Eins og kannski við mátti búast féllu tillögur verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld ekki í kramið hjá formanni Bændasamtakanna, enda þar gert ráð fyrir að dregið verði úr þeirri gríðarlegu vernd sem landbúnaðurinn hefur notið áratugum saman. Þessi vernd hefur m.a. komið í veg fyrir að hægt hefur verið að flytja inn landbúnaðarvörur til hagsældar fyrir íslensk heimili.
Gagnrýni bændaforystunnar beinist ekki síst að því að fulltrúar bænda hafi ekki verið kallaðir að borðinu. En þá má á móti spyrja hvort að ekki hafi átt að kalla til fulltrúa neytenda og fulltrúa skattgreiðenda að borðinu því gallinn við núverandi landbúnaðarkerfi er að það er skattgreiðendum þessa lands ákaflega dýrt en á sama tíma þurfa íslenskir neytendur að greiða eitt hæsta verð fyrir landbúnaðarafurðir.
Verslunin sem árum saman hefur barist fyrir breytingum á landbúnaðarkerfinu á heldur ekki fulltrúa í samráðsvettvangnum – ekki nema óbeint í gegnum fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. Og verslunin gerir engar athugasemdir við það enda kemur sérstaklega fram að eitt helsta markmið samráðsvettvangsins sé að móta heildstætt óháð yfirlit yfir aðgerðir sem geta stuðlað að langtímahagvexti og efnahagslegum stöðugleika.
Og það er þetta óháða yfirlit sem sérstaklega er vert að benda á. Vandi okkar Íslendinga fólst nefnilega ekki síst í því að hér hafa sérhagsmunir alltaf verið kallaðir að borðinu – ráðið allt of miklu á kostnað heildarhagsmuna og því verður að breyta. Það verður með öllum ráðum að koma í veg fyrir að fámennir hópar komi í veg fyrir aukna hagsæld og aukin lífsgæði hér á landi með því að taka sérhagsmuni ávallt fram yfir heildarhagsmuni.
Framtíð íslensks landbúnaðar er björt – en framtíð bænda felst ekki í óbreyttu kerfi. Á meðan eina útspil bændaforystunnar er að verja óbreytt landbúnaðarkerfi á hún ekkert erindi að borðinu. Viðsýn bændaforysta sem skynjar að aukin hagsæld, aukinn kaupmáttur íslenskra heimila felst m.a. í breyttu landbúnaðarkerfi verður hins vegar án efa mikilvægur bandamaður þegar kemur að nánari útfærslum á vegum samráðsvettvangsins.