Miðvikudagur 18.05.2016 - 00:08 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin IX – Bjór

Á vorþinginu 1988 dúkkaði enn upp frumvarp um að leyfa bjór, nú undir forystu Ólafs G. Einarssonar. Andstæðingar bjórsins reru orðið gegn straumnum því samkvæmt skoðanakönnunum vildi yfir helmingur landsmanna nú sjálfur getað sagt „nei takk“ við bjór rétt eins og honum var treyst til að segja „nei takk“ við léttvínsglasi og „nei takk“ við vodkastaupi.

FelogMotmaela1988Sem betur fer var andstaðan mjög hörð. Óverðskuldaður skotspónn nóbelsskáldsins okkar, kvenfélögin, voru sem fyrr áberandi meðal þeirra sem vissu best hvað öðrum er fyrir bestu. Kvenfélag Gnúpverjahrepps skoraði til dæmis á Alþingi að hafna frumvarpinu. „Félagskonur óttast að við innflutning á bjór aukist mjög drykkja almennt, auk þess sem innflutningur til landsins sé nógur fyrir“ sagði í tilkynningu. Fjölmargir læknar voru á sömu skoðun. Margir þeirra voru á kafi í áfengisbölinu og litu á bjórinn sem óþarfa viðbót við það böl og höfðu ýmsar tölulegar staðreyndir (aukin drykkja, meiri eymd osfrv.) tiltækar máli sínu til stuðnings. Á meðal þeirra voru Þórarinn Tyrfingsson, Tómas Helgason, Jóhannes Bergsveinsson og Guðsteinn Þengilsson.

Á Alþingi Íslendinga voru sem betur fer nokkrir andlegir þungavigtarmenn sem vildu segja „nei takk“ við bjór á línuna. Þeir sáu ekki frekar en aðrir snillingar og vitringar ástæðu til að treysta hverjum og einum sjálfráða Íslendingi fyrir því. Eins og við var að búast fór Ólafur G. Einarsson með sömu rulluna og aðrir flytjendur bjórfrumvarpa: 1. bæta drykkjumenninguna. 2. styðja við íslenskan iðnað, 3. afla ríkinu tekna, 4. minnka ólöglegan innflutning og brugg og 5. samræma áfengislöggjöfina. Bla, bla, bla.

TveirMennSteingrSverrirSverrir Hermannsson var einn þeirra þingmanna sem þó höfðu farið til útlanda og séð með eigin augum hvað bjórinn lék Dani grátt. Hann vildi ekki gefa bjórnum kost á að leika Íslendinga grátt. Fyrr frysi í helvíti. Í þrumandi þingræðum sagði hann meðal annars að „sala og almennur aðgangur að bjór mundi þýða að unglingar mundu í stórauknum mæli neyta áfengis.“ Og: „Næstum því í öllum tilvikum er það svo að til ofneyslu áfengis megi rekja áframhaldandi neyslu vímuefna, annarra og stórhættulegra, vegna þess að alkóhólið er að sínu leyti ekki mjög háskasamlegt eitur. En það leiðir til þess arna. Og bjórinn er undanfari allrar frekari áfengisneyslu.“ Og: „En það er niðurstaða vísindalegrar rannsóknar að þetta er lúmskasta áfengið, þetta er lúmskasta tegund áfengis sem á borð er borin.“

Ef til vill var skemmtilegasti hluti bjórumræðu Sverris ummæli hans um einn stuðningsmanna frumvarpsins, Guðrúnu Helgadóttur, en hann uppnefndi hana ölkyrju: „Ölkyrja er myndað eins og valkyrja. Valkyrja er kona orustunnar, sú sem kýs sér val. Ölkyrja er þess vegna kona ölsins, sú sem kýs sér ölið.“ Sverrir lét ekki aftra sér eins og svo margir andstæðingar bjórsins að nota skotheld tilfinningarök.

AlthingismennBanner9Að lokum gerði Sverrir orð Bismarks að sínum og sagði: „Ef þetta mál á að ganga fram, þá er það verra en glæpur. Það er heimska.“ Sagan ein getur dæmt um það hvort fullyrðingar Sverris Hermannssonar stóðust.

Eins og Sverrir hafði Steingrímur J. Sigfússon líka komið til útlanda, nánar tiltekið Svíþjóðar með blakliði og séð með eigin augum ástandið þar. Ekki leist honum vel á. En Steingrímur hugsar í lausnum, það má hann eiga: „En það sem mundi valda straumhvörfum og hafa í för með sér stórfelldar breytingar á áfengisneyslunni og neysluforminu hér á landi yrði ef hér yrðu leyfðar ölstofur eða krár á öðru hverju götuhorni þar sem áfengi væri afgreitt án þess að menn þyrftu t.d. að kaupa sér mat eða með öðrum hætti að dvelja þar lengur við.“

Þetta var vitaskuld mikilvægt atriði að hafa í huga, einkum fyrir þingmenn, að ef öl skyldi verða leyft að skikka þá menn með lögum til að borða mat með því. Að vísu er ákveðin hætta á að slíkt fyrirkomulag færi gegn lýðheilsustefnu ríkisins sem miðar að því að forða þjóðinni frá offitufaraldrinum. Til að vega upp á móti því ef svo ólíklega vildi til að bjórinn yrði leyfður mætti setja í lög að með hverjum seldum bjór yrði að fylgja til dæmis ein skál af hollustu, til dæmis hafragraut, og ein matskeið af þorskalýsi (eða þrjár bragðbættar lýsispillur). Það mætti gera út eftirlitsmenn á vegum ríkisins sem fylgdust með því á ölstofum að enginn svikist um að borða grautinn og taka lýsið ef hann pantaði kollu. Hvað sem þessum vangaveltum líður þá vekur það óneitanlega upp spurninguna hversu mikið vit þingmenn eiga yfirleitt að hafa fyrir þjóðinni. Verður ekki einhversstaðar að draga mörkin? Steingrímur J. Sigfússon vissi það. Hann vildi ekki daga nein mörk. Það er þægileg tilhugsun að einhver skuli vera svona fórnfús, góðviljaður og gáfaður að geta hugsað fyrir heila þjóð niður í smæstu smáatriði.

AlthingismennBanner8Steingrímur skammaðist sín ekkert fyrir að vilja hugsa fyrir aðra, en ýmsir vanstilltir kjánar höfðu á orði að það væri ekki hans hlutverk. „Hvað eru menn yfirleitt að gera á Alþingi?“ spurði Steingrímur þessa sömu kjána. „Með næstum því hverri einustu ákvörðun sinni hér eru menn að hafa vit fyrir þjóðinni í vissum skilningi þess orðs. Menn eru að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á líf og störf og umhverfi fólksins í landinu næstum því ævinlega — eða eru menn ekki að hafa vit fyrir þjóðinni þegar þeir t.d. taka ákveðnar ákvarðanir eins og er verið að ræða uppi í Efri deild um ráðstafanir á skattfé hennar? Auðvitað. Þetta er furðulegur málflutningur og barnalegur.“

Steingrímur var ennfremur með snjalla lausn í anda bannáranna á bjórlekanum til landsins með flugliðum og farmönnum: „Ég treysti mér ekki til að standa að því að leyfa áfengt öl á Íslandi með þeim hætti sem hér er flutt tillaga um og er þess í stað reiðubúinn að taka þátt í að afnema þann ólöglega innflutning sem ég tel að eigi sér stað inn í landið á grundvelli hæpinna reglugerðarákvæða sem að mínu mati fá ekki staðist í anda áfengislaganna. Væru þá allir jafnir fyrir lögum og málið stæði þá þannig að annaðhvort hefðum við hér á Íslandi áfengt öl eða ekki.“

Greidd voru atkvæði um bjórfrumvarpið á Alþingi 10. maí 1988. Voru Karl Steinar Guðnason, Egill Jónsson, Guðrún Agnarsdóttir, Jón Helgason, Margrét Frímannsdóttir, Skúli AlexanderssonÞorvaldur Garðar Kristjánsson og Svavar Gestsson á móti.

Ef þeir hefðu ekki verið farnir heim að sofa (atkvæðagreiðslan fór fram upp úr miðnætti) hefðu þessir þingmenn greitt atkvæði gegn frumvarpinu, en þeir greiddu atkvæði gegn því í þriðju umræðu: Steingrímur J. SigfússonAðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Albert Guðmundsson, Alexander Stefánsson, Árni Gunnarsson, Birgir Dýrfjörð, Friðjón Þórðarson, Geir Gunnarsson, Hreggviður Jónsson, Jón Sigurðsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Óli Þ. Guðbjartsson, Páll Pétursson, Ragnhildur HelgadóttirSverrir Hermannsson, Þórhildur Þorleifsdóttir og  Stefán Valgeirsson. Stefán gerði grein fyrir atkvæði sínu með ferskeytlu:

Vímulaus æska,
sú von deyr ei.
Ég vil ekki bjórinn.
Ég segi nei.

TveirMennStefanSvavarEftirtaldir þingmenn geta ekki talist til þeirra sem fengu vit til að hafa botnlaust vit fyrir öðrum: Danfríður Skarphéðinsdóttir, Eiður Guðnason, Jón Magnússon, Guðmundur Ágústsson, Guðmundur H. Garðarsson, Halldór Ásgrímsson, Halldór Blöndal, Jóhann Einvarðsson, Júlíus Sólnes, Karvel Pálmason, Salome Þorkelsdóttir, Stefán Guðmundsson og Valgerður Sverrisdóttir.

Þessir þingmenn höfðu áður samþykkt frumvarpið í þriðju umræðu og þar með staðfest snillingsleysi sitt: Birgir ísleifur Gunnarsson, Einar Kr. Guðfinnsson, Eggert Haukdal, Friðrik Sophusson, Geir H. Haarde, Guðmundur Bjarnason, Guðmundur G. Þórarinsson, Guðni Ágústsson, Guðrún Helgadóttir, Hjörleifur Guttormsson, Ingi Björn Albertsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, Jón Kristjánsson, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Matthías Á. Mathiesen, Ólafur G. Einarsson, Pálmi Jónsson, Ragnar Arnalds, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur Hermannsson og Þorsteinn Pálsson.

BjorfrumvarpSamthINottFrumvarpið var samþykkt með 13 atkvæðum gegn 8. Bjórinn var leyfður aftur eftir 75 ára bann. Svavar Gestsson sagði þegar niðurstaðan var ljós: „[Þetta er] dapurleg lífsreynsla fyrir mig, bæði sem foreldri og þingmann og ég tel að mikið óhappaskref hafi verið tekið hér.“

Bjórinn hefur verið seldur löglega í ríkiseinkasölum á Íslandi síðan 1. mars 1989.

Snillingsprófið – lokaspurning

Telur þú að það eigi að banna bjórinn aftur?

__ Já.

__Nei.

Ef svarið er „nei“ ertu á villigötum. Það svar er rangt og hafir þú svarað rangt hingað til, er vonin úti. Þú fékkst ekki vöggugjöfina góðu. Þú mátt þakka fyrir að vita hvað þér er fyrir bestu og hugsanlega börnunum þínum, en þú hefur enga hugmynd um hvað öðru fullorðnu og sjálfráða fólki er fyrir bestu.

Ef svarið er „já“ ertu búinn að gulltryggja að þú ert meðal þeirra sem fengu óendanlega djúphylgi, botnlausa framsýni og ofurmannlega dómgreind í vöggugjöf. Þú svaraðir rétt. Þú veist manna best hvað öðrum er fyrir bestu, betur en þeim sjálfum. Þú ættir að vera einræðisherra Íslands þú ert svo klár.

Og sagan sýnir að vöggugjafarnir höfðu rétt fyrir sér með bjórinn — ekki satt?

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur