Þriðjudagur 26.01.2016 - 04:56 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin VI — Mungát?

Þá snúum við aftur að hörmung þeirri þegar mungát var aftur leyft í landinu eftir 75 ára yndislega fjarveru. Þrátt fyrir viðvaranir vitringa og snillinga var það á einhvern óskiljanlegan hátt leyft aftur. Þjóðin, mannlífið og menningin hefur ekki borið sitt barr síðan. Ef við viljum sporna við fótum og forðast frekari hnignun þjóðlífsins (til dæmis ef einkaleyfi ríksins til smásölu á víni verður tekið af því) verðum við að hefja spámennina okkar á þann stall sem þeim ber og fara að leiðsögn þeirra. Framtíð kvenna, barna og gamalmenna þessa lands er undir.

Snillingsprófið – fjórða spurning

Vildir þú á árabilinu 1967 til 1978 að bjór væri leyfður í landinu?

__ Já.

__Nei.

AfstadaThingmanna1978Ef svarið er „nei“ ertu kominn vel á veg með að geta talist ofurmannlegur snillingur sem sérð lengra nefi þínu hvað öðrum fullorðnum og sjálfráða einstaklingum er fyrir bestu. Þú ert sem fyrr í frábærum félagsskap valinkunnra vitringa. Í spurningu sem Vísir lagði fyrir þingmenn 1978 hvort leyfa ætti bjór sagði Bragi Sigurjónsson: „Ég hef alla tíð verið á móti bjór og verð það þar til ég dey.“ Ekki er annað vitað en Bragi hafi staðið við þá fullyrðingu þótt hann hafi dáið eftir að bjórinn var leyfður. Alexander Stefánsson var heldur á móti en þó ekki sáttur við ástandiðÁrni Gunnarsson, Jónas Árnason og Karl Steinar Guðnason voru á móti. Bragi NíelssonEðvarð SigurðssonFinnur Torfi Stefánsson og Friðjón Þórðarson, voru sömuleiðis á þeirri skoðun að bjórlaust Ísland væri betra land. Kjartan Ólafsson sagði málið minniháttar og vildi ekki breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Benedikt GröndalMatthías Á. MatthiesenLúðvík Jósepsson, Geir Gunnarsson, Ingvar GíslasonGils Guðmundsson og Vilhjálmur Hjálmarsson voru sem fyrr á móti. Vilhjálmur sagði: „Því fleiri sortir þeim mun verra.“ Matthías Bjarnason virtist hafa skipt um skoðun því hann var með bjórnum á þingi tíu árum fyrr. Einnig voru á móti Oddur Ólafsson, Guðmundur KarlssonEggert Haukdal, Ólafur Jóhannesson, Tómas Árnason, Helgi SeljanÞórarinn Sigurjónsson, Stefán Jónsson, Svava JakobsdóttirStefán Valgeirsson, Jón HelgasonAlbert Guðmundsson og Ragnhildur HelgadóttirJóhanna Sigurðardóttir var á móti bjór en taldi að þjóðin ætti að greiða um það atkvæði (en greiddi þó atkvæði gegn tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu 1988). Ólafur Ragnar Grímsson sagði: „Ég er ákaflega tortrygginn á að leyfa bjór hér á landi. Ég held að það myndi breyta drykkjusiðum til verri vegar, og m.a. leiða til þess að menn drykkju við vinnu.“ Páll Pétursson frá Höllustöðum taldi líklegt að hann yrði á móti.

AlthingismennBanner1978aEf svo óheppilega vill til að svarið er „já“ er farið að halla verulega á ógæfuhliðina. Sömu lánleysingjarnir og þú eru Ágúst Einarsson, Einar Ágústsson, Magnús Magnússon, Ólafur G. Einarsson, Ragnar Arnalds, Geir Hallgrímsson, Steingrímur Hermannsson, Vilmundur Gylfason, Friðrik Sophusson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Halldór Blöndal, Garðar Sigurðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Jón G. Sólnes. Í þessum hópi má vart má á milli hvor var meiri kjáni, Jón G. Sólnes eða Vilmundur Gylfason vegna þess að Jón sagði að hann hefði „á undanförnum árum margreynt að fá aðra þingmenn til að heimila bjór hérlendis,“ á meðan Vilmundur lýsti sig meðmæltan bjórfrumvarpi og sagðist myndi flytja það sjálfur ef Jón léti ekki verða af því.

TilBjorsins1978Sumir þingmanna voru hlutlausir eða hölluðust á aðra hvora hliðina án þess að gera afstöðu sína ljósa. Meðal þeirra voru Eiður Guðnason sem var heldur með bjór ef eitthvað er að marka ummæli hans: „Ég [hef] aldrei séð að á því væri neinn eðlismunur að útsölur Áfengisverslunar ríkisins, sem nú selja bæði létt og sterk vín, seldu einnig áfengan bjór.“ Kjartan Jóhannsson, Sighvatur Björgvinsson, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, Gunnar Thoroddsen og Jósef Halldór Þorgeirsson voru hlutlausir en Svavar Gestsson sagði: „Ég greiði ekki atkvæði“ sem hlýtur að teljast hlutleysisyfirlýsing. Ellert B. Schram og Halldór E. Sigurðsson lýstu ekki eigin skoðun en vildu leggja málið í dóm þjóðarinnar eins og Jóhanna. Pálmi Jónsson var hlutlaus en af orðum hans — „Ég greiddi á sínum tíma atkvæði með bjórfrumvarpi sem lagt var fram. Hvort ég gerði það aftur ylti á því hvernig slíkt frumvarp yrði úr garði gert“ — má ráða að hann sé fremur röngu megin en réttu. Sama má segja um Hjörleif Guttormsson. Hann lýsti yfir hlutleysi, en taldi þó að áfengt öl myndi ekki „stórspilla frá því sem er.“

Muldraðirðu ef til vill „já“ í barminn? Ekki bugast! Ekki láta hugfallast þótt þú hafir gert þig sekan um að vera ósammála fyrirferðarmestu spámönnum stjórnmálalýðs lýðveldis okkar. Ef þú svarar næstu spurningum rétt gætirðu hugsanlega, mögulega, kannski talist til góða hópsins þar sem botnlaus framsýnin, ofurmannleg skynsemin og takmarkalaus fórnfýsin skín úr hverju andliti.

Visir1978Myndskr

Flokkar: Dægurmál · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur