Sunnudagur 11.3.2018 - 11:42 - FB ummæli ()

#metoo í Kauphöllinni

Nú er aðalfundarhrina í viðskiptalífinu þar sem hvert fyrirtækið á fætur öðru kynnir afkomu síðastliðins árs og velur sér stjórnendur til að stýra félögunum inn í framtíðina.

Peningum fylgja völd og Kjarninn hefur birt ítarlega greiningu á því hverjir stjórna peningum hér á landi og kemur í ljós að 91% af þeim sem stýra peningum eru karlar. Í skráðum félögum eru lífeyrissjóðirnir með yfirburðarstöðu og halda beint eða óbeint á um helmingi af skráðum hlutabréfum. Það er á allra vitorði að engar meiriháttar ákvarðanir eru teknar í óþökk lífeyrissjóðanna.

Þetta er rifjað upp og þeirri spurningu varpað fram hvort að stjórnendur lífeyrissjóðanna taki með öðrum hætti á konum en körlum sem stýra þeim félögum sem þeir eru með ráðandi hlut í.

Nýlega náði Katrín Olga Jóhannesdóttir ekki endurkjöri í stjórn Icelandair og rifjaði Morgunblaðið upp í þvi samhengi þá óánægju lífeyrissjóðanna þegar Katrín Olga seldi bréf sín í Icelandair haustið 2016 upp á rúmar 9 milljónir. Í kjölfarið var þó nokkuð skrifað um þessa sölu Katrínar Olgu og vakti það furðu margra að sala á þessum litla hlut í félaginu skyldi valda þessu fjaðrafoki. Var m.a. talað um dómgreindarleysi – að salan hafi hleypt illu blóði í fjárfesta og voru jafnvel ritaðar greinar um ábyrgð stjórnarmanna og innherja og tímapunktur sölunnar sagður einkar viðkvæmur.

Lífeyrissjóðum landsins er heimilt að hafa skoðun á því hvenær eða hvort þeir telji yfir höfuð heppilegt að stjórnendur í skráðum fyrirtækjum selji hluti sína. Hins vegar ættu viðbrögð þeirra við sölu stjórnenda að vera á sama veg í hvert skipti sem sala fer fram óháð því hver selur. Sú hefur hins vegar ekki verið raunin.

Á undanförnum misserum hafa margir stjórnendur í félögum þar sem lífeyrissjóðirnir eiga ráðandi hlut selt hlutabréf án þess að þær sölur hafi vakið einhverja sérstaka óánægju. Þessar sölu hafa varla ratað í blöðin og ef þær hafa gert það hefur það verið án allra fúkyrða.

Dæmi um sölur stjórnenda eru:

2015: Stjórnarformaður Nýherja selur hlutabréf fyrir 130 milljónir
2016: Stjórnarmaður í Marel selur fyrir 124 milljónir
2016: Helstu stjórnendur Haga selja fyrir hundruð millljóna
2017: Helstu stjórnendur og stjórnarmenn N1 selja fyrir hundruð milljóna
2017: Stjórnarformaður TM selur fyrir 172 milljónir

Þegar viðbrögð við sölu Katrínar Olgu eru höfð til hliðsjónar við þessum milljóna viðskiptum vekur furðu að lífeyrissjóðirnir hafi þagað þunnu hljóði þegar allar þessar sölu gengu í gegn. Eða vekur það eingöngu reiði þegar kona selur fyrir 9 milljónir sem er örhlutur í samanburði við upphæð strákanna?

Allavega sáu lífeyrissjóðirnir ekki ástæðu til að tryggja Katrínu Olgu áframhaldandi setu í stjórn Icelandair og verður áhugavert að fylgjast með hvort að sala strákanna muni hafa áhrif á stöðu þeirra enda hljótum við sjóðsfélagar að gera þá kröfu að lífeyrissjóðirnir séu samkvæmir sjálfum sér í sínum störfum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.10.2017 - 11:12 - FB ummæli ()

JAFNAÐARMENN OG FÓTBOLTI

Því hefur oft verið haldið fram að meirihluti Íslendinga séu í raun hófsamir jafnaðarmenn – stundum kallaðir hægri kratar sem vilja öfluga velferð en skilja að grundvöllur velferðar er öflugt atvinnulíf.

Áhrif stjórnmálaflokka sem kenna sig við jafnaðarmennsku hafa þó í engu verið í réttu hlutfalli við lífskoðun svo margra Íslendinga og því stöndum við frammi fyrir því í dag að 5% Íslendinga eiga jafnmikið og hin 95% Við lifum því ekki í heimi jafnaðar heldur í heimi þar sem hinir ríku verða sífellt ríkari. Þetta er megin ástæða þess að svo margir upplifa reiði – við sjáum og finnum á eigin skinni að byrðunum er ekki réttlátlega skipt.

En jafnaðarmenn verða líka að horfa í eigin barm. Allt of oft höfum við horft til þess sem sundrar okkur frekar en sameinar og talið líklegra til árangurs að bjóða fram svipaða framtíðarsýn í mörgum stjórnmálaflokkum. Afleiðingin af þessu ósamlyndi er að atkvæði þúsunda jafnaðarmanna munu falla dauð niður ef mark er takandi á skoðanakönnunum.

En óháð því hvað kemur upp úr kjörkössunum er eitt stærsta verkefni forystusveitar jafnaðarmanna að sameina okkur í einn öflugan flokk. Verkefnin eru einfaldlega of stór til að snúa ekki bökum saman.

Íslenska karlalandsliðið i knattspyrnu hefur sýnt að liðsheildin skiptir öllu máli – ef árangur á að nást þýðir ekkert að spila út og suður! Ísland væri ekki leið á HM á næsta ári ef menn hefðu ekki spilað á eitt og sama markið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.8.2017 - 16:00 - FB ummæli ()

Breytum reglugerðum fyrir húsnæðislausa

Vegna tilfærslu deildar innanhúss stóðum við hjá Pfaff uppi með ónýttan 70 fm. eignarhluta að Grensásvegi 13, Reykjavík í ársbyrjun 2015.   Við ákváðum að leigja eignarhlutann en fljótlega kom í ljós að lítil eftirspurn var eftir húsnæðinu enda mikið framboð af skrifstofuhúsnæði á þessum tíma.   Stóð húsnæðið því lítið nýtt næstu misserin.

Þegar umræðan um gríðarlegan húsnæðisskort komst í hámæli ákváðum við að dusta rykið af gamalli hugmynd að breyta þessum 70 fm. eignarhluta í studíóíbúð – enda nóg af ungu fólki í kringum okkur sem hefði þörf fyrir húsnæði af þessu tagi.  Hugmyndin að íbúðinni hafði á sínum tíma verið sett í salt enda stóð þá til að gera breytingar á byggingareglugerðum, sem áttu m.a. að leiða til einföldunar og lækkunar byggingarkostnaðar.   Hvað þessa íbúð varðaði snerist málið um að gerðar voru kröfur um að íbúðinni fylgdu svalir, sem hefði falið í sér mikinn aukakostnað en jafnframt útlitsbreytingar á húsinu til hins verra.  Á þeim tíma var texti í drögum að nýrri byggingareglugerð sem hljóðaði á þann veg að möguleiki væri að sleppa svölum enda væru tvær flóttaleiðir tryggðar.

Í vor sendum við því aftur inn teikningar af íbúðinni en okkur til undrunar kom í ljós að umræddar tillögur um breytingar höfðu ekki náð fram að ganga og að íbúðin fengist ekki samþykkt nema að settar yrðu svalir á húsnæðið.   Í millitíðinni höfðum við hins vegar látið útbúa sérstaka flóttaleið út um glugga – enda töldum við það nægjanlegt öryggi fyrir verðandi íbúa.   Var hugmyndin að koma fyrir fellistiga sem mætti nota ef eldur brytist út.  En afstaða yfirvalda var skýr – íbúðin fengist ekki samþykkt nema að settar yrðu svalir á húsnæðið – engar aðrar flóttaleiðir yrðu teknar gildar.

Nú skal ekki gert lítið úr því að öryggi fólks sé sett á oddinn – en reglugerðum þarf líka að fylgja ákveðinn sveigjanleiki og skynsemi.  Þessi eignarhlutur er staðsettur á annarri hæð og eru einungis 6 mtr. frá glugga og niður á gangstétt.  Í húsinu vinna að meðaltali um 50 starfsmenn alla virka daga og alltaf hefur eldvarnareftirlitið talið nægjanlegt að flóttaleiðir út úr húsinu séu út um glugga.   Hins vegar eru gerðar aðrar kröfur til íbúðarhúsnæðis en atvinnuhúsnæðis þó að stundum megi setja spurningarmerki við það.   Ef kviknar í húsinu á virkum degi dugar að bjarga starfsfólki sem vinnur í húsinu út um flóttaleiðir á glugga – en gerð er skýlaus krafa að eina íbúanum í húsinu sé bjargað út um svalir.  Þrátt fyrir ítrekaða leit hef ég ekki fundið rökstuðning fyrir því að bjarga má starfsfólki hússins út um glugga en íbúi í sama húsi verður að komast út á svalir.

Þessi stífni verður enn hjákátlegri þegar haft er í huga að í landinu eru þúsundir sumarhúsa með svefnlofti þar sem talið er nægjanlegt að vera með flóttaglugga en ekki svalir.   Enn furðulegra er þetta misræmi þegar haft er í huga að langflest sumarhús eru úr timbri og því mikill eldsmatur – en húsnæðið að Grensásvegi er steinsteypt. Sjálf gistum við fjölskyldan oft í sumarhúsi þar sem flóttaleið af svefnlofti út um glugga eru 4 mtr.

Þar sem ég þekki staðhætti hússins að Grensásvegi mjög vel er ég þess fullviss að hægt er að tryggja öryggi íbúanna með flóttaleið um glugga.  Svo viss að ég myndi óhrædd láta börnin mín sofa þar.  Í þeirri neyð sem ríkir á húsnæðismarkaðinum verður að leita allra leiða til að fjölga húsnæði og gríðarleg tækifæri eru í því að breyta eldra atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.    Kostnaður við slíkar breytingar þarf hins vegar að vera innan skynsemismarka og að gera fortakslausa kröfur um að húsnæði á annarri hæð séu með svölum – þar sem auðveldlega má leysa öryggiskröfur með öðrum hætti – er einfaldlega óskynsamleg og vond stjórnsýsla.

Hið opinbera á að gera allt sem í þess valdi stendur til að auka möguleikann á því að breyta illa nýttu atvinnuhúsnæði í íbúðir til að vinda ofan að þeirri miklu vöntun sem blasir alls staðar við. Sá óveigjanleiki sem viðgengst gerir hins vegar ekkert nema að ýta undir að ósamþykktar íbúðir spretti upp sem eru hvergi á skrá, ekki einu sinni hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.  

Nú í sumarbyrjun kynntu húsnæðismálaráðherra og borgarstjóri nýjan sáttmála um húsnæðismál þar sem einn liðurinn er m.a. „einföldun á regluverki byggingarmála“.    Niðurstaða í þeirri vinnu þarf að liggja fyrir sem allra fyrst enda er ekki hægt að sætta sig við ósveigjanleika sem endar á eftirfarandi orðum:

„Einnig vantar svalir, fellistigar teljast ekki fullgild flóttaleið samkvæmt byggingarreglugerð frá 2012.  Þýðir ekki að hundsa þessar athugasemdir, þetta verður ekki samþykkt svona“.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.4.2017 - 10:46 - FB ummæli ()

Munurinn á 2007 og 2017

Unga parið sem var á krossgötum í síðasta pistli mínum ákvað að reyna að kaupa sambærilega íbúð og þau nú leigja, sem kom skyndilega í sölu í hverfinu þeirra. Uppsett verð var 31,9 milljón – ekki var hægt að bóka skoðun en haldið var opið hús sem níu aðilar sóttu.   Unga parið var ekki í vafa um að slegist yrði um íbúðina þ.a. þau  mættu á opna húsið vel undirbúin með kauptilboð í vasanum upp á 33 milljónir eða rúmri milljón hærra en uppsett verð.   En jafnvel þó að unga parið hefði boðið eins vel og þau gátu og verið svo til í hámarki í greiðslumati bankans var þeim tilkynnt um hádegið daginn eftir að íbúðin væri ekki þeirra – enda hefði hún verið seld öðrum á rúmar 34 milljónir króna.  

Þessi íbúðarkaup rifjuðu upp fyrir mér þegar gamalreyndur fasteignasali leit við í kaffi hjá mér um mitt ár 2007 og var þungt í honum hljóðið.   Hann hafði fyrr um daginn verið að ganga frá nokkrum kaupsamningum og sagði brúnaþungur:  „Ég veit ekki hvað við erum að gera þessum krökkum – það má ekki einu sinni springa dekk hjá þessu unga fólki og þá hrynur spilaborgin.“    Það sem að fasteignasalinn átti við var að ungt fólk þá – eins og í dag – var nauðbeygt að reyna íbúðarkaup á uppsprengdu verði og var boginn spenntur það hátt að ekkert mátti út af bregða til að margra ára greiðsluáætlun færi ekki úr skorðum.  Gamli fasteignasalinn vissi að það var óskhyggjan ein að gera ekki ráð fyrir neinum óvæntum útgjöldum árum saman og einfaldlega ávísun á fjárhagslega erfiðleika fyrr en seinna.

Væntanlega höfum við þó eitthvað lært síðan 2007 – en kannski ekki nóg?   Allavega þurftum við hjón að láta pípara skipta um lekan krana í bílskúrnum okkar um daginn og þegar við spurðum hvort að ekki væri allt brjálað að gera játti piparinn því og sagði að þetta væri orðið alveg eins og  2007.   En klikkti síðan út með þeim orðum að munurinn væri þó einn því að 2007 hefðu allir verið brosandi – nú brosti hins vegar enginn.

Eftir töluverða umhugsun veit ég ekki enn hvernig réttast er að túlka þessi orð.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.3.2017 - 15:56 - FB ummæli ()

Golíat á fasteignamarkaði

Ungt par sem ég þekki vel hefur undanfarin ár leigt 2ja herbergja íbúð í hverfi 111 í Reykjavík og er svo heppið að borga ekki nema 170.000 krónur á mánuði.

Eigendur þessarar íbúðar vildu selja íbúðina fyrir rétt um ári síðan og var íbúðin þá metin af fasteignasala á 26 milljónir.   Eigendurnir hættu hins vegar við að selja eignina á þeim tíma enda á leið erlendis þ.a. áfram bauðst unga parinu að leigja íbúðina.   Síðan gerist það fyrir rúmum mánuði að aftur er haft samband við unga parið og þeim tjáð að núna eigi að selja íbúðina og að aftur muni fasteignasali koma til að meta eignina.   Nokkrum dögum síðar lá verðmatið fyrir.   Ásett verð er ekki lengur 26 milljónir eins og fyrir ári síðan heldur er íbúðin nú metin á 34 milljónir eða 8 milljónum hærra – eða hækkun sem nemur um 30% á milli ára.

Og hvað á unga parið að gera?   Reyna að kaupa þó að verðið sé allt of hátt – taka sjens á því að finna aðra leiguíbúð eða eiga á hættu að enda á götunni?   Úr vöndu er að ráða en dapurlegast er að þetta unga par er bara eitt af þúsundum ungmenna sem eru í neyð á húsnæðismarkaðinum og munu verða á næstu árum þvi talið er að það taki 3 til 4 ár að koma jafnvægi á markaðinn á ný.   Svo til hver einasti Íslendingur þekkir til fólks sem er fast í foreldrahúsum, hefur hrakist á milli leiguíbúða eða reynir með aðstoð skyldmenna að kaupa íbúðarhúsnæði sem það ræður engu að síður oft illa við að borga af.    Við getum kennt hruninu um – sofandahætti stjórnvalda, dugleysi verkalýðshreyfingarinnar eða AirBNB um stöðuna en það leysir ekki bráðavandann.   Það leysir ekki vanda unga parsins sem stendur á krossgötum og á fáa kosti í stöðunni.

Og þó að hægt sé að argast út í alla þessa aðila fyrir að leyfa málum að þróast með þessum hætti þá eru fleiri og fleiri sem beina sjónum sínum að leigufélögunum sem fitnað hafa eins og púkinn á fjósbitanum í núverandi árferði.   Leigufélögin hafa keppt við almenning um kaup á fasteignum og átt sinn þátt í hækkun bæði fasteigna- og leiguverðs.  Og það þarf ekki mikinn fjármálaspekúlant til að sjá að ungt fólk á ekki roð í leigufélögin þegar bæði sýna áhuga á sömu eigninni.  Í þeirri viðureign á Davíð ekki roð í Golíat.

En er nú komið að þeirri spurningu hvaða mann Golíat hafi raunverulega að geyma?  Er óskhyggja að leigufélögin dragi úr arðsemiskröfu sinni á meðan núverandi staða ríkir á fasteignamarkaðinum?   Að þau hætti við frekari kaup fasteigna í samkeppni við almenning?   Er óskhyggja að vona að samfélagsleg ábyrgð komi í stað gróðrarhyggju?  

Getur Golíat sett sig í spor unga parsins sem verður mögulega á götunni eftir örfáar vikur?  

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.12.2016 - 11:18 - FB ummæli ()

Frábær fjármálaráðherra

Við gerð rekstraráætlunar fyrir 2017 er ljóst að að fyrirtækið sem ég stjórna getur skilað margfalt betri afkomu en undanfarin ár.

Það dynja reyndar á mér kröfur um útgjöld úr flestum áttum en þegar í augsýn er myndarlegur rekstrarafgangur þarf að standa fast á sínu.

Það hafa reyndar myndast holur við innkeyrsluna og í malbikið á fyrirtækjalóðinni sem fyllast reglulega af vatni og klaka. Þetta er af einhverjum talin slysagildra en eru örugglega ýkjur enda lofuðum við aldrei bestu aðkomu í heimi. Við skellum sand í holurnar í vor og þjöppum vel – það dugar vel.

Eitthvað er um að gluggar leki og í kjölfar hafa myndast svartar skellur sem gárungarnir kalla myglu. En starfsfólkið er flest enn ungt og heilsuhraust enda lofuðum við aldrei besta húsnæði í heimi. Við kíttum í þetta í vor.

Starfsfólkið er síðan að nefna að ýmiss búnaður sé orðinn lélegur – tölvur, prentarar og skrifborð. En við sem stjórnum fyrirtækjum vitum líka að starfsfólk heimtar oft hluti sem engin þörf er á. Þarf alltaf að vera með allt það nýjasta og flottasta – getur gamall búnaður ekki alveg skilað sínu? Enda lofaði ég aldrei bestu starfsaðstöðu í heimi.

Og kostnaðarliðirnir hrannast upp sem hægt er að skera út – þarf t.d. að kaupa alla þessa happdrættismiða og styðja þessi líknarfélög – er samfélagsleg ábyrgð ekki ofmetin?
Og ég er rétt að byrja að fikra mig niður excelskjalið!

Fór í framhaldinu að velta því fyrir mér hvort ég yrði ekki frábær fjármálaráðherra?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.4.2016 - 12:41 - FB ummæli ()

Konur víkja en karlar mega?

Á vordögum árið 2010 ríkti umsátursástand fyrir utan heimili tveggja stjórnmálakvenna þeirra Þorgerðar Katrínar (vegna skulda maka) og Steinunnar Valdísar (vegna prófkjörsstyrkja). Dag eftir dag, viku eftir viku stóð fólk fyrir utan heimili þeirra og mótmælti.

Fáir komu þessum konum til varnar og komst fámennur hópur upp með að rjúfa heimilisfrið þeirra – þann griðarstað sem við teljum hvað helgastan. Í kjölfarið sagði Steinunn Valdís af sér þingmennsku og Þorgerður Katrín lét af starfi varaformanns Sjálfstæðisflokksins, tók sér hlé sem þingmaður og hætti síðar á þingi. Á sínum tíma þótti sæta furðu að Guðlaugur Þór sem hafði þó fengið mun hærri prófkjörsstyrki en Steinunn Valdís slapp að mestu við áreiti mótmælenda og situr enn á þingi. Í fyrra komust síðar tveir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn í hann krappan sem lauk á þann veg að Hanna Birna sagði af sér eftir lekamálið en Illugi situr enn þrátt fyrir að hafa í besta falli sýnt dómgreindarleysi í samskiptum við Orku Energy.

Þessi dæmi vekja upp þá spurningu hvort við sem samfélag göngum harðar fram gagnvart konum og þolum þeim síður mistök? Fullvíst má a.m.k. telja að brandararnir hefðu verið færri og fordómarnir þyngri ef Icehot1 hefði verið kvenkynsráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Stjórnmálakonur virðast bera ábyrgð á eiginmönnum sínum – þá eru hjónin eitt. En það hentar síðan vel að draga línu á milli hjóna þegar athafnir eiginkvenna stjórnmálamanna setja kusk á hvítflibbann. Þá eru hjónin tveir sjálfstæðir einstaklingar sem hvor ber ábyrgð á eigin gjörðum.

Er þetta ekki það sem kallað er tvöfalt siðferði?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.12.2015 - 11:25 - FB ummæli ()

Heilbrigðiskerfið-hækjur eða aðgerðir

Ég hitti vinkonu mína um daginn sem ég hafði ekki séð í nokkra mánuði og sá strax að hún var ekki eins og hún átti að sér að vera. Þegar við fórum að spjalla saman kom í ljós að hún hafði áhugaverða sögu að segja.

Árið 1996 hafði móðir hennar þurft að fara í mjaðmaaðgerð enda komið „bein í bein“ eins og sagt er. Ákvað bæklunarlæknir móður hennar að skera þyrfti hana strax og fór aðgerð fram um mánuð eftir að ljóst var hver staðan var.

Nú tæpum 20 árum seinna er þessi vinkona mín í sömu sporum. Eftir að hafa beðið mánuðum saman eftir viðtali við bæklunarlækni fékk hún loks tíma í byrjun desember og eftir myndatökur var ljóst að sama staða var uppi þ.e. „bein í bein“ og var henni sagt að hún fengi flýtimeðferð þar sem staðan væri þetta alvarleg. Með bjartsýnina að vopni spurði þessi vinkona mín hvort að nokkur von væri til að hægt væri að framkvæma aðgerðina fyrir jól en var svarað; að vonandi yrði hægt að gera aðgerðina innan árs – en venjulegur biðtími eftir mjaðmakúluskiptum væri 3 ár.

Frá einni kynslóð til annarrar hefur heilbrigðiskerfi okkar sem sagt farið úr því að sjúklingur í flýtimeðferð eftir mjaðmaaðgerð þurfi að bíða í 52 vikur í stað 4 vikna áður.

Þessi sjúklingur var því sendur heim með hækjur til að létta álaginu á mjaðmagrindinni með þau skilaboð frá kerfinu að vonandi fái hún aðgerð á árinu 2016 en þurfi ekki að bíða fram til 2017. Send heim með hækjur til að styðjast við í heilt ár – svo kvalin að þegar við kvöddumst sagðist hún vita það að hún héldi þetta ekki út í heilt ár.

Og þannig er raunveruleikinn á árinu 2015 þegar við vitum að til er nóg af peningum í landinu – það sjáum við allsstaðar. Það er til nóg af peningum – en við erum einfaldlega ekki að deila birgðunum jafnt og skipta því sem til skiptanna er þannig að um það ríki samfélagsleg sátt.

Enda leggjumst við vonandi aldrei svo lágt að sætta okkur við að hækjur komi í stað læknisaðgerða?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.2.2015 - 14:14 - FB ummæli ()

ESB = Ekki Sigmundur og Bjarni

• EKKI fækka framtíðarmöguleikum okkar með þvi að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka

• EKKI eyðileggja þau verðmæti sem felast í aðildarumsókn okkar – það er ekki gefið að við komumst í þá stöðu á ný

• EKKI draga úr möguleikum atvinnulífsins til að vaxa og dafna hér á landi og skapa störf fyrir velmenntað fólk

• EKKI gera neitt sem fækkar möguleikum okkar til að losna við verðtryggingu og háan vaxtakostnað heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs

• EKKI fækka tækifærum barnanna okkar til að afla sér menntunar erlendis eða draga úr atvinnumöguleikum okkar ef EES samningurinn heldur ekki í framtíðinni

• EKKI stofna til óþarfa ófriðar

• EKKI svíkja gefin loforð

• EKKI
• EKKI

Stjórnmálamenn sem taka þjóðarhagsmuni fram yfir sérhagsmuni fækka ekki framtíðarmöguleikum þjóðarinnar .
Látið aðildarumsóknina liggja áfram á ís – fyrir því er fullur skilningur. Næg eru verkefnin samt sem bíða ykkar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.12.2014 - 09:16 - FB ummæli ()

Til hamingju íslensk verslun – til hamingju neytendur

Þann 1. janúar n.k. mun eitt stærsta baráttumál íslenskra verslunar vera í höfn þegar vörugjöldin verða afnumin. Vörugjöldin eru mjög ógagnsæ skattheimta og fátt hefur skaðað samkeppnishæfni verslunarinnar eins og álagning þeirra.

Við afnám þeirra mun verðlag á mörgum vörum lækka um tugi prósenta og allur samanburður á verðlagi á milli landa verður mun auðveldari. Það mun veita versluninni aukið aðhald en ekki síður mun afnám vörugjaldanna setja íslenska verslun í sanngjarnari samanburð. Við sem vinnum í verslun höfum nefnilega oft lent í því að neytandi ber saman vöru sem seld er erlendis án vörugjalda við vöru hér heima með vörugjöldum og það segir sig sjálft að sá samanburður verður ekki hagstæður fyrir íslenska verslun.

Vörugjöldin hafa verið hluti af íslenska skattkerfinu síðan 1971 og alla tíð verið andstætt reglum um góða skattheimtu – enda flókin og ógagnsæ. Í rúma fjóra áratugi hefur verslunin barist gegn þessari hörmung og má segja að það hafi tekið tvær kynslóðir kaupmanna að tryggja sigur í þessu máli. Þó að óvenjumikið hafi verið rifist um fjárlagagerðina í ár – var einkar áhugavert að sjá að það virtist ríkja þverpólitísk sátt um afnám vörugjaldanna. Fyrir það ber að þakka og þetta mál sýnir að stjórnmálamennirnir okkar geta alllir sem einn tekið sömu skynsamlegu ákvörðunina.

Fyrir hönd íslenskra kaupmanna segi ég TAKK!


Fyrir áhugasama er hér tengill inn á skýrslu um ágalla vörugjalskerfisins sem Samtök verslunar og þjónustu gerðu árið 2012 í náinni samvinnu við fjármálaráðuneytið og tollstjóra.

http://www.svth.is/images/stories/vorugjaldsskyrsla_februar_2012.pdf

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur