Þriðjudagur 04.06.2013 - 08:45 - FB ummæli ()

Skyrboð Guðna

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra en nú formaður Samtaka mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, hefur skrifað nokkrar greinar til þess að mótmæla málflutningi okkar í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu um nauðsyn þess að gera m.a. breytingar á landbúnaðarkerfinu. Okkur hefur ekki tekist að sannfæra Guðna og aðra hagsmunagæslumenn þess úrelta kerfis – en við áttum heldur ekki von á því. Almenningur hefur hins vegar tekið málflutningi okkar vel.

Í einni af svargreinum sínum sem birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn bauð Guðni okkur framkvæmdastjóra SVÞ að hitta sig og borða með sér skyr og hér að neðan er svar okkar við því ágæta boði:

Kæri Guðni

Kærar þakkir fyrir skyrboð þitt í Morgunblaðinu sem við þiggjum með þökkum enda fer ávallt vel á með okkur þegar við hittumst.

Það fer einnig vel á því að boðið verði haldið í höfuðstöðvum MS – sem er eitt fárra einokunarfyrirtækja sem eftir eru hér á landi. En þú tókst einmitt ákvörðun um það í ráðherratíð þinni að mjólkuriðnaðurinn skyldi vera undanþeginn leikreglum samkeppninnar.

Ekki síður á það vel við að boðið skuli upp á skyr þegar við hittumst enda flytjum við Íslendingar út mikið af skyri, sem er gott. Enda hefur alltaf verið í lagi hjá þeim sem vilja áframhaldandi einokun að landbúnaðarafurðir séu fluttir út – bara ekki að þær séu fluttar inn.

Allt er þetta því mjög viðeigandi og til vitnis um mikilvægi þess að umræðan haldi áfram.

Bestu kveðjur

Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur