Skilvindan heldur áfram að snúast og greinir smátt og smátt að rjóma þessa lands og undanrennu þessa lands. Ert þú meðal hinna útvöldu sem veist fyrir meðfædda náðargáfu betur en ég sjálfur hvað mér er fyrir bestu? Ef þú telur að svo sé — þótt það sé ekki nema óljós fiðringur — taktu þá prófið. Þú gætir unnið bol.
Það óheillaskref sem tekið var þegar einkaleyfi ríkisins á útvarpsrekstri var fellt niður eftir yfir 50 yndisleg ár er gott dæmi um hvílíka ógæfu það getur kallað yfir þjóð þegar ekki er hlustað á spámennina. Það mál, þótt álíka smátt sé og ómerkilegt og bjórbannið, gefur ákveðnar vísbendingar um það hvort betra er að treysta hverjum og einum sauðsvörtum almúgamanni fyrir sér og sinni útvarpshlustun eða snillingunum sem vitið og framsýnina hafa.
Snillingsprófið – þriðja spurning
Vildir þú á árunum 1930 til 1978 að öðrum en ríkinu væri leyft að reka útvarpsstöð?
__ Já.
__Nei.
Ef svarið er „nei“, hefurðu undirstrikað enn á ný að innsæi þitt er gersamlega botnlaust vegna þess að alþingismaðurinn Guðmundur H. Garðarsson lagði fram frumvarp á Alþingi síðla árs 1977 um afnám einkaleyfisins. Guðmundur sagði tilgang frumvapsins vera „að tryggja að eitt af grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar, tjáningarfrelsins, sé virt með þeim hætti, að mönnum sé veitt frelsi til að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri með þeirri fjölmiðlunartækni, sem fyrir hendi er.“
Fjórir þingmenn tóku til máls um frumvarpið og voru Svava Jakobsdóttir, Páll Pétursson og Magnús Torfi Ólafsson á móti en Jóhann Hafstein með. Svava sagði að frumvarpið „miðaði ekki að auknu tjáningarfrelsi einstaklinganna heldur að auknu frelsi fjársterkra til að fjárfesta í rekstri fjölmiðils.“ Páll tók í sama streng og óttaðist að „peningafurstar“ myndu reyna að koma skoðunum sínum á framfæri umfram aðrar. Magnús Torfi var á þeirri skoðun að það þyrfti vissulega að endurskoða lögin, en taldi eðlilegast að stofnaðar yrðu sjálfstæðar ríkisútvarpsstöðvar á landsbyggðinni.
En hafirðu sagt „já“ ertu í verulega vondum málum. Þú ert ekki bara í slæmum félagsskap Guðmundar og Jóhanns, heldur er ákveðin hætta á að þú sért — og haltu þér nú fast — frjálshyggjumaður. Það var Guðmundur að minnsta kosti kallaður af ekki minni spámanni og snillingi en Stefáni Jóni Hafstein sem þá var ungur og upprennandi stúdent í fjölmiðlafræði í London. Stefán skrifaði í Þjóðviljann að „mikil en einhliða umræða“ hefði risið „um svokallaðan frjálsan útvarps- og sjónvarpsrekstur“ og átti við frumvarp Guðmundar. Stefán taldi þennan nývaknaða áhuga „einkum stafa af áhuga ákveðinna manna að útbreiða það sem þeir kalla frjálshyggju.“ Í öðru lagi sagði Stefán áhuga frjálshyggjumannanna stafa af fíkn í skjótfengan gróða og í þriðja lagi af þeirri hugsjón að „hverju heimili beri amk. eitt diskótek eftir öldum ljósvakans.“ Hugsjón frjálshyggjumannanna um að það væri sérstök diskórás (sem eins mætti kalla popprás) á FM kvarðanum sem bæri sig sjálf var náttúrlega alveg hlægileg og sýndi vel hve óraunsæir, grunnhyggnir, inntakslausir og menningarsnauðir þeir voru.
Í lok þjóðviljagreinarinnar (sem fyllti tvær fallega myndskreyttar opnur) sýndi Stefán Jón Hafstein svo ekki verður um villst að hann hafði ofurmannlegt innsæi, botnlausa djúphygli, óendanlega framsýni, ómældan góðvilja og einstaka fórnfýsi gagnvart þjóð sinni að taka að sér óbeðinn að leiða sauðsvartan almúgann um rétta stigu: „Lýðræðislegum skoðanaskiptum og óheftri listsköpun er ekki borgið undir lögmálum markaðsaflanna. Þvert á móti sannar reynslan að ólýðræðisleg skipting auðsins leiðir einnig til ólýðræðislegrar skoðanamyndunar upplýsingamiðlunar og tjáningar. Listsköpun er drepin í dróma. Raunverulegt valfrelsi er kæft í menningariðnaði og múgmenningu án sérkenna, minnihlutaálits, skírskotunar eða raunverulegs inntaks. Raddir fólksins hljóðna en við tekur einhljóma rödd sem metur allt til gildis samkvæmt reglum auðsins.“
Þeir sem höfðu vit fyrir íslensku þjóðinni í útvarpsmálum höfðu sannarlega siglt framhjá skeri ólýðræðislegrar skoðanamyndunar í krafti auðvalds með því að tryggja að aðeins ein íslensk stöð sendi út; gamla góða ríkisrásin þar sem raddir fólksins fengu að njóta sín, inntakið var raunverulegt, minnihlutaálitið tryggt, markaðsöflin aftengd og ekkert lágkúrulegt frjálshyggjudiskó heyrðist nema í „Lögum unga fólksins“ einu sinni í viku, klukkustund í senn. Ekki satt?
Guðmundur H. Garðarsson gerði athugasemdir við grein Stefáns í Vísi og sagði það vissulega rétt að litlar hömlur væru settar á frelsi manna til að segja skoðun sína í ríkisútvarpinu, „hafi þeir á annað borð komist að“. Hann spurði í framhaldi af því: „Hver á að komast að? Hverjir eiga að ákveða val efnis frétta, hljómlistar, kvikmynda o.sv.frv.? Á að færa ákvörðunartökuna nær fólkinu sjálfu með aðstoð nýrra rekstrarforma sem fela í sér nýja og áður óþekkta valddreifingu á þessu sviði fjölmiðlunar hérlendis? Á víðsýni og framfarahugur að fá að ráða? Eða á að viðhalda stöðnuðu ríkisrekstrarformi, þar sem starfsmenn ráða takmörkuðu en yfir vötnum svífur andi pólitískra hagsmuna?“ Spurning Guðmundar svaraði sér sjálf: Auðvitað áttu hinir vitru og spöku — vöggugjafarþegarnir — að ákveða hvað þjóðin barði eyrum. Dylgjur um pólitíska slagsíðu dæmdu sig sjálfar því eins og allir vita hefur aldrei neitt slíkt verið uppi á teningnum hjá hinum hlutlausa ríkismiðli allt fram á þennan dag.
Ekki voru greidd atkvæði um frumvarp Guðmundar. Það lognaðist útaf í nefnd. Diskóhugsjónin rættist ekki í bili.
Er vonin úti eftir þrjú röng svör? Ekki úti, en hún er komin í anddyrið. Er vonin úti eftir tvö röng svör? Nei, þú átt enn möguleika. Er vonin úti eftir eitt rangt svar? Aldeilis ekki. Vonin er góð. Ekki þarf að taka fram að vonin er mjög góð eftir þrjú rétt svör. Ef þú svarar næstu spurningum rétt er vonin ein ekki eftir.