum. Að Guð sé óendalegur þýðir einfaldlega að Guð er eilífur, almáttugur, alvitur, nauðsynlegur o.s.frv. Óendanleiki í tilfelli Guðs er nokkurs konar regnhlífarhugtak sem nær yfir eiginleika hans og vísar til þess að hann býr yfir eiginleikum sínum í takmarkalausum mæli. Ef allir þessir eiginleikar væru settir til hliðar þá stendur ekki eftir einhver einn stakur eiginleiki sem kallast „óendanleiki“.

Guð er því ekki dæmi um að raunverulegur óendanleiki sé í raun og veru til. Það er því ekki hægt að vísa til Guðs til að sýna fram á að óendanleg röð orsaka/atburða sé möguleg. Að segja að Guð sé ekki óendanlegur í megindlegum skilningi felur því alls ekki í sér að Guð sé takmarkaður. Megindlegur óendanleiki á einfaldlega ekki við um Guð.

Að síðustu er spurt hvað þessi Guð sem skapaði alheiminn (ef við gefum okkur það) eigi skylt með Guði kristinnar trúar. Hvað með guði annarra trúarbragða?

Heimsfræðirökin eru ekki rök fyrir tilvist Guðs kristinnar trúar heldur fyrir tilvist Guðs í almennari skilningi.

Samkvæmt heimsfræðirökunum á alheimurinn sér orsök. Sú osök getur ekki sjálf átt sér orsök og hlýtur því að vera eilíf. Hún stendur utan og ofan við tíma og rúm því hún skapaði tíma og rúm. Þar af leiðandi hlýtur hún að vera óefnisleg og óbreytanleg. Ennfremur hlýtur hún að vera ótrúlega máttug þar sem hún skapaði allt efni og orku. Og í ljósi þess að þessi eilífa orsök getur orsakað atburð sem á sér upphaf hlýtur orsökin að vera persónuleg og búa yfir vilja.

Þessi röksemdarfærsla gefur okkur því góða ástæðu til að ætla að til sé vera sem er án upphafs, eilíf, handan tíma og rúms, óbreytanleg, óefnisleg og ótrúlega máttug og persónulegur skapari alheimsins.

Þessi lýsing á sannarlega við Guð kristinnar trúar. En hún samræmist einnig guðskilningi múslima og gyðinga. Hvernig fylla má betur í þessa mynd er hins vegar önnur spurning. Þó má færa rök fyrir því að heimsfræðirökin mæli gegn guðsskilningi fjölgyðistrúarbragða, og einnig austrænna trúarbragða sem líta á Guð sem ópersónulegan mátt sem fátt sé hægt að segja um og ekki verður greindur frá alheiminum sjálfum (t.d. búddisma og hindúsima).

Flokkar: Heimsfræðirök · Tilvist Guðs

Mánudagur 21.11.2016 - 07:44 - FB ummæli ()

Er Guð til?

Til eru margskonar og ólík rök fyrir tilvist Guðs.

Heimsfræðirök eru tiltekin rök þar sem tilvist Guðs er leidd af þeirri einföldu staðreynd að alheimurinn er til.

Heimsfræðirökin má útfæra á ólíkan hátt, meðal annars á grundvelli þess að alheimurinn varð til, þ.e. að hann er ekki eilífur.

Ef alheimurinn er ekki eilífur þá hefur hann ekki alltaf verið til. Og að því gefnu útskýrir hann ekki eigin tilvist. Orsök alheimsins er því ekki að finna innan alheimsins sjálfs. Því hlýtur eitthvað að vera til sem ekki á tilvist sína undir neinu öðru, en er jafnframt orsök alls annars.

Ef fallist er á að ekkert verður til af engu, þ.e.a.s. að allt sem verður til eigi sér orsök, og að alheimurinn sjálfur hafi orðið til, þá er sú ályktun að alheimurinn eigi sér orsök röklega óhjákvæmileg.

Til að komast hjá þeirri niðurstöðu þarf að hafna annarri hvorri forsendunni eða báðum.

Sumir gera það. Aðrir fallast á niðurstöðuna, en lyfta öxlum og spyrja: Hvað hefur þetta með Guð að gera?

Áður en þeirri spurningu er svarað er rétt að staldra aðeins við sjálfa röksemdafærsluna.

Grundvallarforsenda hennar er sú staðhæfing að alheimurinn sé takmarkaður í tíma og eigi sér því upphaf. Sú staðhæfing nýtur bæði heimspekilegs og vísindalegs stuðnings. Látum vísindin liggja á milli hluta að sinni og ímyndum okkur að við séum að lesa bók.

Bókin er rúmar þrjúhundruð blaðsíður að lengd. Við erum stödd á síðu þrjátíu og fimm.

Til að komast á síðu þrjátíu og fimm þurftum við að lesa síðu þrjátíu og fjögur. Til að komast á síðu þrjátíu og fjögur þurftum við að lesa síðu þrjátíu og þrjú, og svo framvegis allt frá upphafssíðunni.

Í ljósi þess að bókin hefur að geyma upphafssíðu, og ennfremur í ljósi þess að við erum bara komin á síðu þrjátíu og fimm, þá er ljóst að við höfum einungis lesið takmarkaðan fjölda blaðsíðna.

En þá blasir við áhugaverð spurning!

Hvaða áhrif hefði það á lesturinn ef takmarkalausum fjölda blaðsíðna, þ.e. óendanlega mörgum blaðsíðum, væri bætt framan við bókina? Ef bókin væri óendalega löng, hvenær kæmust við á síðu þrjátíu og fimm? Eða síðu tuttugu og fimm ef því er að skipta?

Aldrei!

Það er sama hversu lengi eða hratt við læsum. Við kæmumst aldrei svo langt. Við mundum aldrei ná að ljúka við að lesa hinn óendalega fjölda blaðsíðna þar á undan. Sama hversu margar síður við læsum ættum við alltaf fleiri eftir ólesnar.

Það sama gildir um röð þeirra atburða sem saga alheimsins saman stendur af. Við getum valið hvaða atburð sem er. Ef óendanlegur fjöldi atburða fór á undan honum (eins og raunin væri í eilífum alheimi) þá hefði hann aldrei átt sér stað.

Hann hefði aldrei getað átt sér stað!

Dagurinn í dag hefði aldrei komið ef óendanlega margir dagar urðu að líða á undan honum. Þetta segir okkur að alheimurinn á sér upphaf. Að hann kom til sögunnar á tilteknu augnabliki.

Með öðrum orðum: Þegar við rekjum okkur eftir orsakakeðjunni aftur í tíma komum við að upphaflegu orsökinni, frumorsökinni.

Og þá komum við aftur að spurningunni: Hvað hefur þetta með Guð að gera?

Hér er ekki beinlínis um að ræða rök fyrir tilvist Guðs. En myndin tekur að skýrast þegar við leiðum hugann að því hvaða eiginleikum þessi orsök alheimsins hlýtur að búa yfir.

Að þessi orsök sé frum-orsök þýðir að hún á sér ekki sjálf neina orsök. Það sem er fyrst er fyrst! Hún er ekki afleiðing einhvers annars. Hún hefur því alltaf verið til og er þar með eilíf.

Að þessi orsök sé frum-orsök vísar til sambands hennar við allt annað. Hún er orsök alls annars. Allt annað en hún er afleiðing hennar. Án hennar væri ekkert annað til. Tilvist alls annars grundvallast því á þessari orsök.

Sá orsakavaldur sem hér er lýst á margt sameiginlegt með Guði kristinnar trúar:

Í báðum tilfellum er um að ræða skapara alheimsins. Orsakavaldurinn að öllu leyti handan alheimsins. Um er að ræða tímalausa veru sem ekki þiggur tilvist sína annars staðar frá, og er jafnframt ástæða þess að alheimurinn er til.

Þar sem tilvist alheimsins er alls ekki nauðsynleg má ætla að það hafi verið ásetningur á bak við sköpun hans. Í því ljósi hlýtur að vera um persónulega og vitræna veru að ræða.

Þá er þessi orsakavaldur ólýsanlega máttugur þar sem hann skapaði efnislegan alheim úr engu.

Alheimurinn væri alls ekki til ef hann hefði ekki verið skapaður af þessum orsakavaldi. Það er því ekki fráleitt að ætla að mögulega geymi alheimurinn vísbendingar um eðli og tilgang þessa skapara.

Á grundvelli þessarar röksemdafærslu má draga þá ályktun að til sé persónuleg og tímalaus vera, nægilega máttug og vitræn til að skapa alheiminn.

Ennfremur má gera ráð fyrir því að þessi vera hafi skapað alheiminn af ástæðu.

Hvað sem við viljum kalla þennan orsakavald er ljóst að Guð er ekki ýkja óviðeigandi orð.

Flokkar: Heimsfræðirök · Heimspeki · Tilvist Guðs

Laugardagur 19.11.2016 - 07:46 - FB ummæli ()

Svör við tveimur athugasemdum

Guðmundur nokkur Guðmundsson, sem kennir sig við Háskóla Íslands, skrifaði tvær athugasemdir á visi.is við pistil minn „Tvær ólíkar myndir“ sem birtist í fréttablaðinu í gær. Þær eru þess eðlis að rétt er að bregðast við þeim.

Fyrri athugasemd Guðmundar hljóðar svo:

„Eins og allir prestar er sr. Gunnar óheiðarlegur þegar kemur að því að verja eigin hindurvitni og hjátrú með því að benda á hve ógurlega vondir trúleysingjarnir eru. Til að berja á þeim notar klerkur tilvitnun í Dawkins til að styðja mál sitt. Hann vitnar ekki til heimildar né sér hann ástæðu til að halda í samhengi textans, sem hann vitnar til, heldur slítur úr samhengi til að þjóna pervertískri ást sinni á guðdóminum. Öll tilvitnunin fer hér á eftir og þeir sem eru sæmilega læsir og ekki vangefnir af guðstrú skilja hvað Dawkins er að fara.

The total amount of suffering per year in the natural world is beyond all decent contemplation. During the minute that it takes me to compose this sentence, thousands of animals are being eaten alive, many others are running for their lives, whimpering with fear, others are slowly being devoured from within by rasping parasites, thousands of all kinds are dying of starvation, thirst, and disease. It must be so. If there ever is a time of plenty, this very fact will automatically lead to an increase in the population until the natural state of starvation and misery is restored. In a universe of electrons and selfish genes, blind physical forces and genetic replication, some people are going to get hurt, other people are going to get lucky, and you won’t find any rhyme or reason in it, nor any justice. The universe that we observe has precisely the properties we should expect if there is, at bottom, no design, no purpose, no evil, no good, nothing but pitiless indifference. [Richard Dawkins, River Out of Eden: A Darwinian View of Life]“

Við þessu er fyrst það að segja að það er enginn óheiðarleiki á ferð af minni hálfu, því með engum hætti er ég að „benda á hve ógurlega vondir trúleysingjarnir eru“ eða „berja á þeim“. Slíkt væri sannarlega óheiðarlegt, ómálefnalegt og órökrétt. En eins og lesa má vík ég ekki einu orði að guðleysingjum sem slíkum. Að lesa annað eins inn í orð mín, eins og Guðmundur gerir, er einfaldlega fráleitt og fullkomin rökleysa. Hér reynir hann að hrekja mál mitt eða gera lítið úr því með því að gera mér upp annarlegar hvatir og skoðanir. Slík rökfærsla fengi falleinkun í öllum byrjendaáföngum í rökfræði.

Enda þótt umrædd tilvísun í Dawkins er þekkt öllum sem eru sæmilega kunnungir málflutningi hans, og þótt ekki var um að ræða fræðilegan texta hjá mér, er það vissulega rétt og gagnlegt að vísa til heimilda. En hverju sem því líður sleit ég ekki orð Dawkins úr samhengi, og hvorki dró úr þeim né jók við þau.

Skoðun Dawkins í umræddri tilvísun er afskaplega skýr. Eins og Guðmundur segir, á miður málefnalegum nótum, þurfa „þeir sem eru sæmilega læsir og ekki vangefnir af guðstrú“ ekki að velkjast í vafa um hvað Dawkins á þar við.

Raunar orðar Dawkins lýsingu sína á guðlausri heimssýn á einkar glæsilegan hátt, þar sem kjarni málsins er að ef engin hönnun er á bak við heiminn – það er að segja ef Guð er ekki til – þá er eðli veruleikans með þeim hætti sem Dawkins lýsir.

Og ég er sammála því! – Ég geri ekki minna úr Dawkins eða öðrum guðleysingjum en það. Ég tek heilshugar undir með honum! Ef Guð er ekki til þá er veruleikinn eins og Dawkins lýsir honum. Um það eru líka allflestir guðleysingjar sammála, að minnsta kosti þeir sem draga rökréttar ályktanir af sinni guðlausu heimsmynd.

Nú var náttúruleg illska ekki umræðuefni pistils míns – þó það sé vissulega mikilvægt umræðuefni út af fyrir sig, ekki síst með hliðsjóna af spurningunni um tilvist Guðs. En sú staðreynd hefur lítið að segja hér að Dawkins dragi guðlausa ályktun sína af þeirri náttúrulegu illsku sem blasir við í heiminum. Því hvort sem guðleysi er rökstutt með tilvísun til hennar eða einhvers annars þá stendur engu að síður eftir sú heimsmynd sem Dawkins lýsir. Og það er samhengi málsins.

En ef Guð er til þá gjörbreytist vitanlega sú heimsmynd, og það var það sem ég vildi m.a. benda á.

Í annarri athugasemd sinni vitnar Guðmundur sjálfur til Dawkins – og það jafnvel án þess að geta heimildar sinnar!! Það gerir þó ekki mikið til enda um að ræða nokkuð þekkt ummæli sem lýsa viðhorfum Dawkins til trúar og trúarbragða:

„Eitt af því sem er athugavert við trúarbrögðin er að þau kenna að fólk skuli vera ánægt með svör, sem eru alls engin svör.“ [R. Dawkins]

Við þessu þyrfti margt að segja, meira en rúm er fyrir hér. Hér liggur að baki það viðhorf að trú og skynsemi geti ekki farið saman. Dawkins hefur margoft sagt annað eins, jafnt í ræðu sem riti. Hann hefur ítrekað látið í ljós að hann sé á móti trúarbrögðum meðal annars vegna þess að þau ali á fáfræði. Í bók sinni The God Delusion segir Dawkins meðal annars að „á meðal verulegra vondra afleiðinga trúarbragða er að þau kenna okkur að það sé ásættanlegt að skilja ekki heiminn“.

Ef þessi lýsing á eðli trúar og trúarbragða væri rétt þá væri gremja Dawkins skiljanleg.

En hún er ekki rétt!

Hér er einfaldlega um einhliða skilgreiningu að ræða sem er fyrst og fremst til þess gerð að fegra guðlausa heimssýn á kostnað þeirrar sem grundvallast á guðstrú, fyrst og fremst kristinnar guðstrúar.

Ef við einskorðum okkur við kristna trú – ég vil ekki svara fyrir önnur trúarbrögð -, þá er alveg ljóst í mínum huga að kristin trú kennir ekki neitt í þessa veru.

Trú – hvort sem hún beinist að Guði eða einhverju öðru – er í eðli sínu traust. Trú er fólgin í því að treysta því sem við höfum ástæðu til að ætla að sé satt og rétt. Trú er ekki fólgin í því að gleypa allt formálalaust. Það áréttar Páll postuli í bréfi sínu til safnaðarins í Þessalóniku með þessum hvatningarorðum: „Prófið allt, haldið því, sem gott er.“ (1Þess 5:21) Slíkt viðhorf tóku kristnir guðfræðingar og heimspekingar í arf, menn á borð Ágústínus, Anselm og Tómas Akvínas. Þeir lögðu áherslu á trú í leit að skilningi, skynsamlega trú. Og það var á þeim grunni sem kristin fræðslu- og lærdómssetur spruttu snemma á miðöldum, sem nútíma háskólar og þekkingarsetur eiga rætur sínar að rekja til. Og það viðhorf sem Páll postuli talar fyrir í áðurnefndu béfi sínu skilaði sér síðar inn í vísindalega hugsun. Í því samhengi hafa margir bent á þýðingu kristinnar heimsmyndar í þróunarsögu vísinda og vísindalegrar hugsunar, og á þá staðreynd að vísindi komu einmitt til sögunnar í Evrópu 16. aldar sem um langan tíma hafði mótast af hinni kristnu heimssýn. Þetta orðaði C.S. Lewis þannig að menn urðu vísindalegir í hugsun vegna þess að þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum; og þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum vegna þess að þeir trúðu á þann sem setti náttúrunni lögmál sín.

Það er í öllu falli ljóst að kristin trú – hin pervertíska ást á guðdóminum, svo gripið sé til orða Guðmundar – þvældist ekki fyrir hinum kristna Newton þegar hann lagði fram kenningar sínar um þyngdarlögmálið. Það sama má segja um marga aðra kristna vísindamenn á borð við Boyle, Kepler, Pascal, Mendel og Maxwell. Þá var kristin trú hinum belgíska presti, stjörnufræðingi og prófessor í eðlisfræði Georges Lemaître, enginn fjötur um fót þegar hann lagði fram Miklahvellskenninguna á grundvelli afstæðiskenningar Albert Einsteins; eða hinum kristna Francis Collins, sem fór fyrir kortlagningu erfamengis mannsins undir lok 20. aldarinnar – svo fátt eitt sé nefnt.

Flokkar: Guðleysi · Guðstrú · Heimssýn · Vísindi

Föstudagur 18.11.2016 - 19:08 - FB ummæli ()

Tvær ólíkar myndir

Richard Dawkins er einn af herskáustu og jafnframt áhrifamestu guðleysingjum samtímans. Tíu ár eru liðin síðan hann, ásamt nokkrum öðrum skoðanabræðrum, steig fram og ýtti hinu svokallaða ný-guðleysi úr vör.

Að mati Dawkins er „hin vísindalega heimsmynd svo miklu meira spennandi, ljóðrænni og uppfull af undrum, en nokkuð af því sem hinir fátæklegu órar trúarinnar geta dregið fram.“

Í einni af bókum sínum lýsir Dawkins því sem hans guðlausa heimssýn hans felur í sér:

„Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér, og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“

Hér er lýst rökrænni niðurstöðu gefinna forsenda: Guðlaus veruleiki er blindur, miskunnarlaus, merkingarlaus, tilgangslaus, þegar öllu er á botninn hvolft.

Er það spennandi, ljóðræn og auðgandi sýn á lífið? Útskýrir hún, eða fellur hún að, upplifun þinni og reynslu af lífinu og sjálfum þér? Hefur tilvistin, lífið, enga merkingu, gildi eða tilgang þegar allt kemur til alls? Er það marklaust? Erum við ekkert annað en viljalaust efni á valdi blindra lögmála?

Ef Guð er ekki til er erfitt að mæla gegn þeirri ályktun.

Kristin trú felur í sér andstæða sýn og dregur upp allt aðra mynd af lífinu og tilverunni.

Lífið er ekki óútskýranleg tilviljun án merkingar, gildis og tilgangs. Það ert þú ekki heldur. Lífið, þar á meðal þú og ég, hugsanir okkar og orð, tilfinningar og gjörðir, er ekki afleiðingar af hugsunarlausu efni og blindum lögmálum náttúrunnar.

Nei!

Þvert á móti bendir alheimurinn á, og endurspeglar, þá hugsun, hugvit og vilja, sem teygir sig út fyrir það sem er tímanlegt, efnislegt og náttúrulegt, og allt á rót sína að rekja til. Eins og málverkið bendir á listamanninn ber tilvist alheimsins sjálfs höfundi sínum vitni, persónulegum Guði, sem allt hefur skapað og heldur öllu í hendi sér og stefnir að því marki sem hann hefur ákvarðað.

Það er Guð sem lætur sig sköpun sína varða og hefur sjálfur gerst hluti af henni, stigið á svið sögunnar; Guð sem segir við hvern og einn: Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. (Jes 43.1) Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld. (Matt 11.28) Ég er kominn til þess að þið hafið líf, líf í fyllstu gnægð. (Jóh 10.10)

Að vera kristinnar trúar útilokar ekki að horft sé á lífið í ljósi vísindalegrar þekkingar. En sú heimssýn sem grundvallast á kristinni guðstrú útilokar þá náttúruhyggju sem guðleysi felur í sér.

Hvor heimssýnin er skynsamlegri, hvor fellur betur að þekkingu okkar á og upplifun okkar af lífinu, er gríðarstór og þýðingarmikil spurning – spurning sem allir dvelja við með einum eða öðrum hætti í sínu lífi. Að nálgast þá spurningu af opnum huga gæti leitt af sér óvænt svör, og opnað mörgum dyr sem hingað til hafa verið lokaðar.

En burtséð frá því hvernig þeirri spurningu er svarað er ekki vafi í mínum huga hvor heimssýnin það er sem kallar fram undrun og auðgar, gleður og hressir andann og vekur með honum von.

Flokkar: Guðleysi · Guðstrú · Heimssýn

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur