Þriðjudagur 07.08.2012 - 09:44 - FB ummæli ()

Framtíð Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem ég hef unnið fyrir á kjördag. Ég sat á kjördeild í Keflavík og merkti við hverjir höfðu kosið til þings í það skiptið. Það var fyrir nokkuð löngu síðan.

Pabbi er frá Haukadal í Dalasýslu og þegar hann flutti á mölina þá tók hann framsókarstefnuna með sér. Mamma er frá Djúpavogi og þar var Eysteinn Jónsson leiðtogi Framsóknarmanna í miklum metum. Síðan eignaðist ég góðan vin í frænda mínum í Keflavík sem var fóstursonur eins af sonum Eysteins.

Það var því óhjákvæmilegt að afstaða til Framsóknarflokksins væri jákvæð í mínu umhverfi. Ég náði meira að segja svo langt að bera út dagblaðið Tímann í mínu hverfi. Fyrir utan persónuleg tengsl held ég að mitt fólk hafi séð í Framsóknarflokknum samstöðu með almenningi og landsbyggðinni og metið það. Sjálfstæðisflokkurinn þótti of hallur undir  yfirstéttina. Kommarnir of hallir undir Sovétríkin.

Ég fór að hugsa um þessa fortíð er ég las athyglisverða grein eftir Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, um einkenni og stöðu flokksins á Pressunni um daginn.

Það sem einkennir grein Jóns er óróleiki yfir sjálfsmynd og stefnu flokksins, efasemdir um núverandi forystumenn flokksins og ótti um afdrif hans í næstu kosningum.

Jón er hófsamur miðjumaður með frjálslynd viðhorf gagnvart atvinnulífi sem hann sættir vel við þjóðlega félagshyggju, sem átti sér djúpar rætur í flokknum á síðustu öld, einkum í dreifbýli sveita og þorpa og í tengslunum við samvinnuhreyfinguna og ungmennahreyfinguna.

Hann vill flokknum sínum vel – en er órólegur.

Ég skil hann vel.

Framsókn staðsetti sig lengi vel á miðjunni og reyndi að sameina að mörgu leyti öndverð sjónarmið. Á sjöunda áratugnum var sagt að hann væri opinn í báða enda og stefnan einkenndist af já, já – nei, nei stefnu. Þeir þóttu tækifærissinnar sem hefðu þá stefnu helsta að komast í ríkisstjórn – sama hvað það kostaði.

En þeir reyndu þrátt fyrir allt að halda tengslum í báðar áttir, eins og Jón Sigurðsson segir. Byggðu brú til vinstri til að geta vegið á móti alræðisvaldi Sjálfstæðisflokks og fjármálamanna. Urðu sjálfkrafa forystuflokkur í vinstri stjórnum fyrir vikið. Þeir þurftu líka að verja Samvinnuhreyfinguna gegn kaupmannavaldi Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er nú allt breytt. Jón lýsir vel þeirri togstreitu sem fylgdi breyttum grundvelli Framsóknarflokksins: fækkun í landbúnaði og á landsbyggð; fjölgun í Reykjavíkurþéttbýlinu; hrun eða upplausn Samvinnuhreyfingarinnar, fyrst sem félagslegrar hreyfingar og síðar sem fyrirtækjaveldi.

Grundvöllur hinnar þjóðlegu félagshyggju, sem Jón kallar svo, molnaði undan flokknum. Í staðinn reyndu Halldór Ásgrímsson og Jón og fleiri að hasla honum völl sem miðjusinnuðum þéttbýlisflokki, jafnvel með jákvæða afstöðu til Evrópusambandsins. Þetta var línudans – sem mistókst að mati Jóns.

Framsókn missti síðan stöðu sína sem leiðandi flokkur á miðjunni til Samfylkingarinnar. Forsenda gömlu ímyndarinnar, hinnar þjóðlegu félagshyggju, er nú að miklu leyti farin.

Ég saknaði þess að Jón Sigurðsson botnaði alveg umbreytingu Framsóknarflokksins í hinu langa stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum frá 1995 til 2007. Það voru miklir örlagatímar fyrir íslenska þjóð. Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn náðu ótrúlega vel saman á þeim tíma, nánast runnu saman í einn flokk. Mér fannst það t.d. kristallast ansi vel eitt sinn er Guðni Ágústsson, þá ráðherra Framsóknar, mismælti sig og vísaði til sín og sinna sem “við Sjálfstæðismenn”!

Það sem greiddi fyrir mikilli samstöðu flokkanna á þeim tíma var sú staðreynd að þeir voru báðir í grunninn “fyrirtækjaflokkar”. Fulltrúar atvinnulífsins, eins og það var líka kallað. Á meðan Samvinnuhreyfingin var við lýði var Framsókn öðruvísi fyrirtækjaflokkur en Sjálfstæðisflokkurinn.

Svo þegar samvinnureksturinn var að mestu horfinn af sjónarsviðinu, eða umbreyttur í “venjuleg fyrirtæki”, þá varð Framsókn einfaldlega alveg eins fyrirtækjaflokkur og Sjálfstæðisflokkurinn. Hagsmunir atvinnurekenda áttu of greiðan aðgang að forystu flokksins og ríkisstjórninni. Viðskiptaráð sagði um stjórnir Davíðs og Halldórs að þeir hefðu fengið 95% af stefnumálum sínum framkvæmd af þessum ríkisstjórnum.

Þetta voru ríkisstjórnir endurnýjaðrar helmingaskiptareglu, með tilheyrandi spillingu (skýrast við sölu ríkisbankanna), þar sem böndum var létt af öllum hömlum og aðhaldi á sviði fjármála og rekstrar. Velferðarmál voru látin mæta afgangi (lífeyrisþegar drógust afturúr öðrum og barnabætur og vaxtabætur rýrnuðu ár frá ári). Skattbyrði lágtekjufólks jókst en lækkaði hjá hátekjufólki.

Fríðindi atvinnurekenda og fjármálamanna í skattkerfinu voru aukin, sem aldrei fyrr. Galopnað var fyrir flutning verðmæta sem orðið höfðu til á Íslandi í erlend skattaskjól. Framsókn tók síðan forystu árið 2006 um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð, sem var upphaflega hugmynd frjalshyggjuróttæklinganna í Sjálftæðisflokknum. Það var kastalinn sem hrundi.

Hagsmunir landsbyggðar urðu skilgreindir í Framsókn sem það sama og hagsmunir útvegsmanna með kvótakerfinu og þeirri einkavæðingu fiskimiðanna sem í því fólst. Rétt eins og útvegsmenn stæðu undir kostnaði við byggingu vega, skóla og heilsugæslustöðva!

Nú er svo komið að formaður Framsóknarflokksins, formaður þingflokksins og fleiri þar á bæ tala alla jafna eins og hörðustu og hrokafyllstu frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum. Kalla það góða hagfræði – þó þetta séu hugmyndirnar sem leiddu þjóðarbúskapinn afvega og í stærsta fjármálahrun sögunnar.

Að vísu eru einnig málefnalegir fulltrúar í þingliði Framsóknar, sumt auðvitað ágætis fólk, sem ekki verður sakað um ofangreinda dólgafrjálshyggju. Einhverjir aðrir en Jón Sigurðsson hljóta þó að vera órólegir um stöðu og framtíð flokksins.

Það virðist ekki vera að virka vel að formaður Framsóknar sé í keppni um hávaða við frjálshyggjuróttæklinga Sjálfstæðisflokksins, í bland við yfirboð á vettvangi lýðskrumsins, eins og í skuldamálum heimilanna (sem Jón nefnir).

Ég held því að vandi Framsóknarflokksins sé svolítið annar en kemur fram í grein Jóns Sigurðssonar. Mér sýnist Framsókn búin að grafa hina þjóðlegu félagshyggju að mestu og að flokkurinn muni eiga í miklum vanda með að aðgreina sig frá Sjálfstæðisflokknum.

Þess vegna held ég að Guðmundur Steingrímsson, hinn geðþekki og frjálslyndi félagshyggjumaður á miðjunni, eigi góða sóknarmöguleika gagnvart gömlu fylgi Framsóknar.

Faðir hans, Steingrímur Hermannsson, var einmitt vendilega staðsettur á miðjunni og náði að halda félagshyggjunni lifandi á sinni tíð, samhliða jákvæðu viðhorfi til atvinnulífsins. Steingrímur naut mun meira fylgis sjálfur en Framsóknarflokkurinn sem hann leiddi.

Það er auðvitað leiðinlegt að spá illa fyrir stjórnmálaflokki sem manni þótti vænt um – og kanski hef ég rangt fyrir mér um eitthvað í þessari greiningu.

Dómur reynslunnar sker auðvitað úr um allt slíkt!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar