Fimmtudagur 09.08.2012 - 09:31 - FB ummæli ()

Skattpíning fyrirtækja á Íslandi?

Talsmenn atvinnulífsins og róttæklingar frjálshyggjunnar halda úti síbylju um að skattpíning fyrirtækja sé óhófleg á Íslandi og hafi hækkað úr öllu valdi. Þeir fara offari.

Í gær söng formaður Samtaka iðnaðarins þuluna. Hún er alltaf eins. Nú eru skapandi bókarar á KPMG sagðir höfundar lags og texta. Boðskapurinn var sá að Ísland ætti Evrópumet í hækkun skatta og allt væri að fara til andskotans í atvinnulífinu.

Samt er hér meiri hagvöxtur en í öðrum hagsælum ríkjum á Vesturlöndum!

En hvað segja staðreyndirnar um skattpíningu fyrirtækja?

Skoðum til dæmis nýjar tölur OECD um skattlagningu fyrirtækja (www.oecd.org):

Á myndinni má sjá að skattlagning á hagnað fyrirtækja er með minnsta móti á Íslandi af 34 OECD-ríkjum, þó ríkisstjórnin hafi hækkað hana úr 15% 2008 í 20% nú.

Það eru einungis 5 lönd sem hafa lægri skattlagningu fyrirtækja en Ísland árið 2011. Þau eru Slóvakía, Pólland, Ungverjaland og Tékkland með 19% og svo Írland með 13%.

Fjögur lönd eru með svipaða skattbyrði fyrirtækja og Ísland, þ.e. Grikkland, Chile, Slóvenía og Tyrkland. En Japan og Bandaríkin eru með helmingi meiri skattlagningu fyrirtækja en Ísland, eða 39-40%.

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum leggja allar meiri skatta á fyrirtæki en Ísland. Samt gengur flest mjög vel í þeim löndum.

Ef við skoðum hverju tekjuskattur á fyrirtæki skilar í ríkissjóð, sem % af vergri landsframleiðslu, þá er Ísland í 4. neðsta sæti 2010.

Fyrir hrun var búið að færa atvinnurekendum, fjárfestum og bröskurum ótrúleg fríðindi í skattamálum á Íslandi. Betri en í sumum erlendum skattaparadísum. Hófleg hækkun skatta á þá eftir hrun hefur litlu breytt. Skilyrðin eru enn góð.

Það eru því staðlausir stafir hjá talsmönnum atvinnulífsins og hægri róttæklingum þegar þeir fullyrða að fyrirtæki séu sérstaklega skattpínd á Íslandi.

Íslensk fyrirtæki eru með einna minnstu skattlagninguna sem þekkist í hagsælli ríkjunum.

Spurningin er þá hvort atvinnurekendur telji að þeir eigi ekki að bera kostnað af hruninu? Eiga þeir að vera stikkfrí eftir að hafa grætt óhóflega á árunum fyrir hrun og átt sjálfir stóran hluta í orsökum hrunsins?

Margir af forystumönnum atvinnulífsins þá og nú voru framarlega í útrás og braski bulláranna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar