Sunnudagur 26.03.2017 - 15:56 - FB ummæli ()

Golíat á fasteignamarkaði

Ungt par sem ég þekki vel hefur undanfarin ár leigt 2ja herbergja íbúð í hverfi 111 í Reykjavík og er svo heppið að borga ekki nema 170.000 krónur á mánuði.

Eigendur þessarar íbúðar vildu selja íbúðina fyrir rétt um ári síðan og var íbúðin þá metin af fasteignasala á 26 milljónir.   Eigendurnir hættu hins vegar við að selja eignina á þeim tíma enda á leið erlendis þ.a. áfram bauðst unga parinu að leigja íbúðina.   Síðan gerist það fyrir rúmum mánuði að aftur er haft samband við unga parið og þeim tjáð að núna eigi að selja íbúðina og að aftur muni fasteignasali koma til að meta eignina.   Nokkrum dögum síðar lá verðmatið fyrir.   Ásett verð er ekki lengur 26 milljónir eins og fyrir ári síðan heldur er íbúðin nú metin á 34 milljónir eða 8 milljónum hærra – eða hækkun sem nemur um 30% á milli ára.

Og hvað á unga parið að gera?   Reyna að kaupa þó að verðið sé allt of hátt – taka sjens á því að finna aðra leiguíbúð eða eiga á hættu að enda á götunni?   Úr vöndu er að ráða en dapurlegast er að þetta unga par er bara eitt af þúsundum ungmenna sem eru í neyð á húsnæðismarkaðinum og munu verða á næstu árum þvi talið er að það taki 3 til 4 ár að koma jafnvægi á markaðinn á ný.   Svo til hver einasti Íslendingur þekkir til fólks sem er fast í foreldrahúsum, hefur hrakist á milli leiguíbúða eða reynir með aðstoð skyldmenna að kaupa íbúðarhúsnæði sem það ræður engu að síður oft illa við að borga af.    Við getum kennt hruninu um – sofandahætti stjórnvalda, dugleysi verkalýðshreyfingarinnar eða AirBNB um stöðuna en það leysir ekki bráðavandann.   Það leysir ekki vanda unga parsins sem stendur á krossgötum og á fáa kosti í stöðunni.

Og þó að hægt sé að argast út í alla þessa aðila fyrir að leyfa málum að þróast með þessum hætti þá eru fleiri og fleiri sem beina sjónum sínum að leigufélögunum sem fitnað hafa eins og púkinn á fjósbitanum í núverandi árferði.   Leigufélögin hafa keppt við almenning um kaup á fasteignum og átt sinn þátt í hækkun bæði fasteigna- og leiguverðs.  Og það þarf ekki mikinn fjármálaspekúlant til að sjá að ungt fólk á ekki roð í leigufélögin þegar bæði sýna áhuga á sömu eigninni.  Í þeirri viðureign á Davíð ekki roð í Golíat.

En er nú komið að þeirri spurningu hvaða mann Golíat hafi raunverulega að geyma?  Er óskhyggja að leigufélögin dragi úr arðsemiskröfu sinni á meðan núverandi staða ríkir á fasteignamarkaðinum?   Að þau hætti við frekari kaup fasteigna í samkeppni við almenning?   Er óskhyggja að vona að samfélagsleg ábyrgð komi í stað gróðrarhyggju?  

Getur Golíat sett sig í spor unga parsins sem verður mögulega á götunni eftir örfáar vikur?  

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur