Miðvikudagur 08.08.2012 - 12:14 - FB ummæli ()

Skattbyrði lágtekjufólks – þá og nú

Í gær heyrði ég góðan mann segja í útvarpi að skattbyrðin hjá okkur væri komin upp úr öllu valdi. Það á ekki við um lágtekjufólk eða millitekjufólk, eins og hér verður sýnt.

Fyrir skömmu birti ég pistil um skattbyrði hátekjufólks fyrir og eftir hrun. Þar kom fram að skattbyrði hátekjufólks hefur hækkað, en er þó ekki hærri en hún var 1995. Hún er alls ekki hærri nú en á hinum Norðurlöndunum eða víða í Evrópu.

Hvað segja staðreyndirnar um skattbyrði lágtekjufólks fyrir og eftir hrun?

Myndin sýnir þróun skattbyrðarinnar frá 1996 til 2010.

Mynd 1: Skattbyrði lágtekjufólks og millitekjufólks, 1996 til 2010. Hjón og sambýlisfólk.

Lágtekjufólk eru þau 10% fjölskyldna sem eru með lægstu heildartekjurnar en millitekjufólk eru þeir sem eru í miðju tekjustigans.

Lágtekjufólk var með neikvæða skattbyrði um -6% í byrjun tímabilsins, þau fengu meira frá skattinum en þau greiddu (þ.e. þau fengu barna- og/eða vaxtabætur en greiddu ekkert í skatt). Síðan dró úr meðgjöfinni til lágtekjufólks jafnt og þétt til 2001 er skattbyrðin varð jákvæð um 0,8% og áfram hækkaði skattbyrðin til 2004, er hún náði hámarki í um 4,1% af heildartekjum.

Síðan lækkaði skattbyrði lágtekjufólks lítillega árið á eftir og hélst þar til 2007 uns hún lækkaði lítillega á árinu 2008, úr um 3% í 2,1%.

Loks lækkaði skattbyrðin umtalsvert eftir hrun niður í -3% árið 2010. Þannig varð hún aftur neikvæð, þ.e. lágtekjufólk fékk meira frá skattinum en það greiddi á ný.

Skattbyrði lágtekjufólks varð minni eftir hrun en hún hafði verið öll árin frá 1999 til 2008.

Línan á myndinni sýnir svo þróun skattbyrðarinnar hjá millitekjufólki. Hún hækkaði úr 17,9% árin 1996-7 upp í 22,1% árið 2004 er hún náði hámarki. Þá lækkaði hún stig af stigi uns hún náði lágmarki 2009 í 18,5%. Svo hækkaði hún aftur lítillega í 18,9%.

Skattbyrði millitekjufólks var þannig eftir hrun minni en hún hafði verið öll árin frá 1998.

Skattastefnunni var því breytt umtalsvert eftir hrun, til hagsbóta fyrir bæði lágtekjufólk og millitekjufólk. Beinir skattar þeirra lækkuðu.

Skattbyrði beinna skatta jókst einungis hjá hátekjufólki.

 

Skýringar: Skattbyrði er það hlutfall heildartekna (fyrir skatt) sem fólk greiðir í beina skatta, eftir alla álagningu og alla frádrætti (persónufrádrátt / skattleysismörk, barnabætur, vaxtabætur, lífeyrisiðgjöld o.fl.). Tölurnar eru úr skattagögnum Ríkisskattstjóra og sýna raunskattbyrði, það sem fólk greiddi í raun í beina skatta af tekjum sínum. 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar