Mánudagur 29.02.2016 - 21:36 - FB ummæli ()

Öldrykkja barna

En þetta byrjaði allt 1932. Um vorið lagði Jón Auðunn Jónsson alþingismaður fram frumvarp um að leyfa bruggun, sölu og meðferð áfengs öls. Meðflutningsmenn voru Bergur JónssonÓlafur ThorsLárus Helgason og Jónas Þorbergsson. Það sofnaði í nefnd. Sömu þingmenn lögðu frumvarpið aftur fram á næsta þingi. Á þessum árum var bjór og sterkvín bönnuð, en léttvín, svokölluð Spánarvín, höfðu verið á borðum landsmanna frá 1922.

Í greinargerð sagði meðal annars: „það er kunnugra en frá þurfi að segja, að innflutningur og notkun hinna svonefndu Spánarvína fer hraðvaxandi, samhliða því, að óleyfileg bruggun eykst í landinu. Öl verður að teljast meðal hinna meinlausustu drykkja, þeirra, sem áfengi er í, og telja margir líklegt, að ef leyft væri að framleiða hér áfengt öl, mundi það draga úr notkun Spánarvínanna. […] Önnur aðalástæðan fyrir þessu frumvarpi er því að gera tilraun til að draga úr innflutningi áfengra drykkja, en hin aðalástæðan er að bæta úr sívaxandi fjárþörf ríkissjóðs.“

AlthingismennBanner1932aFrumvarpið sætti nokkurri gagnrýni: „Það [hefur] reynst blekking ein, að fiskmarkaðurinn á Spáni yrði Íslendingum hagstæður framvegis, ef leyfður yrði innflutningur Spánarvína. Hitt hefir aftur á móti sannast á sorglegan hátt, sem andstæðingar Spánarvínaflóðsins héldu þegar í stað fram, að fjöldi kvenna og unglinga myndi verða því að bráð og Spánaráfengið verða tálbeita fyrir óþroskað fólk, sem drægi það til nautnar annara sterkari drykkja.“ Skrifaði Guðmudur Ragnar Ólafsson úr Grindavík í Alþýðublaðið.

Afengisflod1933Guðmundur hafði rétt fyrir sér. Það eru fyrst og fremst konur og unglingar sem þarf að hafa vit fyrir. Spakur maður Guðmundur og skipar sér í sveit þeirra sem fengu botnlausa visku og framsýni í vöggugjöf.

Síðar í greininni segir hann: „Á því er enginn vafi, að slíkt áfengt ölflóð myndi verða til þess að kenna fjölda fólks áfengisdrykkju, einkum þó unglingum, í viðbót við ölæði af drykkju þess sjálfs, myndi það tendra upp löngun ósjálfstæðs fólks í aðra sterkari drykki, svo sem reynslan hefir margsannað. Það er hin mesta falskenning, sem flutningsmennirnir halda fram í greinargerð frumvarpsins, að áfenga ölið myndi draga úr notkun annars áfengis, Það myndi þvert á móti, draga til aukinnar notkunar á sterkari drykkjum.“

Fleiri gagnrýndu frumvarpið og var Vilmundur Jónsson landlæknir og alþingismaður atkvæðamestur. Flutti hann vel orðaða ræðu gegn bjórnum undir titlinum „Áhrif öldrykkju á aðra áfengisnautn.“ Sagði Vilmundur að því meira sem drukkið væri af öli, því meira væri drukkið af léttum vínum og líka af brenndum drykkjum. Hann sagði ennfremur að börn myndu drekka bjór ef hann væri leyfður.

TveirMennVilmGudmundurAnnar læknir (og fyrrum alþingismaður), Guðmundur Hannesson staðfesti fullyrðingar stuðningsmanna bjórsins um að ef öl væri leyft myndi neysla annars áfengis minnka. „Frá 1881-1910 hefir þá ölnautn farið stöðugt vaxandi, nálega þrefaldast, vínnautn og neysla brendra drykkja minkað um því sem næst helming. Það verður ekki annað af þessum tölum ráðið, en að landlæknir fari með algerlega rangt mál,“ skrifaði Guðmundur í grein í Morgunblaðinu. Á línuritinu hér fyrir neðan sést þessi þróun vel.

Áfengisneysla-1880-1913NetVarðandi öldrykkju barna sagði Guðmundur að Vilmundur hefði þar einnig rangt fyrir sér: „Jeg hefi verið hjer skólalæknir í fleiri ár áður en bannið kom [1915]. Þó flóði hér allt í öli, en aldrei rakst jeg á eitt einasta barn, sem neytti áfengis svo á bæri.“

Það fór fyrir þessu frumvarpi sama og hinu fyrra, það var svæft í nefnd.

Guðmundur R. Ólafsson og Vilmundur Jónsson lifðu það ekki að sjá afleiðingar þess á börn og unglinga þegar mungát var aftur leyft á Íslandi. Þeir myndu eflaust reka upp stór augu ef þeir sæu hve áfengisdrykkja unglinga hefur minnkað mikið síðan bjórinn var leyfður. Dómur sögunnar er sá að Guðmundur Hannesson hafði rétt fyrir sér, amk. hvað barna- og unglingadrykkju varðar.

UnglingadrykkjaB

Áfengisneysla-Unglinga

Snillingsprófið – bónusspurning

Vildir þú á árabilinu 1932 til 1947 að bjór væri leyfður í landinu?

__ Já.

__Nei.

Ef þú svaraðir neitandi, ertu sannarlega réttu megin í lífinu. Þú ert gæddur miklu innsæi og einnig trú á að það sé hægt að stjórna drykkjuvenjum og öðrum ósiðum samborgaranna. Fyrir það ættirðu að fá orðuna sem kennd er við fálka. Þú ert sannkallaður fálki!

Hafirðu hins vegar svarað bónusspurningunni játandi, ertu vesalingur sem gerir þér enga grein fyrir hve mikilvægt það er að stjórna fíkn annarra, ef ekki með góðu, þá með boðum og bönnum og hörðum refsingum. Svei þér.

Flokkar: Dægurmál · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur