Laugardagur 10.12.2016 - 11:18 - FB ummæli ()

Frábær fjármálaráðherra

Við gerð rekstraráætlunar fyrir 2017 er ljóst að að fyrirtækið sem ég stjórna getur skilað margfalt betri afkomu en undanfarin ár.

Það dynja reyndar á mér kröfur um útgjöld úr flestum áttum en þegar í augsýn er myndarlegur rekstrarafgangur þarf að standa fast á sínu.

Það hafa reyndar myndast holur við innkeyrsluna og í malbikið á fyrirtækjalóðinni sem fyllast reglulega af vatni og klaka. Þetta er af einhverjum talin slysagildra en eru örugglega ýkjur enda lofuðum við aldrei bestu aðkomu í heimi. Við skellum sand í holurnar í vor og þjöppum vel – það dugar vel.

Eitthvað er um að gluggar leki og í kjölfar hafa myndast svartar skellur sem gárungarnir kalla myglu. En starfsfólkið er flest enn ungt og heilsuhraust enda lofuðum við aldrei besta húsnæði í heimi. Við kíttum í þetta í vor.

Starfsfólkið er síðan að nefna að ýmiss búnaður sé orðinn lélegur – tölvur, prentarar og skrifborð. En við sem stjórnum fyrirtækjum vitum líka að starfsfólk heimtar oft hluti sem engin þörf er á. Þarf alltaf að vera með allt það nýjasta og flottasta – getur gamall búnaður ekki alveg skilað sínu? Enda lofaði ég aldrei bestu starfsaðstöðu í heimi.

Og kostnaðarliðirnir hrannast upp sem hægt er að skera út – þarf t.d. að kaupa alla þessa happdrættismiða og styðja þessi líknarfélög – er samfélagsleg ábyrgð ekki ofmetin?
Og ég er rétt að byrja að fikra mig niður excelskjalið!

Fór í framhaldinu að velta því fyrir mér hvort ég yrði ekki frábær fjármálaráðherra?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur