Þriðjudagur 14.05.2013 - 15:13 - FB ummæli ()

Er opnunartíminn of langur?

Verslunin hefur verið gagnrýnd fyrir of langan opnunartíma og hefur gagnrýnin ekki síst beinst að því að þessi langi opnunartími eigi þátt í háu vöruverði hér á landi.
En er opnunartíminn of langur?  Um þetta eru verslunarmenn einfaldlega ekki sammála og því er staðan eins og hún er.   Sumar verslanir eru opnar stutt og aðrar lengi – allt eftir því hvort að verslunin telji að aukin arðsemi fylgi auknum opnunartíma.
Hér áður fyrr var það undir sveitarstjórnum á hverjum stað komið hver opnunartími verslana mátti vera og því muna eldri Reykvíkingar t.d. eftir því að hafa þurft að keyra út á Seltjarnarnes til að kaupa mjólk eða aðrar nauðsynjavörur utan opnunartíma verslana í Reykjavík.   Opnunartíminn var síðan gefinn frjáls og hefur smám saman verið að þróast í átt til þess sem við þekkjum í dag.
Samkeppniseftirlitið leggur mikið upp úr því að hvert fyrirtæki fyrir sig ákveði sjálfstætt hvernig það ætlar að hegða sér á markaði.  Að mati Samkeppniseftirlitsins fellur samstarf eða samráð aðila í verslunarrekstri sem lýtur að því að samræma opnunartíma verslana undir bannákvæði 10. greinar samkeppnislaga og 12. greinar sé samstarfið stundað á vettvangi samtaka fyrirtækja.  Segir eftirlitið að opnunartími verslana sé einfaldlega hluti af þjónustu þeirra og einn af samkeppnishvötum verslananna.   Þetta má glöggt sjá í auglýsingum þar sem gjarnan er vakin athygli á opnunartíma – ekki síst ef hann er rýmri en opnunartími keppinautanna.
Markaðurinn verður því einfaldlega að reikna með að verslunareigendur reki fyrirtæki sín á eins hagkvæman hátt og frekast er kostur – og að markaðurinn sé að nýta öll tækifæri sem til staðar eru.  Ef ekki er markaðurinn einfaldlega opinn fyrir nýja aðila til að sækja inn á – um það höfum við Íslendingar mýmörg dæmi.
En það sem á að skipta neytandann mestu máli er að hafa val.   Ef allar verslanir væru opnar allan sólarhringinn og byðu hátt verð væri samkeppnin einfaldlega óvirk.   En þannig er markaðurinn ekki að hegða sér því sumar verslanir hafa stuttan opnunartíma og bjóða lágt verð á meðan aðrar verslanir sjá tækifæri í því að hafa opið allan sólarhringinn gegn hærra verðlagi.   Neytandinn getur því beint viðskiptum sínum þangað sem hann vill og ef enginn verslar á nóttunni mun verslunin bregðst við þvi vali neytandans með því að stytta opnunartímann.   Hingað til hefur hegðun neytandans hins vegar verið þannig að sumar verslanir sjá tækifæri í sólarhringsopnun.

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur