Miðvikudagur 20.01.2016 - 04:46 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin V — Kynvitrun

Stundum er sagt að reynslan sé besti kennarinn og er vitaskuld átt við að þín reynsla sé minn kennari. Það er að minnsta kosti mat snillinganna okkar, spakvitringanna, sem vita fyrir vitrun eða meðfædda gáfu — nema hvort tveggja sé — hvað okkur hinum er fyrir bestu, betur en okkur sjálfum.

Fátt er göfugra og virðingarverðara en maður sem af einstakri fórnfýsi tekur af okkur hinum ómakið við að læra af reynslunni. Mér vöknar um hvarma við tilhugsunina. Þakklæti verkar of smátt orð í þessu samhengi, en ég verð að láta það duga.

Margir eiga þakkir skyldar, en þar sem kynferðismál eru í deiglunni langar mig að þakka manni að nafni Charles Kane fyrir það sem hann gekk í gegnum. Reynsla hans er ekki ósvipuð reynslu dæmigerðs alkóhólista sem fórnar alkóhólistalíferni, finnur vöggugjöfina og fær vitrun. Ef eitthvað er færði Charles Kane jafnvel meiri fórn en margur alkinn nokkurn tíma hefur gert. Hvað var það sem Charles Kane fórnaði? Aðeins þeir sem hafa manndóm í sér til að lesa lengra komast að því.

Charles Kane hét reyndar Sam Hashimi framan af ævi (hann er fæddur 1960). Hann er af íröksku foreldri og óx úr grasi í Bagdað. Sam hafði mikinn áhuga á fótbolta og stelpufötum og klæddist kjólum systur sinnar í laumi. Á unglingsárum fluttist hann búferlum til Englands, lærði til verkfræðings, kvæntist breskri konu, Trudi, og eignaðist með henni tvö börn. Um nokkurra ára bil var hann farsæll og umsvifamikill í viðskiptum og fyrirtækjarekstri en svo harðnaði á dalnum og hann lenti í kröggum.

Þegar Sam og Trudi höfðu verið gift í nokkur ár trúði hann henni fyrir því að hann nyti þess að klæðast kvenmannsfötum. Í fyrstu var hún skilningsrík en fljótlega kulnaði glóð ástarinnar og hún fór fram á skilnað. Þótt skilin væru bjuggu þau í sama húsi, en um leið og Trudi kynntist nýju manni rak hún Sam á dyr. Eitthvað hlýtur að hafa gengið á því Trudi fékk á hann nálgunarbann sem kom í veg fyrir að hann nyti samvista við börnin. Hann gerðist brotlegur við bannið og sat um hríð í fangelsi.

Sam átti bágt. Hann var þunglyndur og ráðvilltur. Hann bjó á farfuglaheimili og leitaði félagsskapar á veitingastað sem hommar, lesbíur og transfólk sótti. Þar var honum leitt fyrir sjónir hve sællegt það væri að vera kona, bæði í kynlífi og daglegu lífi. Hann reif sig upp úr volæðinu og í samstarfi við fyrrum viðskiptafélaga setti hann á stofn byggingafyrirtæki. Þegar hjólin voru farin að snúast á ný og nægir peningar komnir í budduna fór Sam á fund Dr. Russell Reids, sérfræðings í kynleiðréttingum, og óskaði eftir að gangast undir slíka aðgerð eins fljótt og auðið væri. Russel lagði blessun sína yfir fyrirætlanir Sams. Í aðdraganda sjálfrar aðgerðarinnar lét Sam gera nefið kvenlegra, stilla sjónina, rétta tennurnar og eyða skeggrótinni. Hann lét fjarlægja barkakýlið, strekkja á raddböndunum og stækka brjóstin. Loks kom að aðgerðinni þar sem kynfærunum var breytt.

Þegar 1998 gekk í garð var Sam orðinn að Samönthu, glæsilegri konu sem vafði karlpeningnum um fingur sér hvar sem hún kom. Hún hélt áfram fasteignaviðskiptunum, titlaði sig innanhússhönnuð og lifði í vellystingum bæði í Bretlandi og Frakklandi.

Sam-Sam-Charles-MyndabannerAð nokkrum árum liðnum var Samantha farin að sjá eftir að hafa látið leiðrétta kyn sitt. Hormónalyfin ollu skapsveiflum og kynlífið var ekki eins ánægjulegt og vonir stóðu til. „Satt að segja fannst mér það að vera kona frekar þunnur þrettándi,“ sagði hún. „Allt snýst um útlitið, annað fellur í skuggann. Ég hafði engann áhuga á búðarrápi. Vinkonur mínar gátu verið klukkustundum saman í tískubúðum. En þar sem ég hafði áður verið karlmaður, vissi ég nákvæmlega hvað það var sem passaði mér og hvað karlmenn höfðu þokka á. Það tók mig ekki nema fáeinar mínútur frá því ég fór inn í fatabúð og þar til ég var komin út með rétta klæðnaðinn. Þar að auki hef ég aldrei haft neinn áhuga á glanstímaritum eða öðrum áhugamálum kvenna. En ef ég reyndi að fitja upp á samræðum við fyrrverandi kynbræður mína um það sem strákar tala helst um, fótbolta, stjórnmál og kvenfólk, gáfu þeir mér hornauga.“

Eftir að upp úr sambandi Samönthu og unnustans, auðugs landeiganda, slitnaði 2004, horfðist hún í augu við að kynleiðréttingin var mistök. Hún dró þá ályktun að kynskiptin hafi ekki stafað af löngun til að verða kona heldur órar gerðir að veruleika. Raunveruleg transmanneskja væri svo staðföst í að verða kvenmaður að hún léti það ekki trufla sig þótt hún „liti út eins og akfeitur vörubílstjóri,“ eins og hún komst að orði. Ennfremur sagði hún að þeir sem teldu sig vera kona fastir í karlmannslíkama væru með alvarlegar ranghugmyndir. „Ég þurfti á ráðgjöf að halda, ekki kynskiptiaðgerð.“ Sökin á mistökunum var að hluta til hjá Russell Reid lækni sem hafi gengið of greiðlega að óskum hennar á sínum tíma þegar hún var í sárum eftir skilnaðinn, gjaldþrot og forræðisdeilur.

Samantha lét breyta sér aftur í karlmann og tók sér nafnið Charles. Ekki leið á löngu þar til Charles kynntist ástinni á ný, konu sem heitir Viktoría. Aðspurður sagðist Charles nýta sér margt af reynslu sinni frá því hann var kona í nýja sambandinu. Hann skilji konur miklu betur en áður.

Með alla þessa óvenjulegu reynslu í farteskinu fékk Charles vitrun; fann sína vöggugjöf eins og stundum gerist hjá áfengissjúklingum sem hætta að drekka og lífskúnstnerum sem hætta að borða sykur. „Eftir allt sem ég hef gengið í gegnum finnst mér að kynskiptiaðgerðir ætti ekki að leyfa heldur banna,“ sagði hann.

Charles Kane vill fyrir enga muni að aðrir gangi í gegnum það sama og hann og vill hindra með öllum tiltækum ráðum. Hætt er við að einhverjum þyki það ósanngjarnt að mega ekki prófa að vera kona um stund ef á því er kostur. En, það er vitaskuld óþarfi. Charles Kane er búinn að gera þetta fyrir okkur. Hann tók að sér að ganga í gegnum reynsluna svo við þyrftum þess ekki. Það er nóg — ekki satt?

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · Lífstíll · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur