Laugardagur 28.11.2015 - 16:00 - FB ummæli ()

Hornsteinar ESB hrynja og þar með ESB sjálft

markRutteOrð forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, eru enn ein staðfesting þess að Evrópusambandið þolir ekki áföll. Fjármálakreppan sýnir að evrusamstarfið gengur ekki upp. Straumur flóttamana sýnir að Schengen-samstarfið virkar ekki. Þar með er búið að kippa tveimur af fjórum hornsteinum undan ESB-samstarfinu. Schengen og evran gætu tekið allt ESB með sér í fallinu.

Pólitísk græðgi sjálfskipaðra leiðtoga ESB er að verða þeim að falli. Þeim nægði ekki að stuðla að frelsi í viðskiptum með vöru og þjónustu á svæðinu. Um þau markmið var tiltölulega góð sátt miðað við annað. Trúarkenningar þeirra boðuðu að það þyrfti líka að tryggja frjálst flæði fjármagns innan svæðisins og þeir bjuggu til Seðlabanka Evrópu og evruna. Sá seðlabanki er einn sá ógegnsæjasti í veröldinni þar sem sérhagsmunir virðast fá betri aðgang en almannahagsmunir. Evran var góð fyrir þau lönd sem gátu náð efnahagslegu forskoti en hún varð martröð annarra ríkja.

Og nú verður fjórða frelsið, ferðafrelsið, skert af því að Schengen virðist hafa verið hrákasmíð. Það er hætta á að Evr­ópu­sam­bandið falli eins og Róm­ar­veldi til forna vegna flótta­manna­vand­ans í álf­unni, seg­ir for­sæt­is­ráðherra Hol­lands, Mark Rutte.

Arkitektar Evrópusambandsins voru drifnir áfram af kennisetningum án jarðsambands.

ESB-byggingin er eins og lítið hús sem er stækkað með stórrri viðbyggingu. Vandinn er bara sá að hornsteinar viðbyggingarinnar eru ótraustir. Þannig hafa tveir af fjórum hornsteinum ESB reynst vera fúasmíð sem ekki þolir álag. Þegar hornsteinarnir gefa sig er hætt við að þeir taki allt húsið með sér í fallinu.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 18.11.2015 - 12:33 - FB ummæli ()

Tólf ástæður til að hafna Evrópusambandsaðild

esbneitakkÞað eru margar ástæður til að hafna aðild Íslands að ESB. Með aðild að Evrópusambandinu myndu áhrif og völd færast í ríkari mæli til Brussel og grundvöllur velferðar íslensku þjóðarinnar yrði ótryggari. Hér að neðan eru nefndar tólf ástæður til að hafna Evrópusambandsaðild:

 

  1. Úrslitavald yfir auðlindum

Það er grundvallarregla hjá ESB að stofnanir þess hafa „úrslitavald um varðveislu lífríkis sjávarauðlinda í samræmi við sameiginlegu fiskveiðistefnuna“. Allt tal um að Íslendingar geti fengið varanlega undanþágu frá þessari meginreglu er ábyrgðarlaus áróður. Mörg aðildarríki hafa sótt það fast en ekkert þeirra fengið annað en tímabundna aðlögun. Lögsaga Íslendinga yfir auðlindum sjávar umhverfis landið er sjö sinnum stærri en landið sjálft. ESB fengi úrslitavald um hámarksafla sem leyfður yrði, veiðitegundir, veiðisvæði og veiðitíma. Reglum um „hlutfallslegan stöðugleika“ (hliðsjón af veiðireynslu) getur meirihluti ráðherraráðsins breytt þegar henta þykir. Rétti komandi kynslóða til fiskimiðanna yrði stefnt í mikla hættu.

 

  1. Atvinnuleysið er eitt helsta einkenni ESB

Stórfellt atvinnuleysi er eitt helsta einkenni á atvinnulífi ESB og fylgifiskur aðildar. Þar kemur aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi er vinnumarkaður í ESB þunglamalegur og hefur lítinn sveigjanleika. Í öðru lagi hefur mismunandi hagþróun innan evrusvæðisins gert það að verkum að jaðarríkin, svo sem Grikkland, Spánn, Ítalía, Portúgal, Írland og Finnland, hafa tapað í verðsamkeppninni gagnvart Þjóðverjum og nánustu nágrönnum þeirra. Þjóðverjar hafa unnið sigra í viðskiptasamkeppninni og safnað auði á meðan mörg önnur ríki hafa orðið undir og tapa atvinnutækifærum. Þess vegna hefur atvinnuleysið verið á bilinu 20-30 prósent í nokkrum löndum á suður-jaðri ESB og um 50% meðal ungs fólks.

 

  1. Óhagkvæmt myntsvæði fyrir Ísland

Óhagræðið af sameiginlegri vaxta- og peningastefnu á evrusvæðinu ýtir sem sagt enn frekar undir atvinnuleysi í jaðarríkjunum. Ýmislegt bendir til þess að ESB sé í raun ekki hagkvæmt myntsvæði, hvað þá að svæðið sé hagkvæmt myntsvæði með Íslandi. Ástæðan er m.a. sú að hagsveiflur eru gjörólíkar hér og á meginlandi Evrópu. Þess vegna hentar önnur peninga- og vaxtastefna. Án þeirrar aðlögunar sem fæst í gegnum gengi krónunnar er einnig víst að Íslendingar yrðu mun lengur að ganga í gegnum hagsveiflur.

 

  1. Samningsrétturinn glatast

Um þriðjungur af verðmæti sjávaraflans fæst úr svonefndum deilistofnum sem flakka úr einni lögsögu í aðra. Hingað til höfum við Íslendingar haft samningsrétt við önnur ríki, svo og ESB, um veiðar úr þessum stofnum. Við ESB-aðild myndum við framselja það vald til yfirstjórnar ESB. Nýjar tegundir bætast við lífríkið í lögsögu Íslendinga, t.d. með breytingu á hitastigi sjávar svo sem gildir um makríl. Ef við hefðum afhent ráðamönnum ESB samningsréttinn og hlýtt boðum þeirra og bönnum væri nær ekkert veitt hér af þessum tegundum, t.d. kolmunna sem skilað hefur tugmilljarða króna virði í þjóðarbúið á hverju ári.

 

  1. Þungt högg fyrir landbúnaðinn

Íslenskur landbúnaður veitir okkur öryggi í fæðuframleiðslu sem yfirleitt einkennist af miklum gæðum auk þess sem hann styrkir jöfnuð okkar í viðskiptum við aðrar þjóðir og heldur uppi atvinnu og byggð í landinu. ESB-aðild yrði þungt högg fyrir landbúnaðinn sem sviptur yrði tollvernd. Samdráttur í búvöruframleiðslu myndi valda auknu atvinnuleysi víðs vegar um land í sveitum og þéttbýli sem byggir afkomu sína á framleiðslu landbúnaðarafurða. Eftir hrun fjármálalífsins er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að spara gjaldeyri og draga úr atvinnuleysi í stað þess að auka innflutning á kostnað innlendrar framleiðslu og hækka heildargreiðslu til atvinnuleysisbóta.

 

  1. Ísland yrði sem eyðilegt sjávarþorp?

ESB-aðild útheimtir að opnað sé fyrir fjárfestingu erlendra fyrirtækja í sjávarútvegi. Íslensk útgerð er skuldum vafin og í erfiðu árferði gætu veiðiheimildir auðveldlega safnast á hendur erlendra auðfélaga og arðurinn (virðisaukinn) þannig flust úr landi. Ísland gæti því „breyst í kvótalaust sjávarþorp“, eins bent hefur verið á.

 

  1. Valdajafnvægið skekkist – ESB í hag

Með aðild að ESB færist vald yfir veigamiklum þáttum til Brussel. Dæmi: 1) yfirráðin yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu; 2) rétturinn til að gera fiskveiðisamninga við önnur ríki; 3) rétturinn til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki; 4) rétturinn til að afnema tolla eða leggja á tolla; 5) æðsta dómsvald til ESB-dómstólsins o.s.frv. ESB-aðild er þess eðlis að hún útheimtir breytingu á stjórnarskrá Íslands í grundvallaratriðum. Það væru mikil afglöp gagnvart komandi kynslóðum ef við afsöluðum réttindum þjóðarinnar í hendur öðru ríki eða ríkjasambandi. Ákvörðun um ESB-aðild má því ekki taka út frá skammtímasjónarmiðum, svo sem aðsteðjandi kreppu eða vandamálum tengdum gengi krónunnar, heldur verður að horfa áratugi fram í tímann og minnast þess að einmitt í krafti sjálfstæðisins bætti þjóðin lífskjör sín frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu og til að verða ein sú ríkasta.

 

  1. Nýtt stórríki

Seinustu sex áratugi hefur ESB þróast hratt og fengið öll helstu einkenni nýs stórríkis sem stjórnað er af forseta og ríkisstjórn, þingi og æðsta dómstól og hefur sameiginlega utanríkisstefnu og fiskveiðilögsögu, landamæraeftirlit til skamms tíma, stjórnarskrá, fána og þjóðsöng og stefnir að einum gjaldmiðli. Ekkert bendir til þess að þessi þróun sé á enda runnin þótt ákveðið hik hafi nú orðið á sumum þáttum. Meginmarkmiðið með framsali aðildarríkjanna á mikilvægustu þáttum fullveldis síns til miðstjórnarvaldsins í Brussel er að byggja upp nýtt risaveldi sem þjónar innri þörfum Sambandsins, þ.e. þeirra hagsmuna og viðmiða sem þar eru ríkjandi. Réttarstaða aðildarríkjanna verður hliðstæð fylkjunum í Bandaríkjum Ameríku sem hafa sjálfstjórn í vissum málaflokkum en búa við skert sjálfstæði og sterkt alríkisvald.

 

  1. Völd litlu ríkjanna fara minnkandi

Völd lítilla ríkja í ESB fara smám saman minnkandi en völd hinna stóru vaxandi. Stefnt er að meirihlutaákvörðunum í stórauknum mæli með hliðsjón af íbúafjölda aðildarríkjanna. Ísland fengi 3 atkvæði af 350 í ráðherraráðum, þar sem mikilvægustu ákvarðanir eru teknar, og 5 atkvæði af 750 á ESB-þinginu. Sjálfstæð rödd Íslands myndi að mestu þagna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Því fámennara og áhrifaminna sem aðildarríki eru þeim mun meiri er skerðing sjálfstæðisins og hvergi yrði sú skerðing jafn tilfinnanleg og hér, m.a. vegna þess hve sjávarútvegur vegur þungt í efnahagslífi okkar og orkuauðlindirnar eru miklar og vannýttar. Hætt er við að Ísland verði eins og hreppur á jaðri risaríkis þegar fram líða stundir.

 

  1. Samþjöppun valds í ESB og lýðræðishalli

Í ESB hefur mikið vald færst til embættismanna í Brussel og til ráðherra sem taka veigamestu ákvarðanir. Þingið hefur fyrst og fremst staðfestingar- og eftirlitsvald. Almennir þegnar í aðildarlöndunum hafa því lítil áhrif á þróun mála og afar dræm kosningaþátttaka til þings ESB sýnir hve framandi og fjarlægt Brussel-valdið er þeim. Lýðræðishallinn í ESB er ein og sér næg ástæða til að hafna ESB-aðild. Valddreifing er tímans kall en sívaxandi valdasamþjöppun í miðstýrðum stofnunum ESB sem að litlu leyti lúta eftirlitsvaldi kjósenda er tilræði við þróun lýðræðis í Evrópu. Á Íslandi geta kjósendur fellt ríkisstjórn sem þeim líkar ekki við en í ESB hefðu þeir engin áhrif á hverjir yrðu hinir nýju yfirboðarar landsmanna. Þá er evran, evrusamstarfið og Seðlabanki Evrópu ein skýrasta birtingarmynd lýðræðishallans. Stýrivextir og gengi miðast við meðaltalsþróun þar sem hagsmunir stóru ríkjanna eru í fyrirrúmi auk þess sem leynd hvílir yfirákvörðunum Seðlabanka Evrópu og fundargerðir ekki birtar líkt og annars staðar.

 

  1. Valdamiðstöðin er fjarlæg

Fjarlægð Íslands frá valdamiðstöðvum ESB og þekkingarleysi embættismanna þar á íslenskum aðstæðum minnir okkur á hve fráleitt er að Íslandi sé stjórnað úr 2000 km fjarlægð. Hætt er við að brýnar ákvarðanir sem varða okkur Íslendinga miklu velkist oft lengi í kerfinu í Brussel og það gæti orðið okkur til mikils skaða, t.d. í sjávarútvegsmálum og á öðrum sviðum auðlindanýtingar. Margar ESB-reglur henta Íslendingum alls ekki vegna smæðar íslensks samfélags og ólíkra aðstæðna í fámennu landi. Skemmst er að minnast ESB/EES-reglnanna um bankakerfið sem hafði það í för með sér að íslenskir bankar gátu þanist út á ESB-svæðinu. Samtímis var það krafa stjórnmálaaflanna í ESB-löndunum að íslenska ríkið, þ.e. skattgreiðendur á Íslandi, myndu bera ábyrgð á Icesave og bönkunum. Það var aðeins með hugrekki og þreki nokkurra íslenskra forystumanna og íslensks almennings að þeirri aðför að hagsmunum Íslendinga var hrundið. Við þurfum að geta sniðið okkur stakk eftir vexti og valið það sem okkur hæfir best.

 

  1. Hernaðarveldi í uppsiglingu

Í Lissabonsáttmálanum, sem verður ígildi stjórnarskrár ESB, eru heimildir fyrir Evrópusambandsher. ESB gerir ráð fyrir að í framtíðinni þurfi Sambandið að efla hernaðarmátt sinn og í 42. gr. í Sambandssáttmálanum (The Treaty on European Union, TEU) er áskilið að stofnaður verði her til að gæta hagsmuna ESB, bæði í Evrópu og annars staðar.  Minna má jafnframt á þá staðreynd að Hollande, forseta Frakklands, vísar nú í stofnsáttmála Evrópusambandsins, þar sem kveðið er á um að varnarsamstarf aðildarríkjanna hefjist sjálfkrafa verði eitt þeirra fyrir árás, og óskar á þeim grunni eftir aðstoð aðildarríkja ESB við hervarnir.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 24.10.2015 - 11:11 - FB ummæli ()

Jón og Jóhanna endurkjörin til forystu í Heimssýn

johannajonÁ aðalfundi Heimssýnar sem haldinn var á fimmtudagskvöldið var Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, endurkjörinn formaður Heimssýnar, en hann hefur gegnt því embætti í eitt ár. Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, var einnig endurkjörin varaformaður Heimssýnar, en hún hefur einnig gegnt því embætti í eitt ár.

Stjórn Heimssýnar var að öðru leyti að mestu óbreytt. Í ræðu formannsins á fundinum var undirstrikað mikilvægi þess að umsóknin um aðild að ESB yrði formlega og tryggilega dregin til baka. Stjórnin kemur fjótlega saman til fundar og kýs í önnur embætti, svo sem gjaldkera, ritara og í framkvæmdastjórn. Nánari upplýsingar um það og um kjörið verða birtar fljótlega.

Á aðalfundinum flutti Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi ráðherra, sendiherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, yfirgripsmikla ræðu um utanríkismál og íslensk stjórnmál. Nánar verður greint frá henni fljótlega.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Vefurinn

Miðvikudagur 16.9.2015 - 00:38 - FB ummæli ()

Árni Páll og fullveldið hjá Heimssýn í kvöld

ArniPallÁrni Páll Árnason,  formaður Samfylkingarinnar, er sérstakur gestur á opnum stjórnarfundi í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, í kvöld klukkan 20:00 á Hótel Sögu í Reykjavík.

Heimssýn mun í haust bjóða formönnum stjórnmálaflokkanna á Alþingi að koma á stjórnar- og félagsfundi samtakanna  og gera grein fyrir stefnu sinni og áherslum í Evrópusambandsmálum. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er fyrstur til að þiggja þetta boð.

Heimssýn er þverpólitísk hreyfing þeirra  sem  telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins. Stjórn hreyfingarinnar telur þó mikilvægt að þekkja sem best stefnur og áherslur einstakra stjórnmálaflokka  á Alþingi í Evrópusambandsmálum á hverjum tíma og ekki hvað síst hjá þeim flokki sem hefur verið fremstur meðal þeirra sem vilja nálgast Evrópusambandið. Heimssýn hefur áréttað að það sé hagsmunum Íslands fyrir bestu að umsóknin um aðild verði dregin tryggilega til baka og að það sé í samræmi við stefnu núverandi stjórnarflokka.

Undanfarið hefur verið deilt um stöðu  umsóknarinnar um aðild að ESB frá 2009.  Það eru ýmsar spurningar sem hafa vaknað í þessu samhengi:

  • Er umsóknin bara stopp á meðan núverandi ríkisstjórn situr?
  • Hvað þýða bréfaskipti utanríkisráðherra og Evrópusambandsins um stöðu umsóknarinnar?
  • Hefur umsóknin verið afdráttarlaust afturkölluð eins og gefin voru fyrirheit um?
  • Er umsóknin algjörlega dauð eins og sumir hafa haldið fram?
  • Mun ríkisstjórnin aðhafast eitthvað frekar og staðfesta með óyggjandi hætti andlát  hennar?
  • Getur næsta ríkisstjórn tekið upp umsóknina og haldið áfram þar sem frá var horfið, ef henni sýnist svo?

Samfylkingin sendi bréf til Brüssel  til þess að túlka stöðu umsóknarinnar af hennar hálfu og núverandi stjórnarandstaða á Alþingi sameinaðist í tillöguflutningi í  ESB -málinu sl. vetur.  Hvert verður framhaldið af þeirra hálfu á Alþingi í vetur?

Á fundum Heimssýnar með forystumönnum flokkanna í haust gefst tækifæri til þess að spyrja þá um þessi atriði og margt fleira.

Fyrstur til að koma á fund Heimssýnar er Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar, stærsta stjórnarandstöðuflokksins á þingi, en Samfylkingin hefur haft umsókn og aðild Íslands að ESB sem eitt af helstu stefnumálum sínum.

Fundurinn er opinn öllum félagsfólki og stuðningsfólki Heimssýnar. Mætum og hlýðum á það sem Árni Páll hefur fram að færa og tökum svo þátt í umræðum.

Stjórnin

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.7.2015 - 13:10 - FB ummæli ()

Sigur lýðræðisins í Grikklandi

jon_bjarnasonGríska þjóðin hafnaði einhliða úrslitakostum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þjóðaratkvæðagreiðslu. 62% sögðu nei við kröfum ESB.

Forystumenn ESB og AGS höfðu hótað grísku þjóðinni einangrun og að setja efnahag landsins í rúst ef þeir höfnuðu kröfum þeirra. Það var m.a. krafist mikils niðurskurðar elli- og örorkulífeyris, stórfelldrar hækkunar virðisaukaskatts á  nauðsynjavörum, m.a. á lyfjum, og umfangsmikils niðurskurðar í opinberri þjónustu og víðtækri einkavæðingu samfélagsstofnana og þjónustu sem nú er á vegum hins opinbera.

Hryðjuverkárás ESB og AGS gegn Grikkjum

Öllum sem vildu vita var ljóst að Grikkland gat ekki borgað þær kröfur sem sem ESB og AGS kröfðust. Þau neyðarlán sem Grikkland hefur fengið að undanförnu hafa runnið beint aftur til evrópskra banka í stað þess að byggja upp og styrkja innviði Grikklands og gera þeim kleyft að byggja sig upp að nýju.

Alexis Tsipras forsætisráðherra Grikklands kallaði kröfur og hótanir ESB-leiðtoga beina hryðjuverkaárás á Grikkland. Er okkur skemmst að minnast þess þegar Bretland með stuðningi AGS og ESB setti hryðjuverkalög á Ísland haustið 2008.

Ætlun þeirra var að knýja íslensku þjóðina til uppgjafar og hlýðni við ESB-valdið. Þökk veri neyðarlögunum og að við vorum utan ESB með eigin mynt að áform þeirra náðu ekki fram að ganga. Þá skipti vinátta grannþjóða eins og Færeyinga og Pólverja miklu máli. Ljóst er að vandi Grikklands er mikill.

Kúgunarstefna ESB og AGS hefur beðið skipbrot í þjóðaratkvæðagreiðslu Grikkja. Hvort það er næg lexía til að þetta ofurvald sjái að sér og bjóði Grikkjum viðráðanlega samninga kemur í ljós á næstu dögum.

Íslensk stjórnvöld styðji Grikki

Íslensk stjórnvöld eiga þegar í stað að mótmæla framkomu leiðtoga ESB-ríkjanna sem nú hóta Grikkjum. Ríkisstjórnin á að lýsa yfir stuðningi við grísku þjóðina og styðja sjálfstæðisbaráttu hennar með beinum hætti, pólitískt og efnahagslega. Þjóðaratkvæðagreiðsla Grikkja er einstök og mikilvæg hvatning til að nýta sér lýðræðið og fordæmi fyrir aðrar þjóðir.

Kjarkur Grikkja og þor og sjálfsvirðing mun hafa gríðarlega áhrif á vitund og sjálfstæðisbaráttu þjóðanna í Evrópu og slá til baka, tímabundið a.m.k., yfirgang og kúgun Brüsselvaldsins.

– Hvar værum við stödd, ef áform ESB-sinnanna hér á landi  um að troða Íslandi inn í ESB hefðu náð fram að ganga með aðildarumsókninni 2009?

Sem betur fór tókst með einörðum aðgerðum að stöðva þann feril í tíma.

Utanríkisráðherra Íslands á þegar í stað að krefjast staðfestingar á því frá Brüssel að umsókn Íslands hafi verið endursend eins og íslensk stjórnvöld hafa beðið um.

Þeir stjórnmálamenn sem enn flytja tillögur á Alþingi Íslendinga um að halda til streitu umsóknar- og aðlögunarferli Íslands að ESB ættu að sjá að sér og að biðja þjóðina afsökunar og afturkalla þann tillöguflutning.

Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, og fyrrverandi þingmaður og sjávarútvegsráðherra.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 4.6.2015 - 18:18 - FB ummæli ()

Norska þjóðin sagði Nei við ESB

FolketSaNeiÁ síðasta ári fögnuðu Norðmenn 20 ára afmæli sigursins í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994 þar sem aðild að ESB var hafnað í annað sinn. Í tilefni þess hefur einn af leiðtogum Nei til ESB-baráttunar, Dag Seierstad, skrifað bókina Folket sa Nei. Í bókinni er rakin barátta Norðmanna gegn ásælni ESB og svikulla valdablokka í Noregi til að troða landinu inn í sambandið. Sú barátta hófst formlega með mótmælagöngu kringum þinghúsið í Osló, Stortinget, í mars 1962. Tíu árum seinna, eða 1972, var fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan  þar sem aðildin  að ESB var felld og valdablokkirnar sem höfðu reiknað með sigri fengu algjört sjokk. Ekki var samt látið þar við sitja því að 1994 er aftur knúin fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Noregs að ESB. Nú skyldi það takast!

Nánast allir fjölmiðlar beittu sér fyrir aðild svo og forysta stærstu stjórnmálaflokkanna og aðrar valdastofnanir í samfélaginu. Þetta er nokkuð sem við þekkjum hér. Í bókinni rekur Dag Seierstad baráttuna og hvernig grasrótin var skipulögð um allt land og lýsir gleðinni á kosninganóttina þegar sigur vannst.

Enn er það svo að meirihluti norskra þingmanna er áfram talinn fylgjandi inngöngu í Evrópusambandið en almenningur er á móti aðild. Það sem er sérstakt í Noregi er að þar eru vinstrimenn og miðjumenn andvígir en verkamannflokkurinn og hægri menn mjög fylgjandi aðild.

Norski utanríkisráðherrann Börge Brende er hægrimaður (H) og mikill ESB-aðildarsinni. Í nýlegu viðtali hvetur Börge Breta til að vera áfram í ESB og gera ekki sama feil og Norðmenn að standa utan ESB.  Þetta segir ráðherrann norski þrátt fyrir þá staðreynd að nær 80% af Norðmönnum eru nú andvígir inngöngu í ESB og hefur verið svo síðastliðin 10 ár.

Vonandi gætir íslenski utanríkisráðherrann sig á of nánu sambandi við þennan norska ESB-sinnaða utanríkisráðherra (sjá hér umfjöllun um hann: Børge Brende advarer Storbritannia: – Ikke gjør som oss ).

Bók Dags Seierstad er bæði fróðleg og skemmtileg en norsku Nei til EU-samtökin eru ein sterkustu grasrótarsamtök í Noregi.

Höfundur: Jón Bjarnason

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.5.2015 - 17:49 - FB ummæli ()

Skrúfa saman ESB-sprengjur í íslenskum sveitum?

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur er á móti því að Ísland gangi í ESB. Hann lýsir hér afstöðu sinni í örstuttu máli. Meðal ástæðna fyrir afstöðu sinni nefnir Haraldur óljósa og flókna lýðræðiskeðju í ESB, með öðrum orðum þann lýðræðishalla sem einkennir sambandið. Þá nefnir Haraldur að Evrópusambandið hafi margsinnis lýst því yfir að það muni í framtíðinni sinna hagsmunum sínum með hervaldi.

Í því sambandi nefnir Haraldur að það yrði ófögur framtíðarsýn ef það ætti að verða til að leysa vandamál vegna brottfalls úr íslenskum skólum að senda ungmenni í ESB-herinn eða að leysa atvinnumál í sveitum landsins með því að skrúfa saman ESB-sprengjur.

Sjá viðtalið hér:

Haraldur Ólafsson: Íslensk ungmenni í ESB-herinn?

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.4.2015 - 23:09 - FB ummæli ()

Við höfum öll okkar ástæður fyrir því að vilja standa utan ESB

AnnaOlafsdottirBjpörÉg er alþjóðasinni og hlynnt góðum samskiptum þjóða á meðal. Nú er ég tímabundið flutt til ESB-lands, Þýskalands, til að starfa þar. Vinnufélagar mínir eru alls staðar að úr heiminum, frá Kirgistan og Ástralíu, Perú og Síberíu, Singapore og Argentíu. Þeir sem koma frá löndum utan ESB þurfa eilíflega að standa í stappi við ,,kerfið“ sem vill eiginlega ekki sjá fólk sem kemur frá löndum utan ESB. Mér finnst hálf vandræðalegt að tilheyra forréttindaklúbbnum sem hyglar fólki frá ,,sínum“ löndum og lýtur að miklu leyti lögmálum sem sköpuð eru af stórfyrirtækjum og sterkustu hagsmunaaðilum sem hafa afl til að tala máli sínu í hinu miðstýrða ESB-veldi skrifræðisins í Brussel.

Svo segir Anna Ólafsdóttir Björnsson í nýlegu bloggi sínu.

Ýmsir aðrir vitna um sín sjónvarmið á myndböndum sem áhugahópur hefur sett á YouTube undir merkjum Nei vi ESB. Ein þeirra er Erna Bjarnadóttir, sjá  hér: https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=9136a1c_Y9o 

Anna Ólafsdóttir Björnsson segir nánar um sín sjónarmið:

Þetta eru mínar ástæður, ekki þær einu, en vega þungt. Mamma, sem var á Þingvöllum 17. júní 1944 í hellirigningu, vill alls ekki sjá að við töpum sjálfstæði okkar aftur, Henrik frændi minn i Danmörku var að nálgast tírætt þegar hann sagði við mig að hann vildi eiginlega ekki deyja fyrr en Danmörk væri komin út úr ESB, en hins vegar nennti hann ekki heldur að lifa sumarið, af því það þurfti nefnilega að gera við þakið á húsinu hans. Og hér eru enn fleiri ástæður, sumar þær sömu og ég hef þegar viðrað, en líka svo margar aðrar.

Mér finnst reyndar merkilegt að hér í Hamborg sé ég aldrei fána ESB blakta, bara fána Hamborgar, Þýskalands og ef ég skrepp í golf til Glindi þá er það fáni Slésvíkur-Holstein og einhver annar héraðsfáni í Buxtehude og Stade. Mér finnst þetta notalegt, mér finnst alltaf sætt þegar fólk tengist nærumhverfi sínu vel. ,,Think globally, act locally“ er sagt í öðru samhengi, en á alltaf við. Man að það stakk mig svolítið í fríi í Portúgal að sjá jafnvel minnstu girðingarstubba merkta ESB í bak og fyrir eins og verið væri að segja: Þessi girðing er í boði ESB …
Sjá nánar hér:

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 2.4.2015 - 16:32 - FB ummæli ()

Þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu

OdinnSigthorssonSamfylkingin og fylgiflokkar hennar skila nánast auðu í ESB-málum. Það er niðurstaða Óðins Sigþórssonar, fyrrverandi formanns samtakanna Nei við ESB, í grein sem birt var í Morgunblaðinu í vikunni. Þar segir hann að með framkominni þingsályktunartillögu um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort taka skuli upp áframhaldandi viðræður við ESB um aðildarumsókn sé verið að forðast umræðu um það sem skipti máli, nefnilega spurninguna um afstöðu til aðildar að ESB.

Grein Óðins Sigþórssonar er birt hér í heild sinni: 

Komin er fram á Alþingi þingsályktunartillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um hvort taka skuli upp áframhaldandi viðræður við ESB um aðildarumsókn. Skemmst er þess að minnast að síðasta ríkisstjórn heyktist á viðræðunum rétt fyrir kosningar og setti þær á ís. Þetta stórpólitíska mál mátti ekki ræða í kosningabaráttunni, enda málið ofurviðkvæmt öðrum stjórnarflokknum. Þá var heldur ekki heppilegt að lyfta teppinu af hinum stóru hagsmunamálum Íslands í viðræðunum fyrir kosningar, en Alþingi setti skýra fyrirvara vegna meginhagsmuna sem ekki skyldi framselja til ESB. Allt kemur það fram í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá sumrinu 2009. Þá var einnig einkar óheppilegt að stækkunarstjóri ESB hafði í viðtölum margoft vísað öllum hugmyndum þáverandi utanríkisráðherra um undanþágur til föðurhúsanna með góðlátlegu brosi á vör.
Fyrrverandi stjórnarflokkar treystu sér einfaldlega ekki í kosningabaráttu með þetta stórpólitíska mál í fanginu.
Texti þingsályktunar sem stjórnarandstaðan ber fram sameiginlega er vægast sagt mjög sérstakur. Spurningin til þjóðarinnar hljóðar svo: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“
Nú hljóta margir að spyrja á móti. Ef á að leiða þjóðina að kjörborðinu á annað borð og með tilheyrandi kostnaði, af hverju forðast flutningsmenn þá að orða spurninguna með þeim hætti að leiddur sé fram þjóðarvilji um afstöðuna til þess að ganga í Evrópusambandið? Hefði ekki verið heiðarlegra gagnvart þjóðinni og Evrópusambandinu að spurt væri hvort kjósandinn vildi að Ísland tæki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gerast aðili að Evrópusambandinu? Ástæðan er einföld. Sjötíu prósent þjóðarinnar vilja ekki ganga í ESB en ámóta meirihluti getur hins vegar vel hugsað sér að kjósa bara um viðræðurnar. Þetta vita flutningsmenn og nú þarf að vanda sig við að blása lífi í nasirnar á dauðvona sjúklingnum. Alkunna er að ekki verður af aðild Íslands að ESB nema að undangenginni breytingu á stjórnarskrá Íslands og að fengnu samþykki þjóðarinnar.Áfram ætla flutningsmenn sér því að leiða þjóðina í eyðimerkurgöngunni til fyrirheitna landsins. Þannig skal umræðan í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar snúast um réttinn til að kjósa um framhald viðræðnanna en ekki má nefna það grundvallaratriði hvort Ísland skuli gerast aðili að Evrópusambandinu. Nú er mál að linni. Aðild að Evrópusambandinu og staða Íslands í alþjóðasamfélaginu er stærra mál en svo að ábyrgir stjórnmálamenn geti vikið sér undan þeirri umræðu með því að afvegaleiða kjósendur með tillögu um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um nánast ekki neitt.

Höfundur er fyrrverandi formaður samtakanna Nei við ESB.
(Leturbreytingar eru Nei við ESB)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.3.2015 - 22:40 - FB ummæli ()

Afturköllun umsóknar um aðild að ESB

erna_bjarnadottirMiklu moldviðri hefur undanfarið verið þyrlað upp í kjölfar þess að utanríkisráðherra tilkynnti ESB bréflega að ríkisstjórn Íslands hygðist ekki taka að nýju upp viðræður um aðild landsins að ESB. Hvað sem líður túlkun annarra en bréfritara á efni þess þá er sannleikurinn sá að aðlögunarviðræður Íslands við ESB hafa legið niðri í 4 ár að meira eða minna leyti. Þetta kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir. En þetta er engu að síður staðreynd þegar örfá lykilatriði í ferli þessa máls eru skoðuð.

Svo hefst grein sem Erna Bjarnadóttir, fulltrúi í framkvæmdastjórn Heimssýnar, ritaði og birt er í Bændablaðinu í dag. Greinin er birt hér í heild sinni og hljóðar framhald hennar svo:

Hinn 16. júní 2009 var samþykkt á Alþingi Íslendinga svohljóðandi þingsályktunartillaga: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. 

Þann sama dag var ritað bréf til ESB þar sem sótt var um aðild á grundvelli 49. greinar Lissabonsáttmálans. Enga tilvitnun er þar að finna til síðari hluta fyrrnefndrar þingsályktunar.

Þau sjónarmið sem gerð er grein fyrir í áliti meirihluta utanríkismálanefndar eru annars vegar forsenda samþykktar um að sótt skyldi um aðild en hins vegar sýna þau þann grundvallar misskilning sem útbreiddur er um eðli ESB og viðræðna um aðild að því. Kjarni þess er ágætlega skýrður í Viðauka I við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands „Úttekt á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið og þróun sambandsins“ Á bls. 6 segir þar:

Að því er varðar efnisleg atriði er almennt viðurkennt að umsóknarríkin gangast undir ákveðin grundvallarskilyrði fyrir stækkun (principles of enlargement) sem eru í meginatriðum að þau samþykki sáttmála ESB, markmið þeirra og stefnu og ákvarðanir sem hafa verið teknar síðan þeir öðluðust gildi. Grundvallarskilyrðin eru fjögur: í fyrsta lagi snýst stækkun um aðild að stofnun sem er fyrir hendi en ekki að til verði ný stofnun, í annan stað þarf umsóknarríki að samþykkja réttarreglur bandalagsins, acquis communautaire í einu og öllu, í þriðja lagi skulu umbreytingafrestir (e. transitional periods) vera takmarkaðir og ekki fela í sér undanþágur frá grunnsáttmálunum og þeim meginreglum sem bandalagið byggir á. Í fjórða lagi er um að ræða skilyrðasetningu, sem á ensku hefur verið nefnd conditionality. Hið síðastnefnda varð hluti af aðildarferlinu vegna stækkunar sambandsins 2004 og 2007. Fyrstu þrjú skilyrðin voru þegar hluti af stækkun sambandsins árið 1973. Þessi grundvallarskilyrði eru almennt viðurkennd þótt þau séu ekki talin í áðurnefndri 49. gr. SESB.

Í ljósi þessa er það rökrétt ályktun að í raun var það ESB sem sleit aðlögunarviðræðunum við Ísland þegar sambandið skilaði ekki rýniskýrslu um sjávarútvegskaflann eftir seinni rýnifundinn í mars 2011. ESB vissi sem var að Ísland myndi ekki fallast á opnunarskilyrði ESB um að setja fram tímasetta áætlun um hvernig Ísland myndi taka upp Evrópulöggjöfina í sjávarútvegi. Vert að að minna á að slíkt opnunarskilyrði var einmitt sett fram fyrir landbúnaðarkaflann.

Þeir sem vilja að viðræðum verði haldið áfram til að þjóðin geti fengið að kjósa um samning verða því fyrst að skýra hvernig aðlögunarviðræðurnar geta hafist að nýju. Svarið er augljóst: Að fallið verði frá þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmunni sem koma fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar í júlí 2009. Það verður fróðlegt að sjá þá sem greiddu þeirri þingsályktun atkvæði sitt, samþykkja slíka stefnubreytingu 6 árum síðar.

Erna Bjarnadóttir.

(Undirstrikanir og leturbreytingar að hluta Nei við ESB).

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur