Eins og alþjóð veit, eða amk. ætti að vita, sömdu leigubílstjórar sjálfir frumvarp til laga sem færði félagsmönnum stéttarfélags þeirra, Hreyfli, einokunaraðstöðu á markaðnum. Með þessari stuttu og úthugsuðu ritsmíð skutu leigubílstjórar rithöfundum ref fyrir rass. Rithöfundum þessa lands sem maður fyrirfram hefði haldið að myndu beita stílfærni sinni og útsjónarsemi við að tryggja afkomu sína og velferð í harðri og óvæginni samkeppni. En nei. Þarna voru rithöfundar aldeilis teknir í bólinu.
En það er ekki of seint um rassinn gripið þótt yfir sex áratugir séu liðnir frá þessu snjalla útspili leigubílstjóranna. Það er ekkert því til fyrirstöðu að semja lög sem gefa rithöfundum sem fyrir eru í RSÍ einokunaraðstöðu í bókaskrifum. Eina sem þarf að gæta að er að orða frumvarpið þannig að þingmenn trúi því að verið sé að koma skikki á atvinnugreinina, auka öryggi almennings og spara ríkissjóði fé. Þingmenn munu að sjálfsögðu fagna því ef sérhagsmunaaðilar taka af þeim ómakið við að semja frumvörp. Nóg hafa þeir á sinni könnu.
Texti frumvarpsins gæti hljómað eitthvað á þessa leið:
Frumvarp til laga um rithöfunda á Íslandi.
[Mögul.] Flm.: Guðmundur Andri Thorsson, Katrín Jakobsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Óli Björn Kárason.
1. gr.
Rithöfundar á Íslandi, hvort sem þeir þýða bækur, skrifa ævisögur, skrifa spennu-,barna,- fræði-, ljóða- eða smásögubækur, skulu aðeins gefa út rit, sem hafa fengið viðurkenningu ríkisstjórnar.
Ríkisstjórnir skulu, að fengnu samþykki dómsmálaráðuneytisins, hafa heimild til að takmarka fjölda aðila þeirra er greinir í 1. málsgr.
Bloggarar og „virkir í athugasemdum“ falla ekki undir ákvæði þessara laga.
2. gr.
Dómsmálaráðuneytið skal kveða nánar á um takmörkun skv. 1. gr. með reglugerð.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Greinargerð.
„Frv. þetta er flutt að tilmælum stjórnar Rithöfundasambands Íslands, RSÍ. Fylgir því svohljóðandi greinargerð:
Við undirrituð höfum athugað, hvort nauðsyn bæri til þess að skipuleggja ritstörf hér á landi hjá rithöfundum, aðallega með það fyrir augum, hvort nauðsynlegt væri að setja löggjöf um takmörkun þeirra.
Við athugun höfum við sannfærst um það að atvinnumöguleikar fyrir rithöfunda eru mjög takmarkaðir eins og nú er, miðað við þann fjölda bóka sem gefnar eru út nú.
Aðilar sem telja sig vera rithöfunda hér á landi eru nú um 330 þúsund, og virðist það vera mun fleiri rithöfundar en nokkur þörf er fyrir. Er því fyrirsjáanlegt, að brýn nauðsyn beri til þess að takmarka fjölda rithöfunda við þá sem fyrir eru í RSÍ, eigi að vera nokkur möguleiki til þess að menn sem stunda ritstörf sem aðalatvinnu, geti haft það sér og sínum til lífsframfæris, enda tíðkast í mörgum menningarlöndum að útgáfa bóka er takmörkuð með löggjöf eða öðrum hætti.
Í þessu sambandi má einnig benda á það, að með því að binda við þessi störf fleiri menn en nauðsyn krefur á hverjum tíma fer geysilega mikið vinnuafl til ónýtis, auk þess sem við þessi ritstörf eru bundnar miklu fleiri tölvur en þörf er á, en það leiðir að sjálfsögðu af sér sóun á rafmagni og aukinn innflutning á alls konar rekstrarvörum tölvubúnaðar.
Loks má benda á það, að fjöldi manna hefur lagt mikið fé í að kaupa sér dýrar tölvur í þeirri von að rithöfundarferill þeirra verði glæstur og arðvænlegur, en margir þessara manna hafa síðan komist í miklar fjárkröggur vegna þessa en af því hefur oft og einatt leitt allskonar spillingu, sem hægt væri að komast hjá með því að takmarka tölu rithöfunda við lesþörfina og tryggja þannig að fullu hagnýtingu vinnuafls og tækja í þessari starfsgrein.
Með tilvísun til framanritaðs erum við undirrituð því sammála um, að nauðsyn beri til þess, að sett verði löggjöf um heimild til takmörkunar á fjölda rithöfunda á Íslandi og að það gæti orðið á Alþingi því, sem nú situr.
Karl Úlfur Ágústsson
formaður RSÍ
Marveig Örnólfsdóttir
ritari RSÍ“
Svona gæti frumvarpið litið út uppsett og tilbúið til samþykktar á Alþingi: Frumvarp til laga um rithöfunda.