Föstudagur 10.2.2012 - 16:42 - FB ummæli ()

Vanræksla Sjálfstæðisflokksins

Höfnun ÁTVR á að taka rauðvín með merki hljómsveitar á flöskunni („Nafn hljómsveitarinnar er vísun í notendur hins ólöglega fíkniefnis amfetamíns ásamt því að textar við lög hljómsveitarinnar fjalli iðulega um stríð, misnotkun valds, óábyrgt kynlíf og misnotkun vímuefna.“) er ágætis dæmi um hve Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið illa að ráði sínu undanfarin ár. Hann átti að vera búinn að leggja niður ríkiseinokunarvínsöluna fyrir lifandis löngu. En í staðinn þurfum við að horfa upp á flónsku sem viðgengst helst í einræðis- og trúarofstækisríkjum. Næst þegar við hlæjum að ruglinu í Norður Kóreu, Kúbu eða Íran og vorkennum vesalings fólkinu sem þar býr, skulum við líta okkur nær.

Ég nefni Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að innan hans vébanda, flokksmenn sem stuðningsmenn, er lang stærsti hópurinn sem er áfram um viðskiptafrelsi og valfrelsi, fyrir utan að slík mál eru grundvallaratriði í hugsjón hans.

Engin von er til þess að í öðrum flokkum finnist jafn stór hópur og allra síst hjá gömlu kommúnistunum í VG. Formaður og stofnandi þess flokks vildi meira að segja ekki leyfa þjóðinni að eiga valkost um bjór. Er hægt að vera aftar á merinni en það?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 2.2.2012 - 05:15 - FB ummæli ()

Læknisvitjun á jólanótt

Ingólfur Gíslason læknir

Ingólfur Gíslason læknir.

Nýlega las ég bókina Læknisævi eftir Ingólf Gíslason (1874-1951). Bókin er afar fróðleg og góð heimild um Ísland á æviskeiði höfundarins. Einn kafli er nokkuð minnistæður og langar mig að deila hluta hans með lesendum. Væri þetta sena í kvikmynd, gerðust þær tæplega átakanlegri. Atvikið gerist á aðfangadag árið 1908. Það var komið að kvöldverðinum. „Fólkið settist að borðinu, og allir voru í hátíðaskapi. Á eftir átti svo að ganga í kringum jólatré, syngja sálma, skoða smágjafir og drekka kaffi. En máltíðinni var ekki lokið, þegar viðhorfið breyttist allt í einu. Hundarnir fóru að gelta, og hófahljóð heyrðist, einhver var að koma, og nú var líklega ekki til setu boðið.“ Það stóð heima, sendimaður var kominn. „Erindið var að sækja mig til sjúklings vestur yfir heiði. Í koti einu vestur í sveitinni lá ungur bóndi fárveikur og bar ekki af sér fyrir kvölum í höfði.“ Ingólfur ferðbjó sig strax og reið ásamt fylgdarmanninum út í kalda en tunglbjarta nóttina. Sjúklingurinn átti heima í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsýslu, en þar var Ingólfur héraðslæknir.

Ég stakk hestinum með reiðtygjunum inn í kofa á hlaðinu og fikraði mig áfram inn göngin. Ég gat gengið á hljóðið, því að inni var hávær barnsgrátur, sem blandaðist niðurbældum konuekka og þungum og sárum stunum sjúklingsins. Á heimilinu voru aðeins hjónin og þrjú fremur ung börn. Maðurinn þjáðist af hitaveiki og höfuðverk, er var svo sár, að hann gat ekki varizt hljóðum og fékk því enga værð né svefn. Konan sat uppi í rúmi sínu og grét, og börnin þrjú, öll í sama bólinu, háhrinu, því að þau voru sársyfjuð, en náðu ekki að sofna vegna hljóðanna í pabba þeirra. Baðstofan var bara eitt fátæklegt herbergi með þremur rúmum, litlu borði og einu kofforti, aðrir húsmunir voru ekki. Það var ekki jólalegt um að litast þarna inni. Litla stúlkan tveggja ára hætti að skæla, hallaði undir flatt og leit hrædd og hissa og með tárin glitrandi í augunum á þennan ókunna mann, stakk horninu af ábreiðunni upp í sig og hélt báðum höndum í jaðra hennar. Rauðhærður drenghnokki byrgði sig undir yfirsængurræfli, en litli bróðir hans trítlaði berfættur yfir í rúmið til mömmu sinnar, sem nú var að þerra af sér tárin og snyrta sig örlítið til.

Ungi húsbóndinn var augsýnilega mikið sjúkur, hafði ríg í hálsinum og mikla þraut, einkum í höfðinu aftan til. Ég skoðaði hann nú nákvæmlega, mældi hitann og hlustaði lungun og hjarta, enginn vafi virtist leika á því að þetta væri heilahimnubólga á háu stigi. Þá þekktust engin góð ráð við þeim sjúkdómi, þótt nú sé öðru máli að gegna. Ég gat því ekki gert annað en hagræða sjúklingnum, leggja bakstra á höfuð og háls og sprauta góðum skammti af morfíni undir húðina á handlegg, fékk svo konunni glas með róandi og hitaeyðandi mixtúru og lofaði henni, að ég skyldi koma fljótlega aftur til að sjá, hvernig gengi og ef til vill reyna eitthvað fleira. Settist ég nú á koffortið og beið átekta. Brátt hætti sjúklingurinn að hljóða, börnin ultu út af eitt af öðru, og innan stundar voru hjónin sofnuð líka. Ég sat samt enn góða stund á koffortinu og naut þess að sjá þessa þjáðu fjölskyldu hvílast í örmum svefnsins, sem hafði nú unnið mikið miskunnarverk. Litla telpan hafði stungið tveimur fingrunum upp í sig, yngri bróðirinn lá með opinn munninn og hraut dálítið, en sá rauðhærði var búinn að rífa sængurgarminn ofan af sér og lá hálfber. Ég reis þá á fætur og breiddi ofan á snáðann, dró dálítið niður í lampanum, svo að hann skyldi ekki ósa, og bauð svo, í huganum, þessum litla sofandi hóp góða nótt og gleðileg jól.

Læknisævi eftir Ingólf Gíslason, gefin út af Bókfellsútgáfunni í Reykjavík 1948. Kaflinn heitir „Læknisvitjun á jólanótt“ og er á bls. 157-160. Ingólfur var bróðir Garðars Gíslasonar stórkaupmanns og tengdafaðir Thors Thors sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.

Flokkar: Menning og listir

Miðvikudagur 18.1.2012 - 14:39 - FB ummæli ()

Hvað eiga Norður Kórea og Ísland sameiginlegt?

Jú, bæði löndin eru með gjalmiðla sem enginn utan landsteinanna lítur við og gengið er ákveðið af gömlum stalínistum trotskyistum.

Annað sem löndin eiga sameiginlegt er að í báðum eru verksmiðjur þar sem framleiddar eru vörur til útflutnings sem seldar eru fyrir raunverulega peninga. Þeim gjaldeyri er svo skipt í innlenda gjaldmiðilinn og starfsfólkinu greidd launin í honum.

Getuleysi stjórnmálamanna við „hagstjórn“ hefur löngum verið talin helsta ástæða þess að krónan hefur hrapað í verðgildi eins og steinvala í urð Hafnarfjalls. En nú er kominn annar sökudólgur: Verkalýðsfélögin. Þau heimtuðu alltaf hærri og hærri laun óháð getu efnahagslífsins til að greiða þau.

Það er því kominn tvöföld ástæða fyrir því að hætta að berja höfðinu við steininn.

Flokkar: Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.11.2011 - 15:25 - FB ummæli ()

Ferð höfundarins, 2. útgáfa

Kvikmyndaskráin í bókinni

Um þessar mundir er ég að vinna í atriðisorða- og kvikmyndaskrá nýrrar útgáfu á bókinni Ferð höfundarins eftir Christopher Vogler sem kom fyrst út í minni þýðingu 1997. Síðan þá hefur bókin tvisvar verið endurútgefin og aukin á ensku, en þessi nýja íslenska útgáfa sameinar aðra og þriðju útgáfu hennar í eina glæsilega 150 blaðsíðum lengri bók á okkar ástkæra og fjölskrúðuga máli íslenskunni.

Þegar bók er komin á það stig að hægt er að gera atriðisorðaskrá er ljóst að stutt er í útgáfu. Það hefur tekið lengri tíma en ég áætlaði að ganga frá nýju útgáfunni en nú er því verki sem sagt lokið. Ég get slegið því föstu, án þess að lofa upp í ermina á mér, að bókin kemur út snemma á næsta ári.

Ferð höfundarins er eitt af undirstöðuritum þeirra sem leggja fyrir sig sögusmíðar, hvort sem þær birtast á bókfelli, tjaldi eða sviði. Svo er það einskonar bónus við bókina að hana má nota sem leiðsögutæki, GPS græju, til að rata um lífið.

Ljósmyndin sem fylgir þessari færslu er af kvikmyndaskránni en þar eru veggspjöld allra kvikmynda sem nefndar eru í bókinni. Veggspjald kvikmyndar er ómissandi hluti af söguheiminum, eru í mörgum tilfellum inngangur að sögunni, það fyrsta sem væntanlegir aðnjótendur sjá. Það gefur tóninn, andrúmsloftið og þemað.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað það er sem gerir Ferð höfundarins svona vinsæla. Ég held að hluti af skýringunni sé sú að ef maður notar kvikmyndina Löggan í Beverly Hills með Eddie Murphy til að varpa ljósi á algildan sannleika í mannlegri tilveru að þá sértu kominn með Bingó.

Flokkar: Menning og listir

Þriðjudagur 8.11.2011 - 14:35 - FB ummæli ()

Stikk-fríhöfnin

Þegar ég var barn fór ég oft í eltingarleiki með krökkunum í hverfinu. Ómissandi hluti af leiknum voru frísvæði þar sem ekki mátti klukka. Frísvæðin voru skilgreind fyrirfram og þangað var hægt að flýja undan þeim sem var’ann. „Þú mátt ekki klukka mig, ég er stikk-frí.“

Barnaleikir eru að sumu leyti æfingar fyrir fullorðinsárin. Eltingaleikir eru kannski fyrsti undirbúningurinn að því að forðast að vera „klukkaður“, til dæmis af skattinum. Þá koma stikk-frí svæðin sér vel. Frísvæðin þar sem önnur lög gilda en almennt. Frísvæðin þar sem það er leyft sem bannað er fyrir utan.

Mér varð hugsað til þessa leiks þegar ég átti leið um Leifsstöð um daginn. Á göngum flughafnarinnar var auglýsing á áfengum miði frá íslensku brugghúsi og innkaupakerran í versluninni við töskufæriböndin var skreytt með þessari ljómandi fínu auglýsingu frá framleiðanda Stella Artois ölsins. Guðaveigar voru auglýstar á skiltum fyrir ofan vínrekkana og ungir kurteisir sérfræðingar kynntu þær. Það rann upp fyrir mér að ég hef aldrei hætt að leika mér í Stikk-frí. Í hvert sinn sem ég ferðast til útlanda gefst mér kostur á einni umferð af þeim gamla og góða leik. Skemmtilegt.

FríhöfninÍ þessari útgáfu af Stikk-frí var ég sem sagt laus undan klukki skattsins, gat keypt vín í búð með fleiri vörum en bara víni (eins og víðast hvar í hinum vestræna heimi) og leyft að glápa á auglýsingar á því. Síðasta atriðið gladdi mig vegna þess að ég naut meira frelsis en venjulega. Gat á eigin ábyrgð horft á vínauglýsingu og metið, án aðstoðar frá einhverjum sem veit betur en ég hvað ég vil, hvort ég kaupi þessa víntegund, aðra víntegund eða enga víntegund.

Ég vorkenndi öllu því fólki sem hefur ekki tök á ferðalögum til útlanda. Ég furðaði mig á hvers vegna fyrsta „hreina vinstristjórnin“ í landinu, þeirri sem berst að eigin sögn fyrir bættum kjörum hinna efnaminni með skjaldborgum og einhverju fleira, er ekki fyrir löngu búin að opna fríhöfn á Hlemmi eða BSÍ fyrir þá sem ferðast með vænglausum hópfarartækjum. Óréttlæti er eitur í mínum beinum og því skil ég ekki hvers vegna skoðanasystkin mín láta þetta óátalið. Sú röksemd og væntanlega forsendan að fríhöfnum yfirleitt, að fólk á leið ÚR LANDI geti keypt vörur skattfrjálst, á ekki við vegna þess að fólk á leið TIL LANDSINS eru bestu viðskiptavinir fríhafnarverslunarinnar. Það er því ekkert því til fyrirstöðu fyrir „vini verkalýðsins“ að opna fríhöfn á Hlemmi.

Þó mér væri þarna, á íslenskri grund í íslenskri byggingu sem kennd er við Íslendinginn sem fann Ameríku, leyft vöflulaust að verða fyrir áhrifum af vínauglýsingum, fór það ekki framhjá mér að börn og unglingar voru þarna úti um allt. Hugsa sér! Kannski var verið að skjóta fyrstu rótunum að æfilangri áfengissýki hjá einhverju íslensku barninu með hinni blygðunarlausu auglýsingu um hve Thule bjór er ljúffengur (ég ætla nú ekki einu sinni að reyna að ímynda mér hvaða áhrif þetta hefur á útlensk börn). Hræðileg tilhugsun og furðulegt að þeir sem vita best hvað öðrum er fyrir bestu skuli ekki hafa gert við þetta alvarlegar athugasemdir. Áhugafólk um velferð æskunnar HVAÐ ERU ÞIÐ AÐ HUGSA? Af hverju gerið þið ekkert í þessu?

Leiknum lauk svo þegar ég var kominn hinum megin við þilið. Þá var ég aftur orðinn að hálfvitanum sem er því miður ekki fær um að meta sjálfur hvað honum er fyrir bestu. Engar vínauglýsingar, enginn bjór í 10-11, nokkrum metrum frá fríhafnarversluninni, bara sama litskrúðuga og fallega Ísland, fast í viðjum sjálfsblekkingar, tvískinnungs, skorts á umburðarlyndi og sjálfshaturs.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.5.2011 - 18:07 - FB ummæli ()

Bönnum ALLAR áfengisauglýsingar

Sem meðlimur í SÁÁ fagna ég fyrirhuguðu frumvarpi um bann við áfengisauglýsingum. Það er mikilvægt skref og jákvætt. En betur má ef duga skal. Hrikalegt flóð áfengisauglýsinga frá útlöndum dynur daginn út og inn á saklausri æskunni og þeim sem enga freistingu mega sjá án þess að falla fyrir henni. Ég er að tala um sjónvarpið. Svo virðist sem réttsýnin og skynsemin sem felst í að banna ALVEG áfengisauglýsingar hafi ekki náð að skjóta jafn góðum rótum á Íslandi og víða í hinum stóra heimi. Íþróttakappleikir í útlöndum eru margir hverjir kostaðir af brugghúsum sem jafnframt selja vöru sína hér á landi. Ég hvet félagsmenn í samtökunum að fylgjast vel með úrslitaleik Meistardeildar Evrópu 28. maí, hvort þar séu ekki alveg örugglega framin brot á íslenskum lögum um bann við áfengisauglýsingum. Þetta er vitaskuld ótækt. Ef bannið á að virka og æskan og veikgeðja að halda velli verður að banna svona útsendingar, eða koma í veg fyrir með einhverjum tækniráðum að áfengið komi fyrir augu íslenskra íþróttaunnenda.

Haldi menn að sjónvarpið sé eini sökudólgurinn í þessum efnum eru þeir ekki vel með á nótunum. Yfir landið flæða tímarit sem auglýsa áfengi sem aldrei fyrr. Ef við ætlum að taka okkur alvarlega sem þjóð sem vill koma í veg fyrir áfengisbölið ber okkur að setja á fót nefnd sem hefur það á starfssviði sínu að banna tímarit eða rífa úr og sverta allar áfengisauglýsingar í þeim sem hljóta náð fyrir augum nefndarinnar áður en blöðin berast áskrifendum eða í bókabúðir. Það mætti gera þessa nefnd að deild í Fjölmiðlastofu og skapa þannig fjölmörg viðbótarstörf hjá ríkinu.

Áfengisstofa, eins og það mætti etv. kalla hana gæti líka haft netið á sinni könnu, en eins og flestir vita er mikið um áfengisauglýsingar á netinu, svo mikið að furðu sætir að áfengisbölið skuli ekki vera meira vandamál en það þó er. Með nútímatækni mætti loka fyrir eða sverta allar áfengisauglýsingar á netinu. Eitt og sér myndi þetta skapa fleiri störf hjá ríkinu, en tapast hjá einkageiranum, vegna hins fyrirhugaða algera auglýsingabanns. Það er nú líka miklu göfugra að vinna við slík hátæknistörf en lágtæknistörf eins og bruggun eða auglýsingagerð.

Við blasir að næsta skref, og það heillavænlegasta, er vitaskuld að banna áfengi alfarið í landinu. Byrja á því að draga úr opnunartíma ÁTVR, til dæmis hafa bara opið á miðvikudögum milli sjö og átta að morgni, stytta opnunartíma veitingahúsa smátt og smátt og fækka um leið tegundum áfengis sem þau mega selja. Að sama skapi ætti að minnka stórlega skammtinn fljúgandi vegfarendur mega hafa með sér inn í landið og leggja svo áfengissölu niður í fríhöfninni.

Þeir sem benda á slæma reynslu af áfengisbanni á bannárunum eru bara alkóhólistar og úrtölumenn. Glæpamenn hafa alltaf verið til og verða alltaf til. Áfengis- og vímuefnabann hvetur ekki til glæpa, það sýnir reynslan frá Mexíkó. Það er staðreynd að áfengi er böl og ég er einn þeirra sem tel að það böl megi leysa með einu pennastriki. Falleg framtíðarsýn, ekki satt?

Ég er viss um að margir telja óraunhæft að hægt sé að banna áfengi algerlega á Íslandi. Á móti bendi ég á þá staðreynd að Talibönunum í Afganistan tókst mjög farsællega að loka sínu landi. Þótt það sé etv. ekki rétt að taka Talibanana sér til fyrirmyndar (kúgun kvenna, mannréttindabrot osfrv.), mega þeir þó eiga það að þetta gerðu þeir vel.

Til að koma í veg fyrir misskilning um aðild mína að SÁÁ þá vil ég taka fram að ég er ekki meðlimur í Samtökum áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann heldur í Samtökum áhugamanna um áfengismál. Deildin mín heitir Samtök áhugamanna um áfengismál sem aldrei hafa farið í meðferð en þyrftu kannski á því að halda, skammstafað SÁÁSAHFÍMEÞÁÞH. Markmið deildarinnar er að koma þeim skilaboðum á framfæri (með háði, ef ekki vill betur) að boð og bönn leysa ekki allan vanda og að það eigi að vera hvers og eins að meta áhættuna sem felst í að neyta áfengis eða annarra fíkniefna. Auk þess er markmiðið að hvetja alla frelsisunnandi menn til að sporna við fótum við æ meiri frekju þeirra sem telja sig vita betur hvað öðrum er fyrir bestu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 20.3.2011 - 16:41 - FB ummæli ()

Heimsendir III nálgast!

Ætlarðu að segja nei við Icesave? Hugsaðu þig þá þrisvar um! Það gæti skollið á HEIMSENDIR. Marel, Reykjanesbær, Össur og Landsvirkjun fá hugsanlega ekki lán í útlöndum, gjaldeyrishöftin gætu dáið, erlendir stjórnmálamenn líta hugsanlega íslenska stjórnmála- og embættismenn hornauga í yfir glasbarminn í kokteilboðum í Brussel og íslenskir sérfræðingar í Evrópumálum fá mögulega ekki eins góða skattfrjálsa vinnu hjá Sambandinu og þá dreymir um. Hörmuleg framtíðarsýn ekki satt? En þú þarft ekki að óttast, keyptu Heimsendabol hjá Egozentric® París, London, Amsterdam, og þér er borgið.

Icesave heimsendir 1

Fyrsti heimsendir sló í gegn.

Icesave heimsendir 2

Annar heimsendir sló rækilega í gegn.

Heimsendir III

Þriðji heimsendir: BLOKKBÖSTER

Gakktu um í staðfestingu þess að heimsendirinn er í nánd! Hvort sem það er gamli heimsendirinn eða sá yfirvofandi. Vertu vinum þínum þörf áminning um hvað mun gerast breyti þeir ekki rétt. Auðvitað eiga Íslendingar að greiða fyrir misheppnuð viðskiptaævintýri Björgólfs og félaga í útlöndum. Hvernig datt nokkrum manni annað í hug en það væri sjálfsagt? Hver kannast ekki við að hafa skrifað undir víxil hjá skyldmenni? Þetta er alveg eins. Sama góða tilfinningin fyrir að allt fari á besta veg. Enda er bjart framundan í efnahagsmálum heimsins, einkum í Evrópu, svo það er ekkert að óttast. Þrotabú Landsbankans er hvort sem er svo auðugt að það næst upp í allar kröfur, samþykkt skuldaviðurkenningarinnar er bara málamyndagjörningur og mun í mesta lagi kosta þjóðina 700 milljarða. Að vísu vildu viðsemjendurnir ekki bara taka þrotabúið og láta gott heita, en það er ekki vísbending um eitthvað óeðlilegt, nei, það er vísbending um að Íslendingar eru snillingar í samningum, snillingar sem láta einskis ófreistað við að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Einhver gæti sagt: „Þótt stjórnmálamennirnir hafi lofað endurgreiðslu, þá gerði ég það aldrei.“ Það er rétt upp að vissu marki. Stjórnmálamennirnir eru handhafar sjóðsins okkar og geta tæmt hann eftir eigin geðþótta og tæmt vasa komandi kynslóða líka til að greiða það sem út af stendur. Eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar ver þetta einmitt með tilliti til almannahagsmuna. Það þarf engan lögfræðing til að skilja þetta.

Uppfærð verðtafla frá því bolirnir voru tveir: Verðið er ekkert minna en æðislegt, þú sparar 378% 435% frá listaverði og þarft aðeins að reiða fram 29,990 krónur fyrir stykkið, staðgreitt. Inn í þessu einstaka afsláttarverði er 30% virðisaukaskattur, en hann er hafður svona hóflegur vegna hinnar GLÆSILEGU niðurstöðu íslensku samninganefndarinnar í Icesave [I, II og III] (innsk. blm.). Sérstakur afsláttur er veittur ef allir bolirnir eru keyptir, eða 456% 767% af listaverði. Samtals kosta bolirnir tveir þrír, pakkaðir í plast, aðeins 75,990 124,990 krónur.

Bolirnir fást í öllum stærðum, hvítir með svörtu letri. 0,001 prósent af sendingarkostnaðinum rennur óskipt til Stjórnmálamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.2.2011 - 10:58 - FB ummæli ()

Tap, tap, tap

Samþykkja Icesave: Getum ekki borgað, landið fer á hausinn. Engin dæmi þess í veraldarsögunni að þjóð hafi getað staðið undir þessari skuldabyrði.

Samþykkja ekki Icesave: Dómstólar.

Tap: Getum ekki borgað, landið fer á hausinn.

Sigur: Landið fer hugsanlega kannski mögulega ekki á hausinn.

Líklegasta þróun þessa máls eftir að búið er að samþykkja Icesave: Landið fer á hausinn, gengur í ESB gegn því að skuldir verði látnar niður falla.

Hvað er nú best fyrir okkur? Blasir eiginlega ekki við að dómstólaleiðin er eina vitið?

Það voru víst einhverjir breskir bankar á Mön sem fóru á hausinn. Voru innistæðueigendur þar með tryggingavíxil á breska ríkið? Nei.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.2.2011 - 06:33 - FB ummæli ()

Andlitsbjörgun?

Það hlýtur einhver skýring að vera á því hvers vegna Sjálfstæðismenn á þingi vilja samþykkja Icesave-frumvarpið. Þeir hljóta að vita meira en við.

Það getur ekki verið önnur skýring á stuðningi þeirra en sú að það hafi verið hvíslað í eyru þeirra á ensku og hollensku að málið verði látið niður falla í náinni framtíð. En það skilyrði sé á að þeir samþykki samninginn sem fyrir liggur.

Icesave málið er nefnilega eitt landsdómadagsklúður frá upphafi. Offors breskra og hollenskra stjórnmálamanna og gunguháttur íslenskra stjórnmálamanna sem gerðir voru að athlægi í þjóðaratkvæðagreiðslunni hefur flekkað hendur þeirra allra. Þeir útlensku vita að málið mun nánast örugglega tapast fyrir dómstólum. Því sé líklega best að taka Mervin King á þetta. Nema ekki með upptökuna í gangi.

Þetta hlýtur að vera skýringin.

Ef ekki, þurfa Sjálfstæðismenn að finna sér nýjan formann.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.1.2011 - 00:05 - FB ummæli ()

Bólótti Hjálmar

Bólu Hjálmar taldi ég í æsku að hlyti að hafa verið með bólóttari mönnum fyrst hann hafði þetta viðurnefni. Síðar komst ég að því að hann bjó um skeið á bæ sem hét Bóla.

Merking orðsins bóla er mismunandi þótt hún sé af sömu rótinni runnin. Bærinn Bóla, bóla í andliti, lofbóla, bóla sem farsótt, bóla sem tískusveifla (t.d. verðbréfabóla) og teiknibóla. Orðabókin segir að bóla geti líka þýtt lítil málmhlíf eða hnúður úr beini sem og hattbóla; kúptur hattur.

Er ég var að glugga í ljóðasafn Hjálmars um daginn rakst ég á vísu sem hann samdi um orð sem hafa fleiri en eina merkingu.

Hjálmar var eitt sinn að spurður, hvort á væri aðeins bókstafur eða gæti þénað fyrir orð í málinu. Hann kvað:

Á er stafrófs upphaf flestra tíða,
á er straumur fram hjá rótum hlíða,
á er máltak eigindómsins fríða,
á þeir menn, er stundardvalir bíða,
á er heiti alvalds stýrir lýða,
á er frýjað þar sem deilur stríða,
á er hvað, sem ofar náir ríða,
á menn nefna móður Hallinskíða.

Hjálmar samdi aðra vísu eftir að hann sat eitt sinn hjá vefara sem óf rúmföt og barði þau saman með miklum atburðum. Hjálmar kvað:

Skeið er brúkuð skarpan vef að banga,
skeið er æfitíðin stutta og langa,
skeið í gljúfrum sker sig millum dranga,
skeið hét Erlings mikla dýrið ranga,
skeið er jósins skrið við foldar vanga,
skeið við máltíð opnar munna svanga,
skeið er hús að sköfnungs fjaðurtanga,
skeið er móðurlífsins fósturganga.

(Hjálmar Jónsson frá Bólu. Ritsafn I. Ljóðmæli, bls. 429, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1965)

Kveðskapur Bólu Hjálmars er svolítið skringilegur og hvass, en bragsnilld hans var einstök. Hann virtist hafa svo gott vald á listinni að hann gat svarað að augabragði í rammbundnu máli. Hjálmar vílaði ekki fyrir sér að yrkja níð og nota til þess nánast óprenthæf orð. Myndin sem birtist af honum í gegnum kveðskapinn er heillandi en fremur nöturleg. Hann virðist hafa verið mikill skapmaður, eiginlega fráhrindandi, en líka skemmtilegur eins og þessar vísur bera með sér.

Ég ákvað að herma eftir Hjálmari og setti saman vísu um orðið við:

Við og við er iðkuð trú,
við erum saman, ég og þú,
við skal ávalt verja fú,
við hlið mér situr mín ektafrú,
við hávaða vaknaði mjólkurkú,
við götunni skakkt stendur bú,
við er hann látinn vonandi nú,
við það sagði maðurinn jú.

Flokkar: Óflokkað · Menning og listir

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur