Á vordögum árið 2010 ríkti umsátursástand fyrir utan heimili tveggja stjórnmálakvenna þeirra Þorgerðar Katrínar (vegna skulda maka) og Steinunnar Valdísar (vegna prófkjörsstyrkja). Dag eftir dag, viku eftir viku stóð fólk fyrir utan heimili þeirra og mótmælti.
Fáir komu þessum konum til varnar og komst fámennur hópur upp með að rjúfa heimilisfrið þeirra – þann griðarstað sem við teljum hvað helgastan. Í kjölfarið sagði Steinunn Valdís af sér þingmennsku og Þorgerður Katrín lét af starfi varaformanns Sjálfstæðisflokksins, tók sér hlé sem þingmaður og hætti síðar á þingi. Á sínum tíma þótti sæta furðu að Guðlaugur Þór sem hafði þó fengið mun hærri prófkjörsstyrki en Steinunn Valdís slapp að mestu við áreiti mótmælenda og situr enn á þingi. Í fyrra komust síðar tveir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn í hann krappan sem lauk á þann veg að Hanna Birna sagði af sér eftir lekamálið en Illugi situr enn þrátt fyrir að hafa í besta falli sýnt dómgreindarleysi í samskiptum við Orku Energy.
Þessi dæmi vekja upp þá spurningu hvort við sem samfélag göngum harðar fram gagnvart konum og þolum þeim síður mistök? Fullvíst má a.m.k. telja að brandararnir hefðu verið færri og fordómarnir þyngri ef Icehot1 hefði verið kvenkynsráðherra í ríkisstjórn Íslands.
Stjórnmálakonur virðast bera ábyrgð á eiginmönnum sínum – þá eru hjónin eitt. En það hentar síðan vel að draga línu á milli hjóna þegar athafnir eiginkvenna stjórnmálamanna setja kusk á hvítflibbann. Þá eru hjónin tveir sjálfstæðir einstaklingar sem hvor ber ábyrgð á eigin gjörðum.
Er þetta ekki það sem kallað er tvöfalt siðferði?