Föstudagur 13.3.2015 - 10:58 - FB ummæli ()

Umsóknin var dauð

Hún er undarleg uppákoman meðal sumra þeirra sem aðhyllast aðild að Evrópusambandinu eftir að utanríkisráðherra staðfesti í gær með bréfi til sambandsins hver er staða umsóknar Íslands frá 2009 um inngöngu í ESB. Það er eins og sumt fólk hafi aldrei áttað sig á því að það var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem gafst upp á því að fylgja umsókninni eftir. Stjórnin gat í raun ekki fylgt henni eftir. Hvers vegna? Það hefur margoft komið fram. Umsóknin strandaði á þeim skilyrðum sem í henni fólust og fram koma í síðari hluta ályktunar Alþingis þar sem vísað er í álit meirihluta utanríkismálanefndar. Umsóknin strandaði þannig meðal annars á þeim skilyrðum sem utanríkismálanefnd setti varðandi sjávarútvegsmál. Þar með var ekki hægt að fara lengra með þessa umsókn og hún því dauð. ESB gat heldur ekki haldið áfram vegna þessa. Það neitaði að fara lengra því þá hefði verið staðfest opinberlega að ekki yrði hægt að ganga að þeim skilyrðum sem Alþingi setti. Þess vegna sat ESB á rýniskýrslunni um sjávarútvegsmál.

Það hafa því engar viðræður átt sér stað frá því á síðari hluta kjörtímabils síðasta þings. Viðræðum var í raun slitið af Jóhönnu og Össuri áður en tímabil stjórnar þeirra var á enda. Bréf Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til ESB er bara staðfesting á þessu. Ef það á að gera eitthvað nýtt, t.d. halda áfram viðræðum, verður að koma til ný umsókn með breyttum skilyrðum, svo sem um að það sé í lagi að afhenda ESB full yfirráð yfir tilteknum auðlindum landsmanna – þ.e. ef vilji er fyrir því að ná rýniskýrslunni um sjávarútvegsmál út úr ESB.

Þjóðin er ekki tilbúin til þess að afhenda auðlindir. Þess vegna hefur þetta mál í raun verið dautt þótt ýmsir hafi gert sér vonir um annað.

Það má svo heldur ekki gleyma því að í þeim skilyrðum sem Alþingi setti með áliti utanríkismálanefndar fólst m.a. krafa um að fullveldi Íslands yrði virt. Það er rétt að minna á það nú þegar ESB virðist ætla að taka sér einhverja daga í að lesa þessa stuttu dánartilkynningu umsóknarinnar sem utanríkisráðherrann afhenti í gær.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 1.3.2015 - 08:30 - FB ummæli ()

Svíþjóð hefur tapað allt of miklu valdi til ESB

SvenskaFlagganSvíþjóð á að gera eins og Holland, þ.e. að meta áhrif áranna í ESB og útbúa lista yfir þau atriði sem gera þarf til að færa völdin til Svíþjóðar aftur. Verði gerðir nýir samningar við ESB verður sænska þjóðin að taka afstöðu til þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kemur fram í grein sem Hans Lindqvist birtir á sænska vefnum Europaportalen. Lindquist var þingmaður á ESB-þinginu frá 1995-1999 og var formaður Nej till EU þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram í Svíþjóð árið 1994 er Svíar samþykktu með naumum meirihluta að ganga í ESB.

Í greininni rekur Lindqvist hvernig völd ESB (áður EB) hafa aukist stig af stigi frá Maastrichtsamkomulaginu 1991, og svo með þeim samningum sem kenndir hafa verið við Amsterdam, Nice og nú síðast Lissabon árið 2009. Í hvert skipti sem nýtt samkomulag hefur veirð undirritað hefur vald verið fært frá aðildarríkjum til stofnana ESB.

Lundqvist segir að Svíþjóð hafi enga sjálfstæða utanríkisstefnu í dag. Flest sem varðar innflytjendamál, alþjóðlegar kreppur og átök stríðandi fylkinga fari í gegnum ESB. Fjármálakreppan og evrukreppan hafi aukið völd ESB yfir bankakerfi og margs konar tillögur sem varði bankamálin, skuldabréfaútgáfur í evrum, auk skatta og opinberar fjárfestingar verði að samþykkjast af embættismönnum í Brussel. Lýðræðishallinn sé orðinn stór, auk þess sem reglur í Svíþjóð um opinbera birtingu gagna hafi orðið að víkja vegna mikillar leyndar sem hvíli yfir meðferð á gögnum frá ESB.

Lissabonsamkomulagið undirstrikar jafnframt að þjóðarréttur víkur fyrir rétti ESB, auk þess sem valdaframsal til ESB frá aðildarríkjum er aukið. Nú er það svo að þriðjungur aðildarríkja þarf að mótmæla lagafrumvarpi innan átta vikna til þess að framkvæmdastjórn ESB breyti tillögum sínum. Lindqvist segist ekki þekkja til þess að breytingar á þessum grunni hafi nokkurn tímann átt sér stað.

Lissabonsamkomulagið krefst þess að aukinn meirihluti, eða 55 prósent af aðildarríkjum og 65 prósent af íbúafjölda, standi á bak við mikilvæg mál. Þetta hefur aukið völd stærstu aðildarríkjanna verulega. Þar með er styrkur Þýskalands orðinn 8 sinnum meiri en Svíþjóðar, en áður hafði styrkur Þýskalands aðeins verið um þrisvar sinnum meiri. Þessar breytingar hafi fært Þýskalandi stóraukin völd og völd minni ríkja í ráðherraráðinu hafi dregist verulega saman. Breytingar í þessa veru hafi síðast átt sér stað 1. nóvember 2014. Þannig hafi evrulöndin nú skýran meirihluta í ráðherraráðinu.

Lindquist segir að væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi um að þessu valdaframsali verði snúið við geti breytt stöðunni. Hollendingar hafi þegar lagt fram lista yfir 49 mál sem þeir vilja breyta þannig að völd verði aftur færð frá Brussel til Hollands. Svíþjóð eigi að gera slíkt hið sama og þeir eigi að krefjast þess að þeir verði undanþegnir þeirri kvöð að taka upp evruna. Þá eigi Svíar að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu á næstu breytingum á samkomulagi við ESB.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.2.2015 - 18:50 - FB ummæli ()

60% landsmanna myndu hafna ESB

capacentÞegar reiknað er með þeim sem taka afstöðu í könnun sem Capacent gerði fyrir Heimssýn eru 60 prósent sem vilja ekki að Ísland gangi í ESB. Þegar tekið er mið af því að 18% svarenda eru hvorki hlynntir né andvígir inngöngu þá eru 32,8% fylgjandi og 49,1% andvígir inngöngu.

Könnun Capacent var framkvæmd  á bilinu 29. janúar til 5. þessa mánaðar. Þetta var netkönnun og var úrtakið 1450 manns á landinu öllu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Svarshlutfall var 60,6%, sem telst vera nokkuð gott.

Andstæðingar innöngu fleiri í flestum hópum

Meðal íbúa Reykjavíkur og allra annarra sveitarfélaga voru þeir fleiri sem voru andvígir inngöngu í ESB. Jafnframt voru þeir fleiri meðal allra aldurshópa sem voru andvígir inngöngu. Hið sama gilti um kynin. Þar voru þeir einnig fleiri, bæði meðal karla og kvenna sem voru andvíg inngöngu í ESB. Tíu prósentum fleiri karlar reyndust andvígir inngöngu en meðmæltir. Munur meðal kvenna er enn meiri. Meðal þeirra eru tuttugu og fjórum prósentum fleiri sem eru andvígir inngöngu en hlynntir.

Samkvæmt könnuninni eru 42% Reyk­vík­inga and­snún­ir aðild að ESB en 41% borg­ar­búa er hlynnt­ aðild. Mun­ur­inn er meiri í ná­granna­sveit­ar­fé­lög­um höfuðborg­ar­inn­ar. Þar eru 45% and­víg­ir aðild en 38% hlynnt­ir henni. Mun­ur­inn er enn meiri í öðrum sveit­ar­fé­lög­um lands­ins en þar eru 59% íbú­anna and­víg­ir aðild að ESB en 21% hlynnt­ir.

Svipaðar niðurstöður eru varðandi aldurshópa. Þar er andstaðan við aðild meiri í öllum aldurshópum. Í elsta aldurshópnum, 65 ára og eldir eru 62% á móti inngöngu í ESB en 28% hlynnt inngöngu. Í yngsta aldurshópnum eru 31% hlynnt inngöngu en 35% á móti.

Samfylkingarfólk áhugalítið um ESB

Samkvæmt könnuninni er samfylkingarfólk fremur áhugalítið um ESB, einkum ef tekið er mið af þeirri ofuráherslu sem flokksforystan hefur lagt á málið. Alls eru 55 prósent samfylkingarfólks í veikustu skoðanaflokkunum, þ.e. stendur á sama, er frekar andvígt eða frekar hlynnt aðild. Fram kemur að 21% stuðningsmanna Samfylkingar eru að öllu leyti hlynnt aðild. Minna en 5% sjálfstæðismanna og framsóknarmanna eru þannig hlynnt aðild. Hins vegar eru 61% framsóknarmanna að öllu leyti andvígir aðild og 40 prósent sjálfstæðismanna eru að öllu leyti andvígir aðild.

Inngöngubeiðnina þarf að afturkalla, segir Jón Bjarnason

„Könnunin undirstrikar það sem oft hefur áður komið fram að Íslendingar vilja vera frjáls og fullvalda þjóð utan Evrópusambandsins. Beiðni um inngöngu Íslands í ESB á því að afturkalla hið snarasta,“ segir Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar í tilefni af birtingu niðurstöðu könnunar Capacent Gallup þar sem fram kemur mikil andstaða við inngöngu Íslands í ESB.

 

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 8.2.2015 - 18:52 - FB ummæli ()

Styrmir um stóru myndina af þróun Evrópu

StyrmirGunnarssonStyrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, skrifar feykilega góða yfirlitsgrein um misheppnaðar sameiningartilraunir og þróunina í Evrópu að undanförnu, en greinin var birt í Morgunblaðinu í gær. Þar færir Styrmir meðal annars rök fyrir því hversu mikilvægt það er að afturkalla umsóknina um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Grein Styrmis er birt hér í heild sinni:

Þetta er stóra myndin af þróun Evrópu

Þótt erfitt sé að festa hendur á því hvað ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir ætlast fyrir varðandi formlega afturköllun aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu er ekki erfitt að átta sig á því sem er að gerast í Evrópu. Þar eru blikur á lofti og er þá vægt til orða tekið.

Evrópa er í uppnámi, pólitískt, efnahagslega og hernaðarlega, annars vegar inn á við, þ.e. innan Evrópusambandsins sjálfs og hins vegar út á við, á landamærum ESB-ríkja og nágrannaríkja þeirra. Sú bjartsýni, sem var til staðar við lok kalda stríðsins um friðsamlega framtíð í þessari stríðum hrjáðu heimsálfu öldum saman, er horfin. Þróun Evrópusambandsins, sem margir litu til sem friðarbandalags fremur en efnahagsbandalags er í fullkominni óvissu.

Hið pólitíska uppnám innan evrusvæðisins, sem er að sjálfsögðu kjarni Evrópusambandsins sem slíks, lýsir sér í því að aðhaldsstefnan í efnahagsmálum, sem Þjóðverjar hafa haft forystu um, hefur reynt svo á innviði aðildarríkjanna, að þeir eru að bresta í sumum þeirra. SYRIZA, bandalag vinstri manna í Grikklandi, er í raun bandalag gamalla kommúnista, maóista og annarra vinstri manna. Sú staðreynd að gríska þjóðin skuli kjósa yfir sig slíkt bandalag segir mikla sögu um algert gjaldþrot hefðbundinna stjórnmálaflokka í Grikklandi.

En það sem meira er: Um allan syðri hluta Evrópu fagna menn ýmist leynt eða ljóst sigri þessa sundurleita hóps, sem hefur tekið að sér að stjórna Grikklandi í samvinnu við stjórnmálaflokk yzt til hægri, sem hefur andúð á Þjóðverjum einna helzt á stefnuskrá sinni. Ítalir fara ekki í felur með fögnuð sinni og Podemos, nýr stjórnmálaflokkur á Spáni ekki heldur. Frakkar fagna en flíka því ekki opinberlega. Þjóðfylking Marine Le Pen sækir nú stíft fram á hægri kantinum en Podemos frá vinstri á Spáni.

Sigri SYRIZA er fagnað vegna þess að í öðrum aðildarríkjum evrunnar gera menn sér vonir um að þeim takist að kveikja eld undir aðhaldsstefnu Þjóðverja. Og jafnframt er ekki lengur hægt að útiloka að flokkar lengst til vinstri og hægri komist til áhrifa í öðrum evruríkjum á sama tíma og Valkostur fyrir Þýzkaland sækir fram í sínu heimalandi.

Það er ekki lengur óhugsandi að stjórnvöld í Berlín og embættismenn í Brussel missi tökin og meiri líkur en minni á að sameiningarþróunin í Evrópu sé að stöðvast.

Efnahagslegt uppnám evrusvæðisins og þar með ESB lýsir sér í því að efnahagslægð er gengin í garð í evruríkjunum svo og verðhjöðnun. Þar koma við sögu almenn efnahagsleg vandamál einstakra aðildarríkja, mikil skuldsetning opinberra aðila í sumum þessara landa og heimila og fyrirtækja í öðrum. Flestir, sem fjalla um efnahagsmál á evrusvæðinu telja að það muni taka áratug eða meira að ná hagvexti á strik í þessum löndum.

Hinar efnahagslegu þrengingar kalla fram harkaleg viðbrögð á báða bóga eins og sjá mátti í fyrradag, þegar Seðlabanki Evrópu tilkynnti að hann yrði ekki lengur lánveitandi til þrautavara fyrir gríska banka frá og með miðvikudegi í næstu viku.

Evrópusambandið stendur því í innbyrðis stórátökum um sameiningarþróunina og alvarlegir brestir eru byrjaðir að sjást í gjaldmiðilssamstarfi evruríkjanna.

En jafnframt er nú í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins komin upp alvarleg hernaðarleg staða í Evrópu. Kjarni hennar er auðvitað hið stríða samband á milli Rússa annars vegar og ESB og Bandaríkjanna hins vegar. Fleiri og fleiri lýsa þessari stöðu á þann veg að nýtt kalt stríð sé að brjótast út. Þótt Rússar eigi nú sjálfir við mikinn efnahagsvanda að stríða vegna lækkunar olíuverðs á heimsmarkaði, hafa þeir ekkert dregið úr stuðningi við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Ástandið þar fer hríðversnandi og í fyrradag var tilkynnt að Atlantshafsbandalagið mundi auka hernaðarlega nærveru sína í austurhluta Evrópu.

Rússar eru ekki vinalausir innan ESB. Augljóst er að sterk tengsl eru á milli stjórnvalda í Moskvu og nýrra stjórnarherra í Aþenu, sem hefur m.a. »strategíska« þýðingu vegna legu Grikklands gagnvart Miðausturlöndum. En jafnframt er ljóst að stjórnmálahreyfingar yzt á hægri kantinum í Evrópu telja sig sumar hverjar eiga sálufélaga, þar sem Pútín, forseti Rússlands, er. Einhverjir kunna að líta svo á að Rússar séu svo efnahagslega veikir um þessar mundir að þeir hafi ekki bolmagn til eins eða neins. Þeir sem þannig hugsa ættu að minnast þess að samstarf Rússa og Kínverja er að verða stöðugt nánara og það sem Rússar geta ekki fjárhagslega kunna Kínverjar að geta.

Þegar horft er til sögu Evrópu, þó ekki sé nema 500 ár til baka, fer ekki á milli mála að við erum nú að upplifa enn eitt tímabilið, þar sem tilraunir til sameiningar eru að hrökkva til baka.

Þessi stóra mynd er ekki til umræðu hér á Íslandi að nokkru marki. Hún kemur okkur hins vegar við vegna þess að hópur Íslendinga hefur talið eftirsóknarvert að Ísland verði hluti af þessum umbrotum. Sá hópur lagði upp í þá vegferð vegna þess að hann trúði á evruna.

Svo margt hefur hins vegar gerzt á meginlandi Evrópu frá því aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi 2009 að það getur beinlínis verið hættulegt að gerast aðili að ríkjabandalagi, sem logar stafna á milli og enginn veit hvert muni stefna á næstu árum.

Af þessum ástæðum er afturköllun aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu mikilvægari en nokkru sinni fyrr á síðustu fimm árum, þótt fleira komi til.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 21.1.2015 - 08:55 - FB ummæli ()

Vinstri græn vilja ekki í ESB

katrinjakÁ landsfundi vorið 2013 ályktaði VG um Evrópusambandsmálin að Íslandi væri best borgið utan ESB. Flokkurinn vildi setja aðildarviðræðum tímamörk, til dæmis eitt ár frá kosningum. Það ár er nú löngu liðið. 

Á landsfundi flokksins árið 2011 samþykkti VG:

„Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Landsfundurinn ályktar að í yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu og leggur áherslu á að Ísland haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum, s.s. makríl, kolmunna, úthafskarfa, loðnu og norsk-íslensku síldinni. Sama á við hvað varðar umfang á stuðningi við íslenskan landbúnað svo og um náttúruauðlindir sem fyrirhugað er að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.

Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins. Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur.

Landsfundurinn telur það vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar.

Er ekki komið að því að Vinstri græn fylgi stefnu sinni eftir í þessum málum?

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.1.2015 - 15:53 - FB ummæli ()

Ísland frjálst utan ESB

jon_bjarnasonÞað að Ísland er umsóknarríki að ESB veitir ESB rétt til ýmissa afskipta af innanríkismálum hér á landi svo sem að vera hér með sérstakan sendiherra og reka áróðursskrifstofu eins og Evrópustofu sem annars væri ekki heimilt.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein sem Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar, ritar og er birt í Morgunblaðinu í dag.

Greinin er birt hér í  heild:

Eitt af loforðum ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, var að afturkalla beiðni fyrrverandi ríkisstjórnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskólans vann á síðastliðnu ári var í raun staðfest það sem talsmenn ESB höfðu alltaf sagt að Ísland gæti ekki fengið neinar varanlegar undanþágur frá lögum og regluverki ESB. Einungis gæti verið um tímabundna aðlögun að ræða í einstaka tilvikum.

Úr handbók stækkunarferils ESB
Evrópusambandið hefur orðað sína hlið málsins skýrt frá byrjun:»Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur… verður ekki samið.«

([1] »First, it is important to underline that the term »negotiation« can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 100,000 pages of them. And these rules… are not negotiable.« (Sjá:http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf)

Sáttmálar, lög og reglur Evrópusambandsins liggja fyrir og þeim getur litla Ísland að sjálfsögðu ekki breytt. Málið snýst því eingöngu um spurninguna: Vilt þú að Ísland gangi í ESB eða ekki?

Bjölluati í Brussel er lokið

Menn geta brugðið fyrir sig fávisku þegar þeir samþykktu beiðnina um aðild að ESB 16. júlí 2009. Í einfeldni héldu sumir að hægt væri að »kíkja í pakkann«, »hringja dyrabjöllunni í Brussel« svona til að athuga hvað væri í matinn. Nú geta þeir það ekki lengur. »Matseðill« ESB liggur fyrir og er öllum opinber eins og hann hefur reyndar ávallt verið.

Að vera áfram umsóknarríki veitir ESB rétt til ýmissa afskipta af innanríkismálum svo sem að vera hér með sérstakan sendiherra og reka áróðursskrifstofu eins og Evrópustofu sem annars væri ekki heimilt.

Meðan umsóknin liggur inni hefur aðildarviðræðum ekki verið hætt.

Þetta vafðist ekki fyrir landsfundarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á síðasta landsfundi 21.-24. febrúar 2013 í aðdraganda alþingiskosninga. En þá var ályktað mjög afdráttarlaust um að hætta aðlögunarviðræðum við ESB og loka Evrópustofu, áróðursmiðstöð sambandsins hér á landi. Orðrétt segir:

»Landsfundurinn mótmælir íhlutun sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi í stjórnmálaumræðu þjóðarinnar og telur óhæfu að stækkunardeild ESB haldi úti starfsemi hér þar sem lagst er á sveif með einu stjórnmálaafli gegn öðrum. Evrópusambandinu verði gert að loka kynningarskrifstofu þess hér.«

Ákvæði stjórnarsáttmálans í þessu máli eru í samræmi við landsfundarsamþykktir beggja ríkisstjórnarflokkanna og ber að fylgja eftir.

Ríkisstjórnin standi við loforð sín

Þingmál um afturköllun umsóknarinnar er á málaskrá ríkisstjórnarinnar. Tillaga þess efnis var einnig lögð fram á síðasta þingi en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Hinsvegar var hún ítarlega rædd bæði á þingi og í utanríkismálanefnd og fjöldi umsagna barst.

Það má því segja að öll gögn liggi fyrir til skjótrar afgreiðslu málsins á Alþingi.

Nýlegar yfirlýsingar forsætisráðherra, utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar staðfesta að ríkisstjórnin muni nú á allra næstu dögum leggja tillöguna á ný fyrir Alþingi í samræmi við stefnu og loforð beggja ríkisstjórnarflokkanna:

»Hafi verið tilefni til þess að draga umsóknina til baka á síðasta ári hafa þeir atburðir og þróun sem átt hefur sér stað síðan orðið til þess að styrkja þá afstöðu að Ísland eigi ekki að hafa formlega stöðu umsóknarríkis,« sagði Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, í viðtali við Morgunblaðið 5. janúar síðastliðinn.

Brýnt að afturkalla ESB-umsóknina formlega

Óprúttin ESB-sinnuð ríkisstjórn getur virt lýðræðið að vettugi og sett aðildarferlið á fullt á ný hvenær sem er. Það getur hún gert án atbeina þjóðarinnar eins og raunin var í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vorið 2009.

Þess vegna verður að afturkalla núverandi umsókn. Þar með verði tryggt að nýtt aðildarferli verði ekki hafið nema með nýrri umsókn og að fengnum skýrum vilja þjóðarinnar til inngöngu í Evrópusambandið, sem vonandi verður aldrei.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.12.2014 - 00:41 - FB ummæli ()

Ólga innan Seðlabanka Evrópu

DraghiSvo virðist sem Mario Draghi aðalbankastjóri Seðlabanka Evrópu eigi nú á brattann að sækja með hugmyndir sínar um næstu aðgerðir til björgunar evrunni. Fjölmiðlar í álfunni greina frá því að um helmingur af æðstu framkvæmdastjórn bankans hafi snúist gegn hugmyndum Draghis, þar á meðal fulltrúar Þýskalands og Frakklands. Þeir hafi neitað að skrifa undir síðustu yfirlýsingar Draghis.

Draghi hefur haldið því fram að til að evran standist til frambúðar þurfi eina ríkisstjórn fyrir evrusvæðið og evrópskt stórríki til að styðja við gjaldmiðilinn. Bankastjórinn hefur þótt skeleggur í framgöngu sinni og höfðu t.d. ummæli hans fyrir fáeinum misserum um að Seðlabanki Evrópu myndi gera það sem þyrfti til að bjarga evrunni mjög jákvæð áhrif á gang evrumála.

Frakkland, Lúxemborg og Þýskaland gegn Draghi

Nú virðist sem áhrifamáttur Draghis fari þverrandi. Það gæti haft veruleg áhrif á þróun fjármálamarkaða í álfunni og á langtímahorfur fyrir evruna. Andstöðuhópur innan Seðlabanka Evrópu er sagður samanstanda af Sabine Lautenschläger, fulltrúa Þýskalands, Yves Mersch, fulltrúa Lúxemborgar og Benoît Cœuré, fulltrúa Frakklands. Í þessu sambandi er bent á að Draghi hafi ekkert komist áfram með hugmyndir sínar sem hann lýsti nýlega um trilljón evra innspýtingu frá Seðlabanka Evrópu í atvinnulíf í álfunni til þess að draga úr hættu á verðhjöðnun og frekari samdrætti og atvinnuleysi. Að líkindum er það fyrst og fremst hörð andstaða Þjóðverja sem setur Draghi stólinn fyrir dyrnar í þessu máli. Því er jafnvel haldið fram að hann muni hverfa úr stóli aðalseðlabankastjóra ESB og sækjast eftir embætti forseta Ítalíu þegar hinn 89 ára gamli Giorgio Napolitano dregur sig í hlé.

Úrillur Draghi

Þjóðverjar eru sagðir þreyttir á Draghi, hann er sakaður um að missa stjórn á skapi sínu, neiti að hlusta á andsstæð sjónarmið, útiloki seðlabankastjóra Þýskalands, Jens Weidmann og styðjist fyrst og fremst við þröngan hóp já-bræðra. Seðlabanki Evrópu er meðal þeirra banka þar sem fundargerðir stjórnarnefnda eru leynilegar og þess vegna hefur fjölmiðlafólk orðið að grafa upp eftir öðrum leiðum hvar skoðanir skerast í stjórn peningamála. Samkvæmt þýskum og breskum fjölmiðlum sem hér er vitnað til er mikil kergja hlaupin í deilur innan bankans um hvort og hversu hratt Seðlabanki Evrópu eigi að veita fé út í hagkerfið til að koma vélum þess í gang (kallað quantitative easing á ensku). Svokallaðir haukar, þeir sem harðast standa gegn slíkum lausatökum í peningamálum, koma frá Þýskalandi. Þannnig hefur Lautenschläger haldið því fram að hugmyndir Draghis um kaup seðlabankans á ríkisskuldabréfum jafnist á við bein fjárframlög bankans til ríkjanna, sem eru bönnuð í ESB, og að slíkt myndi bara auka hegðunarvanda í fjármálalífinu. Bankastjóri Bundesbank, Jens Weidmann, segir að lausatökin í peningamálunum séu þegar orðin of mikil fyrir aðstæður í Þýskalandi (jafnvel þótt þar í landi sé ekki spáð nema 1% hagvexti á næsta ári). Weidmann segir að nýleg olíuverðslækkun eigi að duga til að koma atvinnulífinu í gang og því eigi ekki að vera þörf á peningainnspýtingu frá Seðlabanka Evrópu.

Offramboð af skuldabréfum

Nú þegar er talsvert framboð af ríkisskuldabréfum á evrópskum fjármálamörkuðum vegna mikilla skulda ríkissjóðanna. Ítalir óttast að þetta mikla framboð muni leiða til verulegrar lækkunar á verði bréfanna á næstu árum. Tekist er meðal annars á um það hve langt Seðlabanki Evrópu eigi að ganga sem lánveitandi til þrautavara fyrir viðskiptabanka í álfunni sem gætu lent í erfiðleikum vegna mögulegs verðfalls á skuldabréfaeignum sínum.

Vatn á myllu evruandstæðinga

Svo virðist sem sjónarmið þeirra sem mest takast á séu annars vegar ættuð frá Ítalíu sem er stórskuldug og hins vegar frá Þýskalandi þar sem sparnaður hefur verið í fyrirrúmi undarnfarna áratugi. Draghi hefur látið í veðri vaka að hann gæti bara í krafti meirihluta keyrt yfir Þjóðverjana. Nýlegar fréttir benda þó ekki til þess að meirihlutinn að baki Draghis yrði rúmur, auk þess sem það myndi grafa mjög undan samstarfinu í Seðlabanka Evrópu ef aflsmunar yrði neytt gagnvart stærsta efnahagsveldinu í álfunni, Þýskalandi. Slíkt gæti orðið vatn á myllu evruandstæðinga í Þýskalandi í AFD-flokknum (Alternative fur Deutschland).

Nýjar stjórnarskrárdeilur í uppsiglingu

Jafnframt er minnt á að enn séu ekki allar lagaflækjur leystar fyrir stjórnarskrárdómstóli í Þýskalandi varðandi nýlega vegferð ESB og Seðlabanka Evrópu. Búist er við nýjum dómsmálum vegna áforma um peningaútflæði frá Seðlabankanum til stuðnings ríkissjóðum sem andstæðingar slíkra aðgerða segja að verði skuldbindandi fyrir skattgreiðendur og að það brjóti gegn sáttmálum og reglum í ESB. Sumir halda því jafnvel fram að ef Seðlabanki Evrópu myndi grípa til jafn stórtækra peningainnspýtinga og Draghi hefur boðað þá myndi þýski seðlabankinn, Bundesbank, koma í veg fyrir að slík framkvæmd næði að fullu fram að ganga í Þýskalandi.

Nauðsyn á sameiginlegri skattheimtu í ESB

Það er einmitt þarna sem hnífurinn stendur í kúnni þegar kemur að frekari samruna á evrusvæðinu. Ýmsir telja að til að evran eigi að hafa möguleika á því að standast til frambúðar verði að koma til sameiginleg ríkisstjórn, sameiginlegt skattlagningarvald og sameiginlegt stórríki – og að Seðlabanki Evrópu verði að geta gripið til stórtækra aðgerða til stuðnings gjaldmiðlinum. Þjóðverjar og fylgiríki þeirra standa fast gegn flestum slíkum áformum. Allar tilraunir til að velta vanda bankakerfisins yfir á skattgreiðendur eru eitur í þeirra beinum.

Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með þróun þessara mála. Í fyrsta lagi hversu langlífur Mario Draghi verður á stóli seðlabankastjóra og í öðru lagi hvernig deilan á milli þeirra sem vilja annars vegar beita stífum aðhaldsaðgerðum og svo hinna sem vilja leyfa meiri lausatök í fjármálum kemur til með að þróast.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.11.2014 - 11:20 - FB ummæli ()

Stuðlar ESB að friði?

euramyÞví er haldið fram að Evrópusambandið stuðli að friði. Fátt er fjarri sanni. Vissulega var friður í Evrópu forsenda þess að ESB varð til. Sambandið hefur hins vegar ekki tryggt frið í Evrópu. Þvert á móti. ESB hefur stuðlað að ófriði, ekki aðeins í Evrópu heldur einnig í fleiri heimsálfum, bæði í Afríku og Asíu. Vörnin fyrir evruna hefur leitt til aukins atvinnuleysis, fátæktar og félagslegrar mismununar í álfunni sem leitt hefur til spennu og dregið úr samstöðu meðal íbúanna.

Margir ráku upp stór augu þegar ESB hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2012. Hagsmunagæsla og klaufaskapur ESB áttu sinn þátt í að kveikja það bál sem brann í stríðinu á Balkanskaga undir lok síðustu aldar. Þjóðverjar knúðu það í gegn að ESB-ríkin myndu viðurkenna Króatíu jafnvel þótt landið uppfyllti ekki kröfur sem gerðar voru til ríkja um stöðu minnihlutahópa. Afleiðingin var m.a. ófriðurinn Bosníu og Hersegóvínu. Klaufaskapur ESB á viðkvæmum tímum þegar friðarumleitanir stóðu fyrir dyrum á Sri Lanka urðu þess valdandi að ekkert varð af frekari viðræðum, friðurinn varð úti og stjórnarherinn réðst af hörku gegn Tamíl Tígrunum og stuðningsmönnum þeirra og á bilinu 40-70 þúsund manns létu lífið. ESB lýsti því yfir á viðkvæmum tíma í friðarferlinu að Tamíl Tígar væru hryðjuverkasamtök. Stjórnvöld á eyjunni notuðu þá yfirlýsingu til þess að murka lífið úr liðsmönnum Tígranna og stuðningsmönnum þeirra. Á Sri Lanka unnu Íslendingar að því að koma á friði ásamt Norðmönnum og fleirum en framferði ESB gerði friðarframlag þeirra að litlu.

Í vesturhluta Afríku hefur ESB leyft sér að gera fiskveiðisamning við eitt af ríkjum sem á í átökum við íbúa nærliggjandi svæða. Þannig hefur ESB gert samning við Marokkó um fiskveiðar á svæðum sem ná langt út fyrir löglegt yfirráðasvæði Marokkó. Þar með gróf ESB undan viðleitni til að tryggja frið á svæðinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi Lave K.Broch, sem er varaþingmaður á þingi ESB og fulltrúi dönsku þjóðarhreyfingarinnar gegn ESB-aðild, á hátíðarfundi samtakanna Nei til EU í Noregi í gær í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá því að Norðmenn fengu stjórnarskrá og 20 ár frá því að Norðmenn höfnuðu síðast aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ófaglegt og hagsmunaknúið framferði ESB í Úkraínu er sérstakur kafli út af fyrir sig. Kohl, fyrrum kanslari Þýskalands, er meðal þeirra sem telja að ESB hafi ekki fetað rétta braut þar.

ESB krefst þess að aðildarríkin séu tilbúin til að taka þátt í hernaðaruppbyggingu. Af þessum sökum þurfti meðal annars að breyta lögum í Finnlandi sem meinuðu Finnum að taka þátt í hernaðarbrölti utan Finnlands.

Friður er hins vegar annað og meira en að koma í veg fyrir vopnuð átök herja. ESB hefur í gegnum uppbyggingu og stuðning við evruna leitt yfir stóran hluta Evrópubúa atvinnuleysi og fátækt með stórækum niðurskurði í opinberum útgjöldum sem hefur ekki síst bitnað á konum og ungu fólki. Nú er staðan þannig samkvæmt nýlegri könnun Eurostat, Hagstofu ESB, að 120 milljónir Evrópubúa eiga á hættu að lenda í fátækt og félagslegri útskúfun. Sú könnun leiddi í ljós að hættan á slíku er hlutfallslega einna minnst á Íslandi.

ESB hefur því á mörgum svæðum og sviðum spillt friði fremur en að stuðla að honum.

 

 

 

Flokkar: Bloggar · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.11.2014 - 18:11 - FB ummæli ()

Er Össur örvæntingarfullur vegna ESB-umsóknar?

ossurÖssur Skarphéðinsson virðist vera verulega örvæntingarfullur vegna þess að umsóknin um aðild að ESB er steindauð. Hann gengur jafnvel svo langt á erlendum vettvangi að sett verði  skilyrði fyrir mögulegri aðild Íslands að fríverslunarsamningi Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Össur vill greinilega halda því fram að Ísland geti aðeins tekið þátt í þeim samningi sem umsóknarríki að ESB. Hann ætti að vita betur, auk þess sem öllum er ljóst að Ísland er ekki á leiðinni inn í ESB.

Forystumenn beggja vegna Atlantshafsins hafa lýst yfir stuðningi við að helstu viðskiptaríki Bandaríkjanna og Evrópusambandsins fái aðild að fyrirhuguðum fríverslunarsamningi. Þar á meðal er Ísland. Þar hefur enginn sett það sem skilyrði að Ísland verði áfram umsóknarríki að sambandinu.

Framferði Össurar verður því að teljast mjög sérstakt.

 

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 18.11.2014 - 23:52 - FB ummæli ()

Evrusvæðið – Ísland: 0 – 3

reykjavikSíðasti áratugur á evrusvæðinu hefur orðið að engu. Hve lengi getur þetta gengið þegar jafnvel Ísland hefur skotið svæðinu ref fyrir rass?

Þannig spyr pistlahöfundur í Svenska Dagbladet, Per Lindvall, sem Gústaf Adolf Skúlason vekur athygli á – en pistillinn er hér í lauslegri endursögn. Per Lindvall minnir á að hagvöxtur á evrusvæðinu hafi á síðasta ársfjórðungi verið helmingi meiri en vænst hafði verið, eða heil 0,2 prósent! Hann bætir hæðnislega við að nú ættu þeir fáu hagfræðingar og stjórnmálamenn í Svíþjóð að hlaupa til sem vilja stökkva upp á evruhraðlestina sem loksins hafi komist á hreyfingu! Staðreyndin sé þó sú að evrulestin hreyfist varla og síðasti áratugur sé íbúunum tapaður fjárhagslega – þökk sé myntsamstarfinu. Nú séu sex ár liðin frá Lehmanhruninu og það sé fullkomlega eðlilegt að ræða um það að ríki yfirgefi evrusvæðið eða að það leysist jafnvel upp. Enn sé framleiðsla minni en var árið 2007 á evrusvæðinu þótt lönd eins og Bandaríkin, Pólland og Svíþjóð hafi þegar náð fyrri styrk – að ekki sé talað um Ísland! Meira að segja Bretland með sinn stóra fjármálageira, húsnæðisbólur, miklar opinberar skuldir og talsverðan viðskiptahalla hafi staðið sig mun betur en evrusvæðið. Ástæðan sé sú að Englandsbanki stýrir eigin gjaldmiðli Breta og ennfremur sú að ríkisstjórnin breska reki efnahgspólitík sem sé ekki jafn skaðleg og á evrusvæðinu.

Ísland er sigurvegarinn!

Aðalnúmerið í þessum efnum sé þó Ísland sem hefur farið í gegnum mikla fjármálakreppu sem setti banka landsins á hliðina, auk þess sem hér hafi verið húsnæðisverðbóla, miklar skuldir heimila hafi þjakað landsmenn og viðskiptahalli verið töluverður. Samt sé framleiðsla nú meiri en fyrir hrunið. Atvinnuleysi hafi minnkað verulega og vinnuaflið hafi auk þess aukist talsvert frá hruninu (sem sagt miklu fleiri á vinnumarkaði í heild). Auðvitað hjálpi það Íslandi að hafa vel menntað og fært vinnuafl og miklar náttúruauðlindir en það sem skipti meginmáli fyrir endurreisn landsins sé sú staðreynd að Íslendingar hafi eigin gjaldmiðil sem hafi getað aðlagast að efnahagsaðstæðum. Fyrir vikið hafi samkeppnisstaða Íslands batnað töluvert – og aðhaldsaðgerðir séu hér á landi mun vægari en á evrusvæðinu þar sem fólki sé sagt upp í stórum stíl. Á Íslandi sé samfélagssáttmálinn enn í fullu gildi!

Evrópa föst í fúafeni

Á meðan sé atvinnuleysið í kringum 25% á Spáni – þrisvar sinnum það sem það var árið 2006. Ástandið er ennþá verra í Grikklandi. Í þessum löndum sé samfélagssáttmálinn rofinn og alls kyns öfgaflokkar yst til hægri og vinstri skjóti rótum. Höfundurinn líkir ástandinu við þróunina á milli heimsstyrjalda sem endaði ekki vel í Evrópu. Samt trúi helstu stjórnmálaleiðtogar í Evrópu enn á evruna en sjái ekki að hún sé ekki sá gullfótur sem ýmsir vildu hafa heldur steinsteypufótur sem haldi Evrópu fastri í fúafeni. Þar séu helstu smiðirnir þýskrar ættar sem hafa ofurtrú á niðurskurði og sparnaði en standa gegn þeim fjárfestingum, útgjöldum og eftirspurn sem Evrópa þarf svo sárlega til að geta híft sig upp úr skuldafeni efnahagskreppunnar.

 

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur