Miðvikudagur 25.11.2015 - 16:42 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin IV — Sykurvitrun

Kunningi minn kom að máli við mig og sagði að þótt að hann teldi sig vita manna best hvað öðru fullorðnu og sjálfráða fólki er fyrir bestu kannaðist hann ekki við að hafa fengið vöggugjöfina góðu í fæðingargjöf. „Hvernig stendur á þessu?“ sagði hann.

Á þessu er einföld skýring. Þótt vöggugjöfin sé meðfædd er ekki þar með sagt að menn opni hana strax við fæðingu. Sumir fara í gröfina án þess að hafa orðið hennar varir og dæmi eru um að gjöfin hafi fundist á fullorðinsárum, jafnvel ofarlega. Það gerist þó aðeins við sérstakar og algjörlega magnaðar aðstæður. Aðstæðurnar eru ekki ósvipaðar þeirri hátíðlegu og kærleiksríku stund á aðfangadagskvöld þegar skipst er á pökkum að lokinni oft strembinni aðventu. Aðdragandinn er hinsvegar ólíkur aðventunni að því leyti að hann er miklu sársaukafyllri og stundum lífshættulegur. Aðdragandinn getur verið langur — jafnvel mörg ár — og hann getur líka verið stuttur — fáeinir mánuðir eða vikur — en hann er alltaf ferðalag. Nú fara flestir í mörg ferðalög á ævinni og snúa heim visku-, fróðleik- og reynslu ríkari. En það er aðeins í undantekningatilvikum að ferðalangar fái vitrun. Vitrunin er að sjá skyndilega skýrt og greinilega hvað öðrum, betur en þeim sjálfum, er fyrir bestu. Vitrunin er vöggugjöfin sem var þarna allan tímann en átti bara eftir að opna.

Þessi kunningi minn misnotaði sykur í mörg ár sér og sinni fjölskyldu til mikils ama en þó aðallega heilsunni. Þegar fokið var í flest skjól sá hann loks að sér og hætti að borða sætindi með aðstoð góðra manna. Eftir það ferðalag fékk hann vitrun. Vitrun sem lýsir sér í því að hann vill leggja háan skatt á sykur og selja hann í sérstökum ríkisverslunum með takmörkuðum opnunartíma og auglýsingabanni. Hann telur sykur vera mesta fjanda mannkyns og vill ekki að ég eigi of auðvelt með að nálgast hann. Það sé mér sjálfum fyrir bestu. Hann sé besta dæmið um það. Ég benti honum á að ég borði ekki sykur í óhófi og hefði ólíkt honum stjórn á sykurneyslunni. Hann sagði það misskilning og sjálfsblekkingu, ég gerði mér enga grein fyrir hve mikinn sykur ég borði og hve mikil hætta mér stafar af honum. „Já, en–“ sagði ég, en hann greip fram í fyrir mér og sagðist vita betur og af því að hann viti betur sé fullkomlega eðlilegt að hann ráði ferðinni í þessum efnum.

Flokkar: Dægurmál · Lífstíll · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur