Vegna tilfærslu deildar innanhúss stóðum við hjá Pfaff uppi með ónýttan 70 fm. eignarhluta að Grensásvegi 13, Reykjavík í ársbyrjun 2015. Við ákváðum að leigja eignarhlutann en fljótlega kom í ljós að lítil eftirspurn var eftir húsnæðinu enda mikið framboð af skrifstofuhúsnæði á þessum tíma. Stóð húsnæðið því lítið nýtt næstu misserin.
Þegar umræðan um gríðarlegan húsnæðisskort komst í hámæli ákváðum við að dusta rykið af gamalli hugmynd að breyta þessum 70 fm. eignarhluta í studíóíbúð – enda nóg af ungu fólki í kringum okkur sem hefði þörf fyrir húsnæði af þessu tagi. Hugmyndin að íbúðinni hafði á sínum tíma verið sett í salt enda stóð þá til að gera breytingar á byggingareglugerðum, sem áttu m.a. að leiða til einföldunar og lækkunar byggingarkostnaðar. Hvað þessa íbúð varðaði snerist málið um að gerðar voru kröfur um að íbúðinni fylgdu svalir, sem hefði falið í sér mikinn aukakostnað en jafnframt útlitsbreytingar á húsinu til hins verra. Á þeim tíma var texti í drögum að nýrri byggingareglugerð sem hljóðaði á þann veg að möguleiki væri að sleppa svölum enda væru tvær flóttaleiðir tryggðar.
Í vor sendum við því aftur inn teikningar af íbúðinni en okkur til undrunar kom í ljós að umræddar tillögur um breytingar höfðu ekki náð fram að ganga og að íbúðin fengist ekki samþykkt nema að settar yrðu svalir á húsnæðið. Í millitíðinni höfðum við hins vegar látið útbúa sérstaka flóttaleið út um glugga – enda töldum við það nægjanlegt öryggi fyrir verðandi íbúa. Var hugmyndin að koma fyrir fellistiga sem mætti nota ef eldur brytist út. En afstaða yfirvalda var skýr – íbúðin fengist ekki samþykkt nema að settar yrðu svalir á húsnæðið – engar aðrar flóttaleiðir yrðu teknar gildar.
Nú skal ekki gert lítið úr því að öryggi fólks sé sett á oddinn – en reglugerðum þarf líka að fylgja ákveðinn sveigjanleiki og skynsemi. Þessi eignarhlutur er staðsettur á annarri hæð og eru einungis 6 mtr. frá glugga og niður á gangstétt. Í húsinu vinna að meðaltali um 50 starfsmenn alla virka daga og alltaf hefur eldvarnareftirlitið talið nægjanlegt að flóttaleiðir út úr húsinu séu út um glugga. Hins vegar eru gerðar aðrar kröfur til íbúðarhúsnæðis en atvinnuhúsnæðis þó að stundum megi setja spurningarmerki við það. Ef kviknar í húsinu á virkum degi dugar að bjarga starfsfólki sem vinnur í húsinu út um flóttaleiðir á glugga – en gerð er skýlaus krafa að eina íbúanum í húsinu sé bjargað út um svalir. Þrátt fyrir ítrekaða leit hef ég ekki fundið rökstuðning fyrir því að bjarga má starfsfólki hússins út um glugga en íbúi í sama húsi verður að komast út á svalir.
Þessi stífni verður enn hjákátlegri þegar haft er í huga að í landinu eru þúsundir sumarhúsa með svefnlofti þar sem talið er nægjanlegt að vera með flóttaglugga en ekki svalir. Enn furðulegra er þetta misræmi þegar haft er í huga að langflest sumarhús eru úr timbri og því mikill eldsmatur – en húsnæðið að Grensásvegi er steinsteypt. Sjálf gistum við fjölskyldan oft í sumarhúsi þar sem flóttaleið af svefnlofti út um glugga eru 4 mtr.
Þar sem ég þekki staðhætti hússins að Grensásvegi mjög vel er ég þess fullviss að hægt er að tryggja öryggi íbúanna með flóttaleið um glugga. Svo viss að ég myndi óhrædd láta börnin mín sofa þar. Í þeirri neyð sem ríkir á húsnæðismarkaðinum verður að leita allra leiða til að fjölga húsnæði og gríðarleg tækifæri eru í því að breyta eldra atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Kostnaður við slíkar breytingar þarf hins vegar að vera innan skynsemismarka og að gera fortakslausa kröfur um að húsnæði á annarri hæð séu með svölum – þar sem auðveldlega má leysa öryggiskröfur með öðrum hætti – er einfaldlega óskynsamleg og vond stjórnsýsla.
Hið opinbera á að gera allt sem í þess valdi stendur til að auka möguleikann á því að breyta illa nýttu atvinnuhúsnæði í íbúðir til að vinda ofan að þeirri miklu vöntun sem blasir alls staðar við. Sá óveigjanleiki sem viðgengst gerir hins vegar ekkert nema að ýta undir að ósamþykktar íbúðir spretti upp sem eru hvergi á skrá, ekki einu sinni hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Nú í sumarbyrjun kynntu húsnæðismálaráðherra og borgarstjóri nýjan sáttmála um húsnæðismál þar sem einn liðurinn er m.a. „einföldun á regluverki byggingarmála“. Niðurstaða í þeirri vinnu þarf að liggja fyrir sem allra fyrst enda er ekki hægt að sætta sig við ósveigjanleika sem endar á eftirfarandi orðum:
„Einnig vantar svalir, fellistigar teljast ekki fullgild flóttaleið samkvæmt byggingarreglugerð frá 2012. Þýðir ekki að hundsa þessar athugasemdir, þetta verður ekki samþykkt svona“.